Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
Ruddaleg staða efnahagsmála
29.4.2009 | 09:16
Sú ruddalega staða er í íslenskum efnahagsmálum að verðbólgan er aftur á uppleið, meira en 18.000 manns eru atvinnulausir, stýrivextir eru 15,5%, gengi krónunnar hefur ekkert breyst þrátt fyrir belti, axlabönd, bréfaklemmur og heftingar.
Kosningar eru afstaðnar og landið er jafn stjórnlaust og það var fyrir helgi. Og sigurvegarar kosninganna þykjast hafa nægan tíma til að mynda nýja stjórn og skemmtir sér við orðaleiki og hrókeringar. Á meðan blæðir þjóðinni út.
Er ekki löngu kominn tími til aðgerða?
Og búsáhaldabyltingin sefur sínum væra svefni af því að Sjálfstæðisflokkurinn er kominn úr ríkisstjórn, Davíð úr Seðlabankanum og vinstri menn undir stjórnvölinn. Og ekki má gleyma því að fjórir mætir menn eru komnir á þing undir formerkjum þessarar byltingar.
Vita þeir ekkert hvað er að gerast eða eru þeir bara kjaftaskar sem ekkert er að marka?
Verðbólgan nú 11,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Rafrænar kosningar eru framtíðin
28.4.2009 | 09:15
Auðvitað þarf að endurskoða kosningalögin. Það tekur ekki nokkru tali að á tölvuöld skuli ekki vera möguleiki á að kjósa rafrænt, hvorki í prófkjörum né kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna.
Sjálfstæðisflokkurinn, flokkurinn minn, samþykkti á landsfundi fyrir mörgum árum að greiða ekki fyrir rafrænum kosningum. Rökin voru þau að það myndi taka alla skemmtunina úr kosninganótt, þegar fólk biði í ofvæni eftir því að misjafnir talningarmenn kláruðu afstemmingar og gáfu á reglubundnum fresti út síðustu tölur frá Austurbæjarskóla. Það er vitað mál að þegar kjörstöðum er lokað og úrslitin liggja fyrir hálftíma síðar að skemmtanagildið hefur breyst.
Auðvitað tekur allt enda. Margir sjá eftir kvöldvökunum og gömlu torfbæjunum, stemmingunni á síldarplönunum, gömlu malarvegunum, Gullfossi sem sigldi á milli Íslands og Evrópu með farþega, svart hvítu sjónvarpi og fleiru sem hefur setti mark sitt á tímann hverju sinni.
Rafrænar kosningar eru það sem koma skal. Meira að segja Ástþór Magnússon, sá alræmdi tapari í kosningum skilur þetta en hann kom með þá tillögu að hægt væri að kjósa í hraðbönkum.
Menn þurfa að hugsa fram á við og reyna að fremsta megni að tefja ekki fyrir framþróuninni. Skemmtanagildi kosninga er ekki þáttur í lýðræðinu heldur sjálft kjörið og niðurstaðan. Eflaust má skemmta sér við aðra hluti en bið eftir að talningu ljúki.
Þörf á að endurskoða kosningalög | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Atvinnuleysi er böl, svona vinnum við á því
27.4.2009 | 13:45
Það er hárrétt hjá Atla Gíslasyni að atvinnuleysið er þjóðarböl. Hér á landi eru 18.000 manns án atvinnu og minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar hafa ekkert gert til að leysa úr málinu.
Atli og félagar þurfa strax að taka til hendinni annars blasir enn frekar hrun við þjóðinni.
Það er aðeins til ein aðferð til að útrýma atvinnuleysinu og það er að koma hjólum atvinnulífsins í gang á ný. Það gerum við á þennan hátt:
Raunar er það tvennt. hið fyrra lýtur að umhverfi atvinnurekstrar á landinu.
- Koma þarf efnahagsreikningi nýju bakanna í lag.
- Tryggja að atvinnureksturinn í landinu hafa aðgang að lánsfé í bönkunum.
- Stofnað verði eignarhaldsfélags á vegum ríkisins og einkaaðila með 12 milljarða eigin fé sem er aðeins hluti af því sem atvinnuleysibætur kosta ríkissjóð á hverju ári
- Eignarhaldsfélaginu verði heimilt að kaupa hlut í fyrirtækjum sem sinna verðmætasköpun
- Grundvöllur kaupanna er að fyrirtæki leggi fram viðskiptaáætlun sem sanni með óyggjandi hætti framtíðarmöguleika þess og að það geti ráðið nýja starfsmenn til starfa.
- Kaupin eiga að vera skilyrt á þann veg að innan tiltekinns tíma, t.d. fjögurra ára, skulu aðrir eigendur kaupa hlut eignarhaldsfélagsins á markaðsverði.
- Hlutur eignarhaldsfélagsins verði seldur á markaði eftir tvö til fjögur ár
Aðalatriðið er að fyrirtækin fái fjármagn, lánsfé eða aukið hlutafé, og geti ráðið nýtt starfsfólk. Þannig fer verðmætasköpunin í fullan gang, fækka mun hratt á atvinnuleysisskrá og hliðaráhrifin munu verða afar mikil.
Auðvitað verður sagt að hér sé um einhvers konar ríkiskapítalisma að ræða. Aðrir munu halda því fram að hér sé verið að boða einhvers konar sósíalisma. Ég blæs á þannig tal. Menn skulu þá bara koma með aðrar leiðir sem duga. Ekkert annað dugar til að koma atvinnulífinu jafnhratt í gang.
Komist helmingur þeirra sem eru atvinnulausir í vinnu innan þriggja mánaða verður skammt að bíða eftir samlegðaráhrifum. Önnur fyrirtæki munu braggast og á örskömmum tíma mun atvinnuleysið verða meira en helmingi minna minna en nú er.
Ef stjórnvöld hafa ekki getu til að byggja upp atvinnulífið í landinu þá eru þau einfaldlega gagnslaus og við getur flutt austur á Jótlandsheiðar.
Farvel.
Atli: Atvinnuleysið er þjóðarböl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ég kaus Sjálfstæðisflokkinn í morgun
25.4.2009 | 12:58
Í fyrsta sinn á lýðveldistímanum eiga kjósendur þess kost að kjósa flokka sem bjóða upp á stefnu sem byggist á lækkun launa, aukinni skattlagningu tekna og jafnvel eigna.
Viljum við þetta?
Þeir sem fyrir þessu standa segja að leiðin til hagsældar sé fólgin í því algjörum samdrætti.
Þessu er ég algjörlega ósammála, svona tala ekki nema þeir sem eru ráðþrota.
Hvernig getur staðið á því að eftir nærri þriggja mánaða valdatíma Samfylkingar og Vinstri grænna hefur ástandið einungis farið versnandi.
- 18.000 þúsund manns eru án atvinnu
- Gengi krónunnar hefur lækkað um 18% frá því 1. febrúar
- Ríkisbankarnir geta ekki sinnt lánaþörf fyrirtækja
- Stýrivextir eru 15,5%
- Verðbólga er 11%
- Fasteignamarkaðurinn hruninn
- Uppbyggingu í atvinnulífi er hagnað
- Klofningur er í ríkisstjórninni vegna olíuvinnslu á Drekasvæðinu
- Hluti ríkisstjórnarinnar vill ríkisvæða Icelandair
- Sjálfstæðisflokknum er kennt um allt sem miður hefur farið
- Sjálfstæðisflokkurinn á alla sök
- Allt Sjáfstæðisflokknum að kenna
- Hvergi í heiminum virðist vera banka- eða efnahagskreppa
- Paradís á jörð er í Evrópusambandinu
- Atvinnuleysið leysist smám saman
- Óþarfi er að vinna olíu á Drekasvæðinu, nóg er af henni á bensínstöðvum
- Hruni á fasteignamarkaðnum á að mæta með eignasköttum
- Lækkun á stýrivöxtum á að mæta með tekjusköttum
- Lánaþörf fyrirtækja á að leysa á næstu árum ...!!!
- Gengislækkun krónunnar er óleysanlegt vandamál
Kjörsókn með ágætum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook
Óskað eftir jákvæðum manni í niðurskurð ...
24.4.2009 | 12:25
Þetta er svona í anda Spaugstofunnar, Ríkisskattstjóri ætlar að leggja aukna áherslu á skatteftirlit með öflugum og jákvæðum einstaklingi .... Jákvæðni í neikvætt starf.
- Bifreiðaskoðun óskar eftir jákvæðum einstaklingi til að leita uppi óskoðaða bíla.
- Bílastæðasjóður óskar eftir jákvæðum einstaklingi til að sekta.
- Vinstri grænir óska eftir jákvæðum manni til að skoða uppbyggingu álvera á Íslandi.
- Fjármálaráðherra óskar eftir jákvæðum manni til að semja frumvarp um eignaskatt.
- Umhverfisráðuneytið óskar eftir jákvæðum manni til að gera úttekt á olíuvinnslu á Drekasvæðinu.
- Menntamálaráðherra óskar eftir jákvæðum manni til að skera niður í menntakerfinu
- Landsbankinn óskar eftir jákvæðum manni í innheimtu íbúðalána
- Kaupþing óskar eftir einstaklega jákvæðum manni í fyrirtækjadeild
Herða skatteftirlit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Drekasvæðið, yfirtaka á Icelandair, eignaskattur ...
23.4.2009 | 23:28
Er ekki nauðsynlegt að fá að vita milliliðalaust hvað Steingrímur J. Sigfússon sagði á þessum fundi? Það gæti komið í veg fyrir margvíslegan misskilning. Hins vegar er furðulegt hvað Vinstri grænir hafa látið út úr sér undanfarna daga og hvernig brugðist hefur verið við ummælunum.
- Fjármálaráðherra Steingrímur segir ríkið ætli að taka yfir Icelandair. Fjármálaráðuneyti ber allt til baka í fréttatilkynningu.
- Umhverfisráðherra Kolbrún Halldórsdóttir, segir að VG sé á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu. VG ber allt til baka í fréttatilkynningu. Kolbrún dregur ekkert til baka í annarri fréttatilkynningu.
- Menntamálaráðherra segir næstu félagshyggjustjórn vilja hækka skatta. Formaður VG ryðst fram í fjölmiðlum og segir þetta lygi, ekkert hafi verið rætt um skattahækkanir.
- VG ályktar um álagningu eignaskatts. Formaður VG segir þetta fjarstæðu og tóm rugl, bara þeir sem hafi efni á að borga eignaskatt munu borga eignaskatt.
- Steingrímur J. Sigfússon fjármálalandbúnaðarogsjávarútvegsráðherra gefur vilyrði fyrir inngöngu í ESB. Formaður VG Steingrímur J. Sigfússon segist standa harður geng inngöngu í ESB.
Því meira sem Vinstri grænir tala því skýrar sjáum við framtíðina.
Tilhæfulaust að ríkið taki Icelandair yfir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Salurinn hló að Össuri fyrir blaðrið
22.4.2009 | 21:57
Ótrúlegt að þessir tveir flokkar geti komið sér í svona neyðarleg vandræði. Ljóst er að annar hvor þeirra mun ekki geta staðið við kosningaloforð sín og ákvarðanir landsfundar. Og það verður gaman að sjá og heyra hvernig forystu menn þeirra ætla að kjafta sig úr út ógöngunum.
Össur Skarpéðinsson reyndi þennan gamla pólitíska kjaftagang en salurinn hló að honum. Hann þóttist bæði vera með og á móti álveri á Bakka og hann sagði VG vera sammála sammála Samfylkingunni í ESB málum þvert ofan í það sem Svandís Svavarsdóttir sagði. Hún þagði við, kunni greinilega ekki við að styggja samherja sinn í ríkisstjórn og svaraði aðeins spurningum stjórnenda. Skítt með kjósendur.
Kjósendur eru ekki fífl. Þeir hlusta og skilja og vita jafnvel enn betur en stjórnmálamenn enda eru þeir síðarnefndu einungis hluti af almenningu, engin elíta, hvorki betri né verri en fólk er flest.
Þeir sem komu best út úr þessum þætti voru Guðlaugur Þórðarson, alþingismaður og fulltrúar Framsóknarflokksins og Frjálslyndra.
Trúi ekki að Samfylkingin láti stranda á ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ófullkomin frétt
22.4.2009 | 13:36
Fréttin er frekar ófullkomin. Í henni kemur ekki fram hvernig þessi aldraða kona hafði fengið féð. Ekkert er sagt frá því hvers vegna hún tók út peningana fyrir hver áramót og lagði þá síðan inn aftur eftir áramótin.
Það kemur hins vegar fram og er haft eftir starfsmanni skattsins að þetta sé einkennilegasta dæmi um tilraun til að komast hjá eignaskatti. Hins vegar er ekki ljóst hvort það hafi verið tilgangur konunnar með tilfærslunum.
Að öllum líkindum hefur hún greitt fjármagnstekjuskatt enda kerfið líkt í Noregi og hér.
Svo kemur í ljós að konan þurfti að borga 600.000 í sekt sem er aðeins 2,5%. Ekki er greint frá því að hún hafi þurft að borga eignaskattinn eða hversu hár hann hafi verið.
Eftir stendur frétt um gamla konu sem hafði í áratug tekið stórar fjárhæðir út af reikningi sínum fyrir áramót og lagt pengingana inn aftur eftir áramót. Þá þurftu einhverjir leiðinlegir starfsmenn í bankanum hennar að kæra hana.
Þetta minnir mig á náunga sem ég kannast við sem hafði það fyrir reglu einu sinni í mánuði að millifæra einhverjar fjárhæðir á milli íslensku bankanna til að búa til sýndarveltu og eiga þar með kost á láni. Bankastarfsmennirnir hlógu að þessum tilfæringum hans.
Reyndi að fela hundruð milljóna fyrir skattinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orðum aukin frétt frá fjámálaráðherra
22.4.2009 | 12:32
Trúir því einhver að embætti skattrannsóknastjóra og ríkisskattstjóra hafi ekki þegar hafið rannsókn á einstaklingum sem tengjast bankahruninu?
Þessar stofnanir hafa verið að kanna alls kyns skattaskjól víða um veröld, rekja upp krosseignatengsl útrásarvíkinga og fleiri aðila, rakið margvíslegar greiðslur út um allar koppagrundir og tékkað á tilbúinni viðskiptavild skálkaskjólsfélaga svo dæmi séu tekin.
Og núna, nokkrum sekúndum fyrir kosningar dettur fjármálaráðuneytinu til hugar að senda út fréttatilkynningu þar sem gefið í skyn að ráðuneytið sé undir stýri við rannsókn skattrannsóknarsstjóra og ríkisskattstjóra á brotum skattalögum í tengslum við hrun bankanna og aðdraganda þess.
Fjármálaráðuneytið hefur aldrei komið að þessum málum. Það hefur einfaldega ekkert frumkvæði haft. Það getur lagt fram aukið fé til þessara hluta og nú er að öllum líkindum verið að gera það samkvæmt eindreginni kröfu stjórnenda áðurnefndra embætta.
Þess vegna ber að líta á þessa fréttatilkynningu sem beint innlegg Steingríms J. Sigfússonar, formanns VG og fjármálaráðherra, til að eigna sér þá vinnu sem embættin hafa þegar hafið. Þetta heitir að skreyta sig með annarra fjöðrum, eigna sér það sem aðrir hafa gert ...
Það skal enginn segja mér að Skattrannsóknarstjóri og Ríkisskattstjóri taki við einhverjum fyrirskipunum frá pólitíkusum. Og það skal enginn segja mér að embættismenn í fjármálaráðuneytinu detti í hug að fara þannig að málum. Niðurstaðan er einfaldlega sú að ráðherrann vill endilega tengja sig við merkilegt framtak tveggja afar duglegra stofnana.
Og þá er spurningin þessi: Af hverju gerir ráðherrann þetta?
Svarið er einfalt: Kosningarnar!
Skattalagabrot rannsökuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Skrýtni Tómas gegn flensufjanda
22.4.2009 | 12:06
Í því allsherjans tilgangsleysi að vera veikur líður tíminn hægt. Ég get ómögulega skilið hvernig þessi svæsna flensa fann mig, tel mig ekki hafa umgengist einn eða neinn veikann, en hvað veit maður svosem.
Skyndilega á föstudaginn síðasta fann ég fyrir einhverjum ónotum og á laugardagsmorguninn vaknaði ég helsjúkur - að mér fannst. Verra hefði þó verið að vakna dauður en slíkt er ekki vænlegt til framtíðar afreka.
Þetta með tilgangsleysið er kannski aðeins orðum aukið. Líkaminn verður að fá að ná sér, ekki skal dregið út því. Andinn þarf hins vegar sitt. Þó svo að ég eigi langan stofuvegg þakinn bókum nennti ég ómögulega að lesa einhverja þeirra aftur og þaðan af síður að leita að þeim örfáu sem ég hef ekki lesið. Verstur fjandinn var hins vegar sá að ég var búinn með síðasta skammtinn sem ég fékk á bókasafninu og átti bara eftir að skila honum.
Þannig er það nú víða á landsbyggðinni að bókasafnið er ekki alls staðar opið um helgar, ekki einu sinni fyrir veika. Ég þurfti því að bíða til mánudagsins til að komast í bækur. Hélt raunar að þá yrði ég yrðiheill heilsu en það var nú öðru nær.
Við búum tveir saman, ég og sonur minn, hann Bjarki, átján ára besserwisser. Ekki var mikilli samúð fyrir að fara hjá honum, engu líkar en þetta væri bara aumingjaskapur í karlinum að liggja svona flatur. Það breyttist hins vegar þegar flensan læddist að piltinum þar sem hann gerði grín að föður sínum, sló hann flatann og skömmu síðar, skildi hann ekkert og það sem meira var hann var gjörsneyddur öllum húmor yfir ástandi sínu.
Mánudagurinn rann upp og ég komst flensumæddur í bókasafnið og sankaði að mér fjórum álitlegum bókum. Meðal þeirra var bók eftir hinn bandaríska Dean Koontz, Skrýtni Tómas eða Odd Thomas eins og hún heitir á frummálinu.
Í stuttu máli er þetta bara hin skemmtilegasta bók. Skrýtni Tómas, söguhetjan, er eiginlega ekkert skrýtinn en hann er skyggn. Sér látið fólk og ekki síður váboða, verur sem nærast á óhæfuverkum og þeim mun stærri sem þau eru þeim mun fleiri safnast váboðarnir saman. Hins vegar virðist sá Skrýtni vera einfaldur í margra augum en er frekar djúpur og fróður. Bókin fjallar um tilraun hans til að koma í veg fyrir válega atburði sem eru í uppsiglingu í heimabæ hans.
Stíllinn hjá Koontz er frekar knappur og þýðingin verður stundum óþarflega stirð en að flestu leyti hefur þýðandinn, Björn Jónsson, skilað góðu verki. Einna helst finnst mér óþarfi að þýða nöfn fólks. Skrýtni er þó ágæt þýðing á enska viðurnefni söguhetjunnar Odd. Þó íslenska nafnið sé frekar framandi venst það þokkalega. Verra fannst mér með ömmuna Perlu Sykurs. Ekki get ég ímyndað mér að höfundurinn hafi nefnt hana Pearl Sugar en það getur þó vel verði. Hryðja Llewellin nefnist unnusta söguhetjunnar en nafn hennar finnst mér einna erfiðast að sætta mig við. Mörg önnur nöfn eru ekki þýdd.
Nóg um það. Bókin er afar skemmtileg og ég mæli hiklaust með henni. Hún vinnur á þó gallarnir margir. Þegar sagan endar er hún einfaldlega ekki sú sama og er hún hófst. Söguhetjurnar taka óþarfa breytingum. Skrýtni virðist í upphafi vera metnaðarlaus einfeldningur en verður djúpvitur mannvinur, vinamargur og samfélagslega önnum kafinn. Unnustan virðist í upphafi vera undurfurðulegur rugludallur en endar sem ástúðleg gáfumanneskja sem virðist stjórna söguhetjunni en er henni þó engu að síður um allt undirgefin.
Gallar sögunnar pirruðu mig ekki neitt. Svona eftiráséð hefði höfundurinn getað gert betur en sagan er ágætis afþreying þó ekki hafi hún dregið úr flensufjandanum.