Þegar ofbeldið var barið úr Jónsa

Þegar ég var í Ísaksskóla sparkaði strákur í stelpu og hún fór að grenja eins og allir á þessum aldri gera þegar þannig hendir. Þetta var sosum ekkert óalgengt, en þarna gerðist eitthvað nýtt. Sko, maður mátti henda snjóbolta í stelpur, stríða þeim dálítið en aldrei mátti meiða þær. Það þótti ljótt. Hins vegar var aldrei neitt sagt í þau fáu skipti sem stelpur meiddu stráka. Man til dæmis eftir því að hún Kiddí tuskaði Steina fyrir eitthvað ljótt og hann lét það sér að kenningu verða. 

En það var þetta með strákinn sem sparkaði í stelpuna í Ísaksskóla. Mig minnir að hann hafi heitið Arinbjörn Egill en alltaf kallaður Jónsi því flestum þótti svo erfitt að bera bera fram fyrra nafnið, hvað þá að fallbeygja það. Allir gátu sagt Anna og fallbeygt rétt og þar að auki var hún voðalega sæt, eiginlega uppáhald allra.

Fáir sáu þegar Anna fékk sparkið en hún hrein svo hátt af sársauka að það fór ekki framhjá kennurunum sem sátu inni við huggulega kaffidrykkju. Tveir þeirra þustu út til að hugga Önnu. Jónsi gerð´etta, Jónsi gerð´etta, hrópuðu allir, bæði þeir fáu sem urðu vitni að verknaðinum og sem og allir hinir sem vildu hafa séð hann.

„Ég gerð´etta ekki, ég gerð´etta ekki,“ vældi Jónsi.

Sá kennaranna sem ekki var að huga að báttinu á Önnu dró Jónsa gegn vilja sínum til skólastjórans, kannski að það hafi verið hann Ísak sjálfur, man það ekki. Þar var hann ábyggilega skrifaður upp í ljótu tossabókina og vafalaust rassskelltur, en eldri krakkarnir sögðu að það væri alvanalegt þegar þyrfti að siða þyrfti vonda krakka. Engu skipti þó Jónsi klagaði Önnu fyrir að hafa áður hrekkt sig og ekkert var hlustað þó hann segðist hafa séð svo ótalmarga aðra sparka í stelpur.

Jónsi kom grátbólginn í bekkinn sinn og var nú allt kyrrt um sinn. Ég gerð´etta ekki, sagði Jónsi áður en hann settist. „Hún byrjaði,“ bætti hann svo við og benti á Önnu. „Hún tók eplið mitt og henti því í moldina.“

„Nei, þú ert að ljúga,“ sagði Anna, og fór svo að gráta.

Þegar skóla lauk yfirgáfu allir krakkarnir skólalóðina en eftir sat Jónsi greyið í mölinni, var með blóðnasir og skólaus á hægri fæti. Hann grenjaði heil ósköp. Kennari kom honum til hjálpar. Þegar hann hafði grenjað nóg leitaði hann snöktandi að skónum sínum, fann hann og gekk svo heim.

Ég man ekki hvenær það var en nokkru síðar vorum við Pési, besti vinur minn, úti í frímínútum. „Ertu búinn að sparka í hann Jónsa?“ spurði hann þá. Ég hváði, ha, nei, það hafði ég ekki gert. „Hvað er´etta, þú veist aldrei neitt. Hefurðu ekkert fylgst með því sem hefur verið að gerast í skólanum.“ Ég var ekki alveg viss.

„Sko, þú verður að sparka í Jónsa, allir gera það af því að hann sparkaði í Önnu.“ Hefði ég verið nokkrum árum eldri hefði ég sagt ókei en ég sagði bara staðinn „allt í lagi“.

„Mundu, að ef þú sparkar ekki í Jónsa þá verður sparkað í þig. Viltu kannski að Atli hrekkjusvín eða Gunni litli sparki í þig?“ Neheeeiiii ... það vildi ég sko alls ekki og sætti því færis að sparka í Jónsa. Það reyndist hreint ekki svo auðvelt því það var rétt sem Pétur sagði, allur skólinn, strákar og stelpur, voru á eftir honum og allir reyndu að sparka í hann, ekki bara í legginn á honum heldur líka rassinn og magann. Finnbogi ferlegi náði víst að sparka í andlitið á honum og fékk mikið hól fyrir frækni sína en Jónsi fór auðvitað að grenja.

Stína læddist við það tækifæri aftan að Jónsa og togaði svo kröftuglega í hárið á honum að hann skall aftur fyrir sig og fékk gat á hausinn. Og þar sem hann lá flatur á jörðinni náðu fullt af krökkum að sparka í hann. Þá grenjaði Jón en sárar en áður. Nokkrir kennarar voru í glugganum á kennarastofunni en enginn kom út. 

Grímsi sagði að Jónsi ætti ekki að grenja heldur sýna auðmýkt og viðurkenna að hann væri ofbeldismaður. Svo sparkaði hann í punginn á Jónsa en það hafði skiljanlega minni áhrif á sjö ára strák en hefði hann verið helmingi eldri.

Atli Sigursteins sagðist hafa sparkað þrisvar í Jónsa þar sem hann lá eftir að Stína skellti honum. Það þótti stelpunum flott hann var samstundis uppáhaldsstrákurinn meðal stelpnanna í bekknum. Það var mikil upphefð því áður hafði Atli bara verið hrekkjusvín.

Gunnar litli í sama bekk þorði ekki að nálgast Jónsa því hann var frekar stór, og lét nægja að kasta í hann grjóti og var eftir það aldrei kallaður annað en Gunni grjótkastari og loddi viðurnefnið við hann alla æfi. Um þrjátíu árum síðar dó hann blessaður á Litla-Hrauni þar sem hann var vistaður eins og sagt er, fyrir að hafa gengið heldur frjálslega í skrokk á manni í Grafarvogi vegna fíkniefnaskuldar sonarsonar hans.

Nú, Friðborg sæta sem þekkti hvorki Jónsa né Önnu náði samtals þremur spörkum í Jónsa sem þó var uppistandandi og fögnuðu vinkonur hennar óspart og hvöttu hana áfram í þessu þjóðþrifamáli.

„Ég þoli ekki stráka sem beita ofbeldi,“ sagði svo Friðborg eftir þriðja sparkið, dálítið móð. „Þú ert ógeðslegur,“ argaði hún þegar hún var komin í örugga fjarlægð, en hún var frekar spretthörð.

Jáhá ...,“ sagði vinkona hennar á innsoginu. „Ég þoli ekki svona fíbbl.“

„Gvöð hvað hann Jónsi er mikill obbeldisstrákur,“ sagði önnur, sem hafði bara náð einu sparki og langaði sárlega í fleiri

„Sko, það þarf að taka á svona ofbeldismönnum,“ sagði Stína við Friðborgu, sem var fyllilega sammála. „Strákar sem beita obbbeldi eru svín og það þarf að berja þá oft og lengi í einu.“

„Nákvæmlega það sem ég var að hugsa,“ sagði Atli Sigursteins, sem þarna bættist í stækkandi hópinn. „Sko, ég hef sparkað þrisvar í Jónsa og ég ætla að sparka í hann sjö sinnum í viðbót. Þá verð ég búinn að sparka níu sinnum í hann og það er skólamet sem verður aldrei slegið.“ Atli hafði aldrei verið góður í reikningi þó hann yrði síðar endurskoðandi hjá Landsbankanum sem fór auðvitað á hausinn.

„Vaaaaááá ...,“ andvarpaði hópurinn í einróma aðdáun.

„Ég fatta eitt,“ hrópaði Gunni grjótkastari. „Það er ekki nóg að sparka níu sinnum í svona ofbeldismenn. Þeir verða að læra að ofbeldi borgar sig ekki. Sko, vitiði hvað ég ætla að gera ...?“ Gunni þagnaði og horfði á okkur krakkana sem höfðum safnast í kring um þau Atla og Stínu. Eftirvæntingin var hrikaleg. Greinilegt að nú ætlaði hann að toppa Atla eftirminnilega. Eftir nokkur augnablik í þrúgandi spennu æpti hann: „Sko, ég ætla alltaf að snúa bakinu í Jónsa, hann getur horft á rassgatið á mér en ég ætla aldrei að horfa framan í svona pöddu og þegar ég mæti honum ætla ég að segja prump.“ Og hann bjó til rosalega flott prumphljóð með því að blása í lófan á sér.

Við fögnuðum eins og Gunni hefði skorað mark í fótboltalandsleik.

„Bíddu, bíddu ...,“ hrópaði Atli. „Þú veist nú ekkert hvað ég ætla að gera fyrir utan þessi átta spörk. Ég er sko með eina æðislega hugmynd.“ Og aftur horfðum við krakkarnir með eftirvæntingu á þessa stórkostlegu krossferðariddara sem voru í óða önn að skipuleggja byltingu götunnar gegn ofbeldi.

„Ég ... ég, þaddna ..., ég ...,“ stamaði Atli, og það var rétt eins og hann hefði gleymt því sem hann ætlaði að segja. Svo kviknaði á perunni og hann ljómaði í framan: „Sko, ég ætla aldrei að vera í sama herbergi og Jónsi og ef Jónsi ætlar að segja eitthvað ætla ég að segja langt búúúú og ganga út.“

Við fögnuðum ákaft. Þetta var stórkostleg hugmynd.

Pési vinur minn fagnaði ekki því hann var alltaf snöggur að hugsa. „Heyrðu Atli, þú ert í sama bekk og Jónsi, ætlarðu aldrei að fara í tíma með honum og ætlarðu alltaf að segja búúúúú og ganga út þegar Jónsi á að lesa upphátt? Ha ...? Hvað heldurðu að kennarinn segi?

Atli þagði og horfði ráðleysislega til skiptis á Pétur og Gunna. „Sko, ég ...“

„Hvers konar asni ert þú, þarna Pétur sem ekkert getur?“ öskraði Gunni grjótkastari. „Ertu kannski kominn í lið með ofbeldismönnum eins og Jónsa? Ertu hættur að vera friðarsinni og orðinn ófriðarsinni? Eða er kominn tími til að sparka einhverju viti í þig? Ha?“

„Þú þarna ... þarna ... hræsnari dauðans ætlar þú að halda áfram að kjafta þig lengra út í forað sem þú kemst ekki upp úr?“ æpti Sveinn Hans, og gekk ógnandi að Pétri, sem ósjálfrátt hörfaði undan.

„Þú er haldinn meðvirkni og siðblindu,“ hrópaði Óli Thor, í öruggri fjarlægð úr krakkahópnum.

„Þú ert mest mesta fífl í heimi og haldinn bullandi meðvirkni,“ sagði Jón Kristjánsson.

Pétur þagði, stundum hafði hann vit á því. Ég sagði auðvitað ekkert en færði mig samt svona til vonar og vara frá Pétri ef ske kynni að einhver ætlaði að lemja hann. Það var sko ekki þess virði að láta sparka í sig eða lemja fyrir það eitt að vera vinur Péturs sem ekki kann að ganga í takti við meirihlutann.

Af Jónsa það að segja að stuttu síðar hætti hann í skólanum. Sagt varð hann væri í Hvassaleitisskóla, þar var hann kallaður Addi. Þótti góður strákur, en hlédrægur og feiminn.

Í nokkra daga eftir að Jónsi hætti var ekkert fjör í frímínútum í Ísaksskóla. Stelpurnar byrjuðu að fara aftur í snú-snú og hoppa í parís. Strákar spörkuðu bolta. Svo kom í ljós að gluggi í kjallarageymslu í skólanum hafði brotnað. Einhver kenndi Gunna grjótkastara um en ekkert var hægt að sanna. Hann neitaði öllu, en glotti þó.

Mánuði síðar gerðist það að einhver stal peningum úr úlpunni hennar Gullu Antons. Böndin bárust furðu fljótt að Binni litla Guðmunds. Í næstu frímínútum leituðu Gunni grjótkastari og Atli Sigursteins Binna litla uppi. Þeir byrjuðu á að sparka í hann. Svo hrintu þeir honum í drullupoll og þá fagnaði allur skólinn nema ef til vill Pési vinur minn. Hann var og er friðarsinni nema á rjúpu- eða gæsaveiðum. 

Svo kom í ljós að engum peningum hafði verið stolið, Anna hafði bara gleymt þeim heima. Þá var Binni kominn með blóðnasir og gekk haltur.

„Skiptir engu máli,“ sagði Gunni grjótkastari. „Hann hefði alveg getað hafa stolið þessum peningum, hann er svoleiðis týpa. Og þeir Atli héldu áfram að berja á Binna það sem eftir var vetrar. Þess vegna var hann alltaf eftir það kallaður Binni þjófur. Enn þann dag í dag veit enginn hver Binni er fyrr en viðurnefninu er bætt við. 

Nöfnum allra í sögunni hefur verið breytt nema Péturs. Að öðru leyti er sagan sennileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Þarna fangar þú margt vel Sigurður.

Hafðu þökk fyrir nennuna, að gera söguna næstum því trúverðuga.

Hún hefði verið það ef hún hefði verið hleruð.

En hve margir hefðu verið fordæmdir.

Þó vonandi ekki Pétur, hvað hafði hann til saka unnið að fá ekki nafnbreytingu?

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 7.12.2018 kl. 17:22

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Vonandi lærum við allir af þessari sögu þinni, allir innan og utan þings.

Egilsstaðir, 08.12.2018  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 8.12.2018 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband