Furðuleg umferðarmenning

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu er furðuleg. Tökum nokkur dæmi.

Hver er munurinn á ökumönnum og fótgangandi fólki? Jú, þeir sem eru fótgangandi fara margir hverjir ekki eftir umferðarreglum. Þeir ana margir hverjir út í umferðina á móti rauðu ljósi á gangbraut þegar þeir greina þokkalegt bil á milli ökutækja. Gangandi fólk nennir sjaldnast að bíða eftir grænu ljósi nema umferðin sé þeim mun þyngri. Þetta veldur oft miklu vanda sérstaklega í skammdeginu þegar dökkklæddar verur líða út á götuna og maður má hafa sig allan við til að koma í veg fyrir stórslys.

Tvöfaldar akreinar eru algengar hér á höfuðborgarsvæðinu en þeir eru svo óskaplega margir sem kunna ekki að nota þær. Í gamla daga var mér kennt að maður ætti að öllu jöfnu að halda sig á hægri akrein, en sú vinstri var yfirleitt fyrir framúrakstur. Þannig er nú ekki raunin. Vinstri akreinin er í dag fyrir ökumenn sem eru að tala í símann, skoða útsýnið, kalla með hatt, kellingar sem blaðra við farþegann, sendibíla og tröllabíla með tengivagna og strætó. Við hinir eigum síðan að stunda stórsvig til að komast nokkuð greiðlega um borgina. Það tekst nú sjaldnast.

Umferðarljós eru ansi þægileg til að miðla umferð. Mér var kennt að fara ekki yfir á rauðu ljósi og helst ekki á gulu. Breytingar á þessu hafa greinilega farið framhjá mér og ég er ekki sáttur við þær því mér virðist þeir sem aka yfir á grænu ljósi vera í stórkostlegri hættu.

Bílum hefur fjölgað gríðarlega á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tíu árum. Líklegast er best að fara leiðar sinnar á hjóli eða gangandi. Í Reykjavík eru víða göngu- og hjólastígar. Þeim er skipt í tvo hluta, annars vegar fyrir gangandi og hins vegar fyrir þá sem eru á hjóli. Þetta er ekki góð skipting. Betra er að nota almennar umferðarreglur, menn eiga að fara framúr vinstra megin, hvort sem fólk er gangandi, hlaupandi eða hjólandi. Núverandi skipting er hreinlega óþægileg auk þess sem hún veldur oft misskilningi sérstaklega fyrir hjólandi fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband