Alvarleg rökvilla á kjörseðli

Setjum sem svo að ég væri í heimsókn hjá vinafólki og mér verði boðið eitthvað að drekka. Ég svara ef til vill nei takk. Þá væri það dálítið sérstakt, svo ekki sé meira sagt, ef þessir vinir mínir myndu halda áfram og spyrja hvort ég vilji ekki kaffi, te, vatn, mjólk, gosdrykk og svo framvegis. 

Í vel saminni grein í Morgunblaðinu í morgun ritar Kristján Ingvarsson verkfræðingur og fyrrum frambjóðandi til stjórnlagaþings um fyrirhugaða kosningu um stjórnarskrá. Hann segir:

Það er rökvilla á kjörseðlinum sem notaður verður við þjóðaratkvæðagreiðsluna í október en fáir hafa komið auga á hana eða a.m.k. haft orð á henni. Þetta er gildra sem mun leiða til þess að nýju drögin að stjórnarskrá verða að öllum líkindum samþykkt.

Á kjörseðlinum eru sex spurningar. Fyrsta spurningin er: „Viltu að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ Næstu spurningarnar eru um einstök atriði í framtíðarstjórnarskrá. Þeim sem svarar fyrstu spurningu neitandi ber vitaskuld ekki að svara hinum, en í leiðbeiningunum á kjörseðlinum stendur einungis: „Kjósandi getur sleppt því að svara einstökum spurningum.“ En hvort sem kjósandinn segir já eða nei við seinni spurningunum, verður litið svo á að hann hafi samþykkt drögin.

Og svo segir Kristján að þessari rökvillu hefði verið hægt að kippa í lag með því að bæta við eftirfarandi setningu á eftir fyrstu spurningunni.

„Svarir þú „Já“ við fyrstu spurningu, máttu svara hinum fimm.“ En þessa setningu vantar á kjörseðilinn. Það verður því á valdi stjórnvalda að túlka kjörseðilinn að eigin vild.

Nú er líklega of seint að breyta kjörseðlinum en Kristján kemur með lausn sem allir ættu að geta samþykkt. Hann segir í grein sinni:

Niðurstaðan er þessi: Ef þú vilt að drögin að nýrri stjórnarskrá verði notuð af Alþingi, svararðu fyrstu spurningu játandi og einnig hinum, að vild. Ef þú ert hins vegar andvígur tillögunum, þá svararðu fyrstu spurningu neitandi en sleppir algerlega að svara hinum. Með því móti geturðu forðast gildruna.

Svo er það líka kostur að mæta ekki á kjörstað. Í því er fólgin afstaða sem kom svo skýrt fram við kosningar um stjórnlagaþing. Þá var kjörsóknin aðeins 36%.

Hins vegar mun ég mæta á kjörstað og segja nei við spurningunni á kjörseðlinum vegna þess að ég er ósammála mörgu því sem fram kemur í tillögum stjórnlagaráðs. Þar af leiðandi mun ég fara að ráðum Krisjáns og láta öðrum spurningum á kjörseðlinum ósvarað.


Steingrímur staðinn að því að fara rangt með

Hann var elskaður og dáður af öllum þeim sem ekki þekktu hann.“ Þetta var sagt um mann nokkurn fyrir mörgum, mörgum árum og þótti vel mælt.

Atli Gíslason þingmaður ritar grein í Morgunblaðið í morgun. Hann gerir að umtalsefni stefnubreytingu Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna og atvinnumálaráðherra. Sá segist í orði vera á móti krosseignatengslum í sjávarútvegi. En Atli færir rök fyrir því að það sé meira í orði en á borði.

Í frumvarpi Jóns Bjarnasonar fyrrum sjávarútvegsráðherra um fiskveiðistjórnun var tekið á krosseignatengslum á nákvæman hátt eftir því sem Atli segir. Þegar Steingrímur tók við embætti sjávarútvegsráðherra um síðustu áramót kom í hans hlut að leggja fyrir Alþingi nýtt frumvarp til laga um fiskveiðistjórn. Og Atli segir:

Þegar það var loks lagt fram vorið 2012 brá svo við að fyrrnefnd frumvarpsgrein Jóns Bjarnasonar um krosseignatengsl var horfin. Sömuleiðis ákvæði um hámarksaflahlutdeild í einstökum tegundum. 

Og Atli segir í lok greinarinnar:

Það er ámælisvert að atvinnuvegaráðherra sé hvað eftir annað staðinn að því að fara rangt með. Dapurlegt en satt. Í þessu tilviki eru allar staðreyndir skjalfestar og borðleggjandi. Steingrímur J. segir blákalt í orði að brýnt sé að login verði skýrð og skerpt svo þau virki sem skyldi, en breytir þveröfugt við það.
 
Fyrirsögn greinarinnar er „Miskunsami Samherjinn“. Atli reiðir hér hátt til höggs gegn fyrrum samherja, hærra en flestir gera sér grein fyrir. Atli er rökfastur og ákveðinn og Steingrímur á sér vart viðreisnar von liggur flatur eftir rétt eins og út af ESB málinu, landsdómsmálinu, Icesave málinu, skjaldborgarmálinu, SpKef málinu, Sjóvár-málinu ... Listinn er endalaus.
 
 
 

Skýrslan komin og spuninn hefst

Nú er líklega best að lesa skýrslu Seðlabanka Íslands um kosti i gjaldmiðils- og gengismálum eða úrdrátt úr henni áður en maður tjáir sig. Þá sá ég að blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar hafði stokkið fram á ritvöllinn og þó hann hafi ekki lesið skýrsluna er hann fullur tilhlökkunar. Þá fattar maður stöðuna.

Spuninn er kominn í gang. Nú eigum við eftir að heyra af fjölmörgum besserwisserum sem grípa skýrslu Seðlabankans fegins hendi. Líklega verða það einkum pólitískir samherjar blaðafulltrúans og þeir sem hafa átt um svo sárt að binda vegna afstöðu þjóðarinnar í skoðanakönnunum um aðildina að ESB.

Dálítið skrýtið þetta mál allt saman. Líklegast hefur Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir sér þegar hann ritaði í grein í Mogganum 5. september og sagði um þessa skýrslu sem núna er komin út:

Er ekki fyrirfram ólíklegt að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi aðra sýn á þessi mál en Már Guðmundsson, formaður samningahópsins [hópur ríkisstjórnarinnar sem nýlega mótaði „samningsafstöðu“ hennar á sviði peningamála]? Er ekki hætt við að það liti afstöðu bankans að bankastjórinn hefur þegar, á öðrum vettvangi, tekið jafn skýra afstöðu og hér hefur verið rakið? Og má ekki að lokum spyrja, hvað er orðið um sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstjórninni þegar bankastjórinn stýrir stefnumótunarvinnu fyrir stjórnina í einu viðkvæmasta og umdeildasta álitamáli íslenskra stjórnmála?


mbl.is Segja evruna besta kostinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjaftbrúk, dýfur og leiðindi leikmanna

Kjaftbrúk leikmanna við dómara fer að vera ansi leiðigjarnt, sérstaklega fyrir okkur áhorfendur. Þó maður heyri ekki oft hvað þeir segja þarna úti á leikvellinum fer ekki á milli mála að sjaldnast eru það neinar gælur ef líkamstjáningin er lögð til grundvallar.

Auðvitað gengur ekki að hreyta einhverjum ónotum í dómara og reyna síðan að afsaka sig með því að það hafi verið sagt í hita leiksins. Þetta er eins og að afsaka umferðarslys með því að hafa verið drukkinn undir stýri.

Menn eiga að hafa stjórn á sér, það er grundvallaratriði. Hitt er síðan til opinberrar umræðu að knattspyrnumenn stunda þann undarlega leik að senda dómurum tóninn til þess eins að halda þeim við efnið, sýna hvar valdið liggur. Þegar bæði lið gera þetta spinnst allt smám saman upp í einn allsherjar kjafthátt sem engan enda tekur.

Ósiðir fótboltamanna eru margir. Flestir kannast við þann sið að leikmaður fleygir sér niður í vítateig andstæðinganna til að fá víti. Þetta eru kallaðar dýfur og þeir sem slíkt stunda dýfingameistarar. Stundum takast dýfurnar, dómarar eru auðvitað mannlegir.

Svo fellur einhver, hefur verið tæklaður, brugðið eða hrynur niður af sjálfsdáðum. Þá bregst það sjaldnast að viðkomandi kútveltist, grípur um legginn og hrín hástöfum. Í flestum tilfellum lagast bágtið fljótast ef viðkomandi fær aukaspyrnu út á veltuna. Hrikalegustu slysin á leikvellinum lagast undrafljótt og eru ábyggilega tilefni til mikilla læknisfræðilegra rannsókna. Væri ráð að Íslensk erfðagreinin tæki þetta til athugunar.

Boltinn á það til að fara útaf leikvellinum og mér skilst að þá eigi það lið að kasta inná sem ekki olli því að hann skrapp yfir hvítu línuna. Langt er síðan leikmenn fóru að taka upp þann sið að hjálpa dómaranum með því að lyfta upp hendi er boltinn fer útaf. Með slíkri tjáningu segjast þeir eiga innkastið. Ekki veit ég til þess að dómarar fari almennt eftir þessum markvissu tilkynningum leikmanna enda vandast málið þegar menn úr báðum liðum veifa fálmurunum og þykjast eiga innkastið. Líklegast ættu dómarar þá að kalla á fund og ræða málið og komast þannig að niðurstöðu, nú eða kasta uppá'ða.

Nei, dómar á leikvelli eru ekki til umræðu. Þeir eru endanlegir. Dómi verður ekki kollvarpað með lýðræðislegri handauppréttingu né heldur á þann veg að sá sem hæst hrópar um meint óréttlæti fái að ráða.

Er ekki best, strákar og stelpur, að halda einfaldlega kjafti og snúa sér frá dómaranum eftir að hann hefur dæmt. Það er svosem í lagi að tauta einhvern andskotann ofan í bringuna á sér eða kasta sér niður og berja á grasinu. Nú, og svo má alltaf fara að gráta. Dómarar eru yfirleitt aumingjagóðir og væru áreiðanlega til í að dæma þeim í haga sem fellir flest tárin og grætur sárast.

Best af öllu væri þó að leikurinn fengi að ganga snuðrulaust fyrir sig, án leiksýningar. Já, ég veit, nú fullyrða margir að án leikrænna tilþrifa væri fótboltinn hundleiðinlegur. Eitthvað kann að vera til í því ...


mbl.is „Ertu þroskaheftur?“ spurði Jón og fékk rautt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mogginn klikkar á netáskrifendum

Netaskrift

Man ekki hverstu lengi ég hef verið netáskrifandi að Morgunblaðinu en það eru að nálgast tíu ár. Mun líklega aldrei hverfa til hefðbundinnar áskriftar, þvílík eru þægindin. Hins vegar virðast netáskrifendur Morgunblaðsins alla tíð hafa verið hornrekur hjá blaðinu.

Fyrstu árin þurfti ég að millifæra sérstaklega fyrir netáskriftina, hún var ekki til í kerfinu.

Með Moggaklúbbnum er áskrifendum ætluð sérstök umbun með afsláttum og kjarakaupum hér og þar í viðskiptum en þar er ekki gert ráð fyrir netáskrifendum

Og núna hefur Mogginn milligöngu um kjarakaup á iPad enda eru slík tæki það sem koma skal. Ég forvitnaðist um kaup og kjör en fæ þau svör hjá mbl.is að ég sé ekki netáskrifandi, sjá meðfylgjandi mynd. Engu að síður er ég innskráður eins og sjá má efst í vinstra horninu.

Ég kvartaði auðvitað með tölvupósti. Góður maður á skrifstofu Morgunblaðsins hringdi svo til umsvifalaust og lofaði að láta „forritarana laga þetta“. Það hefur greinilega ekki enn tekist því meðfylgjandi mynd er frá því í morgun. Ekki kemst ég inn í tilboðið frekar en fyrir helgi.

Eftir stendur að Morgunblaðið ætlar að hasla sér völl með því að bjóða netáskriftir en klikkar á grundvallaratriðinu, gleymir núverandi netáskrifendum. Þversagnakennt og ekki góður bissness það fyrir frábært dagblað. 


Gekk berfættur í mosanum á tindinn

DSC_0050

Ég lýsti því fyrir hlustendum þegar ég gekk berfættur á efsta tind fjallsins Löðmundar.  fór ég úr skónum og gekk berfættur til að skemma ekki viðkvæman gróður tindsins.

Þannig ritar Reynir Traustason, ritstjóri DV, í blogg sitt er hann nefnir „Baráttuna við holdið“. Þetta kann að virðast dálítið sérstök lýsing svo ekki sé talað um samhengið. Hið síðarnefnda skiptir mig engu máli.

Þarna er land andstæðna. Gróður á sér erfitt uppdráttar, samfelld gróðursvæði eru lítil, jarðvegur er vikrar eða aska, afskaplega laus í sér. Gras vex einkum nálægt ám og vötnum og gamburmosinn klífur fjöllin. Þannig er þetta við Löðmundarvatn og Löðmund.

DSC_0097

Sá sem gengur fjöllin, lærir á gróðurfarið. Víða á það í gríðarlegum erfiðleikum. Gróðurþekjan rofnar auðveldlega. Þetta sést svo ákaflega vel víða á Fjallabaki nyrðra og syðra þar sem fjöll eru sum hver gróðursnauð neðst. Þar rýkur sandurinn og hreinsar gróðurinn í burtu en ofsinn nær ekki ofar. 

Á fjöllum verður allt svo undarlega öðru vísi og rökhugsunin jafnvel sterkari en endranær, ef til vill barnsleg. Þegar komið er að grænum dýjamosanum reyna flestir að krækja fyrir hann ef mögulegt er. Óraunverulegi litur mosans og oft eyðilegt umhverfið fær göngumanninn til að endurskoða hug sinn. Virðingin fyrir náttúrunni vex eftir því sem maður á fleiri stundir á fjöllum.

Ég er ekki hissa þó Reynir Traustason hafi tekið af sér skóna og gengið berfættur síðasta hluta leiðarinnar á Löðmund. Þó fæstir hafi gert það sama er það einhvern veginn svo rökrétt. Göngufólk skilur manninn enda reyna flestir að hlífa gróðri eins mikið og þeir geta. Ekki er ólíklegt að maður verði léttari við það eitt að halda niðri í sér andanum meðan gengið er yfir viðkvæm, mosavaxin svæði.

DSCN2031

Efsta myndin er tekin í sumar örskammt frá Löðmundarvatni. Þarna gægist grárleitur Löðmundur fyrir ónefnda fjallið við Helliskvísl. 

Önnur myndin er af Mælifelli á Mælifellssandi.

Og þriðja myndin er af dýjamosa sem fundið hefur sér stað skammt frá Strúti í Strútslandi. 


Hefur verið leitað á hálendinu?

Einhvern veginn hélt ég að þegar svona áhlaup gerðist væri reynt að kanna hvernig staðan væri í fjallaskálum eða á fjallvegum. Fjölmargir eru á ferð í september enda veðurlag oftast með ágætum í þeim mánuði á undanförnum árum. 

Maður spyr hvort farið hafi verið kerfisbundið um hálendið til að kanna hvort þar sé einhver. Ég fór í nóvember á síðasta ári á Fimmvörðuháls og þar hitti ég par sem var mjög illa búið til gönguferða. Hefði veðrið breyst til hins verra hefði þetta fólk aldrei komist til byggða af sjálfsdáðum.

 


mbl.is Símalaus í fjallaskála í tæpa viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Septembermyndir í 32 ár

110914100910

Hvar varstu 11. september 2001? Hvar varstu þegar þú heyrðir þessar fréttir eða hinar? Svona er gjarnan spurt. Minnið er hverfult og nú hefur orðið til einhvers konar valkvætt minni. Maður velur að muna, flettir hinu upp í Google eða öðrum minnisbönkum. Slíkir geyma þó sjaldnast persónulegar minningar. 

Stundum reikar hugurinn aftur í tímann og ég velti fyrir mér hvað ég hafi verið að gera í fyrra eða hitteð fyrra. Fyrr í dag fór ég að skoða hversu mikil heimild myndasafnið mitt væri að þessu leyti. Ég komst að því að það er gríðarleg heimild.

Þá datt mér í hug að rekja mig aftur í tímann og reyna að finna út hvað ég var að gera í september á umliðnum árum, helst sem næst þeim fimmtánda, fimmtán dagar til eða frá.

090913080920

Rauðleita myndin efst til vinstri er tekin 14. september 2011. Þá var ég staddur á Fimmvörðuhálsi og grillaði pylsur í holu á eldfellinu Magna. Át þær síðan að vísu ekki með bestu lyst því flest þykir mér betra en pylsur. Hins vegar hafði ég ekkert annað svo ég lét þær duga.

071001060903

Efsta myndin til hægri er tekin í Strútslandi þann 10. september 2010 skammt frá Hólmsárlóni og Strútslaug. Við höfðum gengið langleiðina upp á Torfajökul og erum þarna á leiðinni til baka. 

Önnur myndin vinstra megin er tekin 13. september 2009 í Spákonufelli við Skagaströnd. Horft er yfir flóann til Vatnsness. Raunar er ekki rétt að tala um Húnaflóa heldur heitir þessi hluti hans Húnafjörður.

050903010915

Á móti henni er mynd sem ég tók af Náttmálafjalli 20. september 2008 og er af Illviðrahnúki í Árbakkafjalli við Skagaströnd.  

Þriðja myndin vinstra megin er tekin í 1. október 2007. Nú bregður svo við að ég átti enga mynd í september svo ég leyfði þessari að fljóta með. Hún er frekar haustlega og var tekin í Laugardalnum í Reykjavík.

000924991000

Á móti henni er skemmtileg mynd sem ég tók 3. september 2006 vestan við Hengil. Þarna stendur Guðbergur Davíðsson, vinur minn, við undarlegan móbergsklett.

Fjórða myndin að ofan er tekin 3. september 2005 á hinni fögru eyju Santorini í Miðjarðarhafinu. 

950922-6940906-38

Stórkostlegt er að koma þangað og skoða byggðina og ekki síður ummerki um eldgos sem þarna var fyrir fjögur þúsund árum. Eyjan er virk eldstöð og þar hefur gosið af og til en þó ekkert í líkingu við gríðarlegt sprengigos sem þarna varð um tvö þúsund fyrir Krist. Ég á margar betri myndir en þessa frá Santorini en þær eru teknar í öðrum mánuðum.

930911-61920900-4

Nú bregður svo við að ég finn engar myndir í september þangað 15. september 2001. Myndin er á móti þeirri af Santorini og er af Fláajökli í Vatnajökli. Man ekkert hvað þessi fallegi tindur heitir sem blasir þarna við. Ef til vill getur verið að einhver lesandi geti hjálpað mér.

910913-16900914-40

Fyrir neðan Santorini er mynd sem tekin var 24. september 2000. Þarna var ég staddur við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, líklega í sambandi við þáverandi starf mitt sem framkvæmdastjóri Jöklaferða.

890904-66850910-4

Á móti er mynd sem tekin er í Bergárdal við Höfn þann 1. október 1999. Dalurinn er fallegur, liggur hátt upp í fjöllin austan við Hornafjörð. Þangað gekk ég stundum er ég bjó á Höfn.

Enga mynd tekna í september fann ég fyrr en komið var að 22. september 1995 en þá var þessi mynd tekin af fólki fyrir framan tvo bíla í snjó. Hún er tekin á Fimmvörðuhálsi en þar snjóaði talsvert þennan daga og nóttina á undan.

840901-5830901-33

Á móti henni er mynd sem tekin var 6. september 1994 á Goðahnúkum í austanverðum Vatnajökli. Þetta var mikil ævintýraferð. Toyotan mín, sem þarna sést aftan á, bræddi úr sér, skálinn var yfirfullur og ég svaf í tjaldinu sem sést vinstra megin á myndinni. Visitin var köld í tjaldinu en líklega betri en í yfirfullum skála. Bíllinn sem er lengst til hægri er Gráni hans Freys heitins Jónssonar sem lést núna fyrir hálfum mánuði langt fyrir aldur fram.

Næsta mynd, tekin 11. september 1993, er af hressum og skemmtilegum hópi 11 ára krakka í Melaskóla og foreldrum þeirra í Landmannalaugum. Þetta er einmitt bekkur Grétars sonar míns. Ég og Heiðrún, dóttir mín, erum lengst til vinstri á myndinni.

820900-81811003-5

Á móti er mynd af Reyni Þór Sigurðssyni, vini mínum, sem rennur á ógnarhraða á maganum niður Bröttufönn á norðanverðum Fimmvörðuhálsi. Hún er tekin um 10. september 1992. Svona fer maður venjulega ekki niður fjöll enda stórhættulegt nema ístrumiklu fólki ... Þess ber að geta að Reynir lifði ferðina af.

Á móti er mynd af Fimmvörðuskála í byggingu, tekin 14. september 1990. Þarna vorum við í óða önn að loka þakinu fyrir veturinn.  

Næsta mynd er af bílnum mínum á Fimmvörðuhálsi, tekin 13. september 1991. Myndin er afskaplega merkilega fyrir þá sök að bíllinn stendur eiginlega nákvæmlega á þeim stað þar sem gaus 22. mars 2010.

Þá er mynd frá 4. september 1989 af ferðafélögum mínum. Við vorum þarna á Mælifellssandi á leið frá Hólaskjóli í Bása. Á móti er mynd sem ég tók 10. september 1985 við Sog skammt frá Höskuldarvöllum á Reykjanesi.

800920-15

Þá kemur mynd tekin 1. september 1984 af Dyrunum í Dyradal norðan Hengils. Þetta var í vettvangsferð umhverfismálaráðs Reykjavíkurborgar sem ég sat í á þessum tíma. Fyrir lá að leggja veginn í gegnum Dyrfjöll. Ég lagði mikla áherslu á að hann væri ekki lagður um Dyrnar eins og fyrirhugað var. Það var samþykkt og þeim hlíft.

Á móti er mynd sem ég tók 1. september 1983 af Þverfellshorni í Esju. 

Flekaskilin við Þingvelli eru stórkostlegt fyrirbrigði. Myndina tók ég líklega um 10. september 1982.

Á móti er mynd af Tröllinu eða Bellinum við Tungnaá, tekin 3. október 1981. Þar er einhver galgopi að reyna sig við klettinn en þurfti frá að hverfa.

Síðasta myndin er af skála Ferðafélags Íslands í Hvítárnesi. Hana tók ég 20. september 1980

Læt ég nú þetta duga því myndirnar eru fleiri en ég hugði og eflaust lítill áhugi að lesa þá steypu sem fylgir. Lokið er slitróttu þrjátíu og tveggja ára ferðalagi aftur í tímann. 

PS. Biðst afsökunar á að myndir og texti hefur riðlast miðað við uppsetninguna sem ég notaði. Þetta er vandinn við Moggabloggið, það er ekki wysiwyg („what you see is what you get“) fyrir þá sem skrifa. 

 

 

 

 

 

 

 


Hallbjörn heiðraður fyrir kántrýtónlist sína

DSC_0505

Frami Hallbjörns Hjartarsonar er sprottinn úr grasrót íslenskra menningar. Hann er að mestu sjálfmenntaður í tónlistinni, náttúrubarn. Alla tíð hefur hann haldið tryggðarbandi við uppruna sinn og æskusstöðvar. Hann er borinn Skagstrendingur og þar eru rætur hans, djúpar í þeirri menningu sem staðurinn og fólkið hefur myndað frá örófi alda. 

Hallbjörn missti Amy, eiginkonu sína, fyrr á þessu ári. Fráfall hennar var honum mikið áfall.

Þjóðinni hefur ótt vænt um Hallbjörn. Hann hefur ekki borist mikið á en hún hefur tekið fagnandi á móti hverri plötu sem hann hefur sent frá sér. Og nú gerist sá einstæði atburður að við frama Hallbjörns bætist viðurkenning, ekki íslenska fálkaorðan heldur þakklætisvottur frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Þetta er ótrúlegt og má eflaust rekja til opinberrar heimsóknar sendiherra Bandaríkjanna, Luis E. Arreaga, til Skagastrandar um miðjan júní á þessu ári.

Sendiherrann heillaðist gjörsamlega af þessum litla bæ og skilur ekki fyrir sitt litla líf hvernig svo þróttmikið menningar- og atvinnulíf fær þrifist þar. Hann bloggaði um heimsókn sína og er linkur á þá frásögn hér

Hallbjörn er heiðursborgari Skagastrandar og vel að því kominn. Enginn einn maður hefur stuðlað jafn dyggilega að því að kynna bæinn fyrir landsmönnum.

Pistilhöfundur hefur kynnst Hallbirni lítilsháttar. Fyrir þau kynni er ástæða til að þakka og óska honum jafnframt til hamingju með þá viðurkenningu sem hann fær frá því landinu sem fóstrað hefur kántrýtónlistina.


mbl.is Sendiráðið heiðrar „kúreka norðursins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautaráðið að kenna Sjálfstæðisflokknum um allt

Veðrabrigðin eru allt í einu orðin svo glögg í stjórnmálunum að manni verður beinlínis illt. Takið eftir því að um leið og þingið er sett héldu ríkisstjórnarflokkarnir í gírinn sem nefndur er baráttugírinn.

Þannig var að í byrjun ágúst voru menn orðnir heldur vondaufir eftir slaka útkomu ríkisstjórnarflokkanna þriggja í skoðanakönnunum. Því var blásið til fundar og Hreyfingin skilin eftir. Á þessum fundi var farið yfir vandamálin með sérfræðingum í almannatengslum. 

Ákvörðun var tekin á þessum fundi. Grundvöllur stjórnmálaumræðunnar byggist á hrikalega lélegum árangri ríkisstjórnarinnar á nánast öllum sviðum. Við getum ekki unnið þá umræðu, sögðu sérfræðingarnir, og þess vegna þurfum við að fá að velja umræðugrundvöllinn. Berjum á Sjálfstæðisflokknum með öllum tiltækum ráðum. 

Þetta er ástæðan fyrir því að Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, og allsherjar- og nýsköpunarmálaráðherra, ræddi ekki um ESB umsóknina í undir stefnuræðu forsætisráðherra heldur eyddi tíma sínum í að tala um að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar. Út af fyrir sig má kalla slíkt stefnu.

Þetta er ástæðan fyrir því að núna hefur verið lögð fram þingsályktunartillaga ríkisstjórnarflokkanna um að rannsaka skuli einkavæðingu bankanna. Skítt með það þó Ríkisendurskoðun hafi unnið ítarlega skýrslu um málið vegna atbeina Vinstri grænna. Um leið skiptir framkvæmdavaldið litlu þó túlka megi ályktunina sem beina árás á eina mikilvægustu stofnun sem löggjafarvaldið hefur yfir að ráða.

Þetta er ástæðan fyrir því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, keypti sér ný föt og fór í andlitsupplyfitingu svo finna megi gamalt og ónotað bros. Og fyrir vikið kemur hún nú fram í fjölmiðlum og segir mikilvægast af öllu að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar. Rétt eins og flokknum hafi staðið það til boða eftir næstu helgi.

Og takið eftir því að stjórnmálaumræðan mun á næstu vikum og mánuðum beinast að Sjálfstæðisflokknum og meintum misgjörðum hans. Um leið á að kæfa niður alla umræðu um atvinnuleysið, minnkandi atvinnuþátttöku, skort á fjárfestingum í atvinnulífinu, skuldastöðu heimilanna, einkavæðingu nýju bankanna, SpKef og gjaldþrotastarfsemina, fjárausturinn í Sjóvá, skjaldborgina, launastefnu forstjóra Landspítalans og annað smávægilegt.

Nú á að magna vinda gegn Sjálfstæðisflokknum og það verður sko ekkert smá prump. Þá er bara spurningin hvað sá flokkur gerir eða getur gert. Hann er kannski ennþá sofandi eftir sumarið. 


Óskiljanlegar hugmyndir um Alþingi

Ég skil ekki suma Alþingismenn. Hversu lýðræðislegt er það að takmarka ræðutíma þingmanna? Eðlilegasti hlutur í heimi er að þeir fái að tjá sig og taki til þess þann tíma er þeir þurfa. Hafi einhver athugasemdir við það sem þeir segja og er þeim fullfrjálst að gagnrýna það á þingi eða annars staðar.

Margir vilja fækka þingmönnum. Hversu lýðræðislegt er það? Um leið vilja sumir gera það að skyldu að sá þingmaður er verður ráðherra skuli um leið afsala sér þingmennsku og varamaður kallaður inn í hans stað. Engu að síður skal hann hafa seturétt á þingi, málfrelsi og rétt til að leggja fram þingmál.

Hversu lýðræðislegt er það að flokkur skuli geta með einföldum hætti fjölgað sér á Alþingi fyrir það eitt að hann myndar ríkisstjórn? Þá er auðvitað hætta á því að sá flokkur verði enn meira áberandi í þinglegri umræðu.

Um leið er hættan sú að takmarkaður ræðutími minnki enn vægi stjórnarandstöðu og kæfi rödd hennar endanlega. 


mbl.is Ræðutími þingmanna verði styttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarfulltrúi flengdur

Stundum er ekki nóg að vera gáfulegur. Til að vera tekinn alvarlega dugar ekki að velja réttu orðin og hafa hátt. Á þetta bendir ágætur maður í Morgunblaðinu í morgun. Leifur Magnússon, sem margir kannast við eftir störf hans að flugmálum, er afar ósáttur við að Reykjavíkurflugvöllur verður lagður af og hefur fært margvísleg rök gegn því.

Í grein sinni segir Leifur eftirfarandi:

Í viðtali við Hjálmar Sveinsson, varaformann skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem birt var í Morgunblaðinu 8. sept., staðfestir hann að »ekki standi annað til en að tímasetningar um lokun norður/suður flugbrautar Reykjavíkurflugvallar árið 2016 standi«. Einnig er þar að finna eftirfarandi heimspekikorn:

»Ég minni á að flugvélar sem lenda í Reykjavík eru að lenda við erfiðar aðstæður t.d. á Ísafirði og Grænlandi. Því gætu þær eins lent áfram á austur/vesturbrautinni þar sem aðstæður eru mun betri en á áðurnefndum stöðum,« segir Hjálmar og bætir við að þróunin sé sú að innanlandsflug fari sífellt minnkandi. Að lokum er haft eftir varaformanninum »að hann líti svo á að framtíð Reykjavíkurflugvallar sé í höndum borgarinnar«. 

Til að útskýra hversu vanþekking borgarfulltrúans Hjálmars Sveinssona er mikil vegna ofangreindra orða hans þarf ekki annað en eftirfarandi sem Leifur segir í greininni:

Alþjóðlegar reglur um hönnun og gerð flugvallar fyrir atvinnuflug gera lágmarkskröfu um 95% nýtingu hans með hliðsjón af vindi, og miðað við tilgreind hámörk þess hliðarvinds, sem flugvélar þola við örugg flugtök og lendingar. Fyrir liggja mjög ítarlegar upplýsingar um vindmælingar á Reykjavíkurflugvelli. Vindrós hans staðfestir, að til þess að umræddri 95% lágmarksnýtingu verði náð, þurfa þar í reynd að vera þrjár flugbrautir.

Varla þarf að ræða málið frekar jafnvel þó borgarfulltrúinn mali endalaust um flugbraut á Grænlandi, Akureyri eða Egilsstöðum máli sínum til stuðnings. Hjálmar hefur verið flengdur en alls óvíst hvort hann viti nokkuð af því. Er það ekki síður margra stjórnmálamanna að láta sem ekkert sé?

 


Ó nei, VG vill ekki í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum!

Nú er fokið í flest skjól hjá Sjálfstæðisflokknum. Þeir vilja ekki mynda ríkisstjórn með honum, þeir Björn Valur Gíslason og Steingrímur J. Sigfússon, sem báðir eru þingmenn Vinstri grænna, sá fyrrnefndi afsettur formaður þingflokksins, og sá síðarnefndi allsherjarmálaráðherra með nýsköpun og annað skemmtilegt sem aukagrein. Þetta kemur nú fram í frétt á mbl.is

Verum raunsæ og gerum ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn fái 24 þingsæti í næstu kosningum og Vinstri grænir fái 6 þingmenn, sem allt stefnir í. Það dugar hins vegar ekki til stjórnarmyndunar á næsta kjörtímabili. Og því til viðbótar óvíst hvort hinn fyrrverandi þingflokksformaður komist yfirleitt á þing. Sumir kunna að hugsa, farið hefur fé betra.

En af hverju ættu Vinstri grænir ekki að vilja vera í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Þeir eru nú með Samfylkingunni í stjórn og hafa til þess þurft að leggja af stefnu sína gegn ESB og kosningaloforð um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Bjóðist þeim sæti í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum munu þeir áreiðanlega stökkva til og endurskipuleggja enn þá einu sinni stefnu og kosningaloforð gegn ráðherrastólum.

Það er hins vegar eindræg skoðun mín að kominn sé tími til að gefa Vinstri grænum frí frá ríkisstjórn, leyfa þeim að átta sig næstu þrjátíu árin eða svo. Það hefur gerst áður.  


mbl.is Vill ekki ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rebbi var á Íslandi fyrir landnám

950809-67

Það er bara í leikritinu Dýrin í Hálsaskógi þar sem öll dýrin eru vinir og líklega lifir refurinn þar á salati og lætur sér áreiðanlega vel líka.

Ég hef séð hrafn ráðast á fýl og éta. Minnkur étur fugla og finnst egg herramannsmatur. Ísbirnir éta allt það kjöt sem þeir komast yfir og meira að segja fúlsar hann ekki við fólki né fer í manngreinarálit.

Það er engin miskun í veröld fugla og dýra. Engu að síður hneykslumst við á drápseðlinu, yfir refnum sem kann ekki neina mannasiði og drepur önnur dýr en því miður á frekar hægfara máta. Við atganginn slettist blóð út um allt rétt eins og ... ég veit ekki hvað, kannski í sláturhúsum.

Ef til vill er of mikið af ref á landinu. Velti því þó fyrir mér hver hafi haldið honum í skefjum fyrir landnám. Ef til vill tímgast hann bara til að ergja mannfólkið.

14. sept: Bætti við mynd af ref sem ég tók í Aðalvík 1995. 

 


mbl.is Étin lifandi af tófum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf hann Kjartan tannlæknir

Eigum við ekki að hafa eitt á hreinu. Ekki veit ég ástæðuna en þegar mbl.is birtir mynd af tannlækni þá er það yfirleitt sá ágæti maður Kjartan Örn Þorgeirsson í Skipholti. Betri tannlækni þekki ég varla enda er hann minn einkatannlæknir.

Á myndinni sem fylgir fréttinni er Kjartan í vinnufötunum en sem betur fer er ég víðs fjarri enda í góðu standi með geiflurnar. Hins vegar mæli ég með Kjartani, það er auðvelt.


mbl.is Engir samningar í tíu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þögnin forsætisráðherra um ESB aðlögunina

Þögn Jóhönnu Sigurðardóttur, þingmanns og forsætisráðherra, um aðlögunarviðræðurnar við ESB, er í senn hávær og hrikaleg. Ekki einu sinni Mörður Árnason nefndi ESB málið í umræðunum um stefnuræðu forsætisráðherra. Hefur hann þó verið duglegur í hlaupum nenni forsætisráðherra að siga honum eitthvað.

Þögn Samfylkingarinnar um ESB markar fráhvarf Samfylkingarinnar frá því eina máli sem tilheyrir eina máli sem hún hefur komið með í ríkisstjórnarsamstarfið. 

Pólitískt séð er þetta stórviðburður. Nú hrekjast Vinstri græni og Samfylkingin frá ESB aðildinni vegna þess að kosningar eru í nánd og flokkarnir þora ekki því sem þeir voru fullir hugrekkis yfir árið 2009. Aðlögunarviðræðurnar hafa dregist á langinn. Hvers vegna veit eiginlega enginn. Líklegasta skýringin er sú að ESB veit það sem runnið hefur upp fyrir ríkisstjórninni á síðustu dögum; þjóðin er á móti aðildinni.

Staðan er engu að síður sú að Vinstri grænir og Samfylkingin ná ekki að þvo af sér ESB stimpilinn. Skiptir engu þó þeir reyni að breyta umræðugrundvellinum og ráðast með máttlausum hætti á Sjálfstæðisflokkinn og klína á hann einhverjum öfgum sem hefur aldrei átt grundvöll innan hans. 


mbl.is Fullt tilefni til bjartsýni og sóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litríkir lækir, blautir og þurrir ...

DSC_0383 110827

Þegar hraunspýja rann fram af Fimmvörðuhálsi og ofan í Hvannárgil í Goðalandi stíflaði hún Hvanná, sem þarna er þó frekar lítil.

Hún fann sér þó leið framhjá hrauninu en ekki það og hélt svo sína hefðbundnu leið eins og hún hefur án efa gert í árhundruð án mikilla breytinga. Þegar nánar var að gáð sást þó að hraunið sýndi nokkurn lit.

Liturinn kom fram í árfarvegi Hvannár. Þegar áinn sleikti hraunið leysti hún án efa upp einhver efnasambönd sem síðan settust í árbotninn. Hann varð ljósblár, brúleitur og líklega fékk hann jafnvel fjölbreyttari liti.

Ár er nú síðan ég gekk síðast um Hvannárgil og þá velti ég fyrir mér hversu kunnuglegir mér þótti þetta fyrirbrigði. Hvar hafði ég séð svona áður.

Svo gleymdi ég þessu öllu þangað til ég rakst á myndir úr Kálfafellsdal í safni mínu. Og þá rifjaðist þetta upp fyrir mér.

DSC_0394990805-42

Kálfafellsdalur í Austur-Skaftafellssýslu er stórfengleg náttúrusmíð. Eitt það merkilegasta sem ég hef séð hér á landi. Dalurinn er um það bil fjórtán kílómetra langur en frekar mjór, rúmlega eins kílómetra langur fremst en innst er hann miklu minni, um eitt til tvö hundruð metrar eftir því við hvað er miðað.

Hlíðar dalsins teygja sig víða langt upp fyrir eitt þúsund metra. Þarna eru víða merki um eldvirkni, berggangar teygja sig um allar hlíðar og slíta þær í sundur.

Og svo kemur röðin að hinum undarlegu árfarvegum sem þó voru þurrir er ég átti síðast leið þarna um, fyrir um þrettán árum. 

Á efstu myndinni er hraunspýjan sem féll ofan í Hvannárgil.

990805-45

Á litlu myndinni vinstra megin er lækurinn skammt fyrir neðan hraunið í gilinu. Ef lesandinn brýnir glyrnurnar kann hann að sjá litinn í á grjótinu í árbotninum.

Hægra megin er hinn þurri en blái lækjarfarvegur í hlíðum Kálfafellsdal. Alveg furðulegt að líta hann. Rétt eins og barn hafi þarna verið á ferð með litina sína og fundist ljósblái liturinn flottastur. Eiginlega er hann þó alveg út úr kortinu.

Raunar voru lækirnir tveir ef ekki fleiri. Hér eru myndir af þeim báðum. 


Sífelldir skjálftar undir Tungnakvíslajökli

MýrdalsjökullKatla er komin í frí en Mýrdalsjökull er vakandi. eða með öðrum orðum enginn jarðskjálfti hefur mælst innan öskjunnar í Mýrdalsjökli undanfarna sólarhringa en alltaf er einhver órói undir rótum Tungnakvíslajökuls eða þar um kring.

Greinilegt er að enginn jarðfræðingur les bloggið mitt annars væru þeir án efa búnir að rita einhverjar athugasemdir um þessa sífelldu pistla mína um Tungnakvíslajökul. Mér finnst bara svo merkilegt að virknin skuli hafa þróast á þann vega að þar undir sé mikil hreyfing sem jafnast á við þá inni í öskunni. Og þegar askjan er komin í frí er enn líf undir Tungnakvíslajökli.

Ekki getur þetta allt verið hreyfingar á ís eða hrun. Ímyndum okkur að leikmannasið að þarna verði eldgos. Afleiðingarnar verða meiriháttar svo ekki sé meira sagt. Án efa verður flóð. Bráðvatnið mun streyma út Krossárdal, eflaust með einhverjum skemmdum í Básum og Langadal, síðan út með Fljótshlíð og skella þar á varnargörðum.

Hitt ber þó að skoða að jarðskjálftar þurfa ekki endilega að vera undanfari eldgoss. Það breytir því ekki að staðsetningin jarðskjálftanna er afskaplega forvitnileg - að mínu mati. 


Ósanngjarn stóreignaskattur á eldri borgara

Já, aldeilis fínt að stóreignaskatturinn skuli nýtast. Gott að þeir sem eitthvað eiga aflögu leggi nú aura til vannærðs ríkissjóðs. Svona segja víst margir en hröpum ekki að niðurstöðu.

Í ágætri umfjöllun í Morgunblaðinu í morgun kemur eftirfarandi fram um auðlegðarskatt á síðasta ári:

  • 2.000 landsmenn, 65 ára og eldri greiddu auðlegðarskatt
  • Þessir eldri borgarar greiddu tvo milljarða króna, heildarskattheimtan var sex milljarðar
Þetta lítur vel úr og maður les áfram:
  • 340 þessara eldri borgara voru með árstekjur undir einn milljón króna
  • Þeir greiddu engu að síður 430 milljónir króna í auðlegðarskatt

Hvernig getur fólk greitt auðlegðarskatt af launum sem eru undir einni milljón króna. Veit einhver hve framfærslukostnaður er á mann? Getur einhver lifað á 83.000 krónum á mánuði eða minna?

Hafi 340 manns ekki aðrar tekjur en innan við eina milljón króna á ári þá þarf það að selja íbúðina sína eða húsið sitt. Ef til vill leigja frá sér.

Þegar upp er staðið sýnist mér að þessi skattheimta sé ekkert annað en eignaupptaka, raunar opinber þjófnaður á lögmætum eignum fólks.

Lítum líka á þá staðreynd að fólk sem hefur í gegnum árin sparað og safnað peningum til að keypt eignir sínar. Alla tíð hefur þetta fólk greitt lögboðna skatta af tekjum sínum.

Og núna, þegar þetta fólk er komið á efri ár, kemur nýr skattur. Skatturinn sem fólkið greiddi áður af tekjum sínum var ekki nóg heldur er að auki greiddur skattur, sem í raun er skattur á tekjur sem orðnar eru að eignum. 

Ég geri nú tillögu til hinnar heimsku ríkisstjórnar um nýjan skattstofn. Reiknaðar verði saman tekjur almennings, þær sem ekki voru nýttar til eignakaupa, og þær skattlagðar um 1,5%. 

Já, aldeilis fínt að slíkur skattur geti nýst. Gott að þeir sem eitthvað eigi aflögu leggi nú aura til vannærðs ríkissjóðs.

... ha, hvað segirðu, ágæti lesandi? Á þetta fólk ekki pening til að greiða svona skatt?

Því trúi ég nú alveg. Staða þeirra er þá alveg eins og 340 eldri borgara sem krafðir eru um stóreignaskatt og hafa ekki tekjur til að geta greitt hann.

 

 


Valdabaráttan í Vinstri grænum

Valdabaráttan í Vinstri grænum miðast að því að treysta stöðu formannsins og valdablokkarinna sem hann stendur fyrir og kennd hefur verið við Þistilfjörð. Þannig vinnur hann jafnt og þétt að mynda manngerða skjaldborg í kringum sig, skipaða sínum æstustu aðdáendum og vinum. ...  Pólitísk niðurlæging Björns Vals Gíslasonar á dögunum er ekki eina dæmið um það. 

Björn Valur Gíslason hefur nú hrökklast úr starfi þingflokksformanns Vinstri grænna vegna þess að fjölmiðlapláss vantar fyrir Álfheiði Ingadóttur. Fyrir vikið er hægt að endurvinna skrif Björns Vals og snúa á hann og Vinstri græna. Ofangreint er af bloggin Björns Vals. Feitletruðu orðin eru þó mín.

auðvitað er þessi tilvitnuðu orð tóm þvæla, fyrir og eftir breytingu. 


mbl.is Álfheiður formaður þingflokksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband