Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Óskaplega spennandi sápuópera í nokkrum þáttum

Það verður að segjast eins og er að leikritshöfundar Samfylkingarinnar eru afar hugmyndaríkir. Euðvitað sáu flestir strax í gegnum þennan farsa. konan sem sagði að sinn tími myndi koma ætti ekki að hika. Hvers vegna skyldi hún hika?

Ástæðan er einföld. Í fyrsta lagi er tilgangurinn að dreifa athyglinni frá umræðunni um þann endemisfund sem flokksmenn Jóhönnu reiddust henni ákaflega fyrir, er hún, Ingibjörg og Össur tilkynntu um sjálftöku sína á þremur efstu sætunum í prófkjörinu. Í öðru lagi er um að ræða afsögn Ingibjargar, sem þó kom fólki ekki svo í opna skjöldu enda flokksmenn búnir að baktala hana líkt og hún væri sjálfur Davíð Oddson.

Mig grunaði þó aldrei hversu ferskir og raunar óforskammaðir leikritshöfundarnir eru. Nú bjóða þeir upp á blysför heim til Jóhönnu og má vera að hún verði næst tekin í heilagra manna og kvenna tölu og verði hér eftir nefnd heilög Jóhanna. Þetta er orðin sápuópera í nokkrum þáttum sem hver og einn vekur athygli langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar. Nefna má að sjálfur Ómar Ragnarsson er kominn á þá skoðun að þjóðin öll þurfi að velja formann þessa flokks. Svo stórt er nú málið að Samfylingarfélögum er ekki lengur treyst fyrir þjóðardýrgripnum Jóhönnu.

Nei, persónudýrkun hefur aldrei verið í Samfylkingunni og má minna á hversu þeir átöldu okkur Sjálfstæðismenn forðum daga fyrir ánægju okkar með hann Davið. En á sama hátt og efnahgaur landsins hlýtur að hafa batna um leið og áðurnefndur Davíð gekk út úr Seðlabankanum þá má gera ráð fyrir því að efnahagur þjóðarinnar batni á þeirri stundu sem heilög Jóhanna samþykkir áskorunina um að verða formaður. Þannig endar leikritið enda hanritið skrifað á þann veg fyrir viku.


mbl.is Beðið eftir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heill sé forseta vorum, forsætisráðherra, fjármálasjávar...

Það er sko alveg vitað mál að Jóhanna hefur farið höndum um þau mál sem brenna á okkur Íslendingum þessi misserin og með þeim afleiðingum að nú dregur úr fjölda atvinnulausra.

Hef það eftir áreiðanlegum heimildum að úr atvinnuleysinu dró mitt á milli þess að Davíð Oddsson gekk út úr Seðlabankanum og sá norski gekk inn. Á liggjandanum gerðist þannig einhver galdur og síðan tók að fjara út.

Þvílík drottins gjöf að hafa fengið hana Jóhönnu með stuðningi hans Steingríms til að ryðja honum Davíð útúr þessum Seðlabanka.

Heill sé forseta vorum, forsætisráðherra, fjármálasjávarútvegsoglandbúnaðarráðherra og ríkistjórn allri.

Skyldi hún Jóhanna nokkuð vilja verða formaður, ha?


mbl.is Dregur úr fjölgun atvinnulausra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er leikrit, hún þarf ekkert að íhuga!

Enn heldur leikritið áfram. Trúir því nokkur maður að konan sem um árið hrópaði: „Minn tími mun koma“ sé í einhverjum vafa um að taka að sér formannsstarfið? Þvílíkt bull.

Þessi atburðarás er hönnuð af almannatengslamanni Samfylkingarinnar og áróðursnefnd flokksins. Tilgangurinn liggur í augum uppi. Hann er einfaldlega sá að breiða yfir þau vandræði sem flokkurinn er í vegna skyndilegrar afsagnar Ingibjargar Sólrúnar. Í annan stað var það tilgangurinn að breiða líka yfir endemisfundinn sem Ingibjörg, Jóhanna og Össur héldu til að lýsa yfir sjálftöku sinni á fyrstu þremur sætunum í prófkjörinu.

Flokkurinn hefur verið við það að liðast í sundur undanfarin misseri, fyrst og fremst vegna vinstri slagsíðunnar á honum, þess hluta sem aldrei gat sætt sig við stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokksins og ærðist hreinlega við bankahrunið. Flokksbrotið sem sá alltaf eftir því að vera ekki með Alþýðubandalaginu og vill nú bandalag við Vinstri græna.

Jóhanna Sigurðardóttir vill vera formaður flokksins. Henni var hins vegar ráðlagt að halda sér til hlés þangað til eftir prófkjör flokksins um næstu helgi. Og það gerir hún. Það eru varla nema sljóir blaðamenn sem halda að konan liggi daglangt undir feldi og pæli í málunum: „Á ég að verða formaður eða á ég ekki.“


mbl.is Jóhanna íhugar áskoranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignaumsýslufélag um íbúðir

Væri ekki þjóðráð að stofna sérstakt eignaumsýslufélag um þær íbúðir sem almenningur er að missa vegna kreppunnar og þá sérstaklega verðtryggingar og myntkörfulána.

Skoða þyrfti að sjálfsögðu hvert einasta tilvik en fara síðan að góðum ráðum og gera fólki kleyft á að eignast íbúðir sínar aftur með nýju láni. Hið nýja lán tekur þá tillit til markaðsverðs íbúðarinnar.

Hugmyndir Framsóknarmanna um flatan 20% niðurskurð á íbúðalánum eru góðra gjalda verðar. Hins vegar á að beina þessum niðurskurði til þeirra sem þurfa á honum að halda. Fjöldi fólks þarf ekkert neina aðstoð. Með eignaumsýslufélag íbúða verða „slæmu“ málin tekin um stundarsakir frá íbúðalánasjóði, hann verður ekki truflaður í rekstri sínum. Síðan koma einfaldlega ný lán í staðin.


mbl.is Samþykkt að stofna eignasýslufélag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Angi af þjóðernisgrobbfréttamennsku

Er nú ekki kominn tími til að hætta þessari þjóðernisgrobbsfréttamennsku sem hefur tröllriðið íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár. Þetta eru yfirleitt gagnrýnislausar frásagnir af hlutum sem eru ákaflega vafasamir. Svipað og „How do you like Iceland?“ froðan.

Hliðstæðar fréttir af þessu tagi eru skrýtnu viðtölin við Íslendinga sem eru að „meika´ða“ í útlandinu. Rætt er við boltastrákinn sem stóð sig svo afburða vel í leiknum sem þó tapaðist. Ekki en greint frá leiknum að öðru leiti. Söngvarinn er á heimsmælikvarða segir fjölmiðillinn og vitnar því til sönnunar í viðtal við sjálfan söngvarann. Ekki er vitnað í aðra.

Verra er eða öllu var þegar vér Íslendingar vorum við það að eignast allan heiminn. Hinir ágætu útrásarvíkingar vorir stóðu sig þá svo innilega vel og fjölmiðlarnir tíunduðu samviskusamlega „afrekin“. Nú veit maður að aldrei var farið í saumana á málunum. Frasinn sem nú sést svo oft, „skuldsett yfirtaka“, heyrðist aldrei.

Íslensku fjölmiðlarnir komu því inn hjá manni að hjá Danske bank ynnu bara skíthælar sem ekkert þekktu til viðskipta eða efnahagsmála yfirleitt. Og ekki voru móttökurnar skárri þegar einhverjum útlendingnum flaug það í hug að rússneskir mafíupeningar væru í spilum útrásarvíkinganna.

Íslendingar „áttu“ nær allan heiminn en eiga nú bara skuldsett hús og fyrirtæki í útlandinu. Okkur var aldrei sagt frá því hvernig þessir útrásarvíkingar gátu keypt hús, flugfélög, verslanir, lystisnekkjur og flugflugvélar. Nú vitum við að þeir tóku peningana okkar út úr bönkunum okkar til þess arna. Þeir keyptu á undirverði og seldu á yfirverði og smurðu yfirleitt stórum hluta skuldanna á eignirnar. Þetta var engin snilld vegna þess að engum heiðarlegum manni dettur í hug að fara svona með fyrirtæki þar sem fjöldi manna vinnur enda teflir það framtíðarmöguleikum starfsfólksins og fyrirtækinu sjálfu í tvísýnu.

Blaðamanni Morgunblaðsins sem ritaði fréttina um hina ódýru borg Reykjavík má þó hrósa því hann fellur ekki í þann pytt að alhæfa heldur brúkar gæsalappir. Þannig er Reykjavík með „ódýrustu“ borgum, ódýr fyrir útlendinga en dýr fyrir Íslendinga. Blaðamennskan skánar.


mbl.is Reykjavík með „ódýrustu" borgum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki minnihlutastjórnni að þakka

Við skulum bara hafa það á hreinu að það er ekki vegna efnahagsráðstafanna minnihlutastjórnarinnar verði stýrivextir Seðlabankans lækkaðir. Hún á engan þátt í þeirri aðgerð vegna þess að hún hefur ekkert lagt til málanna í þeim málum annað en að halda áfram þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn mótaði.

Hins vegar má áreiðanlega búast við því að menn fari nú að þakki Jóhönnu og Steingrími fyrir vaxtalækkunina sem „helv... hann Davíð“ gat aldrei komið í framkvæmd. Og við skulum sjá til hvort þau skötuhjú taka hrósið til sín.


mbl.is Býst við vaxtalækkun í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin leikur sé með fjölmiðlafólk

Eru fjölmiðlar allir komnir í akkorðsvinnu hjá Samfylkingunni? Hversu lengi ætla fjölmiðlar að halda áfram að tuða um tregðu Jóhönnu og bænir samfylkingamanna til hennar?

Ég hef haldið því fram að hér sé um hannaða atburðarás að ræða. Jóhanna segst aldrei hafa ætlað að verða formaður, búin að gefa það frá sér en samt linnir ekki fréttunum af bónorðunum. Þá loksins að leið hennar er greið til formanns í þessum svokallaða krataflokki þá hagar hún sér eins og ungmey sem veit ekki við hvern hún á að dansa.

„Minn tími mun kom“, hrópaði Jóhanna forðum daga. Og svo þegar sá tími erunnur upp að hún má verða formaður þá hikar hún ... Trúir einhver svona leikaraskap.

Nei, þetta er ótrúlegt. Hitt er sjá allir sem vilja að allt er þetta fyrirfram hannað og fréttamenn eru blindir og ráða sér ekki. Er það frétt að Össur vilji fá hana sem formann? Kemur næst viðtal við Dag Eggertsson?

Af hverju segi ég það?

Vita menn ekki að formannsstóllinn í Sjálfstæðisflokknum er laus? Kannski segir það meira um iðjuleysi eða kunnáttuleysi Sjálfstæðisflokksins í kynningarmálum en ofvirkni Samfylkingarinnar að fjölmiðlar hafa ekki frá neinu öðru að segja en heilagri Jóhönnu og naflaskoðun hennar.


mbl.is Össur biðlar til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju var ríkið að skipta sér af?

Fyrst viðskiptaráðherra er svona viss þá dettur upp sú spurning hvers vegna Straumur-Burðarás var ekki hreinlega látinn fara á hausinn? Hverjir eru hagsmunir ríkisins í að halda honum á floti.

Gylfi segir að starfsemi Straums sé að mestu hætt, jafnvel sjálfhætt. Ekki furða þótt maður velti því fyrir sér hvers vegna ríkið er að basla með þennan bagga ef veði Seðlabankans eru nokkuð tryggð.


mbl.is Gylfi: Fleira kom til hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hönnuð atburðarás

Innanbúðar í Samfylkingunni kunna menn að hanna atburðarás og það jafnvel þótt óvænt áföll verði eins og þetta með ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar. Allir vissu að innan Samfylkingarinnar var mikil óánægja með forystuleysi flokksins og ekki síður endemisfund Ingibjargar þegar hún tilkynnti um yfirtöku hennar, Jóhönnu og Össurar á þremur efstu sætunum í prófkjörinu í Reykjavík. Það hleypti illu blóði í enn fleiri.

Áróðurinn gegn Ingibjörgu hefur verið þungur síðustu viku. Þar kom að konan ákvað að stíga til hliðar, hún sá ekki fram á að hafa heilsu í prófkjörsbaráttu við stjórnarandstöðuna í flokknum, þá sömu og krafðist slita á stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn. Vandi þessarar stjórnarandstöðu er hins vegar sá að hún hefur ekki neitt formannsefni á takteiknum.

Jóhanna Sigurðardóttir kvaðst að sjálfsögðu tilbúin til að gefa kost á sér sem formaður. Það var hins vegar ekki hægt að ganga hreint til verks. Menn voru minnugir á óánægju flokksmanna með sjálftökuna á þremur efstu sætunum í prófkjörinu. Í ljósi þess segist Jóhanna ekki ætla í framboð. Fæstir skilja þá afstöðu. Var ekki hennar tími kominn?

Fyrir þá sem ekki vita er nú verið að vinna að viðgerðum á flokknum innanverðum, einkum þó að tvennu. Annars vegar að þurrka út sjálftöku Jóhönnu á efsta sætinu í prófkjörinu í Reykjavík sem þykir við nánari athugun aldeilis ferleg ávirðing. Hins vegar þykir nauðsynlegt að búa til eftirspurn eftir konunni, gera hana að ótvíræðum arftaka Ingibjargar.

Hugmyndin er snilld. Hvers vegna? Jú, vegna þess að viðgerðina og eftirspurnarmálið er hægt að laga með einni einfaldri aðgerð. Þó hin beri fingraför hins vana almannatengils og auglýsingamanns þá eru þau ekki greinileg, skárra væri það nú.

Nú verður tuðað í Jóhönnu og spekúlerað alla vikuna. allir fjölmiðlar og stjórnmálafræðingar verða virkjaðir. Þetta endur svo með því að Jóhanna nær efsta sætinu í Reykjavík með glæsibrag.

Hvað skyldi svo gerast?

Jú, með með semingi mun hún samþykkja að verða formaður næstu árin.


mbl.is Þrýstingur á Jóhönnu vex
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður nú ESB, Evra, álver, hvalveiði og annað gulltryggt?

Þetta er áreiðanlega mjög skynsamleg tillaga hjá Steinunni. Þessir tveir flokkar, VG og Samfylkingin, ættu nú að einhenda sér í að ræða um sameiginlega stefnu í hvalveiðimálum, álver í Helguvík og á Bakka, vatnsaflsvirkjanir, ESB mál og annað sem hingað til hefur nú sundrað þeim.

Niðurstaðan verður kjósendum til mikils gangs. Þeir vita þá það að atkvæði greitt öðrum hvorum flokknum gagnast báðum. Maður kýs krata og fær VG. Þetta er svona eins og tilboð, tveir ísar með súkkulaðidýfu á andvirði eins.

Þetta gagnast áreiðanlega öllum þeim hægri krötum sem héldu að Samfylkingin ætlaði að berjast fyrir ESB aðild og það lægi voða, voða mikið á því.

Þetta gagnast áreiðanlega þeim sem vonuðust eftir að verðtryggingin myndi falla niður við upptöku á Evru.

Þetta gagnast áreiðanlega Húsvíkingum sem og öðrum sem héldu að álver yrði byggt á bakka.


mbl.is Samfylkingin gangi bundin til kosninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband