Er Esjan ónýt?

Eru ferðamenn umhverfisvæn lausn? spyr Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri á bloggsíðu sinni. Hann spyr um mál sem lítt hefur verið haldið á lofti en er engu að síður afar mikilvægt. Fæstir stjórnmálamenn hafa velt þessu máli fyrir sér og síst þeir sem hæst gapa og stara löngunarfullir á mögulegt þingsæti í kosningunum í vor.

Staðreyndin er sú að öll umferð slítur og þá er ekki úr vegi að spyrja með hverju má bæta það sem slitnar. Til landsins kemur núna nærri hálf milljón ferðamanna. Stór hluti þeirra vill njóta hinnar "óspilltu" náttúru. Þeir eru í kjölfari þúsunda Íslendinga sem hafa uppgötvað landið og þörfina fyrir að njóta útiveru, gönguferða um óbyggðir og fjöll.

Þetta er allt gott og blessað en trúa menn því að þær þúsundir sem ganga til dæmis á Esjuna á hverju ári skilji ekki eftir sig spor? Nú er svo komið að gönguleiðin á Þverfellshorn er eiginlega "úr sér gengin". Undir hamrabeltinu eru ótal slóðir þvers og kruss um hlíðina, sumar hafa gengist niður og þar hafa opnast ljót sár, annars staðar hefur verið rutt niður grjóti, gróðri útrýmt og svo framvegis. Allt gerist þetta í glaðlegri umferð ferðafólks en afleiðingin er eflaust alvarlegri en útblástur þrjú hundruð hestafla slyddujeppa eða flugvéla sem flytja fólk til og frá landinu.

Ég held að við ættum að íhuga aðeins hugleiðingu Ómars Valdimarssonar þar sem hann segir  að hann muni frekar velja þrjú, fjögur eða fimm álver í skiptum fyrir 1.200.000 ferðamenn valsandi um landið? 

Með hverju eigum við annars að bæta þann átroðning sem þegar er orðinn á vinsælum ferðamannastöum eins og Esjunni, Hengli, Vífilsfelli, Fimmvörðuhálsi, Þórsmörk, Súlum, "Laugaveginum" svo einhver dæmi séu nefnd?

Þegar öllu er á botninn hvolft eru upphlaup stjórnmálamanna og patentlausnir þeirra einskis virði. Það er einfaldlega ekki svo að við getum flokkað atvinnugreinar í landinu og sagt að þessi sé betri en hin. Ferðaþjónustan getur verið landinu stjórhættuleg rétt eins og eiturspúandi verksmiðja.

Stjórnmálamönnum færi betur að tala varlega, gæta að meðalhófinu og við kjósendur ættum að beina sjónum okkar frekar að þeim hófsömu sem lofa ekki algjörrum viðsnúningi. Góðir hlutir gerast jafnan hægt sagði einhver spakur maður. Kollsteypur eiga ekki við í rekstri þjóðarskútunnar frekar en annarrar útgerðar.

Ef til vill er Esjan ekki ónýt, en við þurfum að auðvelda fólki að ganga á Þverfellshorn án þess að frekari skemmdir verða á landslagi og gróðurfari. Slíkt er auðvelt en kostar fé. Spyrjum þessa stjórnmálmenninga sem hæst gapa og líka hina hvernig þeir sjái fyrir sér að hægt sé draga úr átroðningi á vinsælum ferðamannastöðum.

Ég skal segja ykkur hverju þeir munu svara. Þeir vita ekki hvernig á að gera það, flestir vissu ekki einu sinni að þetta væri vandamál. Þeir sem einhvern grun hafa um vandann munu nefna að takmarka megi aðgang, rukka fyrir hann, loka svæðum og svo framvegis. Vörum okkur á slíkum lausnum.

Hvers vegna?

Tja ... Gettu sjálfur?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband