Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Er ekkert að marka Ögmund?

Nú er komin ástæða til að lýsa eftir Ögmundi Jónassyni sem um daginn gagnrýndi harðlega forvera sinn í embætti heilbrigðisráðherra fyrir að hafa greitt fyrir sérfræðiaðstoð rúmlega 20 milljónir króna á síðasta ári.

Fram hefur komið að utanríkisráðuneytið greiddi tæplega 30 milljónir króna á síðasta ári. Nú bætist iðnaðarráðuneytið við með rúmlega fjóra milljónir króna í sérfræðikostnað á mánuði frá maí til desember.

Hafi Ögmundur meint eitthvað með gagnrýni sinni á fyrri heilbrigðisráðherra annað en að reyna að koma pólitísku höggi á hann, þá hlýtur maðurinn að fordæma fyrrverandi utanríkisráðherra og fyrrverandi iðnaðarráðherra. Annars er bar ekkert að marka Ögmund. Hann er bara að sparka pólitískum blöðrum upp í vindinn.


mbl.is Helmingur greiðslna til fjögurra verktaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjörsamlega vanhæf minnihlutaríkisstjórn

Hvað er í raun og veru að gerast hér á landi meðan svona er rætt um þjóðina í virðulegum útlendum ritum? Jú, allur kraftur minnihlutaríkisstjórnarinnar hefur hingað til farið í að skipta um Seðlabankastjóra með valdi. Til viðbótar er meirihluti þingsins að leggja fram frumvarp um breytingar á kosningalögum og einhver gáfumenni eru að föndra við það að leggja fram frumvarp til laga um jafna kynjaskiptinu í stjórnum fjármálafyrirtækja.

Menn kunna greinilega að forgangsraða á hinu háa Alþingi.

Nei, ekki er lögð megináhersla á efnahagsmál og hvernig koma á þjóðinni út úr þeim hremmingum sem hún er búin að vera föst í undanfarna fimm mánuði.

Og þetta styður Framsóknarflokkurinn, þar sem sagt er að ferskir vindar blási og ungt fólk sé við stjórnvölinn. Hvað er þetta fólk eiginlega að hugsa?

Hversu lengi eigum við að bíða? Auðvitað höfum við nægan tíma. Hvað er maður að kvarta? Þetta er bara smotterí, þessar skítugu ofurskuldir sem eru að sliga annan hvern mann og ekki kvarta þessi 16.000 sem eru á atvinnuleysisskrá og ótaldir eru þeir sem fá ekki atvinnuleysisbætur.

Þetta fólk og við hin horfum við upp á vanhæfa ríkisstjórn, gjörsamlega vanhæfa. Helvítis fokking pakk.


mbl.is Wall Street á túndrunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásta er stjórnmálamaður grasrótarinnar

Ef einhver hefur nokkurn tímann efast um heilindi og heiðarleika Ástu Möller þá ætti sá efi nú að hverfa eins og dögg fyrir sólu.

Ásta hlustar, ekki aðeins og okkur óbreytta Sjálfstæðismenn og stuðningsmenn flokksins heldur almennt á grasrótina í þjóðfélaginu. Hún er alls ekki skoðanalaus, sem betur fer. Hún er einn ötulasti talsmaður íslensks heilbrigðiskerfis, hún styður það en vill að það þróist og breytist.

Hún gefur ekki út yfirlýsingu bara vegna þess að hún stendur í prófkjörsbaráttu heldur vegna þess að hún er skynsöm kona og veit að reynslan er besti kennarinn hafi maður þá auðmýkt að geta lært af eigin mistökum.

Ég skora á fólk að styðja hana í prófkjörinu.


mbl.is Baðst afsökunar á mistökum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var þá stefna Davíðs Oddssonar bara rétt?

Ber þessi yfirlýsing Seðlabankans ekki vitni um að rétt hafi verið staðið að málum hjá fyrri yfirstjórnendum bankans sem og fyrri ríkisstjórn?

Meðan ekki verður gjörbreyting á stefnu Seðlabankans eða minnihlutaríkisstjórnarinnar gerir maður að sjálfsögðu ráð fyrir að aðstæður í efnahagsmálum hafa ekki breyst né heldur að ástæða sé til að breyta um stefnu.

Hvar eru nú besserwisserarnir í þjóðfélaginu sem fundu stefnu Seðalabankans allt til foráttu? Hvar eru þeir sem héldu því fram að stefna fyrri ríkisstjórnar hafi verið kolröng eftir bankahrunið? Og hvar er stefna minnihlutaríkisstjórnarinnar? Er hún aðeins í því fólgin að fylgja markaðri stefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar?

Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Gjaldeyrishöft ekki afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins á réttri leið

Sjálfstæðisflokkurinn þarf að skoða og greina bankahrunið. Hvað gerðist, er einhver sök og hverra er hún? Þetta eru aðeins sjálfsagt verkefni og hluti af þeirri endurreisn sem verið er að vinna að.

Það er vinsæll frasi og oft notaður að hrunið hafi átt sér stað á „vakt“ Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Vaktin er þó snöggtum fjölmennari en nemur ráðherrum, hún er 63 manna og tengist Alþingi órjúfanlegum böndum. ýmsir minni spámenn hafa haldið því fram, svona eftirá, að þeir hafi varað við hruninu. Auðvitað er það tóm vitleysa. Sá sem sér hættumerki framundan unnir sér ekki hvíldar fyrr en allir hafa teki eftir þeim. Þannig er varað við slysum og ekki síður hamförum í efnahagsmálum. Spádómar „aftur í tímann“ eru ekki gildir.

Sjálfstæðisflokkurinn þolir vel svona naflaskoðun. Hann þolir einnig að gefa út yfirlýsingu asökunarbeiðni. Hann getur og á að biðja þjóðina afsökunar á að hafa ekki verið betur á verði en aðrir stjórnmálaflokkar og séð fyrir bankahrunið. Í því er fólgin auðmýkt sem stjórnmálaflokkar eiga að hafa í sér. Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa frumkvæði að þessu fyrir mig og aðra flokksmenn sem enn höldum því fram að sjálfstæðisstefnan hafi ekki brugðist. Þess vegna er endurreisnarnefndin á réttri leið og þetta er ástæðan fyrir nafni hennar.


mbl.is „Flokkurinn þoli stór orð"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ingibjörg þarf að skýra sitt mál miklu, miklu betur

Þetta eru afar athyglisverðar upplýsingar en fráleitt nógu tæmandi. Ekki er nóg að segja frá þessari kröfu og láta sem að þetta sé bara ávirðing á Sjálfstæðisflokkinn. Það gengur alls ekki.

Ingibjörg má ekki skilja svo við söguna að hún segi ekki frá sínum eigin viðbrögðum við kröfu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og norrænna stjórnvalda. Hún verður líka að segja frá því hvort ráðherrar eða þingflokkur Samfylkingarinnar hafi rætt þetta mál og sé svo hverjar urðu málalyktir.

Svo er ég að velta því fyrir mér hvers vegna Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn var að skipta sér af þessum málum í apríl. Á hverra vegum var hann að gera það?

Hálfsagðar sögur stjórnmálamanna um bankahrunið eru marklitlar. Komi fram nýjar upplýsingar þarf að krefja stjórnmálamenn svara. Það er ekki hægt að leyfa þeim að fullyrða eitthvað og komast upp með það.

Var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn stóð í vegi fyrir breytingum á stjórnsýslunni og ekki síður að það hafi verið erindi Samfylkingarinnar í ríkisstjórn að breyta stjórnsýslunni? Ingibjörg hélt þessu fram í þættinum og ég held að hvort tveggja sé rangt. Spyrillinn lét líka hjá líða að spyrja frekar út í þessi mál. Hvernig er það annars, hlusta spyrlar sjónvarpsins ekki á viðmælendur sína.

Núna virðist sem allir stjórnmálamenn nema Sjálfstæðismenn hafi séð hrunið fyrir og þeir segjast hafa varað eindregið við því. Hvers vegna kom þá bankahrunið svona mikið á óvart, erlendis og hér á landi?

Ég er hvorki hagfræðingur né stjórnmálamaður og sá bankahrunið ekki fyrir. Hefði ég gert það hefði ég áreiðanlega staðið upp og ekki sest niður fyrr en ég hefði náð athygli fjölmiðla, stjórnmálamanna og almennings og fengið fram breytingar. Sama hlýtur sá að gera sem sér að bíll er á leiðinni fram af bjargbrún, hann linnir ekki látum fyrr en bíllinn hefur að minnst kosti numið staðar og hann hefur náð tali af bílstjóranum.

Ég held nú sé komið nóg af þeim spámönnum sem búa til spádóma sína eftirá.


mbl.is IMF varaði við í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband