Jarðskjálftahrina í Skjaldbreið

DSCN5734 bÍ austurhlíðum Skjaldbreiðar er í gangi nokkuð stöðug skjálftahrina. Þegar þetta er skrifað hafa orðið alls 57 skjálftar frá því rétt fyrir miðnætti fimmtudaginn 7. desember. Stærstu skjálftarnir þrír urðu allir í dag.

  • Fyrsti stóri skjálftinn var 3,5 stig og varð kl. 19:20
  • Annar skjálftinn rúmum hálftíma síðar, 3,1 stig, kl: 19:53
  • Síðasti stóri skjálftinn var 3,8 stig og var kl. 21:26

Allir skjálftarnir voru á svipuðum stað, frá 5 og niður í 5,6 km dýpi.

Ég man ekki eftir svona jarðskjálftahrinu undir Skjaldbreið síðan ég fór að fylgjast með skjálftum hér á landi og eru það nokkur ár síðan. Hins vegar hef ég ekkert annað en minni mitt til að styðjast við. Þykist þó geta fullyrt að hér er um merkilegan atburð að ræða, að minnsta kosti fyrir mig.

Um 9.000 ár eru síðan Skjaldbreið gaus. Hún er dyngja og frá henni rann mikið hraun sem síðan hafa horfið undir yngri hraun. Eldgosið var á þeim tíma þegar svæðið var íslaust. Skammt frá er Hlöðufell sem er líka dyngja en myndaðist við gos undir jökli og telst því stapi, raunar móbergsstapi þar sem móberg varð til er hraun rann í vatn.

Jarðskjálftar þurfa alls ekki að vera fyrirboðar um eldgos, nema ... Jarðfræðingar meta hættu á eldsumbrotum á fjölmarga vegu. Mælar sýna breytingu á landi, lyftingu, færslu, óróa og fleira. Skjálftar undir Skjaldbreið þurfa ekki að vera neitt annað en jarðskorpuhreyfingar, skjálftar í rekbelti sem þarna gengur allt frá Reykjaneshrygg og upp í Langjökul. Þarna eru slitrótt sprungusvæði austur um landið. Á þeim geta vissulega orðið hreyfingar og jafnvel hrinur eins og í Skjaldbreið.

Svo er það þetta orð „nema“. Gosið getur norðan Þingvallavatns eins og annars staðar. Hins vegar eru meiri líkur á því að það gjósi í Heklu, Öræfajökli, Bárðarbungu, norðaustan Öskju, við suðurenda Kleifarvatns, í sjó fyrir norðaustan eða suðvestan landið.

Hins vegar hafa nú orðið 44 skjálftar í austurhlíðum Skjaldbreiðar en innan um tíu síðustu þrjá daga í Öræfajökli og þar er jafnvel búist við eldgosi.

Ég veðja á að hrinan í Skjaldbreið deyi út enda hef ég bara haft góðar draumfarir upp á síðkastið ... Hvað heldur þú, lesandi góður?

Á myndinni sést Skjaldbreiður og fjær er Hlöðufell. Hægra mgin við hinn knáa göngumann er Skriðan.

 


mbl.is Skjálfti af stærð 3,5 í Skjaldbreið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Stendur göngumaður uppi á Háusúlu í Botnsúlnaklasanum ?

Sævar Helgason, 10.12.2017 kl. 09:27

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, Sævar. Við erum þarna á Syðstusúlu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.12.2017 kl. 09:53

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Það er tilkomumikið að standa á gígbrún Skjaldbreiðar og virða fyrir sér útsýnið þaðan. Vonandi er hún bara að laga sig eitthvað til, á sínum stað, án stórfelldra hamfara í kjölfarið.

 Mikið er hann annars reffilegur, göngumaðurinn á myndinni. Er mikið erfiði miðlungs manni, með la la úthald, að komast á topp Syðstusúlu?

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 10.12.2017 kl. 12:55

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Halldór, maður sem er í þokkalegu formi getur gengið á Skjaldbreið. Tvímælalaust. Hins vegar er mikilvægt að kunna fótum sínum forráð, þekkja flest það sem getur valdið vanda.

Hér er texti sem ég birti einhvern tímann um Syðstusúlu.

Hæsti hluti Botnssúlna er Syðstasúla og er hægt að ganga á hana úr Botnsdal í Hvalfirði. Nokkrum metrum lægri er Vestursúla, 1.086 m, þá Miðsúla, Háasúla, 935 m, Súlnaberg og stakur ónefndur tindur. 

Best er að ganga á Syðstusúlu frá Svartagili í Þingvallasveit en þangað er fært öllum fólksbílum. Tæplega klukkustundar gangur er að fjallinu. Ógreiðfær slóði liggur frá Svartagili og sunnan við fjallið. Jeppamenn geta líklega notað hann til að komast aðeins nær fjallinu.

Gönguleiðin á Syðstusúlu liggur upp austanvert fjallið. Göngumaður sem kemur frá Svartagili má þó ekki stefna beint á þann stað því þar fyrir neðan eru brattir hamrar. Ekki má heldur ganga of sunnarlega því þá er hætta á að Súlnagil tefji för. Best er að stefna svolítið sunnan við áðurnefnda hamra og fara þar upp brekkurnar og upp fyrir þá.

Stefnt er að austanverðri Syðstusúlu. Þar er gengið upp skriðurnar að klettunum og eftir klettarimanum, fjallshrygginn. Leiðin er nokkuð tæp en þó mjög vel fær en einstaklega skemmtileg. 

Af hæsta tindi er hægt að velja um nokkrar leiðir niður. Best er að ganga niður af fjallinu norðan megin, ofan á hrygginn þar fyrir neðan og síðan niður dalinn í austur. Mjög bratt er niður suðurhlíðar Syðstusúlu en þær eru þó ekki ófærar.

 

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.12.2017 kl. 20:29

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Já, menn eru á því að gos í Skjaldbreið sé mjög ólíklegt og að þetta sé bara hver önnur skjálftahrina vegna jarðskorpuhreyfinga. En þó er alltaf möguleiki. Þarna gæti komið upp fallegt gos með ljúfu hraunrennsli sem glatt gæti margan túristann og sæist vel ofan af brúnum Almannagjár. Verra væri hinsvegar ef gosið kæmi upp í hlíðum Skjaldbreiðar en ekki í toppgígnum því þá gæti hin reglulega skjaldlögun fjallsins aflagast. Ekki viljum við það.

Emil Hannes Valgeirsson, 10.12.2017 kl. 22:26

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Nei, það er rétt, Emil. Hins vegar eigum við enn Grænudyngju sem raunar er ekki dyngja og ekki dyngjuleg ... Leggjumst því gegn öllum breytingum á landslagi, helst þeim sem eru af mannavöldum og kannski hinum líka.wink

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.12.2017 kl. 23:34

7 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Hafðu þakkir fyrir góð ráð og greinagóða lýsingu á leiðinni. Syðstasúla komin á listann fyrir næsta sumar.

Halldór Egill Guðnason, 10.12.2017 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband