Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
Ótrúlega líkir óróar 12. apríl og 6. maí
6.5.2010 | 20:38

Þann 12. apríl var Eldgosinu á Fimmvörðuhálsi lokið. Síðan þá er óróamælingin frá Goðabungu hér til vinstri.
Á henni sést hvernig sveiflurnar hjaðna niður í nokkuð flatar línur. Ég skrifaði pistil um óróamælinguna þennan sama dag og af vanþekkingu minni hélt ég að sveiflurnar væru eingöngu vegna gossins á Hálsinum og flatinn væri merki um að gosinu væri lokið.
Til samanburðar er hér óróamæling frá því fyrr í dag, 6. maí. Nú velti ég því fyrir mér hvort eitthvað sé líkt með þessum tveimur mælingum.

Getur til dæmis verið að hægri hluti sveiflanna í mælingunni frá því 12. apríl eigi við innantökur undir Eyjafjallajökli á þeim tíma og þær hafi verið fyrirboði um gosið sem hófst þar rétt fyrir miðnætti 13. apríl?
Samanburðurinn er óróamæling dagsins í dag. Þar falla sveiflurnar niður í nokkuð flatar línur eða virðast ætla að gera það.
Getur verið að óróinn hægra megin á þessum síðustu mælingum, þar sem risið er hæst, eigi að hluta til eða öllu leyti rót sína að rekja til kvikuinnskotsins sem sagt er að hafi bæst við í gær?
Nú hefur þetta kvikuinnskot valdið aukningu í eldgosinu og því verða engar sveilfur á óróamælingunum, flatinn hefst. Þetta gerðist líka þann 12. apríl, gosið var í þann mund að hefjast og sveiflurnar flöttust út.
Og nú væri gaman ef einhver jarðfræðingur nennti að svara og segja manni til.
![]() |
Búast má við töluverðu gjóskufalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Einföld og skiljanleg lýsing
6.5.2010 | 14:30
Grein Sigmundar Einarsonar er fróðleg, jafnvel fyrir leikmenn. Sérstaklega er ástæða til að hvetja fólk að lesa greinina í vef Nátúrufræðistofnunar.
Hún er afar skiljanleg þó það sé kannski aðeins fyrir jarðfræðinga að leggja dóm á trúverðugleikann.
Talflan sem Sigmundur birtir eru þó met. Af henni má skilja meginefni greinarinnar.
Allt á að hafa breyst eftir 1950 og hversu vitlaus sem maður er þá fer ekki hjá því að maður skilji svona einfalda framsetningu.
Í texta með töflunni segir:
Taflan sýnir eldgos á Suðurlandi, í Vestmannaeyjum og í Grímsvötnum á tímabilinu 1701 til 2010, skipt eftir aldarfjórðungum. Einnig eru sýnd hlaup úr Skaftárkötlum. Aðeins er sýnt upphafsár eldgosa þó sum þeirra hafi varað lengur. Merkjanleg breyting varð á hegðun sumra þessara eldstöðva nálægt miðri 20. öld og eru mörkin sýnd með litarbreytingu. Græni liturinn sýnir gos sem fylgja hegðun síðustu alda. Rauði liturinn sýnir gos sem víkja frá meginhegðun. Rauða línan markar árslok 1950. [Smellið á töflu til að stækka]
![]() |
Hjarðhegðun eldstöðva |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mjög lítið vatn undan Gígjökli
6.5.2010 | 08:57
Mjög lítið vatn kemur undan Gígjökli þessa stundina. Kannski mjög svipað og var fyrir gos. Meira að seggja Krossá virðist vera meiri á myndinni sem fengin er af vefmyndavél Vodafone.ast nú
Um tvö hundruð metrum fyrir ofan gljúfrið á miðri mynd er gufumokkur og þar er hraunið. Það er án efa seigfljótandi og fer sér því hægt.
Ástæðan fyrir vantsleysinu er eflaust sú að hraunið er búið að móta sér göng í gegnum jökulinn og safnast nú saman um miðbik Gígjökuls. Þar undir er frekar lítill bratti.
Þar skríður hraunið hægt og rólega fram á brún. Þegar þangað er komið má búast við fréttum. Þá mun það hrynja niður á ísinn fyrir neðan, brjóta hann upp og loks komast niður á árkeiluna sem þekur lónstæðið. Ef til vill gerist þetta á morgun eða laugardag. Veltur auðvitað á hraða hraunsins.
![]() |
Gosmökkurinn í 7 km hæð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vonbrigði að gosið haldi áfram
5.5.2010 | 14:34
Vísindamenn fullyrða nú að jarðskjálftar undanfarna tvo sólahringa stafi af kvikuinnskoti sem orðið hafi til á um 23 km dýpi undir Eyjafjallajökli. Skjálftarnir á mánudaginn áttu rætur sínar að rekja þetta djúpt í jörðu. Síðan hafa verið röð af miklu grynnri skjálftum.
Skilningur okkar leikmanna á þessum atburðum er frekar takmarkaður. En augljóslega var eitthvað að gerast með þessum staðbundnu jarðskjálftur og óróamælingarnar hafa eflaust bent til þess hins sama. Og nú hefur fengist skýring á öllu saman. Á vef Veðurstofunnar segir:
Nákvæm staðsetning skjálftanna sýnir að þeir fyrstu verða djúpt í jörðu, á um 23 km dýpi, en færast síðan upp. Þetta bendir að öllum líkindum til þess að ný kvika sé að þrýstast upp neðst í kvikurásinni og ýti við ofanáliggjandi kviku þannig að þrýstingsbreytingin færist upp að yfirborði. Því má búast við að gosið haldi áfram af fullum krafti næstu daga.

![]() |
Nýtt kvikuskot undir jöklinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Minni umferð, minni tekjur ríkissjóðs
5.5.2010 | 10:58
Með því að umferð minnkar hljóta tekjur ríkisins af eldsneyti sömuleiðis að minnka. Það hlýtur að skekkja niðurstöður fjárlaga og því er ekki um annað að gera en að hækka eldsneytisgjöld. Afleiðingin verður sennilega minni umferð og þar af leiðandi lægri tekjur ríkissjóðs.
Um leið og það kemur í ljós hlýtur ríkisstjórnin að setjast á rökstóla og niðurstaðan verður án ef sú að hækka beri eldsneytisgjald. Almenningur svara þeim leik ríkisstjórnarinnar með því að draga enn frekar úr akstri sínum.
Það mun koma ríkisstjórninni mjög á óvart enda bendir sú hagfræði sem ekki er kennd við kapítalisma eða glænýfrjálshyggju til þess að að því hærri skattar sem lagðir eru á þeim mun meiri tekjur komi í ríkissjóð. Fjármálaráðherra mun því leggja til að eldsneytisgjaldi verði breytt í umhverfisverndunareldsneytistakmörkunargjald og það verði talsvert hærra.
Rökstuðningurinn er sá sá að því fallegara og torkennilegra nafn sem gjaldið ber því meiri líkur eru á því að það skili meiri tekjum. Fjármálaráðherra til mikillar undrunar lækka enn tekjur ríkissjóðs en mest athygli ráðherrans fær sú staðreynd að fólk er ekki fífl ...
![]() |
Mjög hefur dregið úr umferð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Nennir Vegagerðin ekki að veita upplýsingar
5.5.2010 | 08:57
Samkvæmt frétt Morgunblaðins fór Vegagerð ríkisins inn að Gígjökli í gær til að kanna aðstæður. Í fréttinni er haft eftir Bjarna Finnssyni, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Vík að um einn km af veginum inn að Gígjökli hefði horfið. Það eru ótrúlegar fréttir ef sannar eru.
Ekkert er gert með þessar upplýsingar á vef Vegagerðarinnar. Gera mætti ráð fyrir því að gert hefði verið kort til að sýna hvar vegurinn er í sundur og það birt á vefnum og sent fjölmiðlum. Nei, Vegagerðin virðist ekki standa í miðlun upplýsinga.
Samkvæmt mínum heimildum komust fréttamenn í fyrradag ekki á bílum að Gígjökli heldur þurftu að ganga að minnst að kosti þrjá kílómetra.
Mikil bölvuð leiðindi eru þetta að Vegagerðin nennir ekki að veita óumbeðin upplýsingar um ástand vegarins inn að Gígjökli. Er þetta leti eða hugsunarleysi?
Meðan ekkert kemur áþreifanlegt frá Vegagerðinni geri ég ráð fyrir því að vegurinn frá Langanesi og inn að Gígjökli sé farinn. Þar háttar landi þannig að vegurinn var á Markarfljótsaurum enda nagaði fljótið hann reglulega. Á síðustu árum hafði varnargarður verið setur upp til að verja veginn.
Svo má auðvitað spyrja Vegagerðina hvaða vegabætur hún hafi hugsað sér að gera á Þórsmerkurvegi eftir að gosi lýkur.
![]() |
Enn mikil virkni í jöklinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hávær svefn á Ferðamálastofu ...
5.5.2010 | 08:19
Í upphafi goss á Fimmvörðuhálsi voru nokkrir ferðaþjónustuaðilar brugðust nokkri ferðaþjónustuaðlar skjótt við. Þeirra á meðal var Friðrik Pálsson, hótelhaldari á Rangá. Þeir fluttu inn fjölmiðlamenn frá Bretlandi til að sýna þeim gosið og sannna að ekkert væri að óttast fyrir ferðamenn. Síður en svo.
Á meðan svaf Ferðamálastofa. Ekkert hefur heyrst í henni. Ekkert heyrðist í Útflutningsráði, ekkert heyrðist í Utanríkisráðuneytinu. Þeir opinberu aðilar sem annast samræmingu á markaðsaðgerðum þjóðarinnar erlendis gerðu ekkert. Og sofa líklega enn. Háværum svefni
Þrátt fyrir Ferðamálaþing í gær hefur ferðamálastjóri ekki tekið neitt frumkvæði eins og sannarlega þessu embætti ber að gera. Í skýrslunni um bankahrunið kemur fram að fjölmargir embættismenn höfðu ekki heldur neitt frumkvæði þótt öll teikn um yfirvofandi hrun blöstu við þeim. Eldgosið í Eyjafjallajökli gæti orðið hrun ferðaþjónustunnar. Ekki þarf nein teikn þar sem eldgosið er í fullum gangi.
Sá mæti maður Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, sagði á bloggi sínu í gær:
Athygli alheims beindist nú að Íslandi sem aldrei fyrr í tengslum við gosið. Erlendir fjölmiðlar streymdu til landsins í leit að fréttum. Hver voru viðbrögðin hér heima? Ég var staðsettur suður í sveitum á þessum krítiska tíma og varð vitni af því þegar erlendir fréttamenn reyndu að safna einhverju efni tengdu gosinu á allan mögulegan máta. Fókus heimspressunnar var allur á Íslandi. Hér var besta tækifæri Íslands til að koma upplýsingum og áróðri um landið til alheims. En engin skipuleg fjölmiðlaveita var til. Hið opinbera og þar á meðal Iðnaðarráðuneytið, brást. Ísland missti af stærsta tækifærinu, sem hefði getað verið algjörlega ókeypis áróður um land og þjóð og lyftistöng fyrir ferðamál landsins. Einu upplýsingar til fjölmiðla virtust vera frá Almannavörnum, til dæmis um að stærsta samgönguleið landsins, Highway 1, væri rofinn í sundur, brúm lokað og hundruðir manna fluttir á brott. Auðvitað er það hlutverk Almannavarna að aðstoða og vernda gegn jarðvá, en það fór lítið fyrir tilkynningum eða fréttaveitu frá hinu opinbera varðandi það jákvæða, að nú væri búið að opna aftur.
![]() |
Hætta við kvikmyndatökur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Markaðsátak án markaðsáætlunar
4.5.2010 | 16:28
Alveg er þetta nú ofboðslega flott hjá ríkisstjórninni, hugsar lesandinn og hallar sér aftur í stólnum með kaffibollann. En hvorki honum né blaða- og fréttamönnum dettur í hug að spyrja mikilvægustu spurningana.
Til hvers á að nota þessa peninga? Hvers vegna tvisvar sinnum 350 milljónir króna? Er það nákvæmlega það fé sem dugar til að leiðrétta þá fækkun útlendra ferðamanna sem búist var við hingað til lands?
Eða er bara verið að klóra í bakkann?
Hvergi hefur komið fram nein markaðsáætlun. Engin sundurliðun hefur verið lögð fram á útgjaldaliðum átaksins, hvorki auglýsingum í fjölmiðlum, kynningarefni, netkynningu eða öðru. Ekkert.
Hvenig er þá hægt að hugsa upp og leggja fram 700 milljónir?
Á markaðsátakið að passa innan ramma fjárhæðarinnar eða hefur fjárhæðin verið sniðin um markaðsátakið?
Ég las fréttatilkynningu iðnaðarráðuneytisins sem er upp á tvær blaðsíðu og hefur þá háleitu fyrirsögn: Þjóðarátak um að bjóða fólk velkomið til Íslands. Þar segir ráðherrann:
Öllum Íslendingum, fyrirtækjum, einstaklingum, samtökum og hópum verður boðið að nota sér það auglýsinga- og kynningarefni sem framleitt verður og nýta í sínum tengslanetum og samskiptum til þess að bjóða fólk og ferðamenn velkomna til Íslands. Ég hvet alla sem vettlingi geta valdið að taka þátt í átakinu.
Þetta segir mér það eitt að ekkert er vitað hvernig ráðstafa eigi peningunum og fyrst var skoðað hversu mikið mætti kría út úr ríkissjóði og öðrum aðilum. Svo var haldinn fundur og gerð fréttatilkynning.
Og svo er það seinni blaðsíðan á fréttatilkynningunni. Hún er tóm. Ekkert er stafkrókur á henni nema skjaldarmerkið og heimilsfang ráðuneytisins. Í raun hefði hin blaðsíðan líka mátt vera tóm svo óskaplega mörgum spurningum er enn ósvarað um þetta markaðsátak og peningana.
![]() |
700 milljónir króna í markaðsátak |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18 jarðskjálftar á einum sólarhring
4.5.2010 | 13:09

Tvennt vekur athygli leikmannsins.
Skjálftarnir eiga rætur sínar í kringum eldstöðina. Eins og sjá má á kortinu eru þeir í nokkuð beinni línu frá Þórólfsfelli og yfir jökulinn.
Flestir eru hnappi í kringum toppgíg Eyjafjallajökuls og allt út á Markarfljótseyrar. Einnig hafa orðið skjálftar sunnan í jöklinum, langt niður fyrir syðsta gíginn, þann sem olli flóðinu í Svaðbælisá.
Hið seinna sem vekur athygli mína er að skjálftarnir koma í kippum ef svo má orða það.
Styrkurinn er svona frá 2 á Richter og upp í þrjá.
Allir eru skjálftarnir mjög djúpir, allt niður í 17 km. Í morgun koma svo grynnri skjálftar sem líklega er einhver kitlingur í kringum kvikuhólfið undir jöklinu, þ.e. milli eins og þriggja km djúpir.

og til að setja þetta allt í samhengi er hér þversnið sem Páll Einarsson jarðfræðingu hefur gert af undirdjúpum Kötlu og Eyjafjallajökuls.
Jarðskjálftarnir eru því mjög djúpir, miklu dýpri en kortið sýnir. Hins vegar má sjá að grunnu skjálftarnir eru greinilega í kringum kvikuhólfið.
Allt er þetta mjög athyglisvert og fróðlegt en það vantar niðurstöðuna. Hvers vegna í ósköpunum verða svona margir skjálftar. Hvað skýring er á þeim djúpu? er einhver skýring á þeim grunnu? Hvers vegna eru þeir í einum hnapp?
![]() |
Kolsvartur mökkur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Loksins tvær myndir frá Gígjökli
3.5.2010 | 18:21

Af hverju hefur ljósmyndurum dagblaðana ekki dottið í hug að fara inn að Gígjökli og taka nýjar myndir af hamförunum þar. Munurinn á mér og atvinnuljósmyndurum dagblaða er sá að ég fæ áreiðanlega ekki leyfi til að fara inn að Gígjökli til myndatöku en þeir gætu það auðveldlega.
Fréttamaður Rúv fékk leyfi í dag til að fara inneftir með vísindmönnum. Hún og félagar hennar lögðu á sig talsverða göngu til að ná góðum myndum sem hún lofar í sjöfréttum Sjónvarpsins.
Ég leyfði mér að hnupla tveimur myndum af vef Rúv. Þarna sér maður loksins annað sjónarhorn en hið flata frá vefmyndavélum á Þórólfsfelli.

Efri myndin er greinilega tekin mjög ofarlega á vestari jökulgarðinum við Gígjökul - eiginlega þar sem hæst er að komast án þess að fara í skriðurnar ofan við lónstæðið. Það væri nú glapræði eins og sakir standa
Gufan og úðinn er greinilegur á myndinni og fyrir neðan veltur bráðvatnið út úr gljúfrinu með látum. Svona sést ekki á vefmyndavélunum.
Neðri myndin er við skriðurnar og þar sést í efri hluta gljúfursins. Fyrir ofan það er myndarleg ísbrú og hvelfing þar undir. Enn ofar leggur gufu upp í gegnum strompa á jöklinum. kannski er hraunið komið þar sem efri gufumökkurinn er.
Meira kann ég nú ekki að greina þessar myndir. Held að þær hafi verið teknar á símamyndavél.
![]() |
Mikill og stöðugur órói |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |