Leiðinleg kosningabarátta - klúður Sjónvarpsins

Ögmundur2Líkur benda til að þann 12. maí verði  meira gaman að horfa á söngvakeppnina en kosningasjónvarpið sem segir nú meira um leiðindin í kosningabaráttunni.

Hvers vegna er kosningabaráttan svona leiðinleg?

Þvingunarsjónvarp ríkisins hefur gjörsamlega klúðrað  kosningabaráttunni  með því að múlbinda frambjóðendur sem vart mega láta gamminn geysa nema sem svar við geldri spurningu. Í raun er sárgrætilegt að sjá spræka menn steinhalda kjafti með krosslagðar hendur og fætur. Í fæstum tilfellum fá þeir að segja nokkuð annað en: „Við styðjum öll góð mál" og þá er orðið tekið af þeim.

Hlutverk þáttastjórnenda er orðið gríðarlega áberandi og jafnframt leiðinlegt. Þeir líkjast mest fúlum kennurum sem sífellt eru með prikið á lofti og krefjast þess að nemendur haldi sér nú saman nema þegar þeir eru ávarpaðir. Hversu leiðinlegra getur kosningasjónvarp orðið?

Ekki er allt þvingunarsjónvarpinu eða útvarpinu að kenna. Flokkunum eru hræðilega mislagðar hendur í kynningarmálum sínum. Fyrir minn hatt get ég næstum því skrifað upp á allt sem lofað hefur verið í þessari kosningabaráttu. Hins vegar treysti ég aðeins einum flokki til að framkvæma góða hluti en það er nú annað mál.

Hvernig í ósköpunum stendur á því að Framsóknarflokkurinn notar illa „hannað" slagorð: „Árangur áfram - ekkert stopp". Hver talar svona? Og hvers vegna lítur formaðurinn út fyrir að vera lasinn í öllum auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Grár, gugginn og samanrekinn. Jón er ekki þannig, hann er hress og kátur maður en það kemst ekki til skila.

Og Vinstri grænir birta hræðilega illa gerðar auglýsingar m.a. er mynd af formanninum á nærbol í frakka og Ögmundur Jónasson er svo skuggalegur að upp í hugann kemur gamla slagorðið sem notað var gegn Nixon Bandaríkjaforseta: „Would you buy a used car from this man".

Og slagorðið þeirra er ómögulegt: „Allt annað líf" segja þeir í auglýsingum og ósjálfrátt hugsar lesandinn með sér að það geti nú varla verið betra líf.

Samfylkingin birtir nú sjónvarpsauglýsingar sem eiga að vera svo einfaldar og markvissar að þær fara fyrir ofan garð og neðan hjá flestum enda hreyfist fylgi flokksins lítt. Lógó flokksins er einhvers konar tyggjóklessa og hverjir kjósa þær? Svo eru frambjóðendurnir ýmist með eða á móti stefnu flokksins sem er nú ekki beint traustvekjandi.

Frjálslyndir eiga lítið upp á pallborðið hjá almenningi enda hugsanlegt að þeir falli út af þingi. Mér finnst heilsíðu auglýsingarnar þeirra ekki vel gerðar en fólk tekur eftir þeim. Er þá ekki tilgangnum náð? Nei, vont umtal fyrir kosningar er ekki gott umtal. Málefnalega standa Frjálslyndir höllum fæti.

Hræðilegast er að horfa upp á Íslandssamtökin og þá sérstaklega Ómars vegna. Meiri hugsjónamann er varla hægt að finna í stjórnmálum en hann virðist ekki frekar en aðrir fjölmiðlamenn kunna að vera viðmælandi.  

Á meðan aðrir stjórnmálaflokkar fremja sitt harakiri þegir Sjálfstæðisflokkurinn og það er gott því fylgi hans vex. Helst hafa stöku andstæðingar flokksins það út á hann að setja að varaformaðurinn er ljóshærð kona, formaðurinn sitji eins og „hrúga“ í sjónvarpssal og annað eftir því.

Er nokkur furða þótt þessi kosningabarátta sé leiðinleg?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband