Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Sjónarspil vegna ríkisstjórnar með bundnar hendur

Hversu langan tíma á þetta að taka? Um er að ræða tveggja til þriggja mánaða starfstíma ríkisstjórnar sem hefur afar takmörkuð ráð. Markmið ríkisstjórnarinnar er að halda kosningar hið fyrsta. Þar af leiðir að meginhluta tímans er þingið ekki starfandi og hendur ríkisstjórnarinnar bundnar.

Hamagangur og sjónarspilið er furðulegur í ljósi þessara staðreynda. Getur einhver skýrt þetta út fyrir mér á málefnalegan hátt?


mbl.is Nýr fundur klukkan 10
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB skiptir Samfylkinguna allt í einu engu máli

Aðild að ESB var meginatriði í stefnu Samfylkingarinnar. Muna lesendur eftir orðum Ingibjargar Sólrúnar þess efnis að hafni landsfundur Sjálfstæðisflokksins aðildarumsókn þá jafngildi það stjórnarslitum?

Já, Samfylkingin stendur fast á prinsipmálunum.

Út af fyrir sig er ekkert að því að skoða hvaða möguleikar þjóðin eigi við inngöngu í ESB. Hins vegar taka VG það ekki í mál - alls ekki. Skrýtið að Samfylkingin hafi ekki skoðun á þessari stefnu flokksins. Það skyldi þó ekki vera að þessi afstaða skipti engu máli í minnihlutastjórninni ...

Staðan er nú þessi hjá Samfylkingunni og það skil ég hreinlega ekki:

 

  • ESB skiptir engu máli
  • Minnihlutastjórn er betri en meirihluta
  • Stefna Samylkinginarinnar í stjórn með VG er önnur en í stjórn með Sjálfstæðisflokknum

 

Eflaust eiga fleiri upplýsingar eftir að dúkka upp um stjórnarslitin. Ljóst er líka að Samfylkingin gat ekki haldið áfram stjórnarsamstarfi. VG hlutinn, Alþýðubandalagshlutinn, Fylkingarhlutinn, allt eru þetta armar innan Samfylkingarinnar sem teljast til vinstri hlutans og hann hefur náð yfirhöndinni. Hófsamir kratar og hægri kratar hafa lotið í lægra haldi. Háværi hlutinn er loks kominn heim til vinstri.

Ha, ég, fúll út af stjórnarslitunum? Já, grautfúll. 

 

 



mbl.is ESB ekki á dagskrá í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðræður eru viðræður með eða án formanna

Viðræður milli flokkanna hófust í gærkvöldi en heimildir Morgunblaðsins herma að fulltrúar þeirra hafi rætt óformlega saman síðustu daga um mögulegt samstarf ef fyrra ríkisstjórnarsamstarf héldi ekki.

Formaður Vinstri grænna hefur komið fram í fjölmiðlum og svarið að hann hafi ekki staðið í viðræðum við Samfylkinguna. Sama hefur formaður Samfylkingarinnar. Nú kemur fram að viðræður hafa farið fram á milli flokkanna þó formennirnir hafi verið fjarri því góða gamni. 

Annað hvort er flokkur í viðræðum eða ekki. Skiptir engu þó formenn séu ekki með í leiknum. Viðræður eru viðræður jafnvel þó þær séu kallaðar þreifingar, spjall eða eitthvað annað. 

Köllum bara hlutina sínu rétta nafni, ekki fara undan í flæmingi eða skýla sér á bak við einhver önnur orð eða hugtök. Vinstri grænir voru í viðræðum við Samfylkinguna meðan síðarnefndi flokkurinn var í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Punktur. 


mbl.is Boðuð á fund forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða kosningar í vor?

Er Ágúst Ólafur Ágútsson viss um að það verði kosningar í vor? Enn hefur ekkert verið opinberlega ákveðið um kosningar.

Verði kosningar þarf að rjúfa jafnframt þing. Þar af leiðandi verður hugsanleg minnihlutastjórn VG og Samfylkingar aðeins starfandi í tvo til þrjá mánuði og það án þings. Úrræði ríkisstjórnarinnar vera því afar takmörkuð og raunar má hún ekkert gera, aðeins halda í horfinu.

Það er því ótímabært fyrir Ágúst Ólaf að fara að leggja drög að námi í útlöndum í haust. 


mbl.is Ágúst Ólafur hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin; úr stórum meirihluta í minnihlutastjórn

Það er alveg hreint ótrúlegt að ríkisstjórn með tíu þingmanna meirihluta á Alþingi skuli hafa lagt upp laupanna. Í Morgunblaðinu í morgun eru birt „skilyrði" Samfylkingarinnar fyrir áframhaldandi samstarfi.

Ekkert af þeim er hefði átt að vera ásteitingarsteinn millli flokkanna - nema þetta eina. Átján manna þingflokkurinn vildi fá forsætisráðuneytið. Tuttugu og fimm manna þingflokknum fannst nóg að skipting ráðherraembætta væri jöfn þrátt fyrir stærðarmun.

Sá grunur læðist að flestum hugsandi mönnum að þetta með „verkstjóravaldið“ hafi einfaldlega verið fyrirfram tilbúin ástæða til að hætta í ríkisstjórn. Hvað gat Samfylkingin gert annað? Einstakir hlutar flokksins höfðu ályktað gegn ríkisstjórnarþátttöku með Sjálfstæðisflokknum, andstaða þingmanna, varaþingmanna, ekki síst nokkurra ráðherra var frá upphafi afar áberandi.

Mesta undrun vekur þó stríðið innan þingflokksins og milli ráðherra flokksins. Össur hafnaði því ótal sinnum að skjólstæðingur hans, viðskiptaráðherrann, segði af sér. Össur mun einnig hafa ráðið mestu um að ekki var farið út í stólaskipti og hafnaði því t.d. að embætti fjármálaráðherra kæmi í hlut Samfylkingarinnar. Ráð Össurar var efa þjóðráð fyrir flokkinn enda embættið beiskur kaleikur sem gagnast um þessar mundir lítið í vinsældaleiknum en yrði þeim mun meira til vandræða.

Eftir að hafa hafnað stólaskiptum var eiginlega ekkert annað eftir en að fylgja kröfu VG hluta Samfylkingarinnar og finna eitthvað til að láta brjóta á. „Heyrðu, við gerum bara kröfu til að Jóhanna verði forsætisráðherra,“ sagði Össur í tveggja manna tali við Ingibjörgu Sólrúnu, svo hátt að allir máttu heyra. Menn hlógu fyrst en skildu svo. Hugmyndin var svo fáránleg að hún gat eiginlega gengið upp.

Og þannig endaði fyrsta ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar. Úthaldið brást flokknum þegar aðstæður breyttust. Krepputímar henta ekki í vinsældaleikinn. 

Eftir sitjum við Sjálfstæðismenn. Kannski erum við sárir út í Samfylkinguna fyrir að hafa ekki staðið í lappirnar og reynt að vinna þjóðinni gagn í sterkum meirihluta á Alþingi. Kannski erum við fúlir, leiðir eða eitthvað annað. Eftir stendur undrunin yfir þessum skrýtna flokki sem telur sóma sinn meiri í því að hlaupast frá borði í miðri kreppu og velja þann kost að fara í minnihlutstjórn.


mbl.is „Samfylkingin bugaðist"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriggja mánaða vinstri stjórn er bólusetning

Er þetta einhver misskilningur hjá mér. Dugar bara að ríkisstjórnin segi af sér til að hagfræðingar sjái einhvern vott af birtu í öllu svartnættinu? Og ég sem hélt að einhverjar djúpar undirliggjandi ástæður lægju hér að baki. Eða kannski er svartnættið ekki eins svart eins og hagfræðingar hafa látið vera.

Ég er hið minnsta bjartsýnn og það er bara vegna þess að Samfylkingin stendur illa í lappirnar. Fínt að fá þriggja mánaða vinstri stjórn. Það kallast bólusetning.


mbl.is Gæti birt til á næsta ári eða 2011
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákvarðanafælni Samfylkingarinnar

Merkilegustu upplýsingarnar í sambandi við slit á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Smafylkingar er að sá síðarnefndi hafnaði stól fjármálaráðherra. Hann hefur líklega verið sá beiski kaleikur sem flokkurinn þorði ekki að snerta á.

Þessi staðreynd ein og sér sýnir líklega betur en allt annað að Samfylkingin er hentistefnuflokkur, þorir ekki að taka á málum, er hræddur um að ákvarðanir hans verði óvinsælar. Þetta mátti Árni Matthisen reyna í embætti en hvað sem um hann má annað segja þá þorði hann að taka á málum.


mbl.is Bauð Ingibjörgu að verða fjármálaráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þorir Samfylkingin ekki að taka óvinsælar ákvarðanir?

Lúðvík Bergvinsson þarf að tala skýrar. Hann getur ekki fullyrt að Samfylkingin hafi talað fyrir daufum eyrum Sjáflstæðisflokksins. Hann verður að nefna mikilvægustu tillögurnar sem samstarfsflokkurinn hafnaði.

Það dugar ekki að skjóta sér á bak við þá fullyrðingu að verkstjórnin í Seðlabankanum sé í ólagi. Það er hún ekki. Menn geta haft hverjar þær skoðanir sem finnast um Seðlabankan fyrir hrun en síðan er ekkert upp á bankann að sakast né heldur Davíð Oddson.

Öllum ætti að vera ljóst hvað þarf að gera. Fjölmargt af því mun ekki vera í því fólgið að skapa komandi ríkisstjórn vinsældir. Stóra spurningin er þessi: Hver er tilbúinn til að taka óvinsælu ákvarðanirnar. Getur verið að Samfylkingin þori ekki?


mbl.is Verkstjórnin var ekki í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað kostar svona vitleysa?

Ótrúleg staða að Samfylkingin vilji leika sér með ráðherrastóla núna aðeins korteri fyrir kosningar. Tek undir það sem fjölmrgir segja, kominn tími til að ríkisstjórnin standa saman og halda sjó næstu þrjá mánuði.

Þessi staða er alveg ótrúleg. Hvað ætli svona stólaskipti kosti nú þjóðina í krónum og aurum? Svo maður tali nú ekki um nýja ríkisstjórn.


mbl.is Þingflokksfundir hefjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er ósagt?

Nokkur meginatriði hafa mótmælendur í huga. Mikilvægast er að vekja athygli fjölmiðla á mótmælunum, takist það ekki eru mótmælin gangslaus. Nóg er að tíu til tuttugu manns taki þátt, fleiri er betra en alltf þarf að vekja athygli fjölmila. Það má gera með eftirfarandi hætti:

 

  • Það hefur lítið hagnýtt gildi að hylja andlit sitt en gríðarlega mikið áróðurslegt
  • Klassískt leikur er að kveikja bál 
  • Klifra upp á hús, svalir alþingishússing, þakið, þak Seðlabankans
  • Smávægileg skemmdarverk duga alltaf 
  • Ef lögreglan reynir handtöku þá á sá sem handtekinn er að verjast í lengstu lög og hrópa og æpa sem mest hann má
  • Mjög brýnt er að einhver sé handtekinn
  • Nauðsynlegt er að espa lögregluna, henda einhverju í hana, öskra að henni og fá eihverja lögreglumenn til að missa stjórn á sér. Muna að kenna lögreglunni um allt.
  • Alltaf gagnast vel að henda grjóti í fætur lögreglumann, og þá undir óeirðaskildina.

 

Ég er ekki sérfróður um mótmæli en þekki doldið til í markaðsmálum og almannatengslum og gæti haft einhverjar hugmyndir um áróður. Þeir sem hafa stjórnað mótmælunum skilja þann einfalda sannleik að fjölmiðlar ráða mestu um gildi mótmælanna. Heiftarlegt samstuð mótmælenda hefur haft miklu meira að segja en róleg Austurvallamómæli.

Spurningin er núna þessi: Er eitthvað ósagt um mótmælin? 


mbl.is Skemmdarverk við Seðlabankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband