Hraun stefnir ofan í Hvannárgil

26-3_l_8_30_hraun_i_hvann.jpg

Á vefmyndavélum Vodafone og Mílu á Þórólfsfelli sést, rétt fyrir klukkan níu að morgni, að hraun er þegar farið að renna vestur úr gígnum og í áttina að Hvannárgili. Við þessu mátti búast.

Það var líklega rétt eftir miðnætti að bjarmi sást norðan og vestan við goshrúguna á Hálsinum. Það gat einungis bent til þess að hraunið hafi brotið sér nýja leið út úr gígnum. Hugsanlega er þetta ekki mikill hraunstraumur. Engu að síður er greinilegur gufumökkur þar sem hann bræðir snjóinn nokkuð hundruð metrum ofan við norðurhamra Hvannárgils.

Eflaust á þarna eftir að vera mikið sjónarspil þegar hraunmigan sáldrast niður í gilið og má eflaust kallast foss.

100325_kl_15_05_mila.jpg

Til samanburðar er svo mynd frá vefmyndavél Vodafone af gosstöðvunum eins og þær voru um kl. 15 í gær, 25. mars. Á henni eru engin merki um hraunstraum.

Komi mikið hraun í Hvannárgil á þessum slóðum má búast við að Úthólmar skemmist eða eyðileggist en þeir er reglulega falleg vin sunnan undir Útigönguhöfða.

Um Hvannárgil liggur vinsæl gönguleið frá Heljarkambi, vestur fyrir Útigönguhöfða, ofan Votupalla og niður í Bása við Réttarfell. Hluti leiðarinnar mun nú líklega fara undir hraun.

Frá upphafi goss var ég að vonast eftir því að hraunstraumur sem gengi vestan úr gígnum myndi enda ofan í ónefndu afgili Hvannárgils. Það virðist ekki ætla að ganga eftir og er það miður. Skemmdir þar myndu ekki verða eins miklar og við Úthólma og gönguleiðin myndi haldast óskemmd.

 


mbl.is Búist við mikilli umferð í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband