Ferðirnar í dalinn sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema ...

Hér verður sagt frá „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Samt hef ég fjórum sinnum komið í hann. Og þetta er ekki gáta.

Mikið væri nú gaman ef ég hefði spáð fyrir um gosið sem kennt er við Geldinga. Ég gerði það ekki og sé eftir því. Ekki svo að ég sjái fram í tímann, þvert á móti. Mér gengur best, ólíkt mörgum öðrum, að segja frá því sem þegar hefur gerst. Væri ég draumspakur, skyggn, kynni að spá í spil eða kaffibolla hefði ég án efa séð gosið fyrir. Þessa hæfileika hef ég ekki en dreg ekki í efa að einhverjar konur hafi hana. Ekki karlar. Útilokað. En blessaðar konurnar gleymdu að spá fyrir um gosið. Jarðvísindamenn komust næst því og jarðbundnara fólk þekkist bókstaflega ekki. En þetta var nú nátengdur útidúr um efni pistilsins. 

Þannig stóðu málin á því ágæta ári 2021 að drjúgur tími fór í að fylgjast með gosinu við Fagradalsfjall. Ég tók myndir, skrifaði um það pistla á blogginu, á fésbókina en þó aðallega fyrir skúffuna, og skemmti mér vel með vinum og kunningjum sem nenntu að fara með mér á gosstöðvarnar. Oft fór ég einn og lét það ekki hefta mig því ég er ansi góður ferðafélagi.

Einu sinni gekk ég hringinn í kringum gosstöðvarnar. Líklega er vegalengdin um tuttugu km og fannst mér vel af sér vikið að rölta þetta. Svo uppgötvaði ég að nær annar hver maður hafði gengið hringinn. Þá dró aðeins úr montinu. Ferðin var samt ágæt, útsýnið stórbrotið og ég kom á staði sem ég hafði bara séð úr fjarska. Þetta var 29. júlí 2021.

IMGL0209_IMGL0210 Lum

Það undur gerðist í ferðinni er ég gekk frá nyrsta gígnum á gömlu sprungunni í áttina að keilulaga merarfjallinu að fyrir mér varð þetta líka snotra dalverpi. Síðar, er ég sagði frá því, var sagt að vel á því að örverpi færi í dalverpi en það er nú önnur saga. Innst inni í dalnum sá ég litla sæta dúddulega rauðhólinn. Ekki var hann marglitur, frekar tvílitur, svartur og rauður en litbrigðin léku ótrúlegan tvíleik svo nánasta umhverfi roðnaði, varð geislandi fagurt.

Fremst í dalnum var gilræfill og inn í hann hafði ógnandi hraunið úr Meradal skriðið af skepnuskap sínum endað ætlaði það sér að fylla dalbotninn en komst ekki upp í hann. Mér fannst tröllagígurinn sem gubbaði kviku, er þetta gerðist, ekki líklegur til að framleið nóg til svo dalnum væri ógnað. Ég hafði rangt fyrir mér.

IMGL0224 Lum

Ég skokkaði framhjá hrauninu og inn í dalinn. Tók nokkrar myndir og dáðist af sýningunni. Svona sést hvergi, ekki við Fagra-dalsfjall, svo mikið vissi ég. Á nokkrum stöðum í dalnum voru gróðurtorfur, merki um það sem áður var. Uppblásturinn hefur verið gríðarlegur eins og víða annars staðar við fjallið og raunar á öllu vestanverðu Reykjanesi. Engu að síður finnast þarna örnefni kennd við húsdýr. Við liggur að það hafi verið dýraníð að reka búfé á þessar slóðir, enda sáralítill annar gróður en mosi og stöku grastoppar. 

Áfram hélt ég hringleið minni, gekk þvert yfir dalinn. Þar er fyrir móbergshryggur sem álengdar er eins og kaun á fjallsöxlinni. Ég gekk upp á hann og inn í næsta dal en ákvað að koma aftur, sjá rauða hólinn í „Rauðhólsdal“.

IMGL0699_IMGL0702 Aur

Tæpum hálfum mánuði síðar, 8. ágúst, kom ég þangað aftur. Mér tókst að plata æsku-vin minn með mér. Við leigðum okkur rafhjól og brunuðum jeppaveginn sem liggur austan við Langahrygg og Stóra-Hrút. Nú gekk ég niður í dalinn úr norðri. Við skildum hjólin eftir fyrir ofan því ekkert vit var í að hjóla niður um stórgrýti og gljúpar sandbrekkur.

Dalurinn hafði breytt um svip því hraunið hafði óboðið læðst lengra inn í hann, kaffært endanlega litla gilræfilinn og var nú nærri hálfnað á leið sinni inni að rauðhól. Nei, þangað kemst það aldrei varð mér að orði. Ég hafði rétt fyrir mér en hugsunin var aðeins byggð á óskhyggju.

Sérkennilegt var að sjá hvernig hraunið hafði liðast hægt og rólega inn dalinn. Hér og þar í því glitti í rauða glóð og af og til gúlpaðist glóandi kvika út úr hrauninu, læddist ofurhægt og hljóðlaust niður á gróðurlausa jörðina og kólnaði þar. Svo varð önnur tunga til  og þannig ungaði hraunið út kvikunni án sjáanlegs erfiðis.

IMGL0690 Snap b Aur

Í fjarska sá ég hvernig mjó rönd reis upp á endann langt úti í hrauninu sem rann ofurhægt framhjá dalmynninu. Ég mundaði myndavélina, notaði aðdráttinn og smellti af. Fannst ég sjá lifandi veru á göngu,  Hraun-Grýlan ógurleg í ævintýrinu sem ég á eftir að skrifa.

Við snæddum nesti í skjóli af gráum klettum í rauðri hlíð fyrir ofan hraunið og veltum fyrir okkur hvort langt yrði í næsta gos á þessum slóðum. Fátt vissum við. Mánuði síðar var gefið út dánarvottorð, geldingsgosinu var lokið.

Svo leið og beið og vetur gekk í garð. Tíðin var ágæt. Ég ákvað að fara enn eina ferðina í dalinn góða og brunaði þangað  á rafhjóli 2. nóvember 2021. Ferðafélagar fengust ekki.

IMGL0880 AI

Þetta var einmannalegur rafhjólatúr. Ekki sála var sjáanleg, allt mannlaust, líflaust, jafnvel tröllslegur gígurinn sem gnæfði yfir umhverfið hafði lagt niður störf. Hraunframleiðslan var hætt eins og jarðvísindamenn orða það. Ég var eiginlega eins og Palli, einn í heiminum. Dálítið ónotalegt upp á fjöllum en ég hristi af mér drungann og lifði þetta af.

Enn hafði dalurinn breytt um svip. Hraunið hafði skriðið talsvert lengra í áttina að rauðhólnum en gefist upp áður en að brattanum kom, skorti allt byggingarefni. Rauðhóll átti greinilega að fá að lifa áfram, tilvera hans var tryggð. Mikið gladdist yfir því. Sá ekki neina ógn lengur. Fátt vissi ég. Auðvitað lá óvinurinn lævísi í leyni hulinn mannlegum augum og leitaði færist að gera út af við dalinn. Tilvist hans var ekki fullrituð í sköpunarsögu jarðar. Um það vissi ég auðvitað ekkert.

IMGL0899 Lum

Nú var mér starsýnt á sprungur í nærliggjandi Mera-fjöllum. Hlíðarnar virtust hafa brostið, ætluðu að skríða niður. Þetta var furðulegt. Ég ímyndaði mér að hraunfargið drægi þær niður en Palli jarðvísindamaður (þó ekki sá sem var einn í heiminum), upplýsti að jarðskjálftar undanfarinna missera hefðu valdið sprungunum en ekki nefndi hann skriðuföll.

Nú liðu níu mánuðir. Eitthvað hafði gerst, meðgöngunni var lokið og jörðin rifnaði og ... (Þetta er frekar bjálfaleg líking, viðurkenni það). Jæja, nú liðu níu mánuðir og allt í einu gerast þau ósköp í litla, snotra dalverpinu mínu að andskotinn verður laus, óvinurinn í leyni reif upp jörðina eins og umslag. Sprunga varð til frá suðvestri, þar sem litli gilræfillinn átti um aldir tilveru undir björtum himni, og í norðaustur, hátt upp í hlíð Merahnúks.

IMGL5547 Neo

Sprungan snýtti úr sér glóandi kviku sem kaffærði umsvifalaust sléttuna fyrir neðan og rúmlega það. Kveikti gróðurelda á stöku stað kaffærði litlu gráu skriðuna í rauðu brekkunni og réðst svo til atlögu við saklausan rauðhólinn sem ekkert hafi til saka unnið frekar en aðrar innréttingar í dalnum. Vörn hans var engin og saga hans því öll. Allt var ónýtt, steypt andstyggilegu svörtu hrauni. Mannlegur máttur hefði ekki getað eyðilagt dalverpið á jafn hrottalegan hátt og getur það þó flest allt. Hér var öllu fórnað þann 3. ágúst 2022 og í ótiltekinn tíma þar á eftir (lesandinn verður að muna að höfundurinn er ekki forspár).

Daginn eftir lagði ég land undir fót eða öllu heldur dekk. Hjólaði með góðum vini á rafhjóli sömu leið og tvisvar áður og í fjórða skiptið kom ég í „Rauðhólsdal“ sem er ekki til og hefur aldrei verið til nema í mínu höfði. Nafnið er ekki lengur réttnefni frekar en Geldingalaus Geldingadalur eða meralaus Meradalur..

IMGL5383_IMGL5387

Við stóðum innan um eitt hundrað manns á kolli rauðhóls og hraunið brimaði rétt fyrir neðan. Sprungurnar sem ég hafði fundið á hólnum fyrir níu mánuðum voru ekki lengur sjáanlegar, allar úttraðkaðar. Uppi um allar hlíðar var fjöldi fólks rétt eins og „þjóðflutningarnir miklu“ hefðu byrjað enn á ný. Aragrúi fólks.

Jarðeldurinn logaði glatt enda vel kynnt undir. Gígarnir voru iðnir í framleiðslu sinni og til varð stór kvikutjörn. Úr henni rann hraun í áttina að hólnum góða, reyndi að komast upp en lak svo inn í litla gilið og kaffærði stórgrýtið gráa. Hraun rann einnig út úr dalnum og yfir það gamla sem tröllagígurinn hafði sent inn í dalverpið og Meradal. Síðast fréttist að það væri komið austur að mörkum dalsins og myndi án efa fara yfir þau eftir nokkra daga.

Ég hafði séð nægju mína. Dalurinn var ekki minn. Ekki lengur. Allt breytist. Jafnvel mannfólkið. Hér á að fylgja andvarp lífsreynds öldungs (man ekki hvað hann heitir).

(Til að njóta myndanna er nausynlegt að smella á þær og opnast þá dýrðin.)

IMGL0209_IMGL0210 Lum sprungaOg hér er aftur efsta myndin en inn á hana hef ég nú dregið línu sem á að tákna kvikusprunguna. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband