Bloggfærslur mánaðarins, október 2011
Við þurfum trúverðuga stjórnmálamenn
10.10.2011 | 16:12
Niðurstöður skoðanakannana um störf Besta flokksins minnir mig alltaf á ævintýri, fallegt og snoturt ævintýri H. C. Andersen ... Nýju fötin keisarans. Og enn bíð ég eftir því að borgarbúar átti sig allir sem eitt á því að ekkert er að gerast í borgarmálunum undir stjórn Jóns þess sem nefnir sig Gnarr.
Ef til vill er að ásættanlegt miðað við aðstæður að 24% séu ánægð með störf hans og flokkurinn fengi fjóra borgarfulltrúa væri kosið núna.
Þá er ekki úr vegi að skoða þessar margumræddu aðstæður. Líklega er það svo að mjög margir eru svo óánægðir með störf stjórnmálaflokkanna að þeir eru tilbúnir til að kasta atkvæði sínu á glæ, kjósa fólkið sem ekkert þekkir til og hefur enga reynslu frekar en að taka annan sjéns með aðra.
Auðvitað kemur að því að fólk átti sig á því rugli sem Besti flokkurinn stendur fyrir og skemmdum sem unnar hafa verið á borginni undir stjórn þessa fólks. En það gerist ekki nema aðrir stjórnmálaflokkar eða nýjar hreyfingar taki sér tak og byggi upp málefnastöðu og bjóði upp á fólk sem nýtur almenns trausts. Ekki er nóg að benda á hörmulega stjórnsýslu Gnarrsins og þeirra sem honum fylgja. Hinir flokkarnir verða að sýna svo ekki verði um villst að þeir geti gert betur.
Þetta kostar hins vegar mikla vinnu fyrir þá sem vilja láta taka sig alvarlega í stjórnmálum og þeir verða að hafa einhvern sannverðugan bakgrunn. Á meðan mun fjölmiðlafulltrúi borgarinnar verða áfram í embætti borgarstjóra og þeir sem stjórna borginni verða ekki kjörnir fulltrúar heldur ýmsir embættismenn.
![]() |
Dregur úr ánægju með Jón Gnarr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sorg hans var næstum áþreifanleg
10.10.2011 | 09:33
Hún fékk mig til að hugsa, greinin í Morgunblaðinu í dag. Hún nefnist Brákaður reyr og er eftir Ernu Arngrímsdóttur, sagnfræðing. Hógvær og stutt grein um geðsjúkdóm, lítil saga sem skilur mann eftir með sorg í hjarta.
Hann mætti eins og klukka á mánudagsmorguninn og enn var hyldjúp sorg hans næstum áþreifanleg þegar hann kvaddi okkur.
Svo kom frétt, manns væri leitað, og síðar, miklu síðar, andlátstilkynning og minningargrein. Maðurinn sem var angistin uppmáluð hafði náð bata og nýsamþykkt lög kváðu á um að öryrkjar gengju fyrir í vinnu hjá því opinbera. Hann sótti víða um vinnu, fékk alls staðar höfnun. Hann eygði enga von. Þegar ég sá hann var komið að leiðarlokum.
Ég hef oft reynt að ímynda mér þær klukkustundir sem hann átti ólifaðar.
Maðurinn var nýútskrifaður af Kleppi en kom alls staðar að lokuðum dyrum er hann gekk aftur út í lífið og hugðist reyna að standa sig.
Atvinnuleysi er ljótur blettur á þjóðfélagi okkar, mannskemmandi og hefur gríðarlegar afleiðingar fyrir alla sem það reyna.
Enginn atvinnulaus heldur heilbrigði sínu til lengdar. Þess vegna þarf þjóðin að taka á þessu böli og ekki síður hugsa sinn gang gagnvart geðsjúkdómum. Fordómarnir eru miklir og þess vegna þurfum við að læra, hrista þá af okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Á Fimmvörðuhálsi breytast gosstöðvarnar
9.10.2011 | 12:44
Ýmislegt bendir til þess að talsverðar breytingar verði á gosfellinu Magna á Fimmvörðuhálsi. Undanfarinn mánuð hef ég tekið eftir sístækkandi sprungum sem án efa munu leiða til þess að úr fjallinu mun hrynja og það breytast talsvert frá því sem nú er.
Efst er mynd sem ég tók fyrir um hálfum mánuði. Tvo hringi hef ég dregið á hana. Vinstra megin, á suðurhluta fjallsins er sprunga sem líklega mun leiða til þess að um það bil það sem er innan hringsins mun hrynja niður.
Hægra megin, á norður hluta fjallsins, hefur frá upphafi verið einhvers kona sylla sem hefur sigið og hrunið úr. Það mun án efa halda áfram.

Í miðjunni er svo ör sem bendir á sprungu sem hefur undanfarinn mánuð farið sístækkandi.
Næsta mynd sýnir sprunguna eins og hún var 6. október 2011. Hún er líklega um 50 metrar, teygir sig frá austurhlíðinni og upp á fjallið og þar um 23 metra eftir því og niður vestan megin. Hún er mest um 1,5 m djúp. Hún hefur aðallega lengst en ekki dýpkað að sama skapi. Fyrir um mánuði var hún helmingi styttri.

Þriðja myndin er tekin uppi á Magna, horft í austur og sést þarna greinilega hversu víð sprungan er orðin. Maður stendur hægra megin við sprunguna og ofan í henni er göngustafur. Af þessu má ráða hversu stór sprungan er orðin.
Ekki er mjög mikill hiti ofan í henni sem er dálítið undarlegt því þar sem maðurinn stendur er önnur lítil sprunga og upp úr henni stígur gríðarlegur hiti sem dugað hefur ferðamönnum til að steikja pylsur, kjöt og annað góðmeti.

Syðsta á gosfellinu er grunn sprunga sem hér er mynd af. Hún er ansi löng, líklega um 20 m ofan á fjallinu og svo teygir hún sig niður hlíðina og austur í brattann. Þetta má greinilega sjá á efstu myndinni og auðvitað er hægt að stækka all myndirnar.
Auðvitað er um alvarlegan hönnunargalla á fjallinu, það er handónýtt eins og einhver sagði ... En þannig er nú landið okkar, það er í sífelldri mótun og ekki síst rúmlega ársgamlar eldstöðvar.
En hvenær dregur til tíðinda á Fimmvöruhálsi, það veit ég ekki. Gæti þó trúað að eitthvað taki að hrynja úr fjallinu mjög bráðlega, jafnvel fyrir áramót.
Heimskulegt viðmið vegna samgöngubóta
8.10.2011 | 10:16
Afskaplega þykir mér sú skoðun vitlaus að samgöngubætur eigi að fara eftir íbúafjölda í því byggðarlagi sem næst liggur. Stundum rökstyðja menn þessa skoðun með því að deila fjölda íbúa í kostnaðinn vegna framkvæmdarinnar og fá út hlægilega háar fjárhæðir á hvert nef. Og þar með eru komin rök gegn framkvæmdinni.
Hver á þá hin raunverulega viðmiðun að vera við mat á framkvæmdum. Ég held því blákalt fram að ef við þurfum að blanda saman samgöngubótum við einhvern íbúafjölda þá skulum við nota 330.000 manns, það er alla þjóðin. Ástæðan er einfaldlega sú að í strjálbýlu landi verður ella stöðnun.
Hjálmtýr Guðmundsson ritar grein í Morgunblaðið vegna greinar sem Róbert Guðfinnsson skrifaði í sama blað fyrir nokkrum dögum og ég hef þegar gert að umtalsefni. Hjálmtýr segir um framkvæmdi í og við Siglufjörð:
Snjóflóðavarnir kostuðu 2 milljarða sem gerir 4 milljónir á íbúð og Héðinsfjarðargöngin kostuðu 14 milljarða eða 28 milljónir á hverja íbúð, samtals 32 milljón króna fjárfesting á hverja íbúð sem er metin á 7,2 milljónir.
Mælikvarðinn sem Hjálmtýr notar er ekki aðeins fráleitur og út úr öllu samhengi. Ástæðan er einfaldlega sú að við sem þjóð reynum fyrst og fremst að tryggja öryggi almennings vegna náttúruógna, hvar sem það býr.
Ef samanburður Hjálmtýs ætti að vera regla þá væri hvergi um neinar samgöngubætur á landsbyggðinni. Vegir væru til dæmis enn með óbundnu slitlagi, hvergi væru jarðgöng, flugvellir væru malarvellir og útvarpssendingar myndu aðeins nást á langbylgju eða miðbylgju og ljósleiðarar hefðu aldrei ekki lagðir.
Er þetta sú framtíð sem Hjálmtýr, skattborgari, vill bjóða landsmönnum?
Mér skiptir svo sem engu máli hvert svarið er. Hitt er mér mikið kappsmál að þjóðin noti sameiginlega sjóði til að byggja upp landið sem eina heild.
Og þessi viðmiðun við íbúafjölda á bara ekki við. Er það til dæmis aðeins íbúum Austur-Skaftafellssýslu til hagsbóta að göng séu undir Almannaskarð? Eru fyrirhugðu Vaðlaheiðagöngu aðeins fyrir íbúa á Norð-austur horninu. Er Vatnaleiðin yfir Snæfellsnes bara fyrir Hólmara? Er brúin yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi bara fyrir Ísfirðinga. Mér þætti gaman að sá rökin fyrir þessu.
Fimmvörðuháls áður en landið brann ...
5.10.2011 | 16:53
Á þessu korti frá Landmælingum sjást gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi, nákvæmlega staðsettar. Og þarna er líka merkt gönguleið yfir Hálsinn. Ég hef merkt með bláum lit gönguleiðina eins og hún var áður en Goðahraun rann.
Þarna var áður slétt land, hallaði nokkuð til austurs og nokkru vestar hallaði í þá átt, þó aðeins minna.
Mér fannst alltaf að leiðin frá Miðhnúk, en undir honum austanverðum liggur gönguleiðin (ekki merktur á kortinu) og að Bröttufannarfelli vera nokkurs konar biðstaða. Fátt sást merkilegt og venulega beið maður spenntir eftir því að komast upp á Bröttufannarfellið og njóta útsýnisins til norðurs.
En hvar gaus nákvæmlega? Hér hef verið að grúska í gömlu myndunum mínum, aðeins þeim sem ég á á tölvutæku. Gamla digital myndavélin mín var léleg og sama er að segja um skönnuðu myndirnar mínar, þær eru ekki nógu góðar.

Hérna er svo eiginlega skársta myndin af þessu svæði sem ég hef fundið í fórum mínum. Hún er samansett úr tveimur myndum sem ég tók 7. janúar 2000. Við félagarnir vorum á leiðinni yfir Fimmvörðuháls, höfðum gist í Fimmvörðuskála Útivistar. Rísandi skammdegissólin varpar geislum sínum á snjóinn.
Lengst til vinstri má greina gönguleiðina en hún er við bláu línuna. Við gengu aðra leið, fórum vestan við Miðhnúk sem er á miðri myndinni. Höfum líklega gengið nákvæmlega yfir þann stað sem eldgosið brast uppp úr rúmum tíu árum síðar. Blá örin bendir á þann stað sem landið brast og eldur logaði 20. mars 2010.

Til samanburðar er svo mynd sem ég tók í lok ágúst á þessu ári. Hún er tekin nokkurn veginn á sama stað, ef til vill aðeins ofar og nokkrum metrum fjær.
Hvorug myndin er þó tekin við gönguleiðina en þó nálægt henni.
Næsta mynd er tekin í Jónsmessuferð Útivistar 2001 við stikuna í sunnanverðu Bröttufannarfelli og sér yfir það svæði sem Goðahraun þekur núna.
Í fjarlægð má sjá láréttan, svartan gíg (gula stikan bendir á hann) en núna liggur hraunið alveg að honum. Frá þeim stað sem myndin var tekin er í dag ekki hægt að sjá gíginn, hraunið byrgir sýn.
Næsta mynd, sú næst neðsta, er tekin í sömu ferð og er á miðri leið yfir það svæði sem Goðahraun þekur núna. Gönguleiðin frá gamla gígnum er mjög greinilega í snjónum.
Aðstæðurnar í dag má greinilega sjá á þriðju neðstu myndinni. Miðhnúkur sést mjög vel á öllum myndunum og auðveldlega má ráða í önnur fell.
Neðsta myndi er tekin við hinn áðurnefnda gamla gíg og er nú horft til norðurs að Bröttufannafelli. Stikurnar liggja að gígnum, yfir hann og upp á Bröttufannarfell sem þarna sést í fjarska.


Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Forsætisráðherra hefur lofað 38.300 nýjum störfum
5.10.2011 | 10:09
Leiðari Morgunblaðsins í morgun, miðvikudag, var góður. Höfundur fjallar um stefnuræðu forsætisráðherra. Hann segir:
En Jóhanna og ræðusnilld hafa ekki beinlínis verið samvaxnir tvíburar gegnum tíðina og er þá ekki sanngjarnt að gera upp á milli efnis og flutnings. Það þurfti því nokkurn sjálfsaga og fórnarlund hjá áhorfanda að hlusta um stund, jafnvel þótt það væri aðeins gert með öðru eyranu. Allt sem heyrðist var óþægilega fyrirsjánlegt. Ekki er lengur lagt í að minnast á skjaldborgina og norrænu velferðarstjórnina, enda er hætt við því að hvorki sjálfsagi né fórnarlund hefðu þá dugað til.
Í lok forystugreinarinnar er fjallað um þau loforð sem forsætisráðherra hefur gefið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um fjölgun starfa í þjóðfélaginu. Jóhanna lofaði:
- 4.000 störfum í mars 2009
- 6.000 störfum í apríl 2009
- 3.000 til 5.000 störfum í október 2010
- 2.300 störfum í mars 2011
- 7.000 störfum í september 2011
- 14.000 störfum í október 2011
Samtals eru þetta orðin 36.300 til 38.300 ný störf, segir leiðarahöfundur.
Mogginn dregur forsætisráðherra sundur og saman í háði vegna þess að ríkisstjórnin stendur sig ekki.
Forsætisráðherra hefur komist upp með að blaðra án nokkurrar ábyrgðar, fullyrðir að svo margt sé í pípunum en efndir eru engar. Sama er með fjármálaráðherra, hann heldur því fram að allt sé nú á góðum vegi, lofar hagvexti, lágri verðbólgu og svo framvegis. Ekkert hefur staðist.
Allt er þetta skrök og tilbúningur. Svo er þetta lið hissa á því að þjóðin sé búin að fá nóg af þessari vanhæfu ríkisstjórn sem fer með rangt mál og lofar upp í ermina á sér.
Stórkostleg framkvæmd
4.10.2011 | 15:51
Loksins ber áratuga barátta Árna Stefánssonar, auglæknis, hellakönnuðar, kajakræðara og ferðamanns þann árangur að Þríhnúkagígur verður gerður að ferðamannastað.
Árni er mikill kappi. Hann seig fyrstur manna ofan í Þríhnúkagíg, líklega fyrir meira en 20 árum. Og hann sagði mér einhvern tímann að ferðin niður í kolsvart gímaldið hafi aldrei ætlað að taka enda. Talsverðan kjark þarf til að leggja á sig ferðalag ofan í svona óvissu.
Mig minnir að það séu meira en tíu ár síðan Árni sagði mér frá þessu áhugamáli sínu, að gera Þríhnúkagíg aðgengilegan fyrir ferðamenn. Mér fannst þetta tóm vitleysa hjá manninum. Hann sannfærði mig þó um síðir og nú eru komnir fjársterkir aðilar að málinu og hagsmunaaðilarnir Reykjavíkurborg og Kópavogsbær. Þessu ber að fagna.
Ekki er þó kálið sopið þó í ausuna sé komið. Gera má ráð fyrir því að framkvæmdin taki tvö til þrjú ár og kostnaðurinn verði í kringum tvo milljaða króna. Þetta er stórmerkileg framkvæmd og án efa verða rekast menn á einhver vandamál á leiðinni og þau verða síst af öllu til að gera hana ódýrari.
Ég óska Árna Stefánssyni sérstaklega til hamingju með áfangann og ekki síður þeim sem leggja nú í spennandi vegferð. Öruggt er að Þríhnúkagígur verður álíka aðdráttarafl eins og Bláa lónið, Geysir og Gullfoss. Og það skemmtilegasta við málið er sú einfalda staðreynd að ekki þarf annað að gera en að opna þetta náttúruundur. Þau eru fleiri svona á Íslandi en því miður er lykillinnn ansi dýr.
![]() |
Ætla að gera Þríhnjúkagíg að ferðamannastað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.685 í alvarlegum vanskilum, 11.294 atvinnulausir ...
4.10.2011 | 10:43

Þetta er ótrúlegt, en 25.685 manns eiga í alvarlegum vanskilum samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Þetta er stórfrétt og umfjöllun um hana er birt í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.
Er svo einhver hissa á því að fólk lemji á tunnur á Austurvelli og kasti eggjum í stjórnmálamenn?
Efnahagshrunið fór illa með stóran hluta þjóðarinnar. Skuldir verðtryggðra lána stórhækkuðu fyrst og fremst vegna þess að fjármálafyrirtækin tóku enga ábyrgð. Klyfjar verðbótanna voru alfarið lagðar á lántakann.
Og núna, daginn eftir stefnuræðu forsætisráðherra, kemur frétt í Morgunblaðinu um að 8,5% þjóðarinnar er í alvarlegum vanskilum.
Nú eru 11.294 einstaklingar án atvinnu og það segir ríkisstjórnin að sé bara harla gott, atvinnulausum hafi fækkað.
Hvað eigum við að gera með ríkisstjórn sem er gerir ekkert vegna atvinnuleysisins og lýgur í þokkabót. Hvað með þessa 12.500 einstaklinga sem flutt hafa af landi brott frá því 2008? Þetta eru líklega 3100 fjölskyldur eða 6200 fyrirvinnur ...
Jú, ríkisstjórninni er margt til lista lagt. Til að spara atvinnuleysisbætur, þessa lúsarögn, hrekur hún þúsundir manna úr landi. Um leið lítur hlutfall atvinnulausra miklu betur út. Iðnaðarráðherra sagði í gær að 6,9% atvinnuleysi sé bara harla gott á vesturlöndum.
Og ofan í kaupið kemur í ljós að 25.685 manns eiga í alvarlegum vanskilum. Þetta sannar bara eitt. Þau úrræði sem ríkisstjórnin hefur fest í sessi virka ekki. Þetta bull um 110% leið er bara rugl. Um leið fitna fjármagnsfyrirtækin, bankanir standa með pálmann í höndunum, skila ótrúlegum hagnaði.
Ég hef haldið því fram að samfélagið megi ekki við því að missa 35 milljarða króna úr veltunni á hverju ári. Þetta eru þau laun sem atvinnulausir hefðu haft til umráða og tapaðar skattatekjur af þessu sama fólki eru 13,5 milljaðar króna á ári.
Séu þeir teknir með sem flúið hafa frá landinu vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar má gera ráð fyrir að árleg töpuð velta samfélagsins sé nærri 50 milljarðar króna og tapaðar skatttekjur ríkissjóðs séu um 20 milljarðar króna.
Og, kæri lesandi, 20 milljarðar króna er sú fjárhæð sem ríkissjóður greiðir á hverju ári í atvinnuleysisbætur. Til viðbótar má reikna þessa ríkisstjórn til helvítis vegna þeirrar sorgar og skemmdar sem hún hefur valdið fólki sem ekki fær tækifæri til að vinna fyrir sér, lendir í vanskilum, tapar heimilum sínum og fjölskyldur sundrast. Þetta gengur ekki lengur.
Ráherrar sem skrökva og fara rangt með
4.10.2011 | 09:59
Þingmenn sem tóku þátt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra áttu ekki allir góða stund fyrir framan alþjóð. Sumum mæltist vel en öðrum illa. Einstaka fóru rangt með staðreyndir og einn ráðherra reyndi beinlínis að skrökva að þjóðinni með villandi málflutningi.
Jafnlélegasta ræðan sem flutt var í gær var Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Ég velt fyrir mér meðan á flutningi hennar stóð hvað konan væri eiginlega að gera upp í pontu. Hún sagði ekki neitt sem var líklega jákvætt því á meðan var hún ekki að lofa upp í ermarnar á sér eins og hennar er ofast von og vísa.
Formaður Framsóknarflokksins
Af öllum ólöstuðum flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins bestu ræðuna. Hann var afar málefnalegur, pólítískt beittur og fór rétt með staðreyndir. Hann sagði meðal annars:
Skýrsla fjármálaráðuneytisins um endurreisn bankanna sýnir að tekin var meðvituð ákvörðun um að afskrifa minna en tilefni var til og það voru ekki heimilin heldur erlendir kröfuhafar sem nutu ávaxtanna. Það svigrúm sem hefði átt að nýta til að færa niður skuldir heimilanna er nú þess í stað fært sem milljarða hagnaður í bókum bankanna og fer að lokum út úr þeim sem arður til erlendra vogunarsjóða.
Í stað almennrar skuldaleiðréttingar kaus ríkisstjórnin að búa til flókin sértæk úrræði sem hafa einfaldlega ekki virkað. Aðeins lítill hluti þeirra sem sótt hafa aðstoð til umboðsmanns skuldara hefur fengið lausn sinna mála. 110% leiðin er strax orðin að að minnsta kosti 130% leið vegna verðbólgu og vaxtahækkana og fjármálafyrirtæki forðast að beita sértækri skuldaaðlögun því að hún er of flókin í framkvæmd.
Fólkið sem stendur hér fyrir utan Alþingishúsið þarf almenna skuldaleiðréttingu, ekki sértækar bankaflækjur og tilsjónarmenn. Það verður að gefa fólki tækifæri á að vinna sig út úr skuldavandanum. Sé það ekki gert tapa allir.
Það verður líka að snúa við þeirri neikvæðu keðjuverkun sem heldur atvinnulífi á Íslandi í frosti.
Forsætisráðherra segist nú enn einu sinni ætla að búa til sjöþúsund störf. Í kosningaauglýsingum vorið 2009 sagðist Samfylkingin þegar vera búin að leggja grunn að 6000 nýjum störfum á næstu mánuðum. Hvenær koma næstu mánuðir á eftir apríl 2009? Enn hefur ekkert til þessara starfa spurst annað en endurteknar yfirlýsingar forsætisráðherra. Stundum eru störfin 2000, stundum 4000 en oftast 7000 og nú er bætt um betur því lofað er og öðru eins til viðbótar. 14.000 störf, væntanlega á næstu mánuðum, hvenær sem þeir koma.
En í stað þess að störfum fjölgi heldur fólk áfram að yfirgefa landið í leit að vinnu.
Iðnaðarráðherra fór rangt með
Katrín Júlíusdóttir flutti litlausa og ómerkilega ræðu sem gæti hafa verið samin af manni sem er gjörsamlega út á þekju um stöðu mála í þjóðfélaginu. Hún staðhæfði að atvinnuleysi sé meðal þess minnsta sem þekkist á vesturlöndum. Auðvitað er þetta rétt hjá henni en hún er víðsfjarri sannleikanum.
Hún lýgur engu með tölum. Nærri 12.000 manns eru atvinnulausir á Íslandi en á síðustu þremur árum hafa jafnmargir flutt af landi brott, flestir þeirra hafa flúið atvinnuleysið. Þetta eru líklega meira en þrjú þúsund fjölskyldur eða um 6.000 fyrirvinnur.
Svo ómerkilegur er iðnaðarráðherra að hún fullyrðir að vegna verka ríkisstjórnarinnar sé atvinnuleysið í landinu aðeins 7%.
Ríkisstjórnin hefur ekki náð að gera neitt til að draga úr atvinnuleysi. Hið eina sem forsætisráðherra segir er að ýmislegt sé í pípunum ... Og svo er okkur sem gagnrýnum ríkisstjórnina legið á hálsi fyrir að vera neikvæðir. Hvernig má annað vera þegar ríkisstjórnin er svo ómerkileg að ljúga til um árangur sinn.
Úti á þekju
Ég heyrði ekki betur en að margir ræðumenn væru úti á þekju. Meðal þeirra var sá undarlegi maður Guðmundur Steingrímsson. Hann skilur ekki hvers vegna fólk er úti á Austurvelli og lemur búsáhöld og í tunnur. Líklega hefur hann aldrei verið blankur, aldrei misst heimili sitt á opinberu uppboði, aldrei þurft að skrá sig atvinnulausan.
Hann hélt langa tölu og giskaði lengi á hvers vegna fólk væri að berja á tunnur. Aldrei komst hann þó að kjarna málsins. Telur líklega að efnahagur heimila sé með miklum ágætum og fólk væri á Austurvelli til að leggja áherslu á að fá kökur með kaffinu.
Annar þekjuraftur var Steingrímur J. Sigfússon, sem heldur því fram að hann hafi bjargað ríkisrekstrinum frá gjaldþroti ...
Maðurinn hefur hins vegar ekkert gert í þeim málum. Verkefni hans hafa hins vegar kostað ríkissjóð gríðarlega fjármuni sem farið hafa í ríkisvæðingu Sparisjóðs Keflavíkur, Byr og Sjóvá. Hvað varðar rekstur ríkisins, þá hafa embættismenn séð um bókhaldið og gerð fjárlaga að langmestu leyti.
Steingrímur er þó hönnuður skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem alla er lifandi að drepa. Sú er meðal annars ástæðan fyrir tunnubarsmíðum fólks á Austurvelli en Steingrímur skilur það ekki og hvetur til samstöðu og bjartsýni um stefnu ríkisstjórnarinnar. Enginn árangur er af verkum fjármálaráðherra vegna þess að hann ræður ekki við starf sitt, mótar ekki aðra stjórnmálastefnu en þá sem eyðileggur uppbyggingu atvinnulífsins.
Móði á Fimmvörðuhálsi breytist eins og stóri bróðir
3.10.2011 | 17:11

Þann 1. apríl 2010 varð Óli Þór Hilmarsson, vinur minn, ásamt fjölda annarra, vitni að því er jörðin rifnaði því sem næst undir fótum hans á Fimmvörðuhálsi og eldgos braust fram. Þá tók hann myndina hér til vinstri en hann var staddur uppi á Bröttufannarfelli.
Myndin er í raun tvær myndir sem hefur verið skeytt saman.

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hófst 20. mars 2010. Þá opnaðist sprunga á tiltölulega sléttu landi. Í gríðarlega hvassri suðaustanátt hlóðust upp gosefni norðvestan við sprunguna. Smám saman dróst eldvirknin saman og loks gaus í tveimur gígum og síðast einum. Þarna varð til lítið fell sem fékk nafnið Magni.
Móði varð aftur á móti til við smærra gos norðvestan við Magna. Gosefnin hlóðust þar upp norðan eða norðaustan megin við sprunguna. Eldvirknin hætti smám saman nema í tveimur eða þremur gígum, misstórum.

Næstu mynd tók ég uppi á Bröttufannarfelli þegar gosinu í Eyjafjallajökli var nýlokið. Við gengum á tveir félagar yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og í Bása, laugardaginn 22. maí 2010. Gaman er að bera þessar tvær myndir saman þó ekki sé nema til að skoða þær hrikalegu breytingar sem orðið hafa þarna á landslaginu. Mesta athygli vekur gráminn á báðum fellum. Eins og ég hef áður nefnt, er hann vegna grárra útfellinga sem mynduðu einhvers konar skel, þunna og brothætta á fellinum.
Þriðja myndin var tekin í lok ágúst síðastliðinn. Þó hún sé tekin aðeins neðar í Bröttufannarfellinu sunnanverðu og sé dálítið dimm þá sýnir hún ágætlega aðstæður og breytingar sem orðið hafa frá síðustu mynd. Auðvitað sækir allt í þá átt að Magni og Móði verði eins og aðrir gígar og fell á Fimmvörðuhálsi, frekar svona óásjáanlegir, en það gerist á árhundruðum, njótum þeirra á meðan..

Fjórðu myndina tók Óli Þór Hilmarsson suðvestan við eldfellin á meðan á gosinu stóð.
Þetta er nokkuð skemmtilegt sjónarhorn. Hraun rennur til vinstri, í áttina að Innra-Suðurgili, sem er afgil úr Hvannárgili. Það náði þó aldrei ofan í gilið en annars staðar rann dálítið hraun ofan í Hvannárgil.
Næsta mynd tók ég á svipuðum slóðum um miðjan september síðastliðnum með iPhone símanum mínum. Biðst forláts á því að myndin er ekki eins góð og vera ætti. Sé myndin stækkuð, sem flestir ættu að gera með allar þessar myndir, kemur í ljós að mikið hraun hefur runnið.

Miklar breytingar hafa orðið. Hraunið jókst, er nú orðið rauðleitara en það var. Fyrr var Magni sléttur og felldur en nú hefur öskufall úr Eyjafjallajökli, vindar og regn mótað hann.
Á næst neðstu myndinni má sjá hvernig Móði og gígarnir hans litu út 12. júní 2010, myndin er tekin ofan af Magna. Til samanburðar er önnur mynd sem ég tók núna í lok ágúst. Gráminn er horfinn af honum og meira ber á rauða litnum. Gönguleiðir hafa mótast á gígrímanum en þar er enn ansi heitt.

Í lok gossins var Magni mældur 82 metrar á hæð og Móði 47 metrar. Ég held að bæði eldfellin hafi síðan minnkað um að minnsta kosti 10 metra. Hef ekkert annað en myndir fyrir mér í því sambandi. Líklega rökrétt að áætla að þau sigi smám saman rétt eins og sandur sem mokaður er í hrúgu.
Mér finnst ansi gaman að skoða myndir og bera saman frá einum tíma til annars. Landið er í mikilli mótun og breytist stöðugt en það gerist bara svo hægt að mannsaugað greinir það ekki eins vel og myndavélalinsan.