Frjálslyndir til vinstri eða Kristinn til hægri

Vegferð Kristins H. Gunnarssonar í stjórnmálaflokkum getur bent til þess að hugsjón hans sé mikið til á reiki, hafi hann þá nokkra. Einu sinni var hann í Alþýðubandalaginu, svo gekk hann í Framsóknarflokkinn og nú í Frjálslynda flokkinn. Talsverður munur er á pólitík þessara flokka og þess vegna óhætt að fullyrða að hafi Kristinn einhverja pólitík þá sé hún að þroskast til hægri.

Við kjósendur virðum einna helst þá stjórnmálamenn sem búa yfir eldmóði og eru staðfastir í skoðunum sínum. Mér hefur virst Kristinn vera vinstri maður og hafi aldrei hafi átt heima í Framsókn. Það eru þá tíðindi að vinstri maður telji sig eiga erindi í hægri flokk og líklega enn meiri tíðindi að hægri flokkur taki fagnandi á móti vinstri manni.

Kristinn fékk ekki brautargengi í prófkjöri innan Framsóknarflokksins og ekki var árangur  Samfylkingarmannsins Valdimars Leós Friðrikssonar meiri. Báðir yfirgáfu flokka sína og Frjálslyndi flokkurinn tók við þeim. Gæti það bent til þess að hægri mennskan hafi bara verið yfirvarp í Frjálslynda flokknum og hann sé hreinlega uppsóp, tilviljunarkennt samansafn manna sem aldrei ætluðu sér á þing en hrukku þangað inn fyrir einskæra heppni? 

Annað hvort eru Kristinn og Valdimar orðnir hægri menn eða að Frjálslyndi flokkurinn er orðinn vinstri flokkur. 

Svo er það svo annað mál hvort þessar pælingar skipti nokkru máli, Frjálslyndi flokkurinn virðist vera að deyja drottni sínum samkvæmt skoðanakönnunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband