Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Þverfellshorn í Esju er ekki tindur

Það er dálítið leiðinlegt að þurfa að leiðrétta landafræði Morgunblaðsins eða Ferðafélags Íslands. Hafi hópur á vegum félagsins gengið á Þverfellshorn vita nú flestir að það er ekki tindur í réttum skilningi þess orðs. Þarna er landið tiltölulega slétt en hækka talsvert inn að miðju fjallsins. Hæsti hluti Esjunnar er ekki tindur heldur bunga sem er um 914 m.

Þverfellshorn er um 780m, Kerhólakambur er um 852 m og svo er það Hátindur sem eitt sinn var talinn hæsti hluti Esju og er 909 m. Hann er sá eini sem getur talist tindur.

Vonandi hefur hópurinn þó notið göngunnar. Esjan er stórkostlegt fjall til útivistar og það vita allir sem þangað hafa lagt leið sína. Hins vegar er Þverfellshorn alls ekki skemmtilegasti hluti hennar. Mér finnst miklu áhugaverðara að ganga upp á Kerhólakamb en mest af öllu held ég upp á austurhorn Kistufells. Þar leggja afar fáir leið sína og fæstir gera sér grein fyrir þeim töfrum sem það býr yfir. 

Og fyrst ég er að tjá mig um Esju þá er ekki úr vegi að benda á þá stórkostlegu gönguleið upp Móskarðshnúka, vestur yfir alla hnúkana, inn á Esju, fyrir Þverárdal, um Hátind og þar niður um Þverárkotsháls. Þetta er að mínu mati ein besta fjallaleið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins - einstaklega heillandi. 


mbl.is Fjölmenni í Esjugöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau njóta lítill samúðar

Án þess að neytendur hafi verið spurði hafa fjármögnunarfyrirtækin gengið fram af fyllstu hörku og krafist greiðslu.

Án þess að neytendur hafi fengið að koma að borðinu hafa fjármögnunarfyrirtækin boðið einhliða sættir.

Án þess að skoða í heild sinni fjármögnunarvanda reksturs heimila hafa fjármögnunarfyrirtækin tekið með valdi það sem þau töldu vera sitt.

Og nú á að finna sáttaleið. Hvaða sáttaleið er til í dæminu þegar maður hefur klórað sig til blóðs til að geta staðið í skilum?

Myntkörfusamningar reyndust byggðir á rangindum þegar upp var staðið. Fólk greiddi langtum meira en það átti að gera. Aldrei nokkurn tímann var boðið upp á sáttaleið af hálfu fjármögnunarfyrirtækjanna.

Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir því að sáttaleið hlýtur að virka í báðar áttir. Hjá fjármögnunarfyrirtækjunum var krafan sú að lántakendur stæðu í skilum. Hjá neytendur er krafan sú að fjármögnunarfyrirtækin sýni lántakendum virðingu. Fjölmargir hafa borið skarðan hlut frá borði í viðskiptum við þessi fyrirtæki. Þau njóta því lítillar samúðar.

Ríkisvaldið á þess vegna hvergi að koma fjármögnunarfyrirtækjunum til hjálpar. 


mbl.is Skapi þjóðarsátt um lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór munur á flóðinu við Sveinstind og Kirkjubæjarklaustur

aa_sveinstindur.jpg

Ekki er laust við að fjölmiðlarnir sakni nú gossins í Eyjafjallajökli. Nú kemur smámiga í Skaftá og viðbrögðin hjá þeim mörgum er eins og eldgos sé hafið.

Engu að síður finnst mér skrýtinn munur á mælingum á rennsli Skaftár við Sveinstind og Kirkjubæjarklaustur.

Við Sveinstind er vatnsmagnið sagt vera 373,4 rúmetrar á sekúndu en við Svinstind aðeins 73.7 rúmeetrar á sekúndu.

Svo virðist sem að flóðið sé ekki allt komið niður að Kirkjubæjarklaustri samkvæmt þessum mælingum.

aa_kirkjubaejar.jpg

 


mbl.is Talið hafa náð ákveðnu hámarki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hernaði eru engir góðir eða vondir

Sú hugmyndafræði er ekki ný að leyfilegt sé að fórna almennum borgurum í þágu einhvers málstaðar. Hún byggist hvorki á upplýsingu né þröngsýni heldur á því einu að að skapa ótta meðal fólks, draga úr virkni samfélags og ná athygli fjölmiðla. Hið síðarnefnda er auðvitað nýrra en hitt.

Það heyrir til undantekninga ef hernaður sneiðir hjá borgaralegum hagsmunum. Hann gerir sjaldnast greinarmun á skotmörkum þar sem almenningur lifir og býr og þeim hernaðarlegu. Í nútíma hernaði er allt leyfilegt. Þess vegna er málstaður þeirra sem berjast ekki svartur og hvítur heldur grár út í geng. Og engu máli skiptir þó guð  sé sóttur til að blessa aðgerðirnar.

Hvaða maður getur sætt sig við hernað Ísraelsmanna gegn Palsetínumönnum. Hver er sáttur við hernað Palestínumanna gagnvart Ísraelsmönnum? Hverjir eru góðu mennirnir í Írak og herjir eru þeir vondu? Í Afganistan eru heimili almennings sprengd í loft upp m.a. vegna þess að þar felur hitt liðið sig að öllu jöfnu. Og oftar en ekki sleppa þeir en saklaust fólk deyr.

Hverjir voru í góða liðinu í borgarastyrjöldinni síðustu á Balkanskaga? Voru einhverjir góðir, voru ekki allir mismunandi vondir? Fólk var rekið í fangabúðir, konum nauðgað og körlum misþyrmt. Er í sjálfu sér einhver munur á því að nauðga einnig konu eða þúsund, drepa einn mann eða þúsund?

Allt þetta leiðir svo hugan að framsetningu fjölmiðla á atburðum. !8 manns dóu, 42 slösuðust í bílsprengingu í Bagdad. Steríliseruð frétt, eins af þúsund eða milljón. Hverjir? Þessi 0,5% jarðarbúa sem geta ekki verið til friðs gagnvart hinum 99,5% sem þrá ekkert annað en að fá að vera í friði með sig og fjölskyldu sína.

Ætti maður ekki að kíkja núna Kringluna og kanna hvort þar séu einhver tilboð í gangi? 


mbl.is 18 féllu í Bagdad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setur ríkið upp skjaldborg fjármálafyrirtækja?

Bankarnir eru ekki ríkisstofnanir þó þeir virðist engu að síður vera það. Þeir hafa verið einkavæddir og eru eiginlega einkareknir af ríkinu ... Fjármálafyrirtæki í eigu bankana eru ekki heldur á framfæri ríkisins.

Svo virðist sem ríkisstjórnin haldi að hagsmunir þjóðarinnar byggist á því að eitthvað þurfi að koma í staðinn fyrir dóma hæstaréttar um ólögmæta gengistryggingu lána.

Slíkt er algjör misskilningur. Ríkisvaldið á ekki að bregðast á neinn hátt við þessum dómum nema ef fjármálafyrirtækin ætli sér að komast undan honum á þann hátt sem þau gerðu nú í vor, þ.e. að verðtryggja lánin á annan hátt en að tengja þau erlendum gjaldmiðlum.

Almenningur bíður nú á milli vonar og ótta um að ríkisstjórnin grípi til aðgerða sem rétti hlut fjármálafyrirtækjanna, að skjaldborgin um þessi fyrirtæki verði raunhæfari og markvissari en sú um heimilin í landinu.

Það er nú einu sinni ljóst að við bankahrunið bjargaðist ekkert fátt annað en skuldir heimilanna. 


mbl.is Bíða enn í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er skjálftavirknig og órói í Mýrdalsjökli?

dsc_0259.jpg

Enn er hiti í gígnum í Eyjafjallajökli og ekki virðist gosinu algjörlega lokið. Grunnir jarðskjálftar mælast við toppgíginn nær daglega og á óróamælum er örlítil hreyfing með þeirri undantekningu að sveiflurnar eru langmestar á mælinum við Láguhvola, austan Mýrdalsjökuls. 

Einhvern tímann eftir gosið á Fimmvörðuhálsi bloggaði virtur jarðfræðingur á þá leið er hann sá að upptök nokkurra skjálfta voru í Mýrdalsjökli að nú væri hugsanlega líf að færast í Kötlu. Hvað myndi hann nú segja ef hann mætti mæla fyrir sjálfskipaðri ritskoðun?

Skjálftunum í Mýrdalsjökli hefur fjölgað að mun síðustu vikur og það vekur alltaf grundsemdir leikmanna sem auðvitað hafa ekki hundsvit á tækjum jarðfræðinganna.

Hvaða ályktun má draga af aukinni skjálftavirkni í Mýrdalsjökli? Hvað þýða sveiflurnar í óróamælinum á Láguhvolum, sem vart mælast annars staðar í kringum tvíjökulinn? Er skjálftavirkni og órói í Mýrdalsjökli sem ástæða er til að hafa áhyggjur af?

Auðvitað hef ég ekkert fyrir mér í þessum efnum annað en draumfarir spakra kvenna sem lifa við sultarmörk á atvinnuleysisbótum og annarra forvitra ...

Meðfylgjandi mynd er af eldfjöllunum á Fimmvörðuhálsi, Magni er fjær, Móði er nær. 


mbl.is Vatnsborð gígsins er sjóðandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi - myndir

dsc_0085.jpg

Nú hafa orðið slíkar breytingar á Fimmvörðuhálsi og Eyjafjallajökli að það er engu líkar en allt sem maður hefur hingað til upplifað sé bara einn stór misskilningur.

Var jökull þar sem á kortum er sagður vera Eyjafjallajökull? Þar er allt svart og varla frekar í ljósan díl að sjá frekar en á Skarðsheiði um sumarmál eða á Vatnsdalsfjalli um sláttinn.

Eyjafjallajökull var sagður virkt eldfjall en það var líklega bölvuð vitleysa enda hafði enginn séð þar eldgos, - jæja, fyrr en hann gaus ...

dsc_0050.jpg

Og Fimmvörðuhálsinn var þakinn sísnævi sem forðum var nefndur Lágjökull, og þar stóðu upp úr tindar og hnúkar sem merki um forna eldvirkni.

Aldrei fyrr hefur nokkur lifandi maður séð eld á Hálsinum og ekkert segir í annálum eða fornum draugasögum um eldgos.

Hins vegar er að finna á Hálsinum fimm fornlegar vörður við litla fellið sem við höfum leyft okkur að kalla Fimmvörðufell og það án leyfis Örnefnanefndar.

Og ekki lýgur Þórður í Skógum sem segir að frá fornu fari hafi menn jafnvel rekið fé yfir Hálsinn til að koma því í sælureitina norðan við hann.

dsc_0058.jpg

Ég hef tvisvar farið upp á Fimmvörðuháls frá því 22. maí. Gengið einu sinni yfir, frá Skógum og í Bása. 

Um síðustu helgi, 12. júní fór ég upp á Háls á jeppa upp með framkvæmdastjóra Útivistar og fleirum til að finna færa gönguleið yfir nýja hraunið. Við ókum rétt upp fyrir Fúkka, sem flestir þekkja. Þangað er nokkuð torleiði, fyrst og fremst fyrir ofan vað.

Nýja hraunið á Hálsinum er mjög torfarið. Það er ójafnt og grjótið óstöðugt. Það má því heita leggjarbrjótur.

Við fundum samt góða leið og þarf nú ekki lengur að troða hraunið. Ég ætla að bíða með að segja frá gönguleiðinni en birti þess í stað myndir af svæðinu.

Ég veit að heitasta ósk margra er að ganga upp á eldfellin tvö. Ástæða er að vara við því.

dsc_0094.jpg

Bæði er að hraunið og gjóskan í fjallinu er mjög óstöðugt. Víða eru sprungur og gjótur sem geta verið hættulegar.

Mér finnst ekki ólíklegt að fjöllin eigi eftir að breyta talsvert um svip á næstu árum. Raunar sé ég mun á ljósmyndum af fjallinu sem ég tók með þriggja vikna millibili.

Hin ástæðan fyrir því að ég vara við ferðum á fjöllin eru þessar fallegu útfellingar sem víða er að sjá og einnig skrýtin, gráleit „skurn“ sem hylur þau að hluta til. Ég kann ekki að útskýra „skurnina“ neitt frekar en bendi á að hún er víðast þar sem mikill hiti er undir og undir skurinni er smágerð rauðamöl.

dsc_0167.jpg

Það er engin ástæða til að troða á henni og skemma, betra að horfa á hana tilsýndar.

Ýmislegt þarf að gera á Fimmvörðuhálsi. einna helst þarf að setja upp varúðarskilti svo fólk fari sér ekki að voða inni á gígasvæðinu.

Einnig væri tilvalið að setja upp upplýsingaskilti á Bröttufannarfelli þar sem sér yfir til beggja eldfellanna. Á þeim ætti að vera fróðleikur um þau, til dæmis stærð, eðli eldgíganna, stærð hraunsins og svo framvegis.

dsc_0193.jpg

Myndirnar

Efsta myndin er nokkuð sérstök. Hún er af stórum kletti í miðju hrauninu, nokkuð neðarlega. Í hrauninu er enn mikill hiti og einhverjar útfellingar fylgja hitaútstreyminu og falla á grjótið. Liturinn er ekta gulur. Grái liturinn er aska úr Eyjafjallajökli.

Á mynd nr. 2 er hrauntröð eða hraunrenna. Þarna hefur myndast einhvers konar renna, hraunið hefur kólnað til beggja hliða en nægur hiti hefur verið í miðjunni til að það hefur runnið nokkra vegalengd.

Mynd nr. 3: Hraunið er furðulegt. Á einum stað hefur það runnið yfir snjó án þess að bræða hann allan. Og undir snjónum er lítill hellir, nógu stór til að hægt sé að skríða inn í hann. Ekki hafði ég áhuga á að kanna lengd hans, fannst tilgangslítið að uppgötva hana en fá í staðinn nokkur tonn í hrygginn. Lái mér hver sem vill.

Mynd nr. 4 er af hitablettum í hrauninu. Þeir þekkjast á litnum og útfellingunum. Þetta er í raun stórkostleg sjón í miðri svart-hvítri sviðsmynd.

dsc_0211.jpg

Mynd nr. 5: Þarna eru göngufélagar mínir komnir á hraunið skammt frá gígfellinu sem Örnefnanefnd vill að heiti Móði en ég vil nefna eftir fjármálaráðherranum. En það er nú önnur saga þó fróðleg sé. 

Mynd nr. 6: Hér erum við komin inn í Móða eða Steingrím. Síðasta eldvirknin í gígnum hefur áreiðanlega verið í strýtunni sem ber í fólkið.

dsc_0247.jpg

Ég gekk auðvitað að henni og kíkti inn í sprungu sem liggur yfir hana endilanga. Mér brá því við mér blasti gímald og ljóst að ég stóð á ansi hreint veiku hrauni sem gat þá og þegar hrunið.

Þarna er brýnt að fólk fari afar varlega og raunar hætti sér ekki inn í gíginn. Allt er svo ótraust og varhugavert (það er í raun ástæðan fyrir því að ég vil nefna eldfellið eftir fjármálaráðherranum).

dsc_0347.jpg

Mynd nr. 6 er af gríðarlegu jarðfalli í minni gígnum, Móða/Steingrími. Mér sýnist að þetta sé ekki gígur heldur sé hann aðeins neðar. Hugsanlega hefur kvika tæmst innan í gígnum og valdið þessu hruni. Og það sem meira er, fleiri loft geta verið á þessum slóðum sem geta hrunið á óheppilegustu stundu.

Mynd nr. 6 er einstaklega áhugaverð þó svo að skilningur minn á jarðfræði sé afar takmarkaður. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þarna er eitthvað afar merkilegt.

Hér á undan hef ég nefnt „skurnina“ sem liggur víða á eldfjöllunum tveim og umhverfi þeirra. Þarna sést hún greinileg og undir er smágerð rauðamöl. Mér fróðari menn eru vísir til að skýra þessa mynd sem og aðrar fyrir mér og lesendum. Myndin er tekin ofarlega í minni eldfellinu. 

Mynd nr. 7 er af einhvers konar brennisteinsútfellingum á stóra eldfellinu sem Örnefnastofnum vill að heiti Magni en ég vil nefna eftir forsætisráðherr þjóðarinnar af auðskiljanlegum ástæðum, en það er nú önnur saga.

dsc_0416.jpg

Litirnir eru hreint ótrúlegir og auðvitað magnast þeir upp í umhverfinu sem eiginlega er bara svart. 

Mynd nr. 8 er tekin efst af Magna/Jóhönnu. Mér þykir það ákaflega leitt að segja frá því að ég gekk á fjallið. Ég veit það núna að ég hefði ekki átt að gera það og enginn ætti að ganga þangað upp af þeim ástæðum sem ég rakti hér að undan.

Aðalmálið er að mikil umferð fólks mun skemma „áferð“ fjallsins ef ég má taka svo til orða. „Skurnin“ mun brotna og það veðrast mun fyrr en ella.

Ég vil höfða til skynsemi fólks og þeirra tilfinningar sem fólk á að bera í brjósti til landsins. Ekki troða niður fallegar náttúruminjar vegna hégómlegrar tilfinningar. Það er ekki þess virði að hafa gengið á fjallið en um leið eyðilagt það sem þar er að sjá. Ég sé hrikalega eftir því að hafa gengið þarna upp.

dsc_0434.jpg

Mynd nr. 9: Um leið og ég skrifa þetta birti ég enn eina mynd af toppi stærra eldfellsins (hér til hægri). Sú mynd hefur allt annað yfirbragð en sú hér á undan. Litirnir eru aðrir, grænir og gulir, og í baksýn er sem fyrr svartur Hálsinn.

Mynd nr. 10: Hér sést slóð niður af öxl, austan við stóra eldfellið. Efst rýkur gufa úr slóðinni og þar var engin gufa fyrir. Greinilegt að mikill hiti er undir.

dsc_0441.jpg

Mynd nr. 11: Og loks er hér mynd af Magna, stóra eldgígnum á Fimmvörðuhálsi. Þarna hefur úfið hraunið skriðið sunnan með fjallinu og ef það hefði haldið áfram hefði það tekið á rás ofan í Suður-Hvannárgil. 

Takið eftir gráu flekkunum í fjallinu. Þeir eru þessi umrædda „skurn“ sem ég hef svo oft nefnt. 

dsc_0506.jpg

 Til samanburðar birti ég 12 myndina. Hún var tekin 22. maí. Að vísu ekki nákvæmlega á sama stað. Ef þær eru stækkaðar, tvísmellt á þær, má sjá að á þeim er nokkur munur. Talsvert hefur til dæmis hrunið úr fjallinu.

dsc_0861.jpg

Mynd nr. 13 er líka tekin þann 22. maí. Ég birti hana bara vegna þess að mér þykir hún falleg. Hún er tekin um miðnætti. Horft er til vesturs yfir gufuna sem leggur upp úr hrauninu og í fjarska eru gráar hlíðar Eyjafjallajökuls. Doldið svona „mystisk“ mynd, ekki satt?

dsc_0864_1001049.jpg

Síðasta myndin, sú nr. 14 er af göngufólki sem veður blauta öskuna á Fimmvörðuhálsi. Ef til vill á ég eftir að birta fleiri myndir af öskulögum á Hálsinum. Þær eru ekkert verri en önnur lög ...

dsc_0525_1001052.jpg

Og nú er nóg komið í bili 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Líklega slakað á lokun í Þórsmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö úrkulnuð eldfjöll, Jóhanna og Steingrímur

dsc_0171.jpg

Magni og Móði eru kolómöguleg nöfn á þessi fjöll. Ég ætla að kalla þau héðan í frá Steingrím og Jóhönnu. Ástæðan er einföld. Fjöllin eru ný. Þau komu upp úr skammvinnu eldgosi sem talið var að gæti enst árum saman. Þau voru flott en þeim entist ekki örendið. Þau lofuðu góðu en stóðu ekki við neitt. Það flottasta við eldfjöllin voru hraunframleiðslan sem gerði þó ekkert annað en að falla ofan í þröng gil, mikið sjónarspil meðan fossarnir glóðu en svo ekkert meir.

Himinháir gufubólstrar voru einkennandi fyrir eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Þó var ekkert að gerast þegar þeir risu sem hæst. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra tala þessa dagana um 50 úrræði fyrir skuldug heimili. Þau rísa hæst í mælskulistinni en framkvæmdirnar eru lítils virði.

dsc_0507.jpg

Nú eru 16. 000 mans atvinnulaus á landinu, verðbólgan nálgast tuginn, bankarnir hafa verið einkavæddir á ný og eigendum þeirra er fjandans sama um íslenska þjóð, þeirra markmið er að fá sem mest upp í skuldir, viðskiptalíf landsins er í molum, íbúðir seljast ekki ...

Á Fimmvörðuhálsi standa þessar tvær þúfur. Þær eiga eftir að breyast mjög mikið, úr þeim hrynur stöðugt að, sprungur myndast, jarðföll verða til og vindar feykja gjóskunni og hún kaffærir nánasta umhverfi.

Í stjórnarráðinu eru Steingrímur og Jóhanna gjörsamlega einangruð og hafa greinilega ekki nokkurn grun um hvernig komið er fyrir þjóðini. Þau gusu áður miklum himnamigum en eru nú úrkulnuð.

Myndirnar tók ég um síðustu helgi af eldfjöllunum tveimur á Fimmvörðuhálsi. Á þeirri efri er Jóhanna til vinstri, þ.e. eldra fjallið og Steingrímur því til hægri. 

Á neðri myndinni er Jóhanna í öllu sínu veldi. Rétt eins og nafna hennar gufar örlítið upp af henni en að öðru leyti er hún úrkulnuð. 


mbl.is Magni og Móði skulu fjöllin heita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppboð, atvinnuleysi, skattahækkanir ...

Allt horfir í sömu átt. Heimilin standa frammi fyrir nauðungaruppoð og atvinnuleysi. Nú þarf fólk að hrökklast af atvinnuleysisbótum, ekki af því að það vill ekki vinna heldur vegna þess að enga vinnu er að fá.

Ríkisstjórnin ætlar að „fylla upp í fjárlagagat“ eins og það er kallað upp á 50 milljarða króna. Stofnunum og fyrirtækjum ríkisins verður gert að spara og svo illa eru flestar stofnanir á vegi staddar að það eina sem þær geta gert er að segja upp fólki.

Fjármálaráðherra segir að tvær leiðir séu færar, skattahækkanir og draga saman í rekstri. Honum getur ekki verið sama um atvinnuleysi fólks. Það getur ekki verið.

Hins vegar er fjármálaráðherra ekki nógu víðsýnn. Hann telur útilokað að breikka skattgrunn ríkissjóðs með því að hvetja til aukinnar veltu. Í raun er það síðarnefnda vænsti kosturinn. Það verður innspýting úr ríkissjóði í hagkerfið og það skilar sér hratt aftur í aukinni veltu fyrirtækja og almennings sem aftur leiðir til betri kjara og lægra atvinnuleysis.


mbl.is Brátt hverfa bæturnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ertu hættur að berja konuna þína?

Árni Þór Sigurðsson, varaforseti Alþingis, ver flokksbróður sinn. Hann, eins og þessi makalausi Björn Valur Gíslason, er einn af þeim sem telur í lagi að skjóta og spyrja svo. Berjum á þessum andskotans Sjálfstæðismönnum.

Let the bastards deny it, sagði hinn alræmdi forseti Barnaríkjanna, Ricchard M. Nixon.

Ertu hættur að berja konuna þína? Hvað gerðiru við kúlulánið þitt? Ertu ekki á launaskrá hjá Mishcon de Reya?

Ef rökræðan á Alþingi á að leiðast út í persónulegar skotgrafir þá er eins gott að fjölskyldurnar í landinu, sem sjá fram á að íbúðir fari á uppboð á næstunni, hætti þessu strögli og flytjist úr landi. Það verður hvort eð er ekkert gert.

Stutt er nú eftir af þingi. Ef tími þingsins fer í eitthvað annað en atvinnumál eða skuldavanda heimilanna þá er lítið í það spunnið


mbl.is Þurfti að biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband