Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Göngufólk verður að vera í góðu formi

Að sjálfsgöðu er þetta það eina rétta.Lögregluyfirvöld hafa ekki mannskap til að eltast við okkur göngumennina. Hundruð manna munu ganga á Fimmvörðuháls um helgina.

Vegalengdin frá Skógum og upp að Fúkka er um 12 km og þaðan eru um 3 km að gosstöðvunum. Góðum degi þegar frost er við jörð ætti gangan upp að taka um fjóra tíma.

Mjög mikilvægt er að halda sig við vegarslóðan, það er miklu fljótlegra en að ganga með Skógá. Frá Fúkka er gulu göngustikunum fylgt upp á háhálsinn.

Nauðsynlegt er að hafa bakpoka með sér. Í honum á að vera fatnaður til skiptana, hlífðarfatnaður og ekki síst grímur sem hægt er að bregða fyrir vit sér ef vindáttin gengur verður á hánorðan. Spáin er norðaustan en betra er að vera við öllu búinn.

Enginn ætti að ganga á Fimmvörðuháls nema hann sé í góðri æfingu og hafi reynslu í að ganga í um tíu tíma í einni lotu. Það er einmitt sá tími sem gera má ráð fyrir að gangan á Hálsinn taki og er þá farið fram og til baka. 


mbl.is Heimilt að ganga á Fimmvörðuháls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að gerasta vestan við Bröttufannarfell?

aa_gos_sbr.jpg

Mogginn mætti skjóta því að Ragnari Axelssyni að hann færi vestan við gíginn og tæki þar myndir af staðháttum. Samkvæmt myndum sem ég hef verið að bera saman eru gosefni komin vestur fyrir Bröttufannarfell.

Efri myndin hér til hliðar er tekin af vefmyndavél Mílu á Þórólfsfelli innan við Fljótshlíð.  á myndinni má greinilega sjá að einhver gosefni eru komin vestur fyrir Bröttufannarfell.

Ég get ekki séð hvort það sé hraun eða gjóska.Ljóst er hins vegar að því lengur sem gosið stendur því meiri líkur eru á að hraun taki að renna ofan í Hvannárgil, annað hvort afgilið sem er næst eða þá innsta hlutann sem er næstur Heljarkambi.

aa_gos_sbr_b.jpg

Neðri myndinni sem hefur líklega verið tekin í gær eða í fyrradag eru engin gosefni vestan við Bröttufannarfell.

Sem áhugamaður um Fimmvörðuháls og Goðaland langar mig afskaplega til að vita hvað sé að gerast þarna. 


mbl.is „Þetta er rosalegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær fer að flæða ofan í Hvannárgil?

Ástæðan fyrir því að enn hefur ekki runnið hraun né vatn ofan í Hvannárgil er veðrið. Austan stormurinn undanfarna dag veldur því að gosefnin hlaðast upp vestan við gíginn og loka þeirri leið. Í staðinn hefur hraunið náð að renna til austurst og ofan í Hrunaárgil. Engu að síður er hallinn vaxandi niður vestan megin.

Ég velti því fyrir mér hvað þurfi til að hraunið byrji að renna ofan í Hvannárgil. Aukinn kraft í gosinu? Einhverja fyrirstöðu austan megin? 

Gaman væri ef jarðfræðingar gætu svarað þessu. 

Sú spurning brennur nú hjá mörgum hvers vegna yfirvöld og jarðfræðingar segi ekki allan sannleikan um Kötlu. Hverjar eru þær hrikalegu hamfarir sem geta tengjast gosi þar. Það er eins og verið sé að hlífa almenningi við einhverju.


mbl.is Kröftugt hraungos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndir af umhverfinu og frá því fyrir gos


aab_gos.jpgEsta myndin er úr Moggganum og er afskaplega góð. Hún sýnir umhverfi gosstöðvanna mjög vel. Ekki eru allir vel að sér í landsfræðinni á þessum slóðum og þess vegna er ástæða til að merkja inn á hana kennileiti.

Þarna hlykkjast gönguleiðin upp á Fimmvörðuháls og þegar loks er komið efst upp a Bröttufannarfell, í rúmlega 1000 m hæð, er fyrsti og eini faratálminn, gosstöðvarnar. Sagt er að sumir geti gengið á glóandi kolum en ekki yndi ég vilja ganga á glóandi hrauni með spúandi eldfjall við hliðina.

  

aa_mynd008.jpg

Myndin hér fyrir neðan var tekin fyrir nokkrum árum í suðurhlíð Bröttufannarfells. Til vinstri má sjá skíðamann á svipuðum slóðum og eldsprungan varð til aðfararnótt sunnudagsins síðasta.

Þennan dag var afar falleg kvöldsól og varpaði hún töfrandi birtu á gönguleiðina milli Bröttufannarfells og Miðskers. Ég reyndi að grípa hana með myndavélinni. Stikurnar sem þarna sjást eru nú að öllum líkindum bráðnaðar og uppleystar í gígnum.

Neðst er mynd af göngumönnum nákvæmlega á þeim stað sem eldgosið kom upp. Horft er í suður að Miðskeri. utan í því er litli gígurinn sem margir muna eftir en gönguleiðin lá þar austan í honum. 

aaa_mynd015.jpg

Á dagskránni í mars var að fara upp á Fimmvörðuháls með félögum mínum en þeir hafa umsjón með Fimmvörðusskála fyrir Útivist.

Nú er það spurningin hvort við fáum yfirleitt að fara þangað upp þar sem fimm kílómetra radíus frá gosstöðvunum er yfirlýst bannsvæði. Fimmvörðuskáli er tvo kílómetra frá þeim.

Að þessu mæltu skal ég fullyrða að um næstu helgi verða hundruð manna gangandi, akandi á jeppum eða vélsleðum á leið upp á Fimmvörðuháls. Fleirum en mér langar upp á Háls til að skoða eldstöðvarnar. Ég geri ráð fyrir að leggja af stað svona um tíu leytið frá Skógum, þá er löggan farin með þá sem komu fyrstir í fangaklefann á Hvolsvelli. Þá hleypur lýðurinn upp enda hefur löggan ekki mannskap til að fylgjast með okkur hinum vitleysingunum.

aaa_22.jpg

mbl.is Litlar breytingar á gosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af hægra skíðinu sem fór af 5vörðuhálsi

Dagurinn var ákaflega fagur. Við risum árla úr rekkju í skála Útivistar í Básum og lögðum af stað upp á Fimmvörðuháls. Í ljós kom að hjarn var yfir, gaddfreðinn snjór. Okkur sóttist því gangan vel uppúr Strákagili, yfir Kattahryggi, upp Foldir og á Morinsheiði.

Útsýnið var fagurt, vart ský á himni. Við bárum gönguskíðin, fannst það ekki taka því að setja þau undir. Engu líkar var en við gengum á hvítu malbiki.

Með í ferðinni var Árni Jóhannsson. Hann var nýbyrjaður að ferðast af einhverju viti og þess vegna lánaði ég honum bæði gönguskíði og gönguskó. Með þessi lánsgögn á bakinu var hann afar sennilegur sem fjallakall.

Við áðum uppi á Bröttufannarfelli, átum nesti og nutum útsýnisins. Sunnan fellsins var um það bil eins km rennsli. Við settum á okkur skíðin og renndum okkur niður á jafnsléttuna. Þar vorum við nákvæmlega á þeim slóðum þar sem fimmtán árum síðar myndi jörðin rifna með látum og eldgoshefjast.

Ég er ekki forspár maður. Vildi gjarnan vera það. Vera eins og sumir sem eftir á segjast hafa dreymt fyrir eldgosum,kreppum, bankahruni, úrslitum í kosningum. Nei, ekkert svoleiðis hefur hent ílífi mínu. Man eftir því sem krakki að ég sagði stundum móður minni frá draumummínum. Oftar en ekki sagði hún að þeir væru einfaldlega fyrir snjóavetri ... og svo brosti hún vingjarnlega. Uppúr því varð mínum augum allt óskiljanlegt og hálfyfirnáttúrulegt ábending frá æðri máttarvöldum um komandi snjóavetur. 

En þarna á Fimmvörðuhálsi, skammt sunnan við Bröttufannarfell, stóðum við Árni á gönguskíðunum eftir gott rennsli. Kemur nú loks að því sem sagan fjallar í raun og veru um.

Ég tek af mér skíðin og set þau á bakpokann og axla hann. Árni gerir slíkt hið sama en í þann mund að hann ætlar að setja vinstra skíðið á pokann rekur hann sig í hitt og það rennur hægt frá honum.

Ég sé hvað gerist en nokkurt bil er á milli okkar og því geri ég ekkert annað en að hrópa viðvörunarorð.

Árni, sér á augabragði hvað gerist, er seinn á fætur en drattast þó upp og hleypur á eftir skíðinu. Fyrst dregur hann á það, síðan helst millibilið jafnt en loks breikkar bilið. Skíðið tekur bókstaflega á rás, brunar niður vaxandi hallann, tekur beygju til vinstri í fjarska og hverfur án þess að hafan okkru sinni oltið.

Nú er það svo að í fjallaferðum að vetri er skíðalaus maður hreinlega dauðadæmdur. Þess vegna yfirgaf ég Árna með þeim orðum að hann skyldi nú finna skíðið mitt eða sleppa því að sýna sig íFimmvörðuskála eða Básum.

Einhverjum kynni að finnast þetta nokkuð harkalegt viðhorf. Á móti bendi ég bara á að í ferð á Vatnajökli nokkrum árum áður fauk frá mér dína. Af miskunsemi sinni ákváðu ferðafélagar mínir að leyfa mér það nær ómögulega verkefni að eltast við dínuna frekar en að ganga frá mér á staðnum. Sem betur fer fann ég dínuna og það urðu fagnaðarfundir þegar ég kom með hana í fanginu til félaga minna. Þó var ekki laust við að sumum þeirra fyndist þeir hafa misst af einhverju ...

Nú, nú. Þarna á Fimmvörðuhálsi í mars 1995 held ég áfram göngu minni að Fimmvörðuskála til fundar við hóp útlendinga sem nokkrir félagar mínir voru með í ferð með yfir Hálsinn.

Ekki frétti ég neitt af Árna eða afdrifum skíðisins enda var þetta fyrir almenna notkun á farsímum.

Á bakaleiðinni grunaði mig að skíðið hefði líklega runnið ofan í Hrunaáargil og Árni hefði sótt það þangað. Ég ákvað þó að draga upp kíkinn þegar ég kom á Heljarkamb. Ofan í dimmu gilinu kom ég auga á skíðið en Árni var víðs fjarri, líklega kominn ofan í Bása „á einari“ eins og það heitir, þ.e. á öðru skíðinu.

Af ferðum hægra skíðisins var það að frétta að það hafði runnið austur fyrir Bröttufannarfell og svifið ofan í Hrunaárgil og staðnæmst þar í snjónum, alls óskemmt.

Víkur nú sögunni til dagsins í dag. Þá verður eldgos skammt sunnan við Bröttufannarfell. Og hvað gerist fyrst af öllu? Jú, vatn bráðnar og rennur nákvæmlega þá sömu leið og skíðið hafði endasenst forðum daga. Og vatnsflóðinu fylgir glóandi hraunið sem nú er í óða önn að bræða jökulinn ofan í myrkrum gilsins og það veldur enn meira vatnsflóði í Hrunaá ogKrossá.

Og ég þakka fyrir að hafa sótt skíðið. Annars væri það að eilífu tapað eða þannig ...

Ferðafélag minn átti síðan eftir að vera formaður Útivistar í nær fjórtán ár en aldrei tapaði hann aftur gönguskíði, hvorki sínu eigin né annarra. Og loks þegar Árni hættir sem formaður, aðalfundurinn var í byrjun mars 2010, verður eldgos á Fimmvörðuhálsi. Þetta þýðir einfaldlega að Útivist hefur misst alla stjórn á atburðarásinni og það er ábyggilega allt nýjum formanni að kenna sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. 


Ekki tímabært að huga að nafni

gos_973229.jpg

Myndirnar sem Þorsteinn Jónsson tók eru góðar. Þó hefði ég viljað sjá fleiri. Landslagið á Fimmvörðuhálsi hefur greinilega breytst mikið, sjóðandi vatn og glóandi hraun hafa hreinsað burtu mikinn jökul.

Ekki er ástæða til að hrapa að nafngiftum. Tröllagjá getur varla verið réttnefni. Kreppukambur er kannski betra.

Bölmóður hefur lengi verið nafn á stórum gíg suðaustan í Hálsinum. Hann fékk nafnið um miðjan síðasta áratug  síðustu aldar þegar bölmóðurinn var að draga þjóðfélagið niður í sótsvart helv... Ekki varð það raunin en nú eru uppi krepputímar og margir bera ábyrgð. Hugsanlega er hægt að búa til örnefni úr nöfnum útrásarvíkinga og meðreiðasveina þeirra.

Myndina tók ég í leyfisleysi af visir.is og er eftir Egill. Biðst velvirðingar á þessu. Breytingar á landslaginu vestan við Bröttufannarfell eru gríðarlegar.


mbl.is Nýtt fjall á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt: Hraunflæði í Hrunaárgil

Gilið er í svokölluðum Hruna. Í því er á sem kemur m.a. ofan af Fimmvörðuhálsi og nefnist þar af leiðandi Hrunaá og gilið Hrunaárgil. Um að gera að hafa staðarnöfn rétt.
mbl.is Hraunflæði niður í Hrunaárgil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraun og vatn ofan í Hvannárgil

flo_ni_ur_i_hrunaargil.jpg

Af myndinni sem fylgir með þessari frétt er greinilegt að vatn er farið að renna ofan í Hrunaárgil. Gossprungan er fyrir ofan Bröttufannarfell sem er greina má á myndinni.

Gosið er á gönguleiðinni, sunnan við Bröttufannarfell, rétt við gamla gíginn nálægt miðjum hálsinum.

Gosstrókurinn er hvítleitur og því er mikil gufa í honum Líklega rennur hraun líka ofan í Hrunaárgil.

Myndina tók ég án leyfis af mbl.is og biðst velvirðingar á því. Á hana hef ég merkt inn helstu kennileiti sem máli skipta. 

ve_urstofumyndin_973056.jpg

Af þessu má ljóst vera að vatnavextir eru í Hvanná og líklega verður ófært inn í Bása og Langadal fyrir vikið. Af því leiðir að einnig verður ófært í Húsadal enda er vaðið þangað við Merkurrana. Gangi þetta eftir er ástæða til að vara við ferðum inn í Þórsmörk og Bása.

Á neðri myndinni má greinilega sjá staðhætti. Gönguleiðin yfir hálsinn er lokuð. Hraun og vatn renna til beggja átta. Annars vegar í Hrunaárgil og hins vegar í afgil Hvannárgils.

Athugið: Þessari bloggfærslu hefur nokkuð verið breytt frá upphaflegri útgáfu. Henni bæði breytt og bætt við hana.


mbl.is Gosórói eykst á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd og kort af eldsprungunni

GosSamkvæmt myndinni sem hér fylgir með og er tekin úr hreyfimynd á vef Rúv er gossprungan á að giska einn km vestan við gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Nánar tiltekið suðvestan við Bröttufannarfell sem flestir göngumenn þekkja.

Á myndinni má glögglega greina Morinsheiði og þaðan má rekja sig suður yfir Heljarkamb og upp á Bröttufannarfell. Á meðfylgjandi korti sem fengið var að láni hjá ja.is hefur sprungan verið merkt inná með rauðum lit. Þó er ekki víst að hún sé svona löng. Gossprungan er í stefnunni norðaustur, suðvestur sem er nokkuð þvert á hefðbundnar stefnur á Hálsinum en þá liggja flestar í austur vestur. Smella má á mynd og kort til að stækka.

gossprunganÞar sem gossprungan er hallar niður í eitt af afgilum Hvannárgils. Hallinn er lítill á þessum slóðum en eftir því sem komið er nær gilinu eykst hallinn.

Ég held að nákvæmlega á þessum slóðum hafi orðið eitthvað jarðsig fyrir nokkrum árum. Margir töldu það fyrirboða um eldsumbrot en svo gerist ekkert fyrr en mörgum árum síðar.

Samkvæmt myndum virðist hraunrennslið ekki vera mikið og öruggt má telja að ekkert bendi enn til þess að hraun sé farið að renna niður í Hvannárgil.


mbl.is Gosórói að minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Goðaland er ekki Þórsmörk

Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta þessa frétt. Foldir eru ekki í Þórsmörk og ekki heldur Básar. Báðir eru staðirnir í svokölluðu Goðalandi, sem er eitt af mörgum nafngreindum svæðum sunnan Krossár. Þórsmörk er hins vegar norðan Krossár.

Engir staðarhaldarar eru í Básum. Skálarnir þar eru í eigu Útivistar og þeir sem þar starfa eru jafnan nefndir skálaverðir. Hins vegar kunna að vera staðarhaldarar í skálunum í Húsadal og hugsanlega eru fólkið sem nefnt er í fréttinni þaðan.


mbl.is Þetta er heimsviðburður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband