Auka tekjur ríkissjóðs á 24 mánuðum er raunhæft verkefni

Stjórnmál fjalla fyrst og fremst um stefnumótun og framkvæmd hennar. Flestir geta sinnt rekstri og fært bókhald. Jafnvel fjármálaráðherra getur næstum skammlaust haft skoðun á rekstrarlegum forsendum ríkisins og stöðu bankareinkninga. Þessi verkefni eru í raun á borði starfsmanna stjórnarráðs Íslands.

Rétt eins og hjá einkafyrirtækjum þarf ríkið að setja fram rekstraráætlun, skiptingu fjár til hinna fjölmörgu verkefna sem ríkið er með á sinni könnu. Í orði kveðnu er það Alþingi sem ákveður en í raun er það framkvæmdavaldið sem undirbýr frumvarp til fjárlaga og fjármálaráðherra leggur fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Að því loknu er það samþykkt með einhverjum breytingum. Þetta má í raun kalla stefnumótun í stjórnmálum.

Fjárlög geta verið afar villandi, hreinlega gefið ranga mynd. Til dæmis þegar kveðið er á um samdrátt í rekstri ríkisins sem veldur því að fólki er sagt upp störfum. Þar með er staðan orðin skárri en um leið er fólk sett á atvinnuleysisskrá. Sú skrá geymir óþarfa útgjöld og um leið eru þau lægri en verið hefði sem bein laun. Skítt með mannlega þáttinn, sá rekstrarlegi er mikilvægari.

Ríkisstjórn setur markmið með fjárlögum. Núverandi norræn velferðarstjórn hefur það markmið að útgjöld verði sem næst tekjum. Raunar er það ekkert pólitískt stefnumið. Þetta er í raun stefna allra þeirra sem eitthvað er umhugað um rekstur ríkisins.

Það er því engin pólitík að stefna að því að tekjur og útgjöld séu jafnhá eða helst að tekjur séu hærri. Jafnvel embættismenn ríkisins gætu sinnt þessum hluta án nokkurra aðkomu stjórnmálamanna.

Hitt væri sannfærandi pólitík ef ríkisstjórn setti það sem markmið að á 24 mánuðum yrði tekjuaukning ríkissjóðs meiri en sú sem fæst með beinum hækkunum á sköttum og álögum. Þetta er raunhæft markmið.

Núna, þremur árum eftir hrunið, snúast stjórnmál einfaldlega um það hvernig hægt er að afla tekna. Hin norræna velferðarstjórn er gjaldþrota því hún sér ekki annað en hækkanir á sköttum á einstaklinga og fyrirtæki.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband