Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Auka tekjur ríkissjóðs á 24 mánuðum er raunhæft verkefni
3.10.2011 | 13:34
Stjórnmál fjalla fyrst og fremst um stefnumótun og framkvæmd hennar. Flestir geta sinnt rekstri og fært bókhald. Jafnvel fjármálaráðherra getur næstum skammlaust haft skoðun á rekstrarlegum forsendum ríkisins og stöðu bankareinkninga. Þessi verkefni eru í raun á borði starfsmanna stjórnarráðs Íslands.
Rétt eins og hjá einkafyrirtækjum þarf ríkið að setja fram rekstraráætlun, skiptingu fjár til hinna fjölmörgu verkefna sem ríkið er með á sinni könnu. Í orði kveðnu er það Alþingi sem ákveður en í raun er það framkvæmdavaldið sem undirbýr frumvarp til fjárlaga og fjármálaráðherra leggur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Að því loknu er það samþykkt með einhverjum breytingum. Þetta má í raun kalla stefnumótun í stjórnmálum.
Fjárlög geta verið afar villandi, hreinlega gefið ranga mynd. Til dæmis þegar kveðið er á um samdrátt í rekstri ríkisins sem veldur því að fólki er sagt upp störfum. Þar með er staðan orðin skárri en um leið er fólk sett á atvinnuleysisskrá. Sú skrá geymir óþarfa útgjöld og um leið eru þau lægri en verið hefði sem bein laun. Skítt með mannlega þáttinn, sá rekstrarlegi er mikilvægari.
Ríkisstjórn setur markmið með fjárlögum. Núverandi norræn velferðarstjórn hefur það markmið að útgjöld verði sem næst tekjum. Raunar er það ekkert pólitískt stefnumið. Þetta er í raun stefna allra þeirra sem eitthvað er umhugað um rekstur ríkisins.
Það er því engin pólitík að stefna að því að tekjur og útgjöld séu jafnhá eða helst að tekjur séu hærri. Jafnvel embættismenn ríkisins gætu sinnt þessum hluta án nokkurra aðkomu stjórnmálamanna.
Hitt væri sannfærandi pólitík ef ríkisstjórn setti það sem markmið að á 24 mánuðum yrði tekjuaukning ríkissjóðs meiri en sú sem fæst með beinum hækkunum á sköttum og álögum. Þetta er raunhæft markmið.
Núna, þremur árum eftir hrunið, snúast stjórnmál einfaldlega um það hvernig hægt er að afla tekna. Hin norræna velferðarstjórn er gjaldþrota því hún sér ekki annað en hækkanir á sköttum á einstaklinga og fyrirtæki.
Besti sjónvarpsþátturinn
3.10.2011 | 11:51
Ég hef sagt það áður og segi það enn: Gunnar á Völlunum er eitt það skemmtilegasta sem komið hefur fram í fjölmiðlum á síðustu árum.
Gunnar þessi er einstaklega húmorískur, gerir lítið úr sjálfum sér og við liggur að hann geri lítið úr okkur stuðningsmönnum liðanna.
Dómari ...!!!!, hrópar hann og svo ekki meir. Fjölmiðill ..., og maðurinn veður inn á leikvanganna og sest hjá áhorfendum og styður liðin sitt á hvað. Skrif'etta hjá stjórninni, skrif'etta hjá Kjernested .... Gunnar kemst upp með allt og hans dýrasta ósk er að drekka kaffi og borða á kostnað fóboltafélaganna. Svo fór hann í sturtu og heita pottinn hjá KR ...
Grindvíkingar hefðu átt skilið að falla því þeir höfðu engan húmor fyrir Gunnari á Völlunum heldur ráku hann í burtu fyrir drykkjuskap. Að vísu gekk Gunnar heldur langt þarna, óð um völlinn með hvítvínsglas í hendi.
Gunnar er skemmtilegur, hann er fyndinn og léttur í lund. Myndatakan er einstaklega góð og tökumaður gleymir sér aldrei, miðpunkturinn er Gunnar. Klippingin er hröð og viðheldur athygli áhorfandans.
Bestu þakkir fyrir skemmtunina.
![]() |
Gunnar gerir upp knattspyrnusumarið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Siglfirðingar hafa svo sannarlega vaknað
3.10.2011 | 09:42
Las í morgun, mánudag, stórgóða grein í Morgunblaðinu eftir Róbert Guðfinnsson, framkvæmdastjóra, á Siglufirði. Hann ræðir þar um Stykkishólm og EDEN verðlaunin sem bærinn hlaut fyrir stuttu. Í greinninni nefnir hann Rakel Olsen, framkvæmdastjóra Sigurðar Ágústssonar hf. í Stykkishólmi, en Rakel hefur verið óþreytandi í endurbyggingu húsa og lagt til þess tugi milljóna króna eftir því sem Róbert segir.
Þetta er einstaklingsframtak fjölskyldu sem vill gera vel við sitt byggðarlag. Í umræðunni um kvótakerfið og sjávarútveginn gleymist oft að benda á fyrirtæki eins og Sigurð Ágústsson hf. sem er sómi síns samfélags. Oftar eru þau fyrirtæki nefnd sem hafa farið offari eða gert stór mistök.
Ég á uppruna minn í Stykkishólmi og þess vegna hef ég lengi fylgst með því sem Rakel Olsen, börn hennar og tengdabörn hafa verið að gert. En ég hef lengi fylgst með Siglufirði. Á þar þó engar rætur en engu að síður sterkar taugar.
Róbert ræðir um Siglufjörðu sem gegnið hefur í gagnum endurnýjaða lífdaga. Hann segir í grein sinni:
Þar hefur Örlygur Kristfinnsson farið fremstur í flokki. Jafnt í stórmerkilegu framtaki hans í Síldarminjasafninu sem og við endurbyggingu gamalla einbýlishúsa. Þá hefur fjöldi einkaaðila lagfært hús sín og garða. Við hjá Rauðku ehf höfum reynt að leggja okkar af mörkum hvað varðar uppbyggingu á gömlum fiskvinnsluhúsum við smábátahöfnina. Á síðastliðnu sumri fékk Siglufjörður verðskuldaða athygli þegar metfjöldi ferðamanna sótti staðinn heim. Margir Íslendingar sáu það sem við sem til þekkjum vissum, að Siglufjörður hefur mikla sérstöðu meðal bæja á Íslandi. Það að hafa smábátahöfnina alveg við torg bæjarins gefur bænum mjög sterkan blæ. Bæjarstæðið er skemmtilegt og býður upp á mikla möguleika.
Róbert hvetur Siglfirðinga til dáða og ber þá von í brjósti að fasteignaverð eigi eftir að hækka í bænum og styrkja byggðina. Hann telur hins vegar að meirihluti bæjarstjórnar í Fjallabyggð sé ekki á réttri leið og vinnubrögð hans ekki til eftirbreytni.
Það sem áður var
Ástæðan fyrir því að ég staldraði við grein Róberts og las hana með mikilli athygli má rekja til þess að árið 1997 kom ég einu sinni sem oftar til Siglufjarðar. Þá blöskraði mér nú alveg og skrifaði grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni Vaknið Siglfirðingar!. Greinin hefst á þessum orðum:
Hann hafði verulegar áhyggjur af því, forseti bæjarstjórnar Siglufjarðar í fréttum fyrir skömmu, að grúturinn í loftinu kunni að fæla ferðamenn frá staðnum. Eftir stutta heimsókn til Siglufjarðar finnst mér grúturinn í loftinu vera minna vandamál en áhugaleysi Siglfirðinga á ferðaþjónustunni.
Sofandi bær
Ég hef víða farið um Ísland og síst er hægt að segja að kaupstaðurinn Siglufjörður heilli mig, en landslagið hefur alla tíð vakið áhuga minn og um daginn lét ég verða af því að fara aftur til Siglufjarðar í stutta ferð í góðum félagsskap, til þess eins að ganga yfir í Héðinsfjörð, þennan umtalaða fjörð, sem svo margir hafa hvatt mig til að skoða.
Líklega eru um tuttugu ár síðan ég kom fyrst til Siglufjarðar. Fátt sýnist mér hafa breyst. Við fyrstu sýn virðist Siglufjörður vera þreyttur staður og gleðisnauður. Ég segi við fyrstu sýn, því ég er ferðamaður og ferðamenn stoppa stundum ansi stutt við og dæma að sjálfsögðu út frá reynslu sinni og þá skiptir lengd ferðar engu máli. Í hvert skipti sem ég kem til Siglufjarðar finnst mér engu líkar en Siglfirðingar bíði eftir að eitthvað gerist, eitthvað utanaðkomandi, - ef til vill nýtt síldarævintýri.
Ég fékk það til dæmis á tilfinninguna að Siglfirðingar vildu helst loka Strákagöngum til að koma í veg fyrir óþarfa átroðning ferðamanna. Það geta þeir að sjálfsögðu ekki og þess í stað loka þeir verslunum sínum og þjónustustofnunum og jafnvel lögreglan á staðnum lítur ekki til hins auma ferðamanns sem leitar eftir tjaldsvæði. Tjaldsvæðin virðast vera tvö, bæði illa hirt, og umferðin við nærliggjandi götur gefur hinum vegmóðu ferðamönnum lítinn grið.
Slök þjónusta
Siglfirðingar mættu líta á hvað er að gerast á stöðum eins og Akranesi, Stykkishólmi, Ísafirði, Húsavík, Seyðisfirði, Höfn í Hornafirði, Skaftárhreppi, Vestmannaeyjum eða Keflavík. Þjónusta við ferðamenn á á Siglufirði er ekki sambærileg við þá sem stendur til boða á þessum stöðum.
Siglufjörður getur tekið á móti tugum þúsunda gesta á hverju ári. Í samanburðinum er ein verslunarmannahelgi slök kynning, raunar aðeins lélegt partí sem lítið skilur eftir.
Kabarett um síldarævintýrið er forvitnilegt framtak en alls ekki nóg. Vilji Siglfirðingar skjóta stoðum undir ferðaþjónustuna þarf hugarfarsbreytingu. Ferðaþjónusta er atvinnuvegur ekki ævintýri. Siglfirðingar geta grætt á okkur ferðamönnum sjáum við okkur hag í þeirri þjónustu sem í boði er.
Í lokin er ekki úr vegi að það komi skýrt fram að mér rennur til rifja áhugaleysi Siglfirðinga um eigin hag, um umhverfi sitt og þá möguleika sem þeim bjóðast í atvinnumálum. Ég vona að Siglfirðingar misskilji ekki þennan pistil, því sá er í raun vinur sem til vamms segir.
Vísar Landsdómur máli Geirs frá í dag?
3.10.2011 | 08:56
Landsdómur á að koma saman í dag, 3. október, til að úrskurða um kröfu Geirs H. Haarde um að ákæru Alþingis gegn honum verði vísað frá dómi.
Tel einsýnt að svo verði. Landsdómur mun einróma vísa málinu frá með þeim rökum að rannsókn málsins séu gölluð og ákæruatriði óljós.
Er þess einnig fullviss að Landsdómur muni hvetja til þess að breytingar verði gerðar á lögum um dóminn eða jafnvel að hann verði lagður niður að almennur saksóknari taki við þeim störfum sem hann á að fara með. Rökin eru þau að hann er óhugnanlega gamaldags, passar engan vegin við nútímalegt réttarkerfið þar sem ákærðu njóta lítilla mannréttinda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eiginkona forsetans er stærri en margir halda
2.10.2011 | 13:58
Eiginkona forseta Íslands brá út af öllum vana og prótókolli við setning Alþingis í gær. Hún gekk rakleitt að girðingunni og hóf að ræða við mótmælendur. Svo klofaði þessi litla kona yfir girðinguna og varð við það stærri og meiri en allir aðrir.
Halldór Sigurðsson tók afskaplega góðar hreyfimyndir af prósessíu þingmanna, þar sem þeir voru það sem amríkaninn nefnir sitting ducks, í dauðafæri fyrir ofbeldissinna. Og svo gekk Dorrit að girðingunni og Halldór fylgdi henni. Myndirnar má finna hér.
Greinilegt er að konan tók þessi mótmæli afar nærri sér og hugur hennar var eindregið með mótmælendum. Skipti engu þótt einhverjir væru að reyna að upphefja sjálfan sig með ókurteisi. Hún tók öllum vel, faðmaði fólk og sýndi með því einstæða samstöðu.
Hvað eiga stjórnmálamenn að gera í mótmælum? Þeir eiga að minnsta kosti ekki að hvetja til samstöðu á sínum eigin forsendum. Ráðherrar og alþingismenn hafa margir hverjir hvatt fólk til að sýna samstöðu og draga úr bölsýnistali. Þetta er auðvitað ekkert annað en sýndarmennska. Reynt er að höfða til jákvæðra tilfinna fólks með blekkingingu.
Maður sem hefur tapað atvinnu, bíl, húsnæði og jafnvel fjölskyldu sinni vegna hrunsins sér enga birtu stafa frá aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þeir sem mótmæla á Austurvelli gera það ekki heldur. Stjórnarandstaðan kemur með sína eigin tillögur, hún er ekki að tala niður ástandið með því að benda á aðrar tillögur en ríkisstjórnin hefur boðið upp á.
Staðreyndin er einfaldlega sú að ríkisstjórnin ætti að ganga út á meðal mótmælenda, hlusta á þá og þá kæmi nú annað hljóð í strokkinn.
Enginn getur með rökum sagt að ástandið sé að batna í þjóðfélaginu. Reyni þeir hinir sömu að sannfæra atvinnulausa eða þá sem tapað hafa eigin fé sínu í hendur fjármálastofnana um þetta.
Ríkisstjórnir þurfa að sýna sömu hluttekningu og nærgætni og eiginkona forsetans gerði. Hún þurfti ekki að segja marg heldur aðeins að taka í hendur fólks, horfast í augu við það og faðma.
Skuldaklafi velferðarstjórnar lifir í áratug
2.10.2011 | 11:18
Þjóðin þarf að efla verðmætasköpun sína, án þess kemst ríkið aldrei út úr skuldaklafanum. Hann verður fyrirsjáanlegur fram á næsta áratug.
Aukin verðmæltasköpun helst í hendur við það grundvallaratriði að útrýma atvinnuleysi á Íslandi. Gangi það ekki sligar skuldaklafinn þjóðina frá á næsta áratug.
Þjóðin þarf erlenda fjárfestingu. Staðan hér er með slíkum ósköpum að innlend fjárfesting á mjög erfitt uppdráttar. Þá er viðbúðið að skuldaklafinn verði enn þrúgandi á næsta áratugi.
Skipta þarf um ríkisstjórn. Sú sem nú situr hefur ákveðið að gjaldeyrishöft skulu vera út þennan áratug. Hún er í raun á móti erlendum fjárfestingum og gerir allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir að innlendir fjárfestar geti þrifist. Losnum við ekki við núverandi ríkisstjórn er viðbúið að ríkið verði eini fjárfestingaraðilinn á Íslandi. Þá er viðbúið að skuldaklafi vegna hrunsins verði ekki kláraður fyrr en á næsta áratug.
![]() |
Ríkið skuldar 1.386 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ef ekki löggan hverjir þá?
1.10.2011 | 14:36
Ef það á ekki að stilla lögreglunni upp til varnar þinghúsinu hverja þá? Því miður er ekki um neina aðra að dreifa. Óski lögreglan eftir aðstoð okkar, almennra borgara, þá mun ég að minnsta kosti mæta.
Ég styð lögregluna í kröfum hennar fyrir mannsæmandi launum. Hef lýst því áður. Hins vegar verður lögreglan að standa sig í því starfi sem krafist er af henni.
Svo er það hitt að reiði fólks á ekki að beinast gegn lögreglu. Mótmæli eiga að vera ofbeldislaus, hversu oft þarf að segja þetta við skynsamt fólk. Ofbeldi eru af sér ofbeldi. Friðsöm mótmæli skila árangri. Berjumst friðsamlega gegn handónýtri ríkisstjórn. Okkur mun takast að koma henni frá. Látum ríkisstjórnina ekki ráða hvenær hún fer. Henni verður að steypa í haust.
![]() |
Skjöldur milli þings og þjóðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kjósa um stjórnarskrá í kreppu, kökur í stað atvinnu ...
1.10.2011 | 12:39
Takið eftir hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn ætlar að taka á málunum. Núna er allt í kaldakoli, 12.000 manns eru atvinnulausir, meira en 12.500 manns hafa flutt af landi brott frá því 2008, eignir heimilana hafa verið teknar og afhentar fjármálastofnunum. Atvinnulífið þjáist, fjöldauppsagnir eru daglegt brauð og ríkissstjórnin skattleggur þjóðina svo úr blæðir.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefur klúðrað flestu því sem hún hefur getað. Fátt hefur komið frá henni sem byggir upp atvinnulíf og eignastöðu heimila. Þess ber þó að geta að forsætisráðherrann segir að fjölmargt sé í pípunum. Þetta hefur hún sagt frá því hún tók við embætti. Langar og þröngar eru leiðslur ríkisstjórnarinnar.
Þá kemur Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fram í Fréttablaðinu og segir:
Stjórnarskrárfrumvarpið verður eitt af stóru málum þingsins í vetur og því ber skylda til að taka á því máli. Ég vil að frumvarpið fari fyrir nýja stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og nefndin ræði við stjórnlagaráð og þá sérfræðinga sem voru því til halds og trausts. Síðan vil ég að frumvarpið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum.
Góðir Íslendingar. Í hvaða heimi lifir þessi forsætisráðherra. Allt er í kaldakoli og ríkisstjórnin ætlar allra náðarsamlegast að gefa þjóðinni kökur til að fæða sig á.
Og svo er sumir hissa á mótmælum við setningu Alþingis og að egg og tómatar fljúgi í stjórnmálamenn. Það sem hins vegar þarf er að efla mótmælin, hætta ofbeldinu, og koma þessari ríkisstjórn frá svo hægt sé að kjósa sem fyrst. Fræðilega séð hlýtur að vera útilokað að við taki lakari ríkisstjórn.
Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt
1.10.2011 | 11:11
Allt ofbeldi á að fordæma. Sá sem beitir ofbeldi til að koma skoðun sinni á framfæri gerir lítið úr málstað sínum, raunar eyðileggur fyrir honum.
Einhverjir kunna að halda því fram að eggjakast sé í raun ekki ofbeldi heldur jafnvel tjáningarmáti. Þetta er alrangt. Hvar á að draga línuna ef ekki við núllpunktinn? Allt sem meiðir, skemmir eða eyðileggur er ofbeldi.
Afneitum ofbeldi, sýnum og sönnum að hægt sé að mótmæla með rökum. Mætum að öðrum kosti við Alþingishúsið og verjum löglega kjörið Alþingi og ríkisstjórn hversu mikið sem við erum á móti stjórnmálamönnunum eða ráðherrunum.
Ég er harður andstæðingur ríkisstjórnarinnar og meirihluta hennar. En drottinn minn dýri, ég skal fram í rauðan dauðan verja stjórnskipulag lýðveldisins gegn ofbeldi. Hins vegar á ég nóg af rökum til að leggja þessa ríkisstjórn.
![]() |
Eggjum kastað í þingmenn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |