Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Svaðbælisá flytur mest allra

100520_leifi_hlaup2_998966.jpg

Einkennilegt er það með Svaðbælisá hversu vel hún flytur ösku ofan af jökli. Þetta er í raun í þriðja sinn sem mikið flóð kemur í hana. Fyrst gerðist það þegar hún flutti bráðvatn og ösku í upphafi goss í Eyjafjallajökli. Síðar rigndi og þá tók hún vel við sér þegar öskuþekjur runnu til á jöklinum og hluti af þeim rötuðu í ána. Og nú kemur hin langþráða rignin enn á ný.

Segja má að Svaðbælisá flytji lagerinn af jökuli og niður á láglendi og út í sjó. Verst að nú spillast ræktuð lönd á Þorvaldseyri.

Ekki nokkur á undir Eyjafjöllum virðist flytja janfmikið magn og Svaðbælisá. 

Meðfylgjandi mynd tók Leifi, bróðir Ólafs á Þorvaldseyri. Þarna sést leirinn sem Svaðbælisá flutti með sér í upphafi goss. Sjá nánar á myndasíðu Leifa, http://www.flickr.com/photos/leifi/sets/72157623874162612/.


mbl.is Suðurlandsvegur slapp naumlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilin í stórvanda þrátt fyrir 50 úrræði Jóhönnu

Hvernig er þetta með heimilin í landinu? Geta þau bara ekki notað eitthvert af þeim 50 úrræðum sem ríkisstjórn hinna vinnandi stétta, heimila í landinu, ungmenna og menntunar, hefur fattað upp á?

Jóhanna Sigurðardóttir segir aðríkisstjórnin hafi verið í rúmt ár önnum kafin að finna upp úrræði fyrir skuldsettu heimilin. Fjármálaráðherra hefur sagt það sama. Baráttujaxlinn sem stökk inn í búsáhaldabyltinguna úr Háskólanum og er núna viðskiptaráðherra segir glaður í lund, eins og hann er vanur, að ríkisstjórnin leysi nú vanda allra.

Hvernig stendur þá á því að Hagsmunasamtök heimilanna kvarta? Hvernig stendur á því að öll rauðu ljósin loga og fjórðungur þjóðarinnar eigi í vanda?

Getur nokkuð verið að ríkisstjórnin hafi verið upptekin við önnur verkefni en að aðstoða heimilin í landinu?

Að minnsta kosti er verbólgan óþolandi há, 16.000 manns eru atvinnulausir, bankarnir liggja á lánsfé, fasteignamarkaðurinn er hruninn, bílamarkaðurinn er ónýtur ...


mbl.is Sökkva í skuldafen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandsiglingar geta ekki keppt við vegina

Vel getur verið að strandsiglingar við Ísland séu hagkvæmar. Ótrúlegt að enginn skuli hafa fattað upp á þeim. Hvorki skipafélög né önnur fyrirtæki eða einstaklingar. Gæti verið að þær geti ekki keppt við flutninga á vegum?

Hins vegar er ég handviss um að strandsiglingar gætu borið sig myndi ríkið borga með hverju tonni, hverri sigldri sjómílu eða bara borgað þann hluta af siglingunni sem viðskiptavinirnir munu ekki vilja borga.

Grínlaust er staðreynd málsins þessi: Ef strandsiglingar geta verið áhugaverður kostur þá hljóta þær að höfða til skipafélagana. Einhver ástæða er fyrir því að þau virðast ekki hafa áhuga á þessum viðskiptum.

 


mbl.is Strandsiglingar álitlegur kostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessi heimili voru blönk fyrir, segir forsætisráðherra

Við erum búin að klára fimmtíu verkefni fyrir heimilin í landinu, segir forsætisráðherrann, og segir líklega satt og rétt frá í þetta sinn.

Hvernig stendur þá á því að fleiri og fleiri fara undir hamarinn? spyr einhver. Og ekki stendur á svarinu hjá forsætisráðherra og fjármálaráðherra tekur undir. Jú, sko, það voru svo mörg heimili sem stóðu höllum fæti fyrir hrun ...

Það er einmitt það, hugsar sá næsti í röðinni. Þar sem staða mín er einhverjum öðrum að kenna kemur vandinn minn ríkisstjórninni ekkert við.

Er einhverja hjálp að fá ef maður gerðist nú félagi í Samfylkingunni eða VG bjarga einhverju? 

Nei, nei, nei ... Vatnið er ekki sjóðandi. Það er bara 70 gráðu heitt og brennir alls ekki eins og sjóðandi vatn. Við höfum gert svo mikið til að lækka það úr suðumarki. Þetta hljóta allir að sjá.

Forsætisráðherra grætur yfir því að gerður er aðsúgur að henni á þingi fyrir að hafa skrökvað að þingi og þjóð. Hún má ekkert vera að þessu hún og hinir ráðherrarnir eru að vinna svo óskaplega margt fyrir heimilin í landinu, að vísu ekki þau sem eru á leið undir hamarinn. 


mbl.is Fimmfalt fleiri undir hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakannanir eru aldrei réttar

Skoðanakannanir eru aldrei réttar. Þær sýna einungis vilja ákveðins hluta fólks á þeim degi eða dögum sem þær eru gerðar. Séu litlar eða engar breytingar á úrslitum kosninga frá því skoðanakönnun var gerð þá telst það tilviljun. Þar af leiðandi er eðlilegt að segja að skoðanakönnun endurspegli úrslit en ekki að þær séu réttar.

Fyrir nokkrum árum hreykti fjölmiðill sér sífellt af því að vera með „réttar“ skoðanakannanir. Þeir sem stóðu að þeim könnunum skildu ekki eða sniðgengu eðli skoðanakannana.

Ótal dæmi eru til, bæði hérlendis og erlendis, um að skoðanakannanir gefi ekki þá mynd af vilja kjósenda sem fæst á kjördegi. Þess vegna eru skoðanakannanir varhugaverðar og eiga ekki endilega að ráða ákvörðunum stjórnmálamanna. Þó eru þeir stjórnmálamenn til sem hafa þá stefnu eina sem endurspeglast í skoðanakönnunum. Þeir telja það tryggara til vinsælda. Jafnvel er til stjórnmálaflokkur sem segist fara að vilja kjósenda. Sá blaktir eins og strá í vindi. á slíkum er ekkert að byggja

Er ekki nær að byggja á pólitískri stefnu, vinna henni fylgis, sætta sig við að hún sé undir um tíma í þeirri von að það breytist? Meirihluti þjóðar er sjaldnast ein og hinn sami um langan tíma. Hann breytist eins og allt annað og áhrifavaldarnir eru ótalmargir. 


mbl.is Skoðanakönnun reyndist sannspá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg ávirðing á þingmannanefndina

Niðurstaða saksóknara er tvímálalaust alvarleg ávirðing á þingmannanefndina. Hún hefur lesið rangt úr rannsóknarskýrslunni og látið ráðast af öðrum forsendum en þeim málaefnalegu. Við slíkt er ekki hægt að una og þar af leiðandi á nefndin að segja af sér áður en hún lætur hafa sig út í frekari tilraunastarfsemi á grundvelli skýrslunnar.

Allir sem komu nálægt stjórn landsins á þessum tíma standa höllum fæti í almenningsálitinu. Það er skiljanlegt. Hins vegar eru það ólög ef saksækja á eintaklinga á grundvelli einhvers annars en sem lögin herma. Hér á ekki að stunda saksókn byggða á hefnd heldur á þeim lögum sem í gildi eru og raunverulega taka yfir álitaefnið. Þar hefur þingmannanefndin brugðist.


mbl.is Ekki tilefni til rannsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er askan meiri í Þórsmörk en Goðalandi

dsc_0061.jpgMér finnst ótrúlegt að staðan í Þórsmörk sem svona mikið önnur en í Goðalandi, sunnan Krossár. Hef komið í Bása tvisvar eftir að gosi lauk og finnst gróðurinn eiga ágætlega uppdráttar þrátt fyrir ösku.

Askan er að vísum mikil á Krossáreyrum og eykst eftir því sem utar er komið. Þannig er gríðarlega mikil aska í Steinsholti Merkurrana og svo í kringum Gígjökul og þar utar.

Auðvitað er mikil aska víða á láglendi en varla meira en svona rúmur sentimetri í Básum. Hugsanlega hefur hvassviðrið hreift talsvert við öskunni þessum slóðum síðan ég var þarna fyrir um átta dögum.

Tvær efstu myndir eru teknar í Básum. Þriðja myndin er af Langadal, sú fjórða er af Merkurrana og loks sú fimmta af skiltinu sem vísar veginn í Húsadal.

dsc_0093_997940.jpg

 

dsc_0122_997941.jpg

 

 

 

 

 

 

 

dsc_0163.jpg

 

dsc_0166_997943.jpg


mbl.is Áfall að sjá ástand Þórsmerkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tólf gosstrókar á landinu ...

100605_gosoroi.jpgMælarnir sýna svo sem ekki neitt. Þetta er bara smá viðrekstur sem hugsanlega bendir til að engar alvarlegar innantökur séu í eldstöðinni sjálfri.

Jarðfræðingar eru hins vegar sparir á stóru orðin, segja hvorki af né á með framhaldið. Það er svosem skiljanlegt. Það væri meiri skelfingin ef einhver lýsti yfir goslokum og svo færi allt af stað aftur. Betra er að hafa vaðið fyrir neðan sig og segja ekki neitt en viðhafa gáfulegan svip, rétt eins og maður vissi nú meira en upp er gefið.

Ég veit ekkert nema að meðfylgjandi gosórárit frá Veðurstofunni, það er næstum því steindautt.

Og þó, mig dreymdi um daginn að ég sæi tólf gosstróka eða mekki upp úr landinu og sagði „Vá“ upp úr svefni og hef líklega meint það. 

Móðir mín heitin var sögð geta ráðið drauma. Hún hefði að venju sagt þennan vera fyrir enn einum snjóavetrinum. 


mbl.is Óróinn hélt áfram í morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrar seðlabankastjóri okkur

Auðvitað er það til of mikils mælst að embættismaður greini frá starfskjörum sínum. Skárra væri það nú. Þaðan af síður er ástæða til að gefa upp hver réði hann. 

Ekki tíðkast á þessum síðustu og verstu tímum að veita gagnmerkar upplýsingar. Við vitum til dæmis ekkert hvernig veðrið verður næstu viku, veðurfræðingar gefa það ekki út nema í véfréttastíl.

Við vitum ekkert hvort gosinu í Eyjafjallajökli sé lokið. Jarðfræðingar slá í og úr með það rétt eins og þeir séu í fyndna framboðinu.

Við vitum ekki einu sinni hvernig borginni verður næstu fjögur árin. Nýi borgarstjórinn og nýi forsetisformaður borgarbæjarstjórnar eru búnir að tjá sig skilmerkilega um það, en enginn er nokkru nær nema að engum á að leiðast. Ágætt er að geta skemmt sér í blankheitunum.

Og meðan allir skemmta sér í uppistandi leiðist forsætisráðherra og seðlabankastjóra óskaplega þessi hnýsni um launakjör þess síðarnefnda. Það er líklega verið að gnarra þau. Eða eru þau að gnarra okkur hin.


mbl.is Engu nær eftir fund með Má
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gervitunglamyndin sýnir öskubelginn

meris201006041152.jpg

Ég ók suður í dag og þegar ég kom framhjá Hafnarfjalli tók ég eftir þessum svarta skýjabakka sem út úr öllum Hvalfirði og nærri tók að sér Akrafjall. Þetta var öskubelgur sem byrgði alla sýn á suðvesturlandi. Yfir Vesturlandi var himinninn heiður og blár, hiti og Borgarfjörðurinn brosti.

Reykjavík var ekki sjáanleg frá Akrafjalli og óglögg frá Kjalarnesi. 

Á meðfylgjandi gervitunglamynd má sjá hvernig landið okkar leit út um hádegi föstudaginn 4. júní. Austan eða suðaustanáttin ráðandi.

Ég er búinn að skoða mig nokkuð vel um eftir gos í kringum Eyjafjallajökul. Askan er gríðarleg. Hún sést á sjálfum jöklinum, Vestur-Eyjafjöllum, Austur-Eyjafjöllum, Fimmvörðuhálsi, Markarfljótsaurum, Þórsmörk, Goðalandi. Allur hringurinn er sem einn öskuhaugur.

Það er leiðinlegt að þurfa að spá slæmu sumri. Ekki veit ég heldur hvað gerist rigni ofan í öskuna. Hef enga trú á að hún breytist neitt eða hverfi við bleytuna. Eina vonin er líklega sú að annar og þyngri jarðvegur setjist á hana og dragi þannig úr möguleikum hennar til að rjúka við minnsta vind. Svo má alltaf búast við hvössum norðanáttum sem feyki öskunni hreinlega skemmstu leið á haf út. Það mun líklegast ekki hugnast íbúum undir Austur-Eyjafjöllum.


mbl.is „Versti dagurinn í dag“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband