Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016

Fordómafullur og umtalsillur Frosti Logason

Það hefur komið í ljós að illa upplýst gamalmenni létu gabba sig í aðdraganda kosninganna. Sótsvartur almúginn beit á agnið þegar útgönguhreyfingin slengdi fram loforðum um 350 milljón punda aukningu í breska heilbrigðiskerfið. Hann kokgleypti bullið um að Bretland yrði undanskilið fólksflutningaáhrifum hnattvæðingarinnar. Almúginn lét óheiðarlegan hræðsluáróður steypa sér aftur í öld heimskunnar.

Þetta segir Frosti Logason í stuttri grein á baksíðu Fréttablaðsins. Í greininni örlar heldur betur á óánægju vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi og vanstilling er mikil.

Frosti þessi heldur því fram að fólk geti ekki myndað sér skoðun. Þeir sem ekki eru sammála honum hefur verið gabbað ... það bítur á agnið ... kokgleypir bull ... lætur óheiðarlegan hræðsluáróður ráða ... Hugsið ykkur ef menn með svona skoðun störfuðu á fjölmiðlum ... Ubbs! Er hann kannski „blaðamaður“?

Sem kunnugt er fellur rigningin jafnt á réttláta og rangláta. Sama er með lýðræðið, það gerir engan mun á aldri fólks, engu skiptir hvernig fólk tekur ákvörðun um að kjósa eða hversu vitleysislega það eyðir atkvæði sínu, sumir kjósa bara alls ekki. Sannast sagna eru allar skoðanir jafn réttháar í kosningum, það veit Frosti Logason ekki en hann skrifar alveg rasandi:

Af hverju kusu Bretar að fleygja sér fram af hengibrún óvissunnar, kasta frá sér fjórfrelsinu og innri markaðnum þrátt fyrir að öll eðlileg hugsun mælti gegn því?

Meirihluti Breta tók meðvitaða ákvörðun rétt eins og flestir gera í þjóðaratkvæðagreiðslu. Aldur skiptir þar engu máli jafnvel þó Frosti þykist hafa í grunnhyggni sinni lesið einhverja greiningu á því hvernig úrslitin skiptast á milli aldurshópa. Það er þó einföld staðreynd að færri eru í aldurshópum eftir því sem þeir verða eldri. Einhverjir aðrir en „gamalmenni“ hljóta því að hafa kosið með Brexit. Frosti Logason áttar sig ekki á þessari staðreynd. Má vera að einhver honum eldri hljóti að hafa klikkað á uppeldi mannsins, kannski „illa upplýst gamalmenni“.

Með hliðsjón að rökum Frosta verður hann að teljast frekar fordómafullur maður og umtalsillur.

Í lokin býr hann til tengingu við Ísland og sú er ekki vel heppnuð:

Hugsið ykkur ef unga fólkið hefði setið heima á sófanum á meðan allir hlustendur Útvarps Sögu hefðu þegið skutl frá kosningaskrifstofunni á Grensásvegi. Þá hefðum við hugsanlega getað vaknað upp við hausverk lífs okkar. Sá skellur hefði bæði verið varanlegur og verulegur.

Já, lýðræðið er bara fyrir suma. Endurtökum bara þjóðaratkvæðagreiðslur þangað til „rétt“ niðurstað fæst eins og andstæðingar Brexit hafa látið hafa eftir sér. Og hvað hefði nú gerst ef „illa upplýst gamalmenni“ hefðu ekki mætt á kjörstað? Hefði friður komst á Bessastaði?

Og fyrst við gerum að þessu á annað borð samþykkjum bara að endurtaka leik Englendinga og Íslendinga í fótbolta. Það er ekki á það bætandi að í svona rétt á eftir Brexit skuli Englendingar vakna upp við annan varanlegan og verulegan skell ...


Gamalt viðtal við Kristján Eldjárn forseta Íslands

Kristján Eldjárn 2cHeimildarmynd um Kristján Eldjárn (1916-1982) var sýnd í Ríkissjónvarpinu að kvöldi 29. júní 2016. Hún var byggð upp af gömlum fréttaskotum og þáttum Sjónvarpsins. Í heild reglulega fróðleg og skemmtileg. 

Heimildarmyndin minnti mig á viðtal sem ég tók við Kristján þegar ég var blaðamaður á Frjálsri verslun. Ég átti fund með honum í desember 1979 og viðtalið birtist í janúarblaði tímaritsins.

Með því að leita á netinu fann ég viðtalið. Í fórum mínum átti ég svo mynd af mér og honum sem tekin af þessu tilefni. Þó ég hafi nú tekið viðtöl við fjölda fólks bæði áður en þetta gerðist og svo oft síðar þá er þetta eina viðtalið sem ég hef átt við forseta Íslands. Raunar aldrei talað við neinn forseta síðan. Jú, ég hef einu sinni eða tvisvar skipst á orðum við Ólaf Ragnar Grímsson, mér til mikillar ánægju.

Fundur okkar Kristjáns Eldjárns kom til vegna þess að okkur á ritstjórn Frjálsrar verslunar langaði til að fá grein um orðuveitingar. Markús Örn Antonsson, ritstjóri, fól mér að afla upplýsinga um þetta mál og ég setti mig í samband við Birgi Thorlacius, forsetaritara og formann orðunefndar. Hann var ekkert hrifinn af því að ég ónáðaði forsetann en ég gaf mig ekki. Loks fékk ég vilyrði fyrir korters spjalli við Kristján á skrifstofu hans í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg.

Þangað mætti ég á tilsettum tíma og ég sver það að ég ætlaði svo sannarlega að spyrja forsetann um orðurnar. Þegar á hólminn var komið fann ég hversu almennilegur og alþýðlegur Kristján var og samstundis spannst viðtalið dálítið lengri og ég hóf að spyrja hann um forsetatíð hans.

Það örlaði á því að Kristjáni fannst ég fara út fyrir efnið. Ef til vill hefur honum gramist það en hann lét ekki á neinu bera við mig. Í stað þess að fundurinn stæði í fimmtán mínútur teygðist úr honum í eina og hálfa klukkustund og að honum loknum kvaddi Kristján mig afar kurteislega og hefur ábyggilega verið orðinn alltof seinn á næsta fund. Sáumst við aldrei síðan, eins og segir í fornum bókum.

En mikið ansi var Markús Örn kátur með þetta viðtal mitt, næstum því skúbb.Það var Loftur Ásgeirsson, minn gamli vinur, sem tók myndirnar.

Nú eru nýafstaðnar forsetakosningar og eftir rúman mánuð tekur nýr forseti við embætti. Er þá ekki ágætt að rifja upp þetta gamla viðtal? 

Sjaldnast er ég ánægður með gömul skrif eða viðtöl eftir sjálfan mig. Viðtalið er samt bara nokkuð gott, merkilega vel skrifað jafnvel þó tekið sé tillit til þess að þegar þarna var komið sögu hafði ég aðeins verið blaðamaður í rúm tvö ár. Ekki síst er gaman að sjá að þrátt fyrir engan undirbúning var ég með flestar staðreyndir nokkuð klárar. Velti því fyrir mér hvort að ég gæti tekið svona óundirbúið viðtal í dag.

Hér er svo viðtalið við Kristján Eldjárn sem var forseti frá 1968 til 1980.

Kristján Eldjárn 2
Ekki svo auðvelt að beita mikilli gamansemi í þessu embætti

- segir dr. Kristján Eldjárn, sem lætur af embætti forseta Íslands síðar á árinu.

„Truman Bandaríkjaforseti var, held ég, einu sinni spurður að því hvort honum fyndist það ekki niðurlægjandi, þegar þar að kæmi, að hverfa úr forsetastól og fara að vinna einhver venjuleg störf eins og hver annar venjulegur borgari. Það væri öðru nær, svaraði Truman, það væri hinn mesti heiður fyrir sig. Sama segi ég. Fyrrverandi forseti á að geta gengið að hverju heiðarlegu starfi sem er, en auðvitað er trúlegt að þetta yrði býsna takmarkað í reyndinni.

Hvað mér viðvíkur, þá geri ég ráð fyrir að starfa eitthvað að fræðistörfum." Þetta eru orð dr. Kristjáns Eldjárns, forseta Íslands.

Frjáls verzlun hitti hann að máli fyrir skömmu og ræddi við hann vítt og breitt um forsetaferil hans og minnisverða atburði frá þeim tíma. Eins og alþjóð er nú kunnugt hefur Kristján ákveðið að bjóða sig ekki aftur fram til þessa embættis, en hann hefur nú setið í forsetastóli í tæp tólf ár.

Það hefur verið haft á orði, að af öllum mönnum öðrum ólöstuðum hefði þjóðin varla getað fengið betri mann í forsetastólinn. Margt kemur þar til, hann er hlutlaus í stjórnmálum, hann er alþýðlegur í embætti, enda vafamál hvort að það þyldi mjög formfastan mann, og síðast en ekki síst þá er Kristján góður viðkynningar og hefur til að bera ágætt skopskyn.

Erfitt að koma við húmor í starfanum.

Mönnum hefur oft virst nokkuð skorta á að embættismenn líti léttum augum á tilveruna, sem virðist vera fyrir þá frekar óskýr bak við rykfallin skjöl, stirt embættismannamál og þungar venjur.

Kristján er góður húmoristi, en samt ber embættið þess ekki mikil merki eftir 12 ár. ,,Það er ekki svo auðvelt að beita mikilli gamansemi í þessu embætti," segir Kristján.

„Það er til dæmis varla hægt að blanda neinskonar léttleika inn í nýársræðu, ef það er það sem þú átt við. Það á hreinlega ekki við og mundi bara eyðileggja stílinn, og þess vegna hef ég valið nýársræðunum það form sem ég hef gert.

Aftur á móti getur maður notið sín sem húmoristi í viðkynningu við annað fólk. Á Bessastaði kemur mikið af fólki árlega, það skiptir þúsundum, og ég vona að þá hafi ég verið örlítið léttari."

— Þessi hlið þín kemur þó ekki fyrir allra sjónir. Það sem flestir þekkja er myndin frá afhendingu trúnaðarskjals sendiherra þar sem þú og utanríkisráðherra standið sitt hvorum megin við sendiherrann og alltaf er myndin tekin á sama stað í húsinu.

„Já, þetta er alveg satt, en það er ekki svo þægilegt að bregða upp einhverjum húmorískum svip og væri sennilega lítt viðeigandi við þessi tækifæri.

Það koma þó alltaf nýir siðir með nýjum mönnum, og þegar nýr maður tekur við verður hann að sigla milli skers og báru þegar um þetta og fleira er að ræða, meðal annars geta brugðið upp bæði alvarlegum svip og glettum eftir því sem við á."

„Margt svipað og ég bjóst við"

— Hvernig var það fyrir þig, forstöðumann Þjóðminjasafns Íslands að setjast í forsetastól?   Olli reynsluleysi þitt á þessum sviðum þér ekki erfiðleikum?

„Það var nú margt svipað og ég bjóst við og hafði gert ráð fyrir. Ég hef hvorki orðið fyrir neinum vonbrigðum í því efni né get ég sagt, að eitthvað hafi skarað fram úr mínum vonum.

Það er rétt sem þú segir, ég hafði aldrei komið nálægt þeim störfum sem þarna biðu mín. Hins vegar hafði ég stjórnað stórri stofnun og var vanur að umgangast fólk, jafnt erlent sem innlent.

Auðvitað breytti forsetaembættið miklu fyrir mig. Lífsvenjur mínar breyttust og ég þurfti óhjákvæmilega að umgangast aðrar manngerðir, fólk sem hafði önnur áhugamál, og aðrar venjur en ég. Nú og svo þurfti ég að skipta um aðsetur."

— Urðu einhverjar breytingar á þínum vinahóp við kjörið? Vinir eru yfirleitt jafningjar, en getur forseti verið jafningi?

„Það urðu ekki miklar breytingar á vinahópnum. Ég hef reynt að halda sambandinu við mína vini og kunningja. Hins vegar vil ég geta þess að ég hef eignast ágæta vini og kunningja í gegnum starf mitt sem forseti, og einnig í hópi nágranna minna hér á Álftanesi."

Bessastaðir of einangraðir?

— Finnur þú fyrir einhverri einangrun á Bessastöðum? Er forsetaembættið einangrað og veldur búsetan þar einhverju um?

„Búsetan einangrar forsetann að vissu leyti, en ekki vil ég gera mikið úr þessu atriði. Það hefur mikla kosti að búa á Bessastöðum og ég held að þar verði forsetasetrið áfram.

Það eru nú fleiri embætti þjóðarinnar sem eru of einangruð ef ekki einangraðri og margir búa úti í sveit þótt þeir vinni inni í bæ.

Annars er það skilyrði að forsetinn og fjölskylda hans hafi yfir einkabílum að ráða, bæði ég og kona mín ökum mjög mikið enda er vegurinn miklu betri en hann var. Nú þarf einangrun Bessastaða ekki að vera svo mikil, byggðin hefur vaxið mjög mikið þarna hin síðustu ár og þéttist."

Forsetaembættið

— Þær raddir hafa heyrst hér, að forsetinn væri of valdalítill og geti því ekki beitt sér sem skyldi. Hver skyldi vera skoðun forsetans á þessum málum?

„Jú, það hefur verið mikið rætt um þetta", segir Kristján. ,,Sumir vilja að völd forsetans séu meiri, en ég held að ég geti nú ekki úttalað mig um þessi mál að sinni, nema hvað ég held, að í bráð verði ekki reynt að gera embættið valdameira."

— Er forsetatignin nokkuð annað en eftirlíking af konungstign?

„Að sumu leyti er hún það, en samt er mikill munur á s.s. varðandi umgengnisvenjurnar, og svo er forsetinn valinn úr fjöldanum en konungstignin erfist."

Kosningasigurinn 1968.

—   Kjör þitt til forseta 1968 var sérstaklega glæsilegt. Hafði kjör þitt nokkur eftirköst í samskiptum þínum við þá sem hlut áttu að máli í þeirri baráttu?

„Nei, það er mjög fjarri því. Samkomulag mitt við alla þá sem þar áttu hlut að máli í þeirri baráttu hefur síðan verið einstaklega gott og vingjarnlegt."

Fyrsta stjórnarmyndunin

Árið 1971 tapaði viðreisnarstjórnin meirihluta sínum og í kjölfar þess kom fyrst til kasta Kristjáns Eldjárns, sem forseta lýðveldisins, að eiga hlut að myndun ríkisstjórnar.

— Hvernig gekk þessi frumraun þín?

„Stjórnarmyndunin gekk fljótt miðað við þann tíma, sem stjórnarmyndanir hafa tekið upp á síðkastið. Þetta var merkileg reynsla fyrir mig og nýju ráðherrana líka held ég. Þeir voru að vísu flestir reyndir stjórnmálamenn, en aðeins tveir höfðu verið ráðherrar áður.

— Árið 1974 er aftur kosið, en þá tóku stjórnarmyndunarviðræðurnar lengri tíma. Telur þú að þjóðhátíðin hafi skipt máli í því sambandi?

„Hugsanlega hefur þjóðhátíðin skipt einhverju máli í því sambandi. Hún var stórfyrirtæki, miklu meira fyrirtæki, en menn höfðu ráð fyrr gert. Þjóðhátíðin hefur þó ekki skipt neinu meginmáli. Ég held að það hafi bara verið að koma á daginn, að það tekur yfirleitt býsna langan tíma, t.d. ekki minna en tvo mánuði, að mynda ríkisstjórn á Íslandi."

— Hefur möguleikinn á utanþingsstjórn nokkurn tíma hvarflað að þér?

„Fólk fer yfirleitt að tala um utanþingstjórnir þegar stjórnarmyndanir fara að dragast á langinn, en ég held að það sé varla í alvöru meint.

Vel má vera að síðast liðið haust hafi litlu munað að mynduð yrði utanþingsstjórn, en hún hefði aðeins setið í stuttan tíma."

— Komu stjórnarslitin í haust þér eitthvað á óvart?

„Já, ekki get ég neitað því."

— Verður forseti persónulega var við ágreining innan ríkisstjórnar, t.d. eins og var í vinstri stjórninni sem sálaðist s.l. haust?

„Nei. Á ríkisráðsfundum er ekki venja að nein veruleg orðaskipti eigi sér stað. Ráðherrarnir bera upp sín mál til undirritunar og þar kemur enginn ágreiningur fram."

„Þjóðhöfðingjarnir, sem svo eru nefndir."

— Hvernig hafa opinberu heimsóknirnar til útlanda lagst í þig?

„Vel bara, enda þótt þær séu alltaf nokkuð stífar. Við hjónin höfum heimsótt öll Norðurlöndin og Belgíu á okkar ferli, auk hálf- eða óopinberra heimsókna til Kanada, Manar, og ýmissa erlendra háskóla. Háskólaheimsóknirnar bera nokkurn keim af opin berum heimsóknum og þegar maður er einn af þjóðhöfðingjunum sem svo eru nefndir, getur maður ekki víða farið án verndar frá yfirvöldunum.

Á Norðurlöndunum getur maður þó víðast farið frjáls ferða sinna, en annars staðar verður maður að ferðast á svolítið annan hátt en gengur og gerist. Ég segi þó ekki að maður sé höfuðsetinn, en í Kanada til dæmis, þegar við heimsóttum íslendingabyggðirnar á aldarafmæli landnámsins, þá fylgdu okkur kanadískir lögreglumenn og viku ekki frá okkur þann tíma sem við vorum í landinu. Sennilega hafa þeir verið vel vopnaðir innan klæða. Þetta vandist þó og þessir menn urðu ágætir kunningjar okkar."

Forsetinn til sýnis

— Forsetastarfanum fylgja ýmsar kvaðir, móttaka sendiherra, ferðalög, opnun sýninga, veislur, o.þ.h. Er starfinn nokkuð annað en alhliða diplomatí?

„Það er alveg rétt að forsetanum er boðið að verða viðstaddur við opnun ýmiskonar athafna, t.d. sýninga. Þá vill fólk oft hafa forsetann með, bæði vill það gleðja hann og veita öðrum þá ánægju að sjá forsetann. Um þetta er ekki nema gott að segja. Ég kemst þó ekki nema á hluta þeirra athafna sem mér er boðið á."

— Er þetta þó ekki sú hliðin sem að almenningi snýr?

„Jú það er rétt, en við höfum einnig móttöku á Bessastöðum og þangað koma þúsundir manna á ári hverju og það er ekki síst hin opinbera hlið. Þarna kynnist maður alls kyns fólki og kemst í snertingu við ólíka hagsmunahópa. Þarna getur maður reynt að blanda geði við fólk og kannski er maður þarna óformlegri og léttari en við aðrar athafnir.

Það má heldur ekki gleyma opinberu heimsóknunum út á land. Á minni tíð hef ég ferðast um talsverðan hluta landsins, Vesturland, Norðurland og Austurland. Annars verð ég að segja það, að ég gafst upp á þessum ferðum, aðallega vegna þess hversu ég dró þær mikið. Helst verður forseti að heimsækja allar byggðir landsins í upphafi setu sinnar á forsetastóli, ætli hann á annað borð að fara um allt landið."

Aldrei sumarfrí

— Er forsetaembættið ekki frekar opið starf? Menn geta hitt þig hvenær sem þeim þóknast og fyrir stuttu birtust myndir í einu blaðanna af Steingrími Hermannssyni, þegar hann kemur að Bessastöðum til að taka við umboði til stjórnarmyndunar, og kona þín opnaði fyrir honum, þegar hann hringdi.

„Þetta voru nú einhver mistök. Dyrnar voru læstar, sem þær áttu ekki að vera, svo að Steingrímur þurfti að hringja bjöllunni til þess að komast inn. Eitthvert blaðið gerði svo grín að þessu og sagði að Steingrímur hefði komið að læstum dyrum á Bessastöðum!"

— Er forsetastarfið tímafrekt starf?

„Stundum er mjög mikið að gera, en það er þó mismunandi. Ég hef t.d. aldrei tekið mér sumarfrí á meðan ég hef gegnt þessu embætti. Meðan ég var þjóðminjavörður tók ég mér ekki heldur frí síðustu árin, þannig að við vitum varla hvað sumarfrí er.

Nú, það koma fyrir rólegri tímar í starfinu og þá er yfirleitt nóg fyrir mig að gera í mínu fagi. Oftast er þó eitthvað um að vera, þó það sé ekki annað en undirbúningur undir móttökur, ferðir eða þá, að maður er að skrifa ræður fyrir ýmis tækifæri."

Flytur að Staðarstað

— Hvað á forseti að sitja lengi á forsetastól? í nýársræðu þinni sagðir þú að tólf ár væri hæfilegur tími.

„Víst sagði ég það, vegna þess að mér þykir heldur ólíklegt að forseti verði yfirleitt lengur en 12 ár í embættinu, en ég er ekki á þeirri skoðun að þetta ætti að vera föst regla. Menn geta verið skemur, jafnvel lengur. Einn forseti í Ísrael var prófessor í eðlisfræði. Hann sat einungis eitt kjörtímabil á þingi og hvarf þá aftur til háskóla síns og tók upp kennslu og rannsóknir á ný."

— Munt þú flytja á Sóleyjargötuna?

„Já, ég geri ráð fyrir því. Við keyptum þar húsið Staðarstað þar sem börn okkar búa núna."

Vinir sem ráðgjafar.

— Þegar þú tókst við þessu embætti, þá varst þú mjög ókunnur þeim siðum og störfum sem fylgdu því. Hvert leitaðir þú í smiðju um ráðgjöf?

„Það voru nú aðallega góðir vinir mínir úr embættismannastétt sem hafa aðstoðað mig, þegar mér hefur fundist ég þurfa að ráðgast við einhvern. Þessum mönnum treysti ég til að ráða mér heilt. Einnig hafa stjórnmálamenn verið mér innan handar."

Eftirminnilegir atburðir

— Að lokum Kristján. Hvaða atburðir eru þér nú eftirminnilegastir frá þinni forsetatíð?

„Það er nú af mörgu að taka. Stjórnarmyndanirnar hafa alltaf verið nokkuð sérstakar. Það er eftirminnilegt að sitja á tveimur ríkisráðsfundum sama daginn. Fyrst er það kveðjufundur með gömlu ráðherrunum og síðan fyrsti fundurinn með nýju ráðuneyti.

Utanlandsferðirnar eru nokkuð eftirminnilegar, ekki síst þær fyrstu. Nú það var ákaflega eftirminnilegt þegar Pompidou og Nixon komu hingað til lands á fund. Sá atburður var ævintýri líkastur, nokkurs konar uppákoma, hann varð með svo litlum fyrirvara.

Tveir sorglegir atburðir koma hér upp í huga minn. Tvisvar hef ég verið vakinn snemma morguns og mér tjáðar sorgarfréttir. í fyrra skiptið var mér tjáð að Bjarni Benediktsson, kona hans og dóttursonur hefðu látist í eldsvoða á Þingvöllum. Nokkrum árum síðar varð eldgosið á Heimaey.

Gleðistundir hafa sem betur fer verið margar. Ég held ég gleymi seint morgninum hinn 28. júlí 1974, þjóðhátíðardaginn. Ég held ég hafi aldrei fengið betra veður á Þingvöllum.“


Draumur um úrslit landsleiksins við Englendinga

Roy-HodgsonHvernig fer landsleikur Íslands og Englands á mánudag?

Þannig spyr útvarpsþátturinn á Bylgjunni, „Reykjavík síðdegis“ á visir.is. Lesendum er síðan ætlað senda svar sitt. Spenningurinn vegna EM leikja íslenska landsliðsins hefur verið mikill og liðið hefur náð frábærum árangri, komið í sextán liða úrslit.

Englendingar hafa ekki riðið feitum hesti frá þátttöku sinni í stórmótum. Mögru tímar þeirra hafa verið langir í góðir. Var það ekki árið 1966 sem liðið varð heimsmeistari með því að sigra Þjóðverja á Wembley? Ekkert síðan, og nú eru Englendingar komnir í sextán liða úrslit á Evrópumótinu, öllum að óvörum.

Ekki misskilja mig en ég hef haldið með enska landsliðinu lengur frá því ég man eftir mér en man þó sjaldnast neitt. Hvers vegna veit ég ekki. Sko, menn mega ekki blanda saman ensku deildarkeppninni og halda að Englendingar séu svo óskaplega góðir í fótbolta af því að Premium League er ein sú albesta í heiminum. Þar leika svo margir leikmenn af öðrum þjóðernum en ensku að þeir síðarnefndu komast varla í byrjunarlið. Má vera að þetta sé aðeins orðum aukið hjá mér.

Auðvitað vinnur England íslenska landsliðið. Annað hvort væri það nú. Aðalþjálfari enska landsliðsins (sjá mynd) sendi fimm manna teymi til að greina leikinn við Austurríki og það enga smákalla. Svo verða leikmenn Englendinga mataðir á upplýsingunum og þeim sagt að gera þetta þegar Íslendingar gera hitt ... Við munum því rekast á vegg í öllum varnar- og sóknaraðgerðum, segja enskir.

Ef til vill er hér sóknarfæri fyrir liðið okkar svo fremi sem þjálfararnir láti krók koma á móti þessi bragði. Ég spái fimm mörkum enskra gegn einu okkar. Það væri stórsigur. Ekki satt?

Í morgun hringdi í mig berdreymin maður. Hann fullyrti að honum hefði dreymt forsíða Morgunblaðsins á morgun sem að öllum líkindum er enn óskrifuð. Úr draumnum man viðkomandi aðeins þetta sem ritað var með stríðsletri: „Stórgos hafið í Heklu.“

Nú þarf væntanlega einhvern til að ráða drauminn vegna þess að allir draumar eru þannig að þeir eru ekki um það sem þeir fjalla. Þeir eru alltaf um eitthvað allt annað sem svo þarf að túlka.

Dreymandinn heldur því fram að draumurinn merki einfaldlega stórsigur okkar manna á enska landsliðinu. Sérlegur draumaráðandi sem ég leitaði til heldur því fram að hann sé hvorki fyrir eldgosi né úrslitum í fótboltaleik heldur eigi rætur sínar að rekja til óhóflegrar sykurneyslu dreymandans.

Ég er hins vegar þess fullviss að hann sé fyrir snjóavetri.

 


Egill Helgason býr til gróusögu um Sjálfstæðisflokkinn

Einn undarlegast álitsgjafi landsins er Egill Helgason, vinstri maður í stjórnmálum. Hann segir á vef sínum (leturbreyting mín):

Ýmsum finnst sjálfsagt að einna stærstu tíðindin séu afhroð Davíðs Oddssonar. Hann varð í fjórða sæti með aðeins 13,7 prósent. Það eru ekki dæmi þess að svo þekktur og áhrifamikill maður bjóði sig fram til forseta á Íslandi og fái svo lítið fylgi. Þegar hann kom fyrst fram bjuggust margir við að hann myndi að minnsta kosti fara í 30 prósent. Sigur virtist þó alltaf fjarlægur. En kosningabarátta Davíðs var algjörlega misheppnuð – hún var mestanpart á neikvæðum nótum. Það var náttúrlega óhjákvæmilegt að kosningarnar snerust að miklu leyti um Davíð – einfaldlega vegna þess hversu stórt hlutverk hann hefur leikið í íslenskum stjórnmálum. En kosningarnar urðu í raun leiðinlegri og innihaldslausari fyrir vikið.

Þessu má að allt eins snúa upp á Egil. Hann er yfirleitt á neikvæðu nótunum, sérstaklega er varðar Sjálfstæðisflokkinn. Hann hefur sjaldnast sagt neitt jákvætt um þann flokk um leið og hann heldur fram ágæti vinstri flokka - svona yfirleitt.

Egill virðist ekkert hafa fylgst með kosningabaráttunni, kannski horft á einn umræðuþátt í sjónvarpi, ekki mætt á fundi hjá Davíð Oddssyni eða hlustað á hreyfimyndir frá honum né heldur lesið greinar hans. Davíð fær einfaldlega neikvæðnistimpilinn af því Egill telur hann geta verið réttlætanlegan. 

Ég hef sótt nokkra kosningafundi Davíðs og séð aðra á Fb og jafnvel átt þess kost að spjalla við hann. Verð að taka undir það sem Andri Snær sagði í kosningasjónvarpi Ríkisútvarpsins í gærkvöldi að Davíð er einstaklega ljúfur maður og kurteis í viðkynningu.

Fundirnir hans voru í einu orði sagt afar skemmtilegir og fróðlegir. Davíð ræddi um stöðu mála, gerði stólpagrín af sjálfum sér, sagði fjölmargar græskulausar gamansögur af fólki sem hann þekkti og nefndi stundum mótframbjóðendur sína og var ekki alltaf sammála þeim. Eðlilega.

Þegar upp var staðið af þessum fundum sat eftir hversu ánægjulegir þeir voru og hversu gaman er að hitta mann með slíka frásagnargáfu að hann gat fengið salinn til að liggja í hlátri sem og snerta viðkvæmari tilfinningar eins og þegar hann sagði frá móður sinni sem lést fyrr í mánuðinum.

Þetta veit Egill Helgason ekki vegna þess að Davíð á að vera vondur, frekur og leiðinlegur. Það er myndin sem vinstri menn hafa keppst við að draga upp af manninum. Egill er trúr þessum áróðri.

Svo smekklaus og kjánalegur er Egill að hann fullyrðir þetta:

Davíð á hóp ákafra stuðningsmanna sem eru undrandi og reiðir, þeir ofmátu algjörlega stöðu leiðtoga síns, ekki einu sinni Sjálfstæðismenn hlýddu þegar kallið kom. Það kæmi ekki á óvart þótt Davíðsflokkurinn hyggði á einhvers konar hefndir.

Ég er flokksbundinn sjálfstæðismaður og er ekki reiður yfir úrslitum forsetakosninganna og ekki hef ég hitt stuðningsmann Davíðs sem er eitthvað fúll.

Og hvers ætti Sjálfstæðisflokkurinn að hefna? Þess að fyrrum formaður flokksins var ekki kjörinn forseti? Hvers konar bull er þetta í Agli? Þvílíkur asni er hann að halda þessu fram.

Staðreyndin er einfaldlega sú að stjórnmálaflokkur hefnir sín ekki vegna úrslita í lýðræðislegum kosningum. Þannig er það einfaldlega. Punktur.

Hefnd á aldrei við vegna þess að sá eini sem hægt er að áfellast eru kjósendur, að þeir hafi ekki kosið „rétt“. Eðli lýðræðisins er hins vegar svo einfalt og skýrt að allir kjósendur kjósa rétt.

Tilgangurinn með kosningum er ekki síður að sætta sig við niðurstöður kosninga. Eða dettur Agli í hug að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar hafi verið gerðar í hefndarskyni vegna þess að hún tapað Iceseve málum í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Nei. Staðreyndin er einfaldlega sú að þetta er bull í Agli. Hann er einfaldlega heiftúðugur náungi og trúr andstæðingum Sjálfstæðisflokksins í áróðrinum gegn honum.

Þetta gæti verið satt, tautar Egil. Látum helv... neita þessu, hugsar hann eins og Nixon forðum daga. „Let the bastards deny it“.

Svo lætur hann þetta varða í bloggið sitt og er bara nokkuð ánægður með dagsverkið rétt eins og þeir sem nefndir eru „virkir í athugasemdum“ og mæra hann mest fyrir gáfuleg blogg.


Nýkjörinn forseti sat á gólfi með leikfangabíl og sagði brrrr og bíb

Kynslóðaskipti hafa orðið. Ungur maður hefur verið kjörinn forseti og hans bíða skemmtileg og áhugaverð verkefni sem hann leysir ábyggilega með sóma.

Ég man ekki eftir að hafa hitt Guðna Th. Jóhannesson nema einu sinni.

Þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík 1973 til 1977 kenndi faðir hans, Jóhannes Sæmundsson, íþróttir. Tvisvar eða þrisvar í viku fóru nemendur í litla herbergi sem kallað var íþróttasalur eða glímdu við tækin í kjallaranum, stundum var jafnvel hlaupið í kringum Tjörnina. Þetta voru skemmtilegir tímar, Jóhannes kátur og hvetjandi og vildi að við tækjum námið alvarlega og flestir gerðu það, oftar en ekki vegna þess að enginn vildi bregðast þessum ágæta manni

Ég sótti valfag í íþróttafræði hjá Jóhannesi. Það kom mikið á óvart að Jóhannes bauð okkur nemendum sínum heim til sín í kaffi, kakó og kökur og var tilefnið að afhenda okkur skjal til sönnunar um að við hefðum staðist prófið. Á móti okkur tók glæsileg eiginkona hans, Margrét G. Thorlacius, og á gólfinu léku sér tveir strákar með leikfangabíla og sögðu brrr, brrrrr og bíb, bíb. Annar þeirra hét Guðni og hinn Patrekur. Man ekki eftir að hafa séð Jóhannes, þriðja bróðurinn.

Þetta var í eina skiptið að kennari í MR bauð nemendum sínum heim til sín. Jóhannes var svo ljúfur og góður að ekki var hægt annað en að kunna vel við manninn. Hann fylgdist vel með nemendum sínum og þess albúinn að aðstoða langt umfram kennsluskyldu sína.

Jóhannes fæddist 1940 og lést 1983. Fjölmargir nemendur Jóhannesar minnast hans nú og samgleðjast fjölskyldunni á þessum degi er Guðni sonur hans hefur nú verið kjörinn forseti Íslands.

Í minningargrein um Jóhannes í Morgunblaðinu segir Guðni Jónsson, rektor MR:

Hann breyttir leikfimikennslu í íþróttakennslu og lagði mikla áherslu á að efla þrek nemenda og kenna þeim undirstöðuatriðin í mörgum greinum íþrótta, sem þeir mættu síðar nota til að viðhalda heilsu sinni og hreysti. [...)

Ekki síður ástæða til að geta glaðværðar hans og kátínu á kennarastofunni. hann var skemmtilega stríðinn, án þess að broddurinn færi of djúpt eða sæti eftir, og þó að stríðnir menn þoli oft mann verst stríðni, þá var því ekki svo farið um Jóhannes, hann gat tekið stríðni eins og vel og hann útdeildi henni.


Nýr forseti kjörinn

Guðni Th. Jóhannesson er nýr forseti íslenska lýðveldisins. Hann er vel að sigrinum kominn, heiðarlegur og vandaður maður. Ég óska honum til hamingju með sigurinn.

Mér er engin launung á því að ég studdi Davíð Oddsson. Tel hann hafa getað gengt embætti forseta Íslands með sóma. Davíð átti þó á brattann að sækja. Fjöldi manns hefur látið sannfærast að hann sé óalandi og óferjandi, höfundur hrunsins og hafi gert Seðlabanka Íslands gjaldþrota. Þannig tala þeir sem ekki þekkja til, láta aðra taka afstöðu fyrir sig.

Merkilegt er þó hvernig keppinautar Davíðs í forsetakjörinu tala um hann. Ekki eitt styggðaryrði frá Guðna, Höllu og Andra Snæ, þvert á móti. Sá síðast nefndi segir Davíð hið mesta ljúfmenni og meinti það innilega en bætti því líka við að Davíð hefði komið sér mikið á óvart.

Guðni telur að kosningabaráttan hafi farið drengilega fram og átti þá við mótframbjóðendur sína. Hins vegar segir hann að verra hafi verið að eiga við stuðningsmenn einstakra frambjóðenda sem hafi sumir hverjir beitt illum brögðum. Ljóst má þó vera að Guðni erfir ekki neitt.

Álitsgjafar í fjölmiðlum eru sumir hverjir skrýtnir og nýta hvert tækifæri til að gera lítið úr árangri Davíðs og reyna þannig að niðurlægja hann eins og kostur er. Auðvitað eru þetta pólitískar árásir manna sem reyna að tengja stjórnmál og forsetakosningar. Davíð gerði það ekki. Kosningarnar voru ekki á pólitískum nótum. Svo eru aðrir sem fullyrða að þær hafi verið það, benda á þá sem stóðu að framboði Guðna og störfuðu fyrir hann. Þetta er ekki síður rangt og fjarstæða.

Margir opinberir álitsgjafar skilja fæst nema eigið egó. Þeir átta sig ekki á því að hver einstaklingur er margbrotinn og margtengdur. Sá sem er flokkspólitískur á ættingja, vini, vinnufélaga, gamla skólafélaga og þessar tengingar ekki aðeins persónulega heldur einnig í gegnum maka og börn.

Afstaða fólks í forsetakosningunum getur því oltið á fjölmörgum og ólíkum þáttum. Hér eru nokkur dæmi:

Vinur minn sem er sjálfstæðismaður studdi Andra Snæ vegna baráttumála hans í umhverfis- og náttúruverndarmálum.

Annar góður vinur minn, gallharður sjálfstæðismaður, studdi og vann fyrir Guðna vegna þess að þeir eru gamlir bekkjarfélagar og hafa haldið vináttu frá því í menntaskóla.

Vinkona mín sem er sjálfstæðismaður studdu Höllu, ekki vegna þess að hún er kona heldur vegna tengsla við góða vini.

Og svo er það yngri sonur minn sem lét sannfæringakraft föður síns ekki hafa áhrif á sig heldur kaus Guðna sem hann telur skynsaman mann framtíðarinnar og verði land og þjóð til sóma.

Með svona dæmi í huga og raunar miklu fleiri verður maður aldeilis undrandi á skrýtnum álitsgjöfum sem fullyrða að Davíð hafi verið hafnað. Ekki enn skilja þeir eðli mála. Þeim sem náðu ekki kjöri var ekki hafnað, annar var valinn einfaldlega valinn af ástæðum sem jafnvel má rekja til þess sem segir hér að ofan.

Skítkast, fullyrða álitsgjafarnir, stjórnmálfræðingarnir sem nota þó ekkert af fræðum sínum til að sanna þessa fullyrðingu. Þessu er  best svarað með tilvitnun í hinn ágæta tónlistarmann Sverri Stormsker, sem sagði í grein á visir.is:

Davíð reyndi á einum tímapunkti að fá smá fútt í þetta með því að anda nokkrum staðreyndum á Guðna, en slíkt er stranglega bannað og er kallað “skítkast” og “árásir” af skítkastssérfræðingum kommentakerfanna.

Svo má benda á þá einföldu staðreynd að sjaldnast má Davíð Oddsson tjá sig. Þá er snúið út úr orðum hans og ... það sem verra er: Illa upplýsta fólki telur sig hafa skotleyfi á Davíð. Nei, nei. Þá er það ekki skítkast þó hraunað sé yfir manninn ávirðingum sem sjaldnast er nokkur fótur fyrir - það hefur bara heyrt eða lesið að svona sé það.

 

 


Enn stórir skjálftar í norðvesturhlíðum Bárðarbungu

SkjálftarRétt eftir klukkan eitt í dag urðu fjórir snarpir skjálftar í og við Bárðarbungu. Þrír þeirra voru yfir 3 stig og einn mældist raunar 4 sstig og man ég ekki eftir svo snörpum skjá í eða við Bárðarbungu.

Skjálftarnir sjást á meðfylgjandi korti og eru merktir stjörnum.

Takið eftir staðsetningu þriggja skjálfta sem eru í norðvesturhlíðum Bárðarbungu. Sá sem er hægra megin af þessum þremur mældist 2 stig, en hinir sem eru enn neðar 4 og 3,8 stig.

Staðsetning finnst mér alveg stórmerkileg. Mjög virðist hafa dregið út skjálftunum í Bárðarbungu og þeir færst yfir í hlíðarnar norðan- og norðvestanmegin.

SkjálftarÞannig var þetta líka fyrir um viku, það er 19. júní, eins og sjá má á kortinu fyrir neðan. Þetta er allt á svipuðum slóðum.

Hvaða ályktun má draga af þessu ef rétt er?

Fyrir það fyrsta eru jarðskjálftar ekki endilega fyrirboðar eldsumbrota. Hins vegar gefa þeir vísbendingar sem jarðvísindamenn geta ráðið í en leikmenn eins og ég kunnum lítil skil á.

Að öllum líkindum benda skjálftarnir til að þrýstingur sé undir Bárðarbungu en ekki vegna hreyfinga flekamóta.

Sagt er að tiltölulega grunnt undir öskjunni sé kvikuþró af svipaðri stærð og askjan og þrýstingur henni valdi skjálftunum. Hugsanlegt er að ofan við þrónna hafi bergið gliðnað og kvika leiti þar upp.

VikuyfirlitHeld það sé nú betra að hætta malinu áður en maður verður sér til algjörrar skammar. Allt er þetta hins vegar afar áhugavert og fróðlegt að fylgjast með þróun mála á þessum slóðum.

Neðsta kortið er svokallað vikuyfirlit og sýnir hvar skjálftar þessarar viku hafa orðið.


Kjörland er fyrir njóla á götum borgarinnar

Njóli 1Á síðustu tuttugu árum hefur Reykjavíkurborg sjaldan litið ver út. Óstjórnin í rekstri hennar er slík að sparað er á öllum sviðum og nú er svo komið að arfleifð Gnarrsins er sú að altl sem áður þótti til lýta telst nú bara þokkalegt.

Það var einmitt Gnarrinn sem lýsti því yfir að njólinn væri ósköp eðlilegur í borgarumhverfinu. Þetta var á þeim tíma sem peningastjórnin var að fara úr böndunum hjá meirihlutanum, bjánaflokknum og Samfylkingunni. Nú er hefur bjánaflokkunum fjölgað og þeir ráða ekki neitt við neitt. 

Njólinn fær að vaxa frjáls á götum borgarinnar eins og sjá má. 

Njóli 2Þannig er líka um skuldir borgarinnar, þær vaxa frjálsar og öllum óháðar en borgarfulltrúar meirihlutans vasast í þeim málum sem komið geta þeim í jákvæða fjölmiðlaumræðu.

Þeim skjöplast þó aðeins þarna um daginn þegar þeir misnotuðu fjármuni Bílastæðasjóðs í gæluverkefni sín.

Vitanlega var því mótmælt af borgarráði að um misnotkun fjár hafi verið að ræða. Vandinn var bara sá að þeir sömu sitja í stjórn Bílastæðasjóðs og í borgarráði. Þetta heitir bókstaflega að tala með tungum tveim.

Já, í stjórn bílastæðasjóðs sitja þeir sömu og í borgarráði. Á myndunum tveimur má sjá njóla. Sami njólinn er á þeim báðum og reynir hann ekki að fela þá staðreynd.


Við þurfum forseta með reynslu, þekkingu og kjark

Til hvaða ráða skal grípa þegar vandi steðjar að. Eru allir svo glöggir að þeir greini vandamálið úr fjarlægð?

Nei, flestir eru þannig að þeir geta fyrst greint vandann þegar hann er löngu yfirstaðinn og þá eru þeir sem betur fer í öruggri fjarlægð.  Þannig eru fjölmargir og þeir eiga það eitt sameiginlegt að vita allt best eftirá.

Þegar Icesave lögin komu til undirritunar forseta Íslands hafði hann reynslu, þekkingu og kjark til að neita því og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samtök íslenskra gáfumanna hvöttu til að þeir væru samþykktir og spöruðu ekki dómsdagspádómana væri þeim hafnað. Þjóðin hlustaði ekki og tók afstöðu og margvísleg hljóð heyrðust frá gáfumönnunum og stjórnvöldum í Evrópu og ESB.

Sagnfræðingar eru nú bókstaflega lygilega færir að líta um öxl og greina Icesave deilurnar. Þeir kunna líka að greina þorskastríðin og sjálfstæðisbaráttuna þjóðarinnar fyrr á árum. Og það sem meira er þeir koma með nýstárlegar kenningar sem gera lítið úr því sem áunnist hefur í þessum málum. 

Almenningur stendur á efir agndofa og skilur ekki hvers vegna allt sem íslenskt er sé talað niður og gert lítið úr árangri þjóðarinnar á síðustu árum, áratugum og jafnvel árhundruðum.

Fræðimenn sem vinna á þennan hátt virðast ekki færir um að taka ákvörðum í vandamálum dagsins. Margt bendir til að þeir koma varla auga á þau hvað þá að geta beitt greiningu fræða sinna vegna þess að nándin er þeim fjötur um fót. Hér áður fyrr var sagt að svona náungar gætu ekki hitt tunnu jafnvel þó þeir væru staddir ofan í henni.

Það er eitt að vera forsetaframbjóðandi og tala fjálglega og skýrt um ekki neitt, hringsóla í kringum umræðuefnið án þess að nálgast kjarna málsins. Þannig eru flestir forsetaframbjóðendur, þora ekki, geta ekki, og vilja ekki tjá sig. Þeir gætu nefnilega fælt frá kjósendur ...

Þetta er ástæðan fyrir því að ég ætla að kjósa Davíð Oddsson sem forseta Íslands. Hann hefur reynslu, þekkingu og kjark til að greina og skilja þau vandamál sem koma upp og taka afstöðu. 

Ég ráðlegg þeim sem eru í vafa að láta ekki andstæðinga Davíðs ráða heldur kynna sér það sem maðurinn segir. Það hefur dugað mér. Andskotar Davíðs eru margir og þeir fara aldrei rétt með orð hans eða afstöðu.

 

 

 


Skemmdarverk í náttúrunni

Krot 2Ferðamenn sem koma hingað til lands eru ekki allir náttúruverndar- eða umhverfissinnar og ekki heldur allir heimamenn. Því fer fjarri. Skiptir litlu þó allir vilji út úr þéttbýlinu til að njóta íslenskrar náttúru.

Sem betur fer hefur ekki verið mikið um krot og önnur skemmdarverk í náttúru Íslands. Undanskil þó margvíslegar framkvæmdir hér og þar, malarnámur, utanvegaakstur, mannvirkjagerð og annað.

Krot 3Í frétt mbl.is segir frá heimskri stelpu sem hefur verið dæmd fyrir krot út í náttúrunni. Ekki þarf að leita lengi til að fá mynd af henni. Tilgangur hennar virðist vera sá eini að vekja athygli á sjálfri sér. Henni tókst það.

Yfirgnæfandi líkur eru á því að nú þegar hafi verið framin álíka skemmdarverk í íslenskri náttúru og með sömu rökum má fullyrða að þeim muni fjölga eftir því sem ferðamannastraumurinn eykst hingað til lands.

Sums staðar má sjá að reynt hefur verið að krota nöfn eða stafi í móberg enda er það auðveldast af öllu, svo mjúkt sem það er.

Krot 4Undanfarin ár hef ég lagt leið mína upp í Vífilsfell og finnst stundum krot í móberginu. Kosturinn er hins vegar sá að mjög auðvelt er að hreinsa svona krot út með því að strjúka hörðum steini yfir krotið.

Ég held hins vegar að í framtíðinni verði þetta vaxandi vandamál hér á landi eins og í mörgum öðrum löndum.

Krot 1Hér eru nokkrar myndir sem ég fann á vefnum.


mbl.is Dæmd fyrir „graff“ í sex þjóðgörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband