Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Tveir flokkar veikja ríkisstjórnina

Einhver misskilningur er í ræðu forsætisráðherra. Báðir flokkarnir veikja þessa ríkisstjórn vegna þess að ráðherrar þeirra skortir frumkvæði og dug. Þessi eru vandamálin í dag og myndi nú hvert og eitt af þeim nægja til þess að krefjast afsagnar ríkisstjórnar:

 

  • Nærri 15.000 manns eru atvinnulausir á landinu 
  • Verðbólgan er nærri 10%
  • Bankar þjóðarinnar eru eigendur fjölda fyrirtækja og því í beinni samkeppni við einkarekin fyrirtæki
  • Orð og efndir ríkisstjórnarinnar eru sitthvað
  • Sagt er að leysa eigi skuldavanda heimilanna en um leið er lausnin efni til skattlagninga

 

 Er nokkur fuða þótt fólk sé orðið þreytt.


mbl.is Ósamstaða VG veikir stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fimmvörðuskáli varinn með járnplötum

tyrfingur_mynd_b.jpg

Félagar mínir í Útivist fóru í morgun í vinnuferð upp að Fimmvörðuskála. Þeir óku á nokkrum bílum upp frá Skógum með járnlötur sem ætlunin er að negla á Fimmvörðuskála til að hlífa honum við hraunslettum ef hið ótrúlega gerðist að gosið myndi færast í aukanna eða breytast á einhvern hátt.

Einn þeirra, Óli Þór Hilmarsson, hringdi í mig í morgun og sagði það hafa verið undarleg tilfinning að aka fram úr fjölda fólks á upphækkuðum bílum af fínustu sort og gerð.

Við vorum svona eins og útrásarvíkingarnir voru fyrir nokkrum árum, þeysandi um á dýru flottu bílunum meðan pöpullinn þurfti að láta sér nægja að ganga,“ sagði hann, og kvaðst skammast sín pínulítið. „En það leið fljótt hjá,“ bætti hann við. Þess má geta að hann ásamt fleirum úr þessum hópi hafa gengið upp á Fimmvörðuháls mjög oft og þekkja hann betur en flestir, jafnvel betur en ég.

Þetta er sami hópurinn og gekk upp úr Básum og á Hálsinn í gær. Þá voru þeir að kanna hvort aðstæður leyfðu að fólk færi þeim megin upp. Svo reyndist vissulega vera enda varla til betri staður að fylgjast með hamförunum, hraunfossinum og -fljótinu í Hrunárgili og Hvannárgili og ekki síður gosstöðvunum sjálfum þegar upp á Bröttufannarfjall er komið. Miklu skemmtilegra er að ganga upp úr Básum en frá Skógum. Það tekur skemmri tíma og ótalmargt að sjá tengt gosinu.

Og hvar varst þú? Af hverju ert þú ekki á Fimmvörðuhálsi? Þessar surningar dynja á mér

Skýringin er einföld. Ég ligg veikur í einhverjum flensuskít og hef gert frá því síðasta mánudag. Fjarri öllu góðu gamni, en er ákveðinn að vera búinn að ná heilsu eftir helgina og  þá ...

Meðfylgjandi mynd tók frændi minn Tyrfingur Kárason í vikunni af gosstöðvunum frá Fljótshlíðinni. Eiginlega er vonlaust að klúðra svona myndefni. 


mbl.is Betra að búa sig vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferð á Fimmvörðuháls, útbúnaður og föt

Tveir af reyndustu fararstjórum Útivistar við eldinn í dag

Það er ekkert að því að fólk gangi upp á Fimmvörðuháls frá Skógum. Hins vegar er nausðynlegt að göngumenn séu í þokkalegri þjálfun vegna þess að gangan upp getur tekið frá 4-6 klst. og aðeins skemur niður. Líklegt er því að ferðin í heild taki um 10 klst.

Sé hvasst, sækist gangan auðvitað hægar og blautur snjór er slæmur, eiginlega fráhvarfssök. Í kaldri norðanátt getur snjórinn þó verið vel harður og þá kemst maður hraðar yfir.

Mestu máli skiptir að vera vel klæddur, hafa föt tilvara og gott nesti. Hér er tillaga mín að útbúnaði í gönguferð á Fimmvörðuháls.

ÚTBÚNAÐUR

  • Bakpoki, dagspoki
  • Skíðagleraugu
  • Göngustafir
  • Kíkir
  • Gríma fyrir munn og nef
  • Einangrunardína eða motta

Á GÖNGU  

  • Belgvettlingar
  • Fingravettlingar
  • Göngubuxur (ekki gallabuxur
  • Húfa
  • Lambhúshetta
  • Legghlífar
  • Góð nærföt, ekki úr bómull
  • Gönguskór, háir, þykkur sóli
  • Sokkar, ekki bómull
  • Úlpa, vatnsheld, sem andar
  • Flíspeysa

 Í BAKPOKANUM

  • Utanyfirbuxur, vansheldar sem anda
  • Aukapeysa
  • Aukasokkar
  • Útvarp
  • Vasaljós
  • Hitbrúsi
  • 0,5 l plastflaska með vatni eða orkudrykk
  • GSM sími, víða er samband á Hálsinum
  • Myndavél

MATUR, t.d.:

  • Álegg
  • Brauð
  • Kakó/súpa
  • Kæfa
  • Kex
  • Súkkulaði

 Í BÍLNUM Á BAKALEIР

  • Aukabuxur
  • Gönguskór
  • Matur og drykkur
  • Sokkar 
Þetta er einungis til viðmiðunar. Þarfir fólks eru mismunandi ein einhvers staðar verður að byrja. Munum að betra er að vera með of mikið heldur en að vanta fatnað eða útbúnað á miðri leið. Þó er meðalvegurinn alltaf vandrataður, slæmt er að bera of þunga byrði. 

Reynsla mín og félaga minna er að suðaustanáttin er sú alversta á Fimmörðuhálsi. Sé spáin af því taginu er best að vera einhvers staðar víðs fjarri Hálsinum. Norðanáttin getur verið þung nái hún sér á strik en yfirleitt er hún bara góð, göngufærið verður betra eftir því sem kaldar er.

Myndin var tekin í dag og er af tveimur reyndustu farastjórum Útivistar, vinstra megin er Rerynir Þór Sigurðsson og við hlið hans Óli Þór Hilmarsson. 


mbl.is Krefjandi ganga að gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvart í beinni útsendingu

aa_kall.jpg

Mikið ansi var hann vörpulegur þessi gæi sem spókaði sig í langan tíma fyrir framan vefmyndavélar mílu og Vodafone á Þórólfsfelli. Þarna stóð hann í beinni útsendingu og skyggði á eldgosið án þess að gera sér nokkra grein fyrir stöðu sinni.

Minnir á brandarann um manni sem villtist í leikhúsi á miðri sýningu en hann var að leita að salerningu. Loksins kom hann að einhverjum gosbrunni og þar sem enginn var nálægt létti hann þar á sér. Þegar hann kom loks í sætið sitt var kunnuglegur gosbrunnur það fyrsta sem hann sá á sviðinu.


Um 200 m eftir ofan í Hvannárgil

26-3_kl_10.jpg

Breytingin sást á vefmyndavélum strax um miðnætti í gærkvöldi. Í morgun hefur mátt fylgjast með gríðarlegum gufumekkjum sem risið hafa öðru hverju vestan við Bröttufannarfell. Þeir stafa frá hraunstraumi sem stefnir að hömrunum ofan við Hvannárgil og bræðir forna snjóskafla sem eru á vegi hans.

Ætla má að nú séu um tvö hundruð metrar í brúnina.

Þetta er ástæðan fyrir því að í morgun óx vatn í Hvanná. Litlar líkur eru á að mikill vatnavöxtur verði aftur í ánni því frekar lítill snjór er á þeim slóðum sem hraunið rennur um og enginn snjór í Hvannárgili.

Framhaldið byggist svo á gígnum uppi á Fimmvörðuhálsi, hvort hann sé aflögufær með hraun til að senda vesturyfir.  


mbl.is Beinist að Hvannárgili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraun stefnir ofan í Hvannárgil

26-3_l_8_30_hraun_i_hvann.jpg

Á vefmyndavélum Vodafone og Mílu á Þórólfsfelli sést, rétt fyrir klukkan níu að morgni, að hraun er þegar farið að renna vestur úr gígnum og í áttina að Hvannárgili. Við þessu mátti búast.

Það var líklega rétt eftir miðnætti að bjarmi sást norðan og vestan við goshrúguna á Hálsinum. Það gat einungis bent til þess að hraunið hafi brotið sér nýja leið út úr gígnum. Hugsanlega er þetta ekki mikill hraunstraumur. Engu að síður er greinilegur gufumökkur þar sem hann bræðir snjóinn nokkuð hundruð metrum ofan við norðurhamra Hvannárgils.

Eflaust á þarna eftir að vera mikið sjónarspil þegar hraunmigan sáldrast niður í gilið og má eflaust kallast foss.

100325_kl_15_05_mila.jpg

Til samanburðar er svo mynd frá vefmyndavél Vodafone af gosstöðvunum eins og þær voru um kl. 15 í gær, 25. mars. Á henni eru engin merki um hraunstraum.

Komi mikið hraun í Hvannárgil á þessum slóðum má búast við að Úthólmar skemmist eða eyðileggist en þeir er reglulega falleg vin sunnan undir Útigönguhöfða.

Um Hvannárgil liggur vinsæl gönguleið frá Heljarkambi, vestur fyrir Útigönguhöfða, ofan Votupalla og niður í Bása við Réttarfell. Hluti leiðarinnar mun nú líklega fara undir hraun.

Frá upphafi goss var ég að vonast eftir því að hraunstraumur sem gengi vestan úr gígnum myndi enda ofan í ónefndu afgili Hvannárgils. Það virðist ekki ætla að ganga eftir og er það miður. Skemmdir þar myndu ekki verða eins miklar og við Úthólma og gönguleiðin myndi haldast óskemmd.

 


mbl.is Búist við mikilli umferð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tær snilld ef Mogginn myndi bjóða iPad

IPad er hluti af framtíðinni. Pappírsdagblöð eru deyjandi miðill. Allt bendir til þess að við lesum fréttir af skjám í framtíðinni.

Ég hef lengi verið áskrifandi að Morgunblaðinu. Undanfarin sex ár hef ég eingöngu lesið blað dagsins á fartölvu. Það hef ég getað á hverjum morgni, hvar sem er í heiminum.  

Apple hefur verið að þróa þennan iPad sem virðist vera ofvaxinn iPhone. Hugmyndin að baki honum er hins vegar afar skemmtileg. Hann er ekki beinlínis tölva heldur hagnýtt tæki til að fylgjast með fréttum, geyma bækur og hentar líklega afar vel til lesturs, örugglega miklu betur en fartölvan.

Ég bíð spenntur eftir að geta fengið mér iPad. Og ég skora á Morgunblaðið að fara að dæmi Wall Street Journal og bjóða lesendum sínum upp á að kaupa iPad með netáskrift. Það væri tær snilld.


mbl.is iPad-áskriftarverð WSJ $17,99
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að alvöru málsins í miðri hrifningunni?

Meðan fréttamenn og stara á virðulegan fossinn, gerast skáld eða rifja upp tengsl sín við gossögu Íslands væri ekki úr vegi að beina sjónum að öðrum málum. Kannski að jarðfræðingar gætu svarað þessum spurningum:

 

  • Hvaða líkur eru nú á því að þessi lausa gosefnahrúg uppi á Fimmvörðuhálsi, sem sumir kalla fell, jafnvel fjall, skríði út undan sér til vesturs og hraunstraumurinn breyti um farveg og falli í Hvannárgil? 
  • Er farvegur Hrunaár þurr neðan við Hrauntunguna?
  • Mun hraunið leita niður á Krossáreyrar þegar það kemur út úr Hrunárgili?
  • Mun hraunið loka Krossáreyrum og stífla Krossá? 
  • Er ástæða til að reyna að verja skóginn í Þórsmörk og Goðalandi fyrir glóandi hrauni og halda því á miðjum áreyrunum eða eigum við að láta náttúruna hafa sinn gang og spilla vinsælum ferðamannastöðum? 

 


mbl.is Hraunfoss á við tvo Dettifossa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hraunið hálfnað út Innra-Hrunárgil?

aa_25-3_kort_halsinn.jpg

Myndin er afar falleg og til sóma. Einstaklega notalegt að láta hana rúlla án þess að þulur trufli myndefnið með misheppnuðum skáldlegum tilþrifum eins og stundum gerist hjá sjónvarpsstöðvunum.

Heyrði í gær viðtal í sjónvarpi við Harald Sigurðsson, jarðfræðing, sem ég verð endilega að kalla sveitunga minn, þ.e. báðir erum við frá Stykkishólmi. Haraldur hélt því fram að hraunrennslið í Hrunárgili færi mikinn og myndi á nokkrum dögum ná fram á Krossáraurar. 

Þessu var ég ekki alveg sammála og ræddi við einn vin minn um málið. Sá telur sig fróðastan núlifandi Íslendinga um þetta svæði og hélt því fram að hraunið myndi vera innilokað í gilinu um vikur og mánuði, veltist þar í samspili vatns og elds.

Nú sýnist mér jarðfræðingurinn hafa rétt fyrir sér en „besserwisserinn“ og ég höfum misreiknað hraunrennslið.

aa_24-3gos_dagur_4.jpg

Samkvæmt myndum frá vefmyndavél Vodafone á Þórólfsfelli má gera ráð fyrir að hraunið hafi nú þegar lagt að baki rúman helming af Innra-Hrunárgili rétt eins og sá má af kortinu sem ég fékk hjá ja.is og lagaði aðeins til.

Efri myndin var tekin í gær og þá var gufumökkurinn úr Hrunárgili ofan við Heljarkamb. Neðri myndin er frá því í morgun og þá kemur greinilegur gufumökkur talsvert neðar. Þannig má ætla að hraunstraumurinn sé kominn nálægt Heiðarhorni sem er nyrsti hluti Morinsheiðar.

Neðarlega í Hrunárgil er áreiðanlega ekki eins mikill snjór þannig að gufumekkir verða minni og ógreinilegri. Mestallt vatn í Hrunaá gufar líklega upp efst við hraunfossinn.

aa_25-3_gos_dagur_5.jpg

Fáir vita að Krossá er að stofni til Hrunaá ... Fullyrða má að um 70% af vatninu í Krossá á venjulegum degi, hvort heldur sumar eða vetur, sé úr Hrunaá.

Þetta má glögglega sjá á þriðju ljósmyndinni. Hana tók ég árið 2001 og er af brúnni yfir Hrunaá. Þarna eru líka ármót, litla „migan“ Krossá fellur í Hrunaá og eftir það ber fljótið nafnið Krossá. Svona geta nú hlutirnir æxlast.

Hrunaá er mikið skaðræði og fyrir nokkrum árum rann á hana þvílíkur æðisgangur að hún eirði engu. Hún tók brúnna og henti henni niður eftir eyrunum, breytti um stefnu, tók af bílastæðið, hirti veginn og svona má lengi telja. Síðan hefur verið ófært inn í Tungur fyrir gangandi fólk og var það mikill skaði.

p0002041.jpg

Ýmsum kann að finnast ókennilegt að Hrunárgil sé tvískipt. Þannig er það nú engu að síður. Ástæðan er einföld. Landið liggur þannig og það má greinilega sjá á meðfylgjandi korti.

Fjórða myndin er af Ytra-Hrunárgili. það er talsvert opið og tekur áreiðanlega við miklu hrauni.

Á myndina eru merkt helstu kennileiti til upplýsingar.

 

aa1_yfirlit.jpg


mbl.is „Líkt og kvikni í ísnum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin brýn þörf á að gefa eldfellinu nafn

Engin ástæða er til að hlaupa upp og reyna að finna nafn á gíginn sem spýr nú eldi og eimyrju á Fimmvörðuhálsi. Vilji einhverjir leika sér að þeim málum má ekki hrapa að einhverjum niðurstöðum sem eru út í hött.

Af hverju er nafn Hálsins dregið? Hugsanlega er það af þeim fimm vörðum sem staðsettar eru á hryggnum vestan við Fimmvörðuskála Útivistar. Aðvísu eru vörðurnar bölvaðir ræflar en gætu þó verið hinar réttu. Þar, við vörðurnar er lítiuð fell, álíka hátt og eldgígurinn. Fellið hefur stundum verið nefnt Fimmvörðufell

Svo gæti verið að yfir háhálsinn hafi verið fimm vörður. Miðað við það veðravíti sem þana getur orðið er ekki ólíklegt að forðum daga hafi menn talið fimm vörður og þá verið komnir öðru hvoru megin yfir Hálsinn.

Við höfum nokkrar svipast um eftir slíkum vörðum en ekki fundið margar, þó hafa sést nokkrir ræflar vestan megin við Miðsker enda er þar grjótlendi og auðveldara að fá efni í vörður.

Nýja eldfellið þarf alls ekki að draga nafn af hálsins. Nóg er af litlum fellum og jafnvel stærri sem eru ónefnd. Til að friða þá sem eru óþreyjufullir er kannski hægt að leggja til nafnið Eldfell á Fimmvörðuhálsi og Hraunfoss í Hrunárgili. 

Hins vegar er engin þörf á að stökkva til núna. eldgosið er ekki vikugamalt og hver veit hvernig það hafar sér á næstu vikum eða mánuðum. Kannski á hraunið eftir að eyðileggja mikið í Þórsmörk og Goðalandi. Væri þá ekki rétt að kalla gíginn Spilli, Spillifell eða Tortímanda. 


mbl.is Fimmvörðufjall?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband