Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

Er afsökunin einlæg og fylgir henni iðrun?

Flestum þykir auðvelt að biðjast afsökunar á ónærgætnum og jafnvel heimskulegum eða ljótum ummælum um aðra. Orð verða sjaldan aftur tekin. Í þankanum situr þó hvort beiðnin hafi verið einlægari en ummælin.

Fólk segir eflaust margt vafasamt í þröngum hópi. Þannig er stundum á  kaffistofunni eða þegar félagarnir sem hittast yfir kaffibolla eða bjórglasi. Má vera að hann hafi verið djúpvitur sá sem orðað hugsunina svona:

Segðu aldrei neitt upphátt sem þú getur ekki endurtekið fyrir mömmu þinni.

Vandinn er hins vegar sá að svo ótal margir kjafta frá sér allt vit undir áhrifum áfengis og líkjast þá svokölluðum „virkum í athugasemdum“ sem tvinna saman óhróður um nafnkennda einstaklinga í athugasemdum við fréttir á visir.is, dv.is og fleiri miðlum. Því miður hefur þetta áhrif og skiptir engu þó „hundurinn Lúkas sé lifandi“.

Flest fólk er kurteist í tali og fasi og sýnir náunganum virðingu. Slíkt kristallast í eftirfarandi setningu sem höfð er eftir góðum manni: 

Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. 

Þetta má útleggja þannig að ekkert gott komi frá vondu fólki. Þá skýst þessi spurning upp kolli margra: Hvaða fólk er vont? 

Eflaust má halda því fram að fæstir séu alvondir eða algóðir. Flest erum við einhvers staðar á einhverju nöturlegu miðjuróli. Stundum sjáum við eftir orðum eða gerðum og sjaldnast teljum við okkur nógu góð því samanburðurinn við annað fólk er alltaf erfiður. 

Þetta allt saman flögraði í gegnum hugann þegar ég frétti af sameiginlegum fundi nokkurra þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Getur nokkuð gott komið frá þeim sem tala svona illa um vinnufélaga sína á Alþingi eða bara annað fólk?

Þingmenn eiga ekki að tala eins og „virkir í athugsemdum“. Þannig á það ekki að vera, þingmenn eiga að vera vandir að virðingu sinni. Dónakjaftar eiga að halda sig annars staðar.

Fréttaflutningur dagsins hefur farið í misjafnlega illa útfærðar afsakanir vegna ummæla og ósanninda. Í sumum tilvikum virðist algjörlega skýrt að einlægni fylgir ekki afsökun.

Í almannatengslum er ein reglan sú að taka á vandamálinu strax, það stækkar og verður verra viðureignar sé því er frestað. Ljóst er að þingmennirnir hafa haft þessa ágætu reglu í huga, svo snöggir voru þeir uppá dekk til að afsaka sig, sumir án einlægni og iðrunar að því er virðist.

Ekki yrði ég hissa þó ein eða tveir sjái sig tilknúna til að segja af sér þingmennsku. Í því væri einlægnin fólgin.

Svo er það allt annað mál og minni háttar í í þessum sambandi hver hleraði og hvers vegna. 


mbl.is „Hörmung að horfa upp á“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frammistöður, spila þátt og staðsetningarsýkin

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Hækkaður styrk­ur svifryks á Ak­ur­eyri.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta er ómöguleg fyrirsögn því vel er hægt segja að svifryk hafi aukist eða mælst meira. Í upphafi fréttarinnar segir blaðamaðurinn:

Auk­inn styrk­ur svifryks hef­ur und­an­farið mælst á loft­gæðamælistöð Ak­ur­eyr­ar­bæj­ar …

Þetta er ekki heldur boðlegt því aftur mætti orða þetta á þann hátt, til dæmis að svifryk hafi mælst meira í þessari mælistöð.

Jafnslæmt er að blaðamaðurinn ofnotar orðið svifryk í allri fréttinni svo úr verður illþolandi nástaða. Auðvitað á hann að skrifa sig oft framhjá orðinu svo fréttin verði læsilegri.

Ef veður­spá næstu daga geng­ur eft­ir gæti áfram orðið hár styrk­ur svifryks í bæn­um. Full ástæða er til að vara við hugs­an­leg­um áhrif­um svifryks­ins …

Í seinna skiptið hér fyrr ofan hefði mátt sleppa orðinu eða setja „þess“ í staðinn.

Tillaga: Svifryk á Akureyri eykst.

2.

Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistöður Þjóðverjans eigi það til að dala. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Frammistaða er eintöluorð. Orðið er samsett, seinni hlutinn staða er til í eintölu og fleiritölu og þá er merkingin stelling, ástand, aðstæður eða embætti. Margar stöður eru ábyggilega til í glímu eða ballett, auglýstar eru stöður lögreglumanna eða sýslumanna.

Svo má gera athugasemd við sögnina dala í þessu tilviki, hún á ekki við hér því orðið merkir að rýrna eða minnka. Nær er að segja að frammistaða fótboltamannsins sé oft ekki nógu góð eða misjöfn, hann sé mistækur.

Tillaga: Unai Emery, stjóri Arsenal, segir að Mesut Özil verði að bæta stöðuleika sinn en hann segir að frammistaða Þjóðverjans sé oft ekki nógu góð.

3.

Instagram spilaði stóran þátt í sprengingunni sem varð á Íslandi. 

Fyrirsögn á visir.is.    

Athugasemd: Hvað þýðir að „spila þátt“. Hef aldrei heyrt um þetta orðasamband. Heimild blaðamannsins er úr erlendum vefmiðli, Global News í Kanada. Þar er fjallað um þátt Instagrams í fjölgun ferðamanna til Íslands. Í vefmiðlinum stendur þetta:

“Instagram has definitely played a huge role in blowing that place up.”

Hér hefur blaðamaðurinn þýtt beint út ensku án nokkurrar hugsunar. Ég bað þá Google translate að þýða þessa málsgrein á íslensku og fékk þetta:

Instagram hefur ákveðið spilað mikið hlutverk í að blása þessi staður upp.

Þýðingin er jafnvitlaus og sú sem blaðamaðurinn gerði. Google Translate kann ekki íslensku. Þó forritið geti þýtt íslensk orð verður útkoman kjánaleg. Blaðamaðurinn hefur hugsanlega enskuna á valdi sínu en hann er eins og Google Translate, hann hefur ekki nægilegt vald á íslensku til að nýta sér þekkingu sína.

Tillaga: Instagram átti tvímælalaust stóran þátt í stórfelldri aukningu ferðamanna til Íslands.

4.

Frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber 2018 verður bráðaþjón­usta hjarta­gátt­ar Land­spít­ala staðsett á bráðamót­töku spít­al­ans í Foss­vogi. 

Frétt á mbl.is.   

Athugasemd: Allur andskotinn er nú staðsettur, sagði karlinn. Undir það má taka því í tilvitnuninni hér að ofan er orðinu lýsingarorðinu staðsettur algjörlega ofaukið. Berið hana saman við tillöguna hér að neðan.

Síðar segir í fréttinni:

Bráðaþjón­ust­an verður í fullri virkni í Foss­vogi frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber.

Einhvern vegin finnst mér dálítið ofsagt að segja að bráðaþjónustan verði með fullri virkni enda skilst það berlega í fyrstu tilvitnuninni. Þar að auki er þetta þjónusta og varla gott að segja að hún sé til dæmis með kvart, hálfri eða fullri virkni. Hvernig er slíkt mælt?

Hins vegar verð ég að viðurkenna að lakara er að segja að full þjónusta sé hjá bráðaþjónustunni. Þá er komin nástaða sem þykir ekki góð. Má vera að lesendur hafi betri tillögu ef þeir eru sammála.

Tillaga: Frá og með laug­ar­deg­in­um 1. des­em­ber 2018 verður bráðaþjón­usta hjarta­gátt­ar staðsett Land­spít­ala á bráðamót­töku spít­al­ans í Foss­vogi.

5.

Maðurinn sem var handtekinn var viðstaddur húsleitina og var handtekinn á staðnum, grunaður um peningaþvætti. 

Frétt á visir.is.    

Athugasemd: Ofangreind tilvitnun er dæmi um hroðvirkni sem allof oft sést á Vísi og einnig á Stöð2. Skemmdar fréttir verða til af því að enginn les yfir. Enginn blaðamaður er svo klár að hann þurfi ekki að lesa frétt sína yfir með gagnrýnum augum.

Tillaga: Maðurinn fylgdist með húsleitinni og að henni lokinni var hann handtekinn.


Persónugallerí, frammistöðuvandi og orðið ítrekað

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Gifti sig heima hjá sér.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Eflaust er ekki beinlínis rangt að segja að konan hafi gift sig heima hjá sér en varla hefur hún gift sig ein, einhverjum giftist hún. Þá má spyrja hvort heimilið sem um er rætt sé heimili þeirra beggja, ekki aðeins hennar.

Tillaga: Gifti sig heima.

2.

Í myndinni birtist fjölbreytt persónugalleríi og viðtöl eru tekin við ýmiss konar fólk úr bænum.“ 

Kvikmyndagagnrýni á bls. 33 í Morgunblaðinu 20.11.2018.     

Athugasemd: Ég hélt að þetta orð „persónugallerí“ væri nýyrði smíðað af starfsmönnum Morgunblaðsins en svo er ekki. Það finnst á malid.is en þar með er ekki sagt að orðið sé gott.

Í Íslenskri nútímamálsorðabók segir að gallerí sé „sýningarsalur fyrir myndlist eða handverk. Orðið er hins vegar ekki skýrt frekar. Hins vegar má segja að það sé nokkuð gegnsætt. Hugsanlega á höfundur tilvitnunarinnar við að í kvikmyndinni Litla Moskva sé fólk af ýmsu tagi.

En ferlega er það flatt að segja að í myndinni birtist fjölbreytt persónugallerí ... Af hverju ekki að í henni séu viðtöl við fólk af ýmsu tagi og uppruna eða eitthvað álíka? Að vísu er rosalega töff að nota persónugallerí.

Ekki var nú ætlunin að agnúast neitt út í þetta orð. Ég var að lesa Moggann í tölvunni og fletti áfram. Á næstu síðu er Ljósvakinn, fastur pistill sem þeir Moggamenn fjalla um dagskrá útvarps- og sjónvarpsstöðva. Þar er segir í umfjöllun um framhaldsmyndina Flateyjargátan:

Í Flatey er þessi líka fína leikmynd sem lítið hefur þurft að breyta og þar hitti Jóhanna fyrir áhugavert persónugallerí

Einmitt þarna datt mér í hug að „persónugallerí“ væri hugarsmíði Moggamanna. 

Við nánari umhugsun finnst er orðið eiginlega óþarft þar sem hægt er að lýsa fjölbreytni fólks á margvíslegan annan hátt. Og það gerir höfundur fyrri tilvitnunarinnar á ágætan hátt er hann lagar málsgreinina lítilsháttar, sjá tillöguna hér að neðan.

Að öðru leyti er umfjöllun Moggans um Litlu Moskvu og Flateyjargátunnar bara þokkalega vel skrifuð og hvetur lesendur til að sjá á þessar myndir. 

Tillaga: Í myndinni birtast fjölbreytt viðtöl við ýmiss konar fólk úr bænum.

3.

Sex ein­stak­ling­ar voru í lyft­unni, þar á meðal ófrísk kona.“ 

Frétt á mbl.is.     

Athugasemd: Einstaklingur er dálítið skrýtið orð. Getur merkt maður, kona, barn og jafnvel eru eintök af dýrum og fiskum sögð einstaklingar, það er eitt stykki af hverju.

Allir vita hvað við er átt þegar sagt er að einstaklingur hafi verið í lyftu. Varla hann dýr eða fiskur. Af samhenginu áttum við okkur á að einstaklingarnir voru fólk, menn, karlar og konur.

Ómar Ragnarsson sagði frá því á bloggi sínu að lyfta hafi fest á 11. hæð í New York:

Það minnir á sögu, sem komst á kreik í New York fyrir mörgum árum þegar allt varð rafmagnslaust og lyftur stöðvuðust, svo að björgunarsveitarmenn og húsverðir voru sendir til þess að bjarga huga að fólki í lyftunum. 

Var þeim uppálagt að spyrja um hvort ófrísk kona væri meðal lyftufarþega þegar þeir kölluðu inn í lyftugangana til að kanna ástandið í lyftunum. 

Þegar húsvörður einn kallaði inn í einn lyftuganginn: „Er einhver í lyftunni!" kom tvíradda svar: „Við erum hér tvö." 

„Er ófrísk kona þarna?" kallaði húsvörðurinn samkvæmt því sem uppálagt var. 

„Nei!“ svaraði maðurinn. „Við erum ekki búin að vera hér nema í fimm mínútur!" 

Þá hló ég upphátt.

Hins vegar er engin ástæða til annars en að segja að sex manns hafi verið í lyftunni sem getið er um í upphafi. Ekki flækja málin. 

Á visir.is segir einfaldlega:

Hópur fólks sem festist í lyftu lifði af 84 hæða fall í turni í Chicago í Bandaríkjunum. Um var að ræða sex manns, þar á meðal kona sem er barnshafandi, sem var í lyftunni sem féll frá 95.

Þetta er miklu skárra orðalag en fjarri því gott. Takið eftir tafsinu „um var að ræða“ og nástöðu tilvísunarfornafnsins sem.

Tillaga: Sex manns voru í lyftunni og þeirra á meðal barnshafandi kona.

4.

Frammi­stöðu­vandi á­stæða upp­sagnar Ás­laugar Thelmu.“ 

Fyrirsögn á frettabladid.is.     

Athugasemd: Karlmenn sem eiga við frammistöðuvanda áttu áður fyrr varla nokkurra kosta völ. Nú á tímum vandinn er leystur með Viagra.

Allt annað mál er með konur sem eiga við frammistöðuvanda að etja. Þær standa sig hugsanlega lakar á einhverjum vettvangi en búist er við. Hins vegar munu flestir karlar lofa öllu fögru áður en frammistöðuvandi verði kenndur við þá, sérstaklega að ósekju.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

5.

Þegar lögregla kom á vettvang blæddi mikið úr manninum meðan konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.“ 

Frétt á dv.is.    

Athugasemd: Furðuskrif birtast oft á DV. Þessi frétt er illa skrifuð, óskipuleg, ruglingsleg, flausturleg og rituð á slæmu máli.

Hins vegar má hafa gaman af skrifunum eins og lýsingunni af manninum sem blæddi á meðan konan viðurkenndi. Vonandi var konan ekki langorð. Takið eftir kansellístílnum:

Brotaþoli hafi gefið skýrslu hjá lögreglu og greint frá því að þegar hún hafi komið heim um klukkan 18:00 hafi kærða verið mjög ölvuð og að drekka whiskey. Hafi brotaþoli sagst hafa gert athugasemdir um að hún væri að sinna barninu svona ölvuð.

Síðar í fréttinni segir:

Maðurinn var síðar fluttur á sjúkrahús en hann reyndist ekki vera í lífshættu, þrátt fyrir að hnífurinn hafi stungist allt að 20 sentímetra inn í brjóstkassa hans. Búið var að stinga á tvö hjólbarða bíls hans og liggur tengdamóðir hans undir grun um að hafa gert það.

Með ólíkindum er að hnífurinn hafi stungist 20 cm inn í brjóstkassa mannsins án þess að hafa farið í gegn. Ef lesandinn er með A4 blað fyrir framan sig getur hann áttað sig á dýpt stungunnar því skammhlið blaðsins er 21 cm. Í brjóstkassanum eru lungu og hjarta svo fyrirferðamikil að erfitt er að stinga þar í gegn án þess að skaða þessi mikilvægu líffæri. 

Niðurstaðan er sú að fréttin er tómt bull og engu líkar en að barn hafi skrifað hana. Stundum veltir maður því fyrir sér til hvers þessi fjölmiðill er eða hvort hinn nýi eigandi hans lesi ekki blaðið eða vefsíðuna. Geri hann það hlýtur honum að ofbjóða málfarið og efnistökin rétt eins og okkur hinum.

Tillaga: Þegar lögregla kom á staðinn blæddi mikið úr manninum.  Konan viðurkenndi að hafa stungið tengdason sinn.

6.

Fór á stefnumót og stakk ítrekað af frá reikningnum – Nú hefur dómur verið kveðinn upp.“ 

Fyrirsögn á dv.is.    

Athugasemd: Fyrirsögnin segir beinlínis að maður nokkur hafi hlaupist á brott án þess að greiða reikninginn, aftur og aftur. Hvers vegna var hann alltaf að stinga af frá sama reikningnum.

Nei, þannig er ekki málið vaxið. Hann stakk af frá þremur ógreiddum reikningum á þremur veitingahúsum.

Þetta er auðvitað stórfrétt. Og mikið er manni létt að dómur hafi verið kveðinn upp. Þó flögrar að manni að blaðamaðurinn hefði getað sagt að maðurinn hafi verið dæmdur fyrir tiltækið.

Með þokkalega skýrri hugsun hefði verið hægt að orða fyrirsögnina á annan hátt án þess að misnota atviksorðið ítrekað. Orðið hefur náð feikna vinsældum meðal reynslulítilla blaðamanna og er nú notað eins og enska orðið repeatedly sem merkir aftur og aftur og jafnvel enn og aftur. Íslenska orðið merkir ekki það sama, gæti þýtt aftur, en ekki margsinnis nema það komi sérstaklega fram, ítreka eitthvað aftur og aftur eða margsinnis.

DV iðkar það að búa til langar fréttir, margsamsettar og með einhverri rúsínu í pylsuendanum sem á að vekja athygli lesandans og fá hann til að lesa meira. Þetta er aðferð sem „gula pressan“ iðkar í öðrum löndum, fjölmiðlar sem eru ekkert sérstaklega vandir að virðingu sinni. 

Fjölmiðillinn birtir afspyrnu ómerkilegar þýddar „fréttir“ eins og þá sem hér um ræða. Í sannleika sagt er ótrúlegt að sá sem vill kalla sig blaðamann vilji standa í svona framleiðslu. Verst er þó hversu þýðingarnar eru oft á slæmu máli og ruglingslegar.

Tillaga: Fór á stefnumót og stakk alltaf af frá reikningum – Hann fékk sinn dóm.


Þriðji orkupakkinn og vantraustið á ESB

Umhyggja sendiherrans fyrir neytendum á Íslandi er vissulega aðdáunarverð, en hann getur verið þess fullviss að Alþingi og önnur stjórnvöld á Íslandi eru fullfær um að tryggja hagsmuni neytenda og ef eitthvað vantar þar upp á geta íbúar landsins kosið sér nýtt Alþingi. Það er kallað lýðræði og virkar betur en sú aðferð að fela ókjörnum aðilum í útlöndum völdin.

Þetta skrifar Haraldur Ólafsson, veðurfræðingur og formaður Heimssýnar, í Morgunblað dagsins. Greinin er andsvar við grein sendiherra ESB á Íslandi. Haraldur skrifar listilega og lætur fylgja nokkur gullkorn sem eru ómetanleg, rétt eins og tilvitnunin hér fyrir ofan.

Umræðuefnið er þriðji orkupakkinn sem svo hefur verið nefndur. Sendiherrann telur lítinn vanda fyrir Íslendinga að samþykkja hann óbreyttan. Engu að síður leggjast margir gegn honum og var við stórveldinu sem setji lög og reglur og geti breytti forsendum síðar meir, jafnvel þessum títtnefnda orkupakka. 

Haraldur segir:

Sendiherrann fullyrðir að orkulöggjöf Evrópusambandsins muni vart gilda um sæstreng milli Íslands og Bretlands. Það kann að vera, en það er ekki augljóst, því enginn veit hvernig sambandi Breta og Evrópusambandsins verður háttað í orkumálum í framtíðinni.

Og í framhaldinu segir Haraldur:

Reyndar segir sendiherrann að enginn í Brussel velti fyrir sér sæstreng. Sjálfsagt eru margar vistarverur í höll Evrópusambandsins og skiljanlegt að sendiherrann hafi ekki heimsótt þær allar. Hann hefur greinilega ekki verið mættur þar sem sæstrengur til Íslands var dreginn á kort og ákveðið að hann væri forgangsverkefni í innviðaáætlun sambandsins. Það kort var teiknað og stimplað í Brussel, líklega daginn sem sendiherrann var fjarverandi.

Mörgum er mikið niðri fyrir um Evrópusambandið og þennan orkupakka. Eftir Icesave og hina misheppnuðu tilraun til að þvinga Íslandi inn í sambandið er ljóst að ekki margir treysta forystu þess, jafnvel þó málstaðurinn líti út fyrir að vera góður.

Í kosningunum 2013 hafnaði þjóðin flokkunum sem vildu að landið færi inn í ESB, þeir voru beinlínis rassskelltir. Kosningabaráttan var hörð og rökin gegn ESB er kjósendum enn í fersku minni.

Ólíklegt er því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur á Alþingi, fólk er einfaldlega á móti hinu yfirþjóðlega valdi og treystir ekki ESB því sambandið getur einhliða breytt leikreglunum. Hver yrði þá staða þjóðarinnar?

Má vera að fæstir sem tekið hafa afstöðu gegn þriðja orkupakkanum hafi ekki lesið hann né séu kunnugir efni hans. Í sjálfu sér er það ekki aðalatriðið því það sem öllu skiptir er að stór hluti þjóðarinnar treystir ekki ESB og kærir sig ekki um að sambandi skipti sér af innanríkismálum Íslands.

Þar af leiðandi hefði það alvarlegar pólitískar afleiðingar fyrir þann stjórnmálaflokk sem samþykkir þriðja orkupakkann, jafnvel þó einstaka þingmenn gangi gegn meirihluta þingflokks og samþykki þá kann það einnig hafa slæm áhrif á kjósendur. 


Gangsett viðbrögð, hlaðnir og handhlaðnir veggir og skyndihugdetta

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Þá sett­um við mikið viðbragð í gang.“ 

Frétt á mbl.is.      

Athugasemd: Þetta orðalag gengur varla upp. Viðbragð er eitthvað sem ekki er skipulagt fyrirfram, það gerist bara, er ósjálfrátt.  

Hins vegar ætti að vera hægt að búa sig undir eitthvað, til dæmis að synda. Þegar syndur maður fellur í vatn bregst hann við á þann hátt að grípa sundtökin. Æfing getur framkallað ákveðið viðbragð.

Oft er talað um rétt viðbrögð, þá eru þau ósjálfráð, hafa þau verið æfð. Maður grípur ósjálfrátt andann eftir að hafa komið úr kafi, það er fyrsta viðbragðið, annað er að synda.

Í fréttinni segir:

Ágúst Leó Sig­urðsson, svæðis­stjóri björg­un­ar­sveita, seg­ir að boð hafi komið frá lög­reglu um að 25 manna hóp­ur hefði verið í Reyn­is­fjöru og að einn úr hópn­um væri týnd­ur. „Þá sett­um við mikið viðbragð í gang,“ seg­ir Ágúst.

Björgunarsveitin gekk að ákveðnu skipulagi sem hún hafði undirbúið ef álíka tilfelli kæmu upp.

Vinsælt er nú hjá blaðamönnum að tala um „viðbragðsaðila“. Þetta er nýtt en getur varla heldur gengið upp því notkun þess getur verið óljós. Hver er viðbragðsaðilinn þegar eldur kemur upp í bíl. Vel getur  verið að eigandinn, nágrannar eða vegfarendur hafi slökkt eldinn eða aðstoðað við það. Eru þeir þá viðbragðsaðilar?

Vera má að lögreglan hafi séð um slökkvistarfið líka. Er þá ekki rangt að kalla hana „viðbragðsaðila“ því lesendur eða hlustendur fréttarinnar gætu haldið að þarna hefði slökkvilið kæft eldinn?

Niðurstaðan er því sú að best er að nota heiti þeirra sem koma að málum. Lítill sparnaður er í því að kalla lögreglu, slökkvilið, sjúkraflutningsfólk eða björgunarsveitir einhverju öðru nafni en þau bera. Ekki rugla með þetta.

Hvað gera viðbragðsaðilar þegar maður nokkur setur viðbragð í gang er hann sér heimilisfólk yfirgefa húsið? Eflaust frétta fyrrnefndir viðbragðsaðilar að síðari viðbragðsaðilinn hafi með viðbragði sínu farið óboðinn inn í húsið til að fjarlægja verðmæti.

Einhver stofnaði ísbúð sem heitir Valdís (orðið skiptist svona, Vald-ís en ekki Vald-ís). Brögð eru að því að mörg ísbrögð séu þarna á boðstólum en óvíst hvort hægt sé að fá ís með viðbragði.

Svona er hægt að rugla með málið en til skilnings er best að breyta ekki merkingu orða. Stundum getur það tekist en í mörgum tilfellum bendir misheppnuð tilraun til vanþekkingar.

Svæðisstjórinn segir einnig þetta í fréttinni:

 „Við ætluðum að ein­blína á strönd­ina og leita í fjör­unni.“

Ekki er ég alveg sáttur við það að björgunarsveitin ætli að stara á ströndina hreyfingarlítið. Vera má að sá sem stjórni drónanum einblíni á skjáinn, hinir, stjórnandinn meðtalinn, einbeita sér að því að leita í fjörunni, það er frá Reynisfjalli og vestur að Dyrhólaey, hún er þrír km á lengd.

Tillaga: Þá unnum við samkvæmt fyrirframgerðu skipulagi.

2.

Það eru eflaust ekki margar mæðgur sem vinna við það hér á landi að hlaða veggi en í Mývatnssveit hafa þó einar slíkar unnið undanfarna mánuði við að koma upp handhlöðnum veggjum upp við hótel við Mývatn.“ 

Frétt á visir.is.       

Athugasemd: Hver er munurinn á hlöðnum vegg og handhlöðnum vegg? Fyrri hluti málsgreinarinnar skilst ágætlega, mægður sem hlaða veggi. Í senni hlutanum er veggurinn skyndilega orðinn handhlaðinn. Hvers vegna er þetta með vegginn tvítekið í einni málsgrein? Á mínum blaðamannsferli hefði sá sem sem svona skrifar verið kallaður á teppið.

Auðvitað er þetta tóm vitleysa hjá blaðamanninum. Hann les ekki textann sinn yfir og virðist þar að auki algjörlega gagnrýnislaus á eigin skrif.

Berum saman tilvitnaða textann við þann sem hér er gerð tillaga um. Þá má fljótt sjá að miklu betur er hægt að gera ef einhver hugsun er til staðar.

Tillaga: Eflaust vinna ekki margar konur við að hlaða veggi. Í Mývatnssveit hafa mæðgur unnið að hleðslu við Icelandair hótel.

3.

Í umfjöllun Mail Online er bent á að Albanía sé einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að fíkniefnasmygli.“ 

Frétt á dv.is.        

Athugasemd: Svona skrif kallast einfaldlega tuð með óþarfa málalengingum. Margir ungir blaðamenn átta sig ekki á því að með tuði þannig verður frásögn óljós og leiðingleg. 

... einn af miðpunktum Evrópu þegar kemur að ...

Svona má bara ekki skrifta. Þetta er þvílík steypa að ekki tekur nokkru tali.

Eftir að hafa skoðað fréttamiðilinn Mail Online er óhætt að gera neðangreinda tillögu.

Tillaga: Í Mail Online er fullyrt að Albanía sé ein af miðstöðvum fíkniefniasmygls í Evrópu.

4.

Fjölskylda talin hafa myrt átta meðlimi annarrar fjölskyldu.“ 

Fyrirsögn á visir.is.       

Athugasemd: Ekki er þetta gott. Meðlimur er líklegast orðið gilt íslenskt orð en oft fer betur á því að nota önnur. Allir eru hluti af fjölskyldu, auðveldast sleppa öllum málalengingum og segja beinlínis að Jón og Gunna séu í sömu fjölskyldu. Pétur vinur þeirra er í annarri fjölskyldu. Skipsverji er í áhöfn. Sá sem spilar á gítar kann að vera í hljómsveit. Best er að sleppa dönskuslettunni, „være medlem af familien ...“.

Berum svo saman fyrirsögnina hér að ofan og tillöguna hér að neðan. Af því má sá að orðið meðlimur er algjörlega ofaukið. 

Tillaga: Myrtu átta manns í annarri fjölskyldu.

5.

Hinn fimmtán ára gamli Gauti Steinþórs­son gerði sér lítið fyr­ir í síðasta mánuði og varð yngsti Íslend­ing­ur­inn til þess að klífa Is­land Peak, 6.200 metra háan tind í Himalaja­fjöll­um, eft­ir skyndi­hug­dettu og ár­sund­ir­bún­ing.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.        

Athugasemd: Hér að ofan er slæmt dæmi um stílbrot í frásögn, mætti jafnvel heita stílleysa. Takið eftir orðasambandinu að gera sér lítið fyrir. Hvað þýðir það? Jú, eflaust að gera eitthvað án mikillar fyrirhafnar.

Síðast í fréttinni segir hins vegar:

„Þetta var það erfiðasta sem ég hef gert í líf­inu og tók hrika­lega á, bæði lík­am­lega og and­lega,“ seg­ir Gauti.

Drengurinn gerið sér ekki lítið fyrir, með erfiði og þrautseigju tókst honum ætlunarverk sitt. 

Annað stílbrot í fréttinni er niðurlagið:

… eft­ir skyndi­hug­dettu og ár­sund­ir­bún­ing.

Drengurinn er sagður hafa gengið á fjallið eftir árs undirbúning, tvö orð, ekki eitt.

Þessi tvö orð eiga ekki erindi í sömu setninguna án nánari skýringar, rekast á og rugla. Ekki er nóg að henda inn sennilegum orðum og kalla frásögn.

Hvað er svo skyndihugdetta annað en hugdetta? Hið fyrrnefnda er líklega ekki til. Hvort tveggja verður til á stundinni og sumir láta verða af slíkri dettu, aðrir ekki. Hugdetta má segja að sé hugmynd sem í fyrstu var snjöll en útheimti síðar mikið erfiði.

Lítum á tillöguna hér fyrir neðan. Hún er dálítið ólík enskuskotnu tilvitnuninni (The fifteen years old ... Den femten år gamle ...) Þannig er ekki tekið til orða á íslensku. 

Tillaga: Gauti Steinþórs­son, fimmtán ára gamall, er yngsti Íslend­ing­ur­inn til þess að klífa Is­land Peak, 6.200 metra háan tind í Himalaja­fjöll­um. Hugdettan kostaði hann heilt ár í undirbúning. 

 

 


Er engin gæðastjórnun á íslenskum fjölmiðlum? Má allt?

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

Ein- og einsdæmi

Eindæmi þýðir bæði ábyrgð og ráðríki. Sá sem gerir e-ð upp á sitt eindæmi gerir það á eigin ábyrgð – og að eigin geðþótta. „Hann treystir engum, heldur gerir allt upp á sitt eindæmi.“ 

En einsdæmi, með s-i, þýðir einstæður atburður. Þessu skyldi ekki rugla saman – þótt ótal dæmi séu um það í ritmáli!

Málið á bls. 28 í Morgunblaðinu 6.11.2018.

 

1.

Greind­ist bil­un í fjór­um síðustu ferðum.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Þegar sagnorð er fremst í setningu er oft verið að spyrja einhvers. Í fyrirsögninni hér að ofan vantar spurningamerkið svo áhöld eru um það hvort hún sé spurning eða fullyrðing. Hér er hallast að hinu síðarnefnda.

Afar auðvelt er að breyta fyrirsögninni vegna þess að upphaf fréttarinnar  er rétt orðuð, þar segir:

Bil­un greind­ist í hraða- og hæðarmæli í fjór­um síðustu ferðum farþegaþotu indó­nes­íska flug­fé­lags­ins Lion Air, sem hrapaði úti fyr­ir strönd Jövu í síðustu viku. 

Ekki er einleikið ef sami blaðamaðurinn og samdi textann skuli klúðra fyrirsögninni. Enn skrýtnara er að sá sem samdi fyrirsögnina skuli ekki gera sér grein fyrir orðaröðinni.

Tillaga: Bilun greind­ist í fjór­um síðustu ferðum. 

2.

Sex kosningabaráttur til að fylgjast með.“ 

Fyrirsögn á visir.is.      

Athugasemd: Barátta er eintöluorð og ekki til í fleirtölu, sjá hér. Þetta læra flestir sem alist hafa upp við að lesa bækur. Aðrir eiga erfiðara með að skilja þetta enda er orðaforði þeirra og skilningur á íslensku máli yfirleitt frekar lítill.

Mér er til efs að lélegri texti hafi verið skrifaður á vefmiðlinum Vísi og er þó úr mörgu slæmu að velja. Blaðamaðurinn virðist hafa afar lítinn skilning á íslensku máli. Hann þýðir beint og gagnrýnislaust úr ensku, virðist engan skilning hafa á íslensku máli.

Fréttin er stórskemmd. Sem matvæli væri hún hættuleg neytendum og búið að loka verksmiðjunni.

Hér eru dæmi sem eru gagnrýniverð, annað hvort fyrir málfar, stafsetningu eða beinlínis framsetningu. Taka skal fram að margt fleira er aðfinnsluvert:

  1. Bandaríkjamenn kjósa í 435 þingsæti …
  2. Flest sætin þykja örugg fyrir stóru flokkana tvo …
  3. … bláa bylgju sem mun ríða yfir Bandaríkin með tilheyrandi sigrum …
  4. Mest spennandi barátturnar …
  5. Repúblíkanar eru að spila varnarleik gegn blárri bylgju …
  6. … að fylgjast með mest spennandi kosningabaráttunum.
  7. … með þessum sex kosningabaráttum.
  8. … viðureign Beto O'Rourke gegn sitjandi öldungadeildarþingmanninum Ted Cruz.
  9. … að gera Texas „fjólublátt“ fylki sem sveiflast á milli stóru flokkanna tveggja.
  10. Baráttan þykir með þeim meira spennandi
  11. John McCain heitinn var öldungadeildarþingmaður ríkisins
  12. Demókratar náð sínum fyrsta Öldungadeildarþingmanni …
  13. ... og birt myndir af Sinema í bleiku tútúpilsi á mótmælum …
  14. … að vera fyrsta svarta konan í framboði fyrir annan tveggja stóru flokkanna …
  15. Ríkið hefur gjarnan hallast að Repúblíkönum …
  16. … að Georgíubúar vantreysti Trump í dag fremur en treysti
  17. … mæti í nægilega miklu mæli á kjörstað …
  18. … þar sem þeir hafi ekki fullnægjandi persónuskilríki …
  19. Hvergi eru jafn ólíkir frambjóðendur sem gefa kost á sér.
  20. … þykir með vinstri sinnaðri frambjóðendum í ár og sigraði miðjusæknari Demókrata …
  21. … en Flórída er þekkt fyrir að vera óútreiknanlegt fylki
  22. Repúblíkaninn Andy Barr hefur þjónað sem þingmaður …
  23. … og kaus til dæmis með skattalækkunum flokksins …
  24. Síðast vann hann kjördæmið með öruggu forskoti
  25. nartar í hæla Repúblikanans samkvæmt könnunum. 
  26. Þetta er eitt lykilkjördæma sem Demókratar herja á
  27. Þjónusta frambjóðanda í Bandaríkjaher …
  28. … hvort Demókratar geti náð til vinnandi stétta í riðbeltunum svokölluðu.
  29. Carol Miller, frambjóðandi Repúblikana, þjónar á ríkisþingi Vestur-Virginíu …
  30. Fylkið hallast að Repúblíkönum …
  31. … Richard Ojeda sem þjónar einnig á ríkisþinginu …
  32. … hefur vakið mikla athygli fyrir alþýðlega nálgun sína
  33. Hann þjónaði í hernum …
  34. … þegar hann studdi við launahækkanir kennara í kennaraverkfalli …
  35. … virðast kjósendur tilbúnir að kjósa bæði til vinstri og hægri eftir því hver lofar fleiri störfum

Kosið er á milli flokka um „sæti“ á þingi, aldrei er kosið „í sæti“, nær réttu væri að kjósa um sæti, (sjá lið nr. 1) Almennt er þingsæti ekki stóll í eiginlegri merkingu heldur er karl eða kona fulltrúi á þingi hvort sem hann situr eða stendur (2). 

Mikill munur er að kjósa og greiða atkvæði. Þetta skilur blaðamaðurinn ekki og segir að þingmaður hafi á þingi kosið með skattalækkunum (23).

Blaðamaðurinn veit ekki hvort hann eigi að tala um ríki eða fylki í Bandaríkjunum. Á íslensku er almennt talað um ríki (sjá 9, 11, 30). Engu að síður er talar hann um ríkisþing.

Furðulegt er að lesa um fólk sem þjónar á þingi og þjónar í hernum. Á ensku er sögnin to serve notuð um þetta en á íslensku er þetta ekki orðað þannig. Þannig er ekki tekið til orða ekki frekar en að blaðamaður þjóni á Vísi (sjá 27, 29, 31, 33). Að vísu þjóna prestar í kirkjum, en það er annað mál.

Þessi grein fær einfaldlega falleinkunn. Blaðamaðurinn verður að hugsa sinn gang sem og ritstjórn vefsins.

Tillaga: Sex athyglisverðar kosningar á kjördegi.

3.

Ryan var ekki val­mögu­leiki á kjör­seðil­in­um í 1. kjör­dæm­i Wiscons­in-rík­is, í fyrsta sinn síðan 1998.“ 

Frétt á mbl.is.       

Athugasemd: Yfirleitt er reglan sú að sé nafn manns ekki á kjörseðli er hann ekki í framboði. Veit blaðamaðurinn þetta? 

Til verða óþarfa málalengingar hjá blaðamanninum sem skýra ekki neitt, miklu frekar að þær flæki málið. Líklegast af öllu er hann að þýða frásögn úr bandarískum fjölmiðli og kann ekki betur til verka.

Hvað þýðir til dæmis eftirfarandi:

Demó­krat­ar geta nú komið í veg fyr­ir laga­setn­ing­ar re­públi­kana, svo sem lækk­un skatta til þess að reisa múr á landa­mær­um Mexí­kó. 

Mikilvægt er að ritstjórnin láti einhvern lesa yfir fréttir og lagfæra orðalag og stíl. Það virðist ekki vera gert á íslenskum fjölmiðlum og þar af leiðandi er neytendum sýndar skemmdar fréttir.

Tillaga: Í fyrsta sinn frá því 1998 var Ryan ekki í framboði í 1. kjördæmi í Wisconsin.


Árásarþoli, árásargerandi, nafnorðatuð og vistanir

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

1.

Guðbjörg lifði af leiktíðina með verkjalyfj­um.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Fótboltakona átti í meiðslum og þurfti á lyfjum að halda til að geta spilað leiki. Samkvæmt öllu getur varla verið að hún hefði dáið án verkjalyfjanna.

Þar af leiðir að skárra væri að orða það þannig að hún hefði ekki haft það af án verkjalyfjanna. Þetta er svona mildilegra orðalag en að segja beinlínis að hún hefði dáið án þeirra. Efnislega þýðir þetta að hún hafi þraukað, haldið út leiktíðina með lyfjum.

Best af öllu hefði verið að orða þessa hugsun eins og segir raunar í fréttinni sjálfri og er í tillögunni hér fyrir neðan.

Á vísir.is er ágæt fyrirsögn með frétt um Guðbjörgu, hún er svona:

Búin að spila þjáð í meira en ár.

Lesandinn skilur þó strax að hafi konan notað verkjalyf hafi hún verið þjáð. Þar af leiðir að sú fyrirsögn er aðeins fyllri en hin.

Tillaga: Guðbjörg neyddist til að nota verkjalyf alla leiktíðina 

2.

Rúrik varð fyr­ir meiðslum.“ 

Fyrirsögn á mbl.is.      

Athugasemd: Er ekki einfaldara að segja að Rúnar hafi meitt sig frekar en að hann hafi orðið fyrir meiðslum. Hið síðara er skilgetið afkvæmi nafnorðatuðsins sem tröllríður íslenskum fjölmiðlum og á ábyggilega ættir  sínar að rekja til ensku. Ótrúlega margir greina ekki á milli íslensks og ensks orðalags heldur sulla saman eins og tungumálin séu eitt.

Höfum hugfast að íslenskan byggir á sagnorðum, enskan á nafnorðum.

Tillaga: Rúrik meiddist í leik

3.

Það var góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október.“ 

Dálkurinn Tungutak á bls 28 í Morgunblaðinu 3.11.2018.      

Athugasemd: Hér hefur stundum verið minnst á fyrirbrigði sem fræðingar í íslensku máli kalla aukafrumlag en er yfirlitt kallað leppur. Þetta er sá leiðinlegi og ljóti ávani að byrja setningar á fornafninu „það“ sem í flestum tilvikum er algjör óþarfi.

Skelfing leiðist mér leppurinn. Sjá skrif um hann hér og hér. Þar af leiðandi ætla ég ekki að fjölyrða um leppinn heldur biðja lesendur að bera saman ofangreinda tilvitnun og tillöguna hér fyrir neðan. Má vera að einhver hafi skoðun á samanburðinum.

Tillaga: Góð mæting á Kötluráðstefnu í Vík í Mýrdal 12. október

4.

Að því kom að reiðin bar hann ofurliði og hann klessti á vegg.“ 

Úr viðtali á bls. 17 í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4.11.2018.     

Athugasemd: Ég skil ekki þessa málsgrein. Reynslulitlir blaðamenn skrifa stundum að ökumaður hafi klesst á bíl, stein eða vegg. Öllum getur orðið á og jafnvel sá ágæti blaðamaður sem skrifaði þetta en hann er meðal þeirra bestu á Morgunblaðinu.

Má vera að blaðmaðurinn hafi átt við að viðmælandinn hafi í óeiginlegri merkingu rekist á vegg, sálfræðilega séð. Sé svo hefði verið hægt að orða  þetta betur. Alltaf er gott að fá einhvern annan til að lesa yfir fyrir birtingu.

Tillaga: Engin tillaga gerð.

5.

Líkamsárás í Hafnarfirði.“ 

Fyrirsögn á visir.is.     

Athugasemd: Maður var laminn í Hafnarfirði, sparkað í annan í Reykjavík, kýlt í magann á öðrum á Selfossi og svo má upp telja barsmíðar sem fólk hefur fengið að kenna á’ðí fyrir einhverjar sakir eða jafnvel án saka. 

Sumir fjölmiðlamenn hafa komið sér upp skrýtilegu einkaorðalagi. Barinn maður hefur þannig orðið fyrir líkamsárás. Ugglaust er rétt með farið en af hverju er þá ekki sagt að maðurinn í Hafnarfirði hafi verið laminn, barinn eða sleginn?

Er líkamsárás orðið að einhvers konar veigrunarorði fyrir barsmíðar, kýlingar, spörk og annað álíka? Heldur blaðamaðurinn að lesandanum kunni að ofbjóða þessi orð.

Má vera að hið sama gerist þegar fyllibyttur og árásarlið er sett í fangelsi en blaðamenn kjósa að orða það þannig að slíkir hafi verið vistaðir í fangageymslu. Svo er stundum því bætt við að það sé gert „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins.

Telja blaðamenn að lesendur skilji ekki mælt mál? Skilningurinn eykst alla vega ekki við svona veigrunartalsmáta eða þegar fréttir eru skrifaðar á einhvers konar stofnanamállýsku. Mál þess sem lokaður er inni í fangelsi er alltaf rannsakað. Sumir eru beinlínis lokaðir af, settir í einangrun, til að þeir eigi ekki möguleika á að sammælast við aðra um gjörðir sínar og jafnvel spinna upp sennilegar sögur. Þetta vita allir og þarf ekki að bæta því við að innilokunin sé „fyrir“ eða vegna rannsóknar málsins. Hvaða kjána datt það í hug að lesendur fjölmiðla séu heimskir?

Betur fer á því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Lögreglan grípur mann sem hefur barið annan og setur í fangelsi. Þjófurinn fer sömu leið. Hverjum datt í hug að þetta væri einhvers konar vistun sem er orðið að „veigrunarorði“. Mannskrattinn var læstur inni í fangelsi. Punktur. Má næst búast við því að misyndismenn sem gripnir eru við glæpsamlega iðju sína fái dvöl í herbergi á lögreglustöð. Gáfumenn í blaðamannastétt myndu ábyggilega kalla það herbergisdvöl eða hvíldardvöl.

Maður var handtekinn vegna líkamsárásar og var settur í herbergisdvöl á lögreglustöð.

Í ofangreindri frétt á Vísi er fórnarlambið, sá sem var barinn („varð fyrir líkamsárás“) kallaður árásarþoli. Hafa lesendur heyrt annað eins? Sem betur fer var sá sem barði hinn ekki nefndur árásargerandi.

Og gullkornin eru fleiri. Í sömu frétt er sagt frá því að maður hafi stolið jakka á veitingahúsi. Blaðamaðurinn orðað það svo barnslega fallega:  

… gestur veitingahússins sagði að erlendur ferðamaður hefði stolið jakkanum sínum ásamt öllu því sem hann geymdi í vasanum.

Má vera að þjófurinn [stuldargerandinn) hafi stolið úr buxnavasa „þjófnaðarþolans“ eða var bara einn vasi á jakkanum?

Í niðurlagi fréttarinnar segir hins vegar að þjófurinn hafi komið aftur á veitingahúsið. Og blaðamaðurinn skrifar, enn svo barnslega einlægur:

Maðurinn reyndist vera með umræddan jakka í fórum sínum en munir voru aftur á móti horfnir úr jakkanum.

Já, jakkinn var í „fórum“ mannsins, hann var ekki í honum en … munirnir úr vasanum voru ekki í jakkanum.

Og hvað skyldi nú hafa verið gert við „þjófnaðargerandann“? Jú, rétt til getið. Hann var „vistaður í fangageymslu lögreglu“. Hvað annað gat gerst en vistun.

Tillaga: Maður sleginn í Hafnarfirði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband