Heildarmyndin

Í frétt mbl.is segir að fyrir þrjátíu árum (ekki „síðan“) hafi 79% barna á leikskólaaldri verið laus í bílnum, ekki stól festum með belti. Þetta kannast ég ekki við. Á þessum aldri gætti maður þess að festa börnin tryggilega og raunar æ síðan. Þetta gerðu líka ættingjar, vinir og kunningjar eftir því sem maður best fékk séð.

Það var síðan upp og ofan hvort fólk festi sig sjálft eftir að hafa gengið tryggilega frá börnum sínum. Ég var dálítill trassi með þetta, sá greinilega ekki heildarmyndina. Svo var það að einhver benti mér á þá staðreynd, sem þó blasti við, að verkið var ekki nema hálfnað þegar börnin höfðu verið fest. Hvað var ég að gera þeim með því að festa mig ekki ...? Síðan hef ég alltaf spennt á mig öryggisbeltin í akstri.

Man þó eftir því að systir mín sem bjó í Svíþjóð sagðist alltaf spenna beltið áður en hún setti bílinn í gang. Þetta þótti mér góður siður og þykir enn.

Svo er hér ein örsaga. Þegar reglur voru settar um öryggisbelti voru nú ekki allir á því að fara eftir þeim. Fannst vegið að sjálfstæði sínu og frelsi. Þessi misskilningur rjátlaðist þó fljótt af okkur flestum þegar heildarmyndin skýrðist.

Elsti bróðir minn spennti yfirleitt ekki öryggisbelti í bíl. Aðspurður sagðist hann vera svo góður ökumaður að hann þyrfti þess ekki og svo glotti hann, eflaust rogginn með tilsvarið. Ég þurfti yfirleitt að beita mér að fullu ef ég ætlaði eiga eitthvað í rökræður við eldri systkini mín sem flest öllum fannst litli bróðir svo skelfing ungur og óreyndur.

Í þetta sinn birti þó í hausnum á mér og ég spurði á móti hvort hann liti svo á að aðrir ökumenn væru álíka góðir. Hann leit þá á mig eitt andartak og sagði: „Þú segir nokkuð.“ Og svo spennti hann á sig beltið. 

Vissulega sjá menn oft ekki heildarmyndina eða átta sig ekki á því hvað geti gerst. Dæmi um það er hann faðir minn heitinn sem jafnan geymdi varalykilinn að bílnum í hanskahólfinu.


mbl.is Þegar 79% barna voru laus í bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband