Bloggfærslur mánaðarins, júní 2016
Gróðureyðing í nafni náttúruverndar
21.6.2016 | 10:52
Um daginn hreyktu örfáir einstaklingar sér yfir því á Facebook að hafa reitt upp lúpínu á Bleikhól við Kleifarvatn í Reykjanesfólkvangi. Þetta var gert í nafni náttúruverndar.
Efsta myndin er af vegsummerkjum þessa fólks. Upprifin lúpínan liggur þarna út um allt, ekkert hreinsað í burtu, sem er svo sem allt í lagi. Lúpínan fellur hvort eð er á haustin, vex upp á ný vorið eftir og svo koll af kolli. Þannig verður til jarðvegur.
Og þetta góða fólk nennti ekki að gera meira, því sást yfir að efst á Bleikhól er vænlegur lúpínufláki sem á eftir að flæða niður hólinn, sjá mynd. Auðvitað er þetta ekkert annað en sýndarmennska hjá þessu fólki. Hins vegar er heiftin hjá þessu fólki út í lúpínuna undarleg, jaðrar við ofstæki.
Þegar ég ók þarna um síðasta laugardag sá ég ungmenni vinna hörðum höndum að loka rofabarði, sjá mynd. Þetta var örskammt frá Bleikhól, þar sem náttúruverndarfólkið hafði rifið upp lúpínuna. Ólíkt hafast þau að, gamla náttúruverndarfólkið og ungmennin.
Og sjáið svo næstu myndir. Þær eru dæmigerðar fyrir gróðurfar í Reykjanesfólkvangi. Hvað eru svokölluð náttúruverndarsamtök að rembast við að vernda? Rofabörðin, holtin, melana, bert grjót og klappir eða bara gróðurleysið?
Sem betur fer er baráttan gegn lúpínunni gjörsamlega töpuð, hún á eftir að vaða um landið og gera það gróðurvænlegra.
Verkefni þjóðarinnar er hins vegar að fara í kjölfar hennar og gróðursetja tré og aðrar vænlega plöntur. Þannig nýtum við lúpínuna, eyðum henni um leið og klæðum landið og raunverulega breyta þannig veðurfarinu. Verkefni okkar er ekki að eyða þeirri plöntu sem hvað vænlegust er til uppgræðslu.
Ekki gera sér allir grein fyrir því hvílík verksmiðja lúpínan er og hversu góð hún er í landgræðslu. Hún er þeim kostum búin að hún framleiðir köfnunarefni, nitur, úr andrúmsloftinu og auðgar jarðveginn með því. Fyrir vikið auðveldar hún öðrum jurtum lífið, gerir þeim kleift að vaxa á þeim stöðum sem enginn gróður hefur vaxið í hundruð ára. Ófrjóir melar blómstra með lúpínu og á eftir kemur annar gróður. Það er köfnunarefni sem íslenskan jarðveg vantar svo sárlega.
Takið til dæmis eftir áreyrum í Morsárdal þar sem lúpínan hefur auðveldað birkiskóginum að breiðast út. Sjáið Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn fyrir ofan Hafnarfjörð sem fyrr á árum hafði orðið uppblæstri að bráð. Þar var lúpínu sáð fyrir nokkrum áratugum og nú er þarna gróskumikil og fallegur birkiskógur og margvíslegur annar lággróður í frjósömum moldarjarðvegi sem að mestu er til kominn vegna hennar.
Takið eftir ævintýrinu í Heiðmörk fyrir ofan Reykjavík. Þar hefur verið sýnt fram á að lúpínan hafi stuðlað að auknum vexti gróðurs og síðan hafi hún hörfað. Þetta má glöggt sjá þegar bornar eru saman loftmyndir frá mismunandi tímum.
Hér er ekki úr vegi að vitna í Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, sem skrifaði eftirfarandi í lítill grein á visir.is:
Þrátt fyrir ötult starf við uppgræðslu landsins í meira en öld er uppblástur enn helsta umhverfisógnin sem steðjar að okkur Íslendingum. Foksand verður að hefta og við beitum þeim aðferðum sem bestar þykja til að græða upp landið og endurheimta landgæði. Birkiskógurinn og kjarrið sem í fyrndinni klæddi landið er óðum að ná sér á strik, en næringarefnaþurrð örfoka lands hamlar þar mjög.
Á næstu áratugum og öldum munu ný landsvæði sem skipta munu hundruðum og þúsundum ferkílómetra koma undan hopandi jöklum. Afleiðingar loftslagshlýnunar verða ekki umflúnar og jöklarnir eru þegar teknir að rýrna eins og mælingar sýna glöggt. Ný svæði jökulleirs og fjúkandi sands koma því stöðugt fram og sandfok verður viðvarandi vandamál. Það þarf ekki eldgos til þó þau hjálpi vissulega ekki upp á sakirnar í þessum efnum.
Framskrið foksands verður ekki heft nema með uppgræðslu og gróðurþekju. Höfum það hugfast að þrátt fyrir allt þekja sæmilega heilleg gróðurvistkerfi enn ekki nema lítið brot af flatarmáli landins og okkar bíður því mikið starf við uppgræðslu. Þar mun alaskalúpínan áfram gegna miklu hlutverki, hvað sem mönnum kann annars að finnast um þá ágætu plöntu.
Ekki einkavæða Landsvirkjun, segir Davíð Oddsson
21.6.2016 | 01:29
Ég er þeirrar skoðunar að við einkavæðingu eigi eitt meginatriði að gilda við skoðun á öllum málum: Er viðkomandi fyrirtæki sem er í þjóðareign, ríkiseign eða sveitarfélagseign með einokunaraðstöðu að einhverju tagi, þá fer ekki vel á því að einkavæða það.
Ef fyrirtækið er með raunverulega einokun á einhverju sviði þá er eðlilegra að það sé í opinberri eigu.
Þessa stórmerkilegu yfirlýsingu lét Davíð Oddsson frá sér fara á fundi í Grafarvogi þann 8. júní 2016. Raunar er hún hápólitísk og gengur þvert á það sem fjölmargir hafa haldið fram um skoðanir Davíðs á einkavæðingu.
Raunar var það svo að á fundinum kom fram fyrirspurn sem var um »einkavinavæðingu« Landsvirkjunar. Davíð lét ekki orðalagið trufla sig og svaraði afar skilmerkilega eins og sjá má. Hann lét þó ekki þar við sitja og bætti við:
Menn hafa verið að tala um alls konar samkeppni eins og í raforkugeiranum en hún hefur ekki átt sér stað. Talað er um að einhver samkeppni sé vegna Evrópu og hækka þurfi raforkutaxta hægt og rólega á fólkið í landinu af því að menn eru að undirbúa að það verði nægilega ódýrt að leggja rafstreng milli landa til að selja Bretum. Ég vil að menn geri það með opnari hætti og plati ekki fólk.
Ég tel að ef að við erum búnir að byggja upp raforkuver, meðal annars með því að hafa gert raforkusamninga við stórfyrirtæki, þá eigum við ekki að taka arðinn af þeim í ríkissjóð í því trausti að hinir vitru menn þar fari vel með. Fólkið í landinu á að njóta lægra taxta í raforku.
Hér getur að líta allt aðra mynd af pólitískum skoðunum Davíðs Oddssonar en andstæðingar hans vilja vera láta. Líklega reka margir upp stór augu þegar Davíð segist á móti því að selja Landsvirkjun vegna þess að hún sé opinbert fyrirtæki með einokunaraðstöðu. Er þetta ekki nóg einföld og skýr afstaða?
Látum almenning njóta arðsins af góðu gengi raforkuframleiðslunnar, segir Davíð og hafnar því að ríkið fái arðinn í einhvern sjóð til að »gambla« með. Er þetta ekki nógu skýr afstaða?
Greinilegt er að Davíð Oddssyni líst illa á sæstreng til Bretlands. Og hann hefur þó ekki einu sinni rætt um umhverfislegar afleiðingar sæstrengsins, allar virkjanirnar sem reisa þarf hér á landi til að hann sé fjárhagslega réttlætanlegur og ekki heldur meðfylgjandi rask á kostnað náttúru landsins.
Ágæti lesandi, vissir þú um þessar skoðanir Davíðs Oddssonar?
Ef ekki, hvers vegna?
Líklega er ástæðan sú að rödd Davíðs hefur ekki heyrst vegna hávaða. Andstæðingar hans hafa einfaldlega haft mikið fyrir því að rangtúlka það sem hann segir, endursemja söguna, eins og þeir sjálfir segja.
Einfaldasta og besta leiðin til að mynda sér skoðun á Davíð Oddsyni er að hlusta á manninn. Vissulega er hann umdeildur en það er allt annað mál. Hins vegar hafa andstæðingar hans yfirleitt farið rangt með orð hans og stefnu.
Ég er nærri því fullviss um að þú, lesandi góður, vissir ekkert um ofangreindar skoðanir Davíðs.
Skjálftar hafa færst í norðvestuhlíðar öskju Bárðarbungu
19.6.2016 | 13:31
Frá sjónarhóli leikmanns virðast skjálftar í Bárðarbungu hafa breyst nokkuð. Í stað þess að vera í öskjunni sjálfri eða dreifst um rimarnar hafa þeir færst norðvestur og eru nú í hlíðum hennar, ofan við Vonarskarð.
Þetta má vel sjá af skjálftum síðustu viku á efra kotinu. Skjálftarnir hnappa sér allir saman þarna norðvestan við barm öskunnar sem er undir Bárðarbungu.
Bárðarbunga sendi fyrir tveimur árum glóandi kvikugang norðaustur og eldgos kom upp í Holuhrauni. Eftir að því lauk mátti á jarðskjálftamælum sjá að samskonar berggang í norðvestur, nærri því í Tungnafellsjökul.
Afleiðingarnar voru talsverður órói þar og margir héldu að gos yrði uppi í Vonarskarði. Allt það virðist nú hafa gengið til baka. Engu að síður hefur jarðskjálftavirknin færst norðvestur í hlíðar öskunnar eins og sjá má á skjálftum síðasta sólarhrings á neðra kortinu.
Jarðvísindamenn fylgjast vel með þróun mála í Bárðarbungu en hafa lítið látið eftir sér annað en að þar lyftist nú land eins og það gerði fyrir gosið í Holuhrauni.
Svo er það allt annað mál hvort skjálftarnir séu fyrirboði eldgoss. Engu að síður væri forvitnilegt að heyra hvað jarðvísindamenn kunna að segja um þessa þróun mála ... ef á annað borð er um að ræða þróun mála.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um gjörbreytingu á mannanafnalögum
17.6.2016 | 14:24
Ég er þeirrar skoðunar það sé æskilegt og mikilvægt að viðhalda íslenskri nafnahefð þannig að fólk kenni sig til föður eða móður. Hins vegar er ekki hægt að viðhalda þeirri hefð með lögum.
Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslensku, í viðtali í Morgunblaði dagsins. Má vera að það sé rétt hjá honum. Guðrún Kvaran, formaður íslenskrar málnefndar, er hins vegar á öndverðu meiði. Hún segir:
Ég held að það sé alltaf mikið tap þegar við missum einhvern ákveðinn þátt úr tungumálinu því ég lít á bæði eiginnöfn og nafnakerfi sem hluta tungumálsins. Ef þessi venja, að kenna sig til föður eða móður leggst af, eða verður mjög lítil, þá tel ég þetta mikinn skaða fyrir þjóðfélagið.
Halda má að hér vegist á tvö sjónarmið; algjört frelsi og takmörkun á frelsi. Þó ber á það að líta hvað um er rætt. Þetta er tungumál þjóðarinnar, notkun þess, hefðin og framtíðin. Eru þessir þættir best varðveittir í lögum? Á mót kemur að tungumálið er notað af þjóðinni. spurningin er ekki hvort að þjóðinni sé treystandi heldur hvernig á að viðhalda málinu.
Ef til vill er samanburður við einfaldar reglur í stærðfræði ekki réttlátur. Þar er engu að síðar 2+2=4. Enginn afsláttur ef gefinn af því. Íslenskan er erfið, ungu fólki þykir hún leiðinleg og það fylgir mörgu langt fram á fullorðinsár. Málfræðin byggist hins vegar á ákveðnum reglum. Hvaða afleiðingar kann það að hafa verði reglurnar að hluta til afnumdar?
Þjóðin þarf að svara þessari spurningu sem og hvort hún vilji leyfa algjört frjálsræði með mannanöfn. Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að í fyrrasumar hafi 60% svarenda í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar viljað að reglur um mannanöfn yrðu rýmkaðar.
Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt væri nú afar viðeigandi að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu innanríkisráðuneytisins um breytingar á mannanafnalögum. Þessa atkvæðagreiðslu má alveg halda með alþingiskosningum í haust.
Auðvitað er fátt eins vel fallið til þjóðaratkvæðagreiðslu en það sem snertir á þennan hátt menningu og arfleið þjóðarinnar.
Svo er það allt annað mál að rýmkun á lögum um mannanöfn er allt annað en gjörbreyting á þeim.
Ómarktæki munurinn á Davíð og Andra Snæ
16.6.2016 | 11:55
Gamall vinstri sinnaður kunningi hafði samband við mig í morgun. Ein og við var að búast skensaði hann mig fyrir stuðning minn við framboð Davíðs Oddssonar til forseta Íslands. Við skutum svona á hvorn annan í bróðerni og reyndum að vera fyndnir.
Er við kvöddumst sagði hann nær pottþétt að Davíð yrði í þriðja sæti í kosningunum. Þegar ég hváði sagði hann að ástæðan væri einfaldlega sú að búið sé að hafa samband við stóran hóp fólks sem hefur lýst yfir stuðningi við Guðna Th. Jóhannesson og þetta fólk hvatt til að styðja Andra Snæ verði haft samband við það í skoðanakönnunum.
Tilgangurinn sé fyrst og fremst áróðurslegur, gera lítið úr Davíð og helst þannig að það bitni á Sjálfstæðisflokknum.
Ég hló, og spurði hann hvaða líkur væru á því að hópur fólks gæti haft áhrif á úrtak í skoðanakönnunum. Sá hópur þyrfti að vera stór og vel skipulagður.
Kunningi minn sagði það ekki stórmál. Aðalatriðið væri hvernig unnið sé úr skoðanakönnunum.
Þú veist, sagði hann, að allt í einu er ekki marktækur munur á Davíð og Andra Snæ og stuðningur við Guðna Th. minnkar. Heldurðu að það gerist bara upp úr þurru?
Þetta kom svo flatt upp á mig að ég gleymdi að kveðja.
... hvernig unnið er úr skoðanakönnunum?
Stóri bróðir og fleiri fylgjast grannt með daglegum athöfnum
15.6.2016 | 10:49
Landsleikurinn í gær setti greinilega venjubundnar athafnir algjörlega úr skorðum. Menn sátu sem límdir fyrir framan sjónvarpið. Þetta má sjá nokkuð nákvæmlega á vef Veitna sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur.
Með línuritinu fylgir þessi texti:
Talsverðar sveiflur voru í notkun á köldu vatni meðan á landsleik Íslendinga og Portúgala stóð í gær. Knattspyrnufrótt fólk þykist geta lesið spennustig leiksins út frá sveiflunum sem líklega endurspegla klósettferðir Reykvíkinga meðan á leiknum stóð.
Á myndinni sem hérna fylgir sést rennsli um æðar vatnsveitu Veitna í Reykjavík frá klukkan þrjú síðdegis 14. júní þar til leiknum lauk, rétt fyrir klukkan 21:00. Ljósari liturinn sýnir vatnsnotkunina þriðjudaginn fyrr, 7. júní, til samanburðar.
Í aðdraganda leiksins dregur smátt og smátt úr vatnsnotkuninni og hún snarminnkar þegar flautað er til leiks. Eftir að Portúgalar skoruðu eftir um hálftíma leik kemur kippur í vatnsnotkunina sem bendir til þess að þá hafi nokkur fjöldi fólks þurft að létta á sér.
Þegar flautað var til hálfleiks og meðan á leikhléinu stóð er mikill kippur í notkuninni og nemur rennslisaukningin hátt í 50 sekúndulítrum.
Allt er þetta svo óskaplega fróðlegt en ... Svona upplýsingar hafa annað gildi en fyrir skemmtunina eina saman. Nei, þetta er ekki gagnslaus fróðleikur, miklu frekar getur hann verið óskaplega verðmætur eða með öðrum orðum hættulega verðmætur.
Draga má þær ályktanir af ofangreindu og öðru að fátt er það sem stóri bróðir veit ekki um athafnir okkar. Hann veit um notkun á heitu og köldu vatni, rafmagni, tryggingum, síma- og tölvutengingum og niðurhali svo eitthvað sé nefnt. Auðveldlega má fá nokkuð nákvæma lýsingu á hegðun fjölskyldu með því að skoða ofangreint sem og jafnvel bera saman við aðra neyslu sem til dæmis kemur fram á notkun okkar á debet- og kreditkortum. Minna má á að bankareikningar okkar eru skattayfirvöldum bókstaflega opin bók.
Um leið og það er fáránlega gaman að skoða línuritið frá Veitum er ekki út vegi að íhuga hinar hliðar málsins. Hversu vel eru persónulegar upplýsingar varðveittar hjá skattinum, Veitum, OR og tölvu- og símafyrirtækjum? Er ástæða til að gera meiri kröfur en þegar eru gerðar?
Hvers vegna velti ég þessu fyrir mér?
Með nákvæmri greiningu á einstaklingum má skipta þeim í hópa, til dæmis eftir því hversu ábatasamt er að standa í viðskiptum við þá. Þessi hætta er fyrir hendi og þar með að sumir borgi meira en aðrir vegna kauphegðunar og/eða vörunotkunar.
Ég er áskrifandi að Meniga sem hefur aðgang að bankareikningunum mínum, debet- og kreditkortum, skoðar öll útgjöldin, flokkar þau og raunar færir heimilisbókhaldið mér til mikilla þæginda.
En ... fyrirtækið hefur allar upplýsingar um mig og tugþúsunda annarra. Hversu verðmætar eru ekki þessar upplýsinga fyrir viðskiptalífið? Á móti kemur að Meniga er mjög ábyggilegt fyrirtæki og fjarri því að hér sé verið að gefa eitthvað í skyn um reksturinn eða eignarhaldið.
Staðreyndin er hins vegar sú að sundurliðun á hagkvæmni viðskipta við neytendur er pottþétt afar verðmæt og í kjölfarið þrepaskipting á verðlagi. Nefna má að tryggingar gætu verið mismunandi eftir því hvernig heilsufari okkar er háttað.
Er eitthvað því til fyrirstöðu að stóri bróðir eða annar ættingi hans, tengdur eða ótengdur, taki til óspilltra málana og kanni þau?
Draumpspakir spá sjö marka tap gegn Portúgölum
14.6.2016 | 14:32
Tala sjö er merkileg. Biblíulega, stærðfræðilega og annars. Í dag hafa hringt í mig sjö manns sem telja sig draumspaka, konur og karlar af öllum kynjum og aldri. Tilgangurinn var að segja mér hvernig leikurinn við Portúgali fer í kvöld.
Öll halda því fram að við töpum með sjö mörkum gegn engu. Einn gerir hins vegar þann fyrirvara á spá sinni að ef Eiður er í byrjunarliðinu vinnur íslenska liðið með einu marki sem Selfyssingurinn í liðinu skorar á 72. mínútu. að öðrum kosti verður þetta dagur Ronaldós sem skorar fjögur mörk.
Hef enga trú á því að leikurinn fari svona en ætla ekki að horfa á hann. Geng upp á Vífilsfell í staðin og set niður nokkrar stikur.
Og meðan ég man, Ísland lendir í þriðja sæti í riðlinum og kemst áfram. Þjóðverjar verða Evrópumeistarar. Englendingar komast ekki í milliriðil. Lars fer heim til Svíþjóðar.
Svar leikmanns við bréfi til forsetaframbjóðenda
13.6.2016 | 11:48
Uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er stærsta umhverfisvandamál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir allar götur frá landnámi. Beit viðgengst enn á íslenskum auðnum og rofsvæðum sem enga beit þola að mati okkar helstu sérfræðinga.
Því langar okkur að bera upp eftirfarandi spurningar:
1. Hvað munt þú gera, sem forseti, til að snúa þessari þróun við?
2. Munt þú, sem forseti, beita þér fyrir vörsluskyldu búfjár?
3. Hvert er álit þitt á lúpínu sem landgræðsluplöntu?
Ofangreint er bréf sem Sigurður Arnarson, kennari og fræðibókahöfundur, skrifaði forsetaframbjóðendum. Raunar er bréfið þess eðlis að það á erindi til allra enda þarna spurt um afar mikilvæg mál.
Mig langar til að reyna mig við spurningarnar, er þó ekki forsetaframbjóðandi, aðeins venjulegur borgari, leikmaður með skoðanir.
Gróðureyðing, viðsnúningur
Rétt er að uppblástur, jarðvegsrof og hnignun gróðurs er eitt stærsta umhverfisvandamál sem þjóðin stendur frammi fyrir. Vandamálið hefur orðið æ ljósara á síðustu áratugum. Fjöldi fólks áttar sig ekki á því að landið eins og það er núna er um flest frábrugðið því sem var þegar það var numið. Munar hér mestu um gróðurfar.
Fræðimenn telja nú að birkiskógar hafi þakið um 25% landsins við landnám en nú eru þeir á um 2%. Fullyrt hefur verið með rökum að í stað þess að útbreiðsla skóg- og kjarrlendis sé á um 1200 ferkm lands ætti það að vera á um 45 þúsund ferkm. Þetta er sláandi.
Víða um land er að finna krækiberjalyng og bláberjalyng sem öllum þykir vænt um og sækja í. Vandinn er hins vegar sá að þessar tegundir og aðrar eru á svæðum sem fræðimenn nefna rýrt mólendi og er á um 24% landsins. Það hefur einkum myndast vegna langvarandi beitar. Svona land er þúfótt vegna þess að snjór festist lítt á yfirborðinu og getur því ekki hlíft landinu fyrir frostlyftingu. Þetta er sláandi.
Vandamál nútímans er hugarfarið. Hvernig þjóðin geti tekið sameiginlega á málunum án þess að valda klofningi. Fræðimenn eru jafnvel ekki á eitt sáttir, landbúnaðurinn hefur sínar skoðanir og almenningur tekur afstöðu á margvíslegan hátt. Jafnvel viðhorfið til skógræktar sem margir telja hið göfugasta af öllu ræktunarstarfi er margbreytilegt. Sumir óttast að komast ekki leiðar sinnar verði trjárækt aukin, aðrir telja að útsýni skerðist og enn aðrir segja að gróðurleysi landsins sé einfaldlega eftirsóknarvert og fallegt.
Ég er á þeirri skoðun að þjóðin þurfi að greiða skuld sína við landið, græða það upp. Þessum málstað þarf að afla fylgis. Um leið þarf að breyta fjölmörgu í landbúnaði. Leggja þarf til dæmis af beit á gróðursnauðum svæðum. Setja þarf lög um sem takmarka beit. Skipta þarf landinu upp í fjölmörg hólf rétt eins og oft er gert í sjávarútvegi. Hólf séu einfaldlega lokuð fyrir beit þar til þau teljast í svo góðu standi að þau þoli takmarkaða beit.
Vörsluskylda búfjár
Með vörsluskyldu búfjár er átt við að eigandi haldi því innan sinnar eignar og hann sé eigandi eða umráðamaður þess. Um leið er átt við að um landið sé gripaheld girðing sem kemur í veg fyrir frjálsa för búfjár. Um leið og þetta er sagt má ljós vera að ekki eiga allir landeigendur búfé og hafa ekki hug á því. Þeir eiga raunar undir högg að sækja, á þá eru settar kvaðir vegna búfjárhalds annarra og þeir þurfa að verjast ágangi búfjár á lönd sínum.
Grundvallaratriðið á að vera að eigendur búfjár beri ábyrgð á því, innan landamerkja sinna, og gæti þess að það haldi sig þar. Þannig er þetta í flestum öðrum löndum í Evrópu, Ameríku og Nýja Sjálandi og raunar eru aðstæður hér á landi lakari en þær voru fyrr á öldum.
Aðalatriðið er að búfé, sérstaklega sauðfé, ógnar gróðurfari og uppgræðslu. Lágmarkið er eins og áður sagði að landinu sé skipti í beitarhólf. Raunar á það að vera þannig að eigendur búfjár beiti því á eigin lönd. Um leið þarf að gæta að því að land í einkaeigu sé í standi til að búfé sé beitt á það.
Benda má á fjölmargt sem hafa áhrif á þróun gróðurs á láglendi og hálendi. Eitt stendur þó upp úr og það er beitin, einkum sauðfjárbeit.
Lúpínan sem landgræðslujurt
Hér á landi eru ýmsar stofnanir starfandi sem starfa að uppgræðslu landsins. Dreift hefur verið grasfræi og áburði úr flugvélum og á jörðu niðri með ærnum tilkostnaði. Engu að síður miðar lítt áfram. Landið er enn í sárum eftir búskaparhætti undanfarna árhundruða og fátt bendir til þess að umtalsverð breyting verði þar á næstu árin. Þó er ein undantekning frá þessu og það er lúpínan sem sannarlega má nefna verksmiðju svo afkastamikil er hún og snögg að breiðast út.
Lúpínan er þrautseigari en margar aðrar plöntur. Kostir hennar eru margir og sá helsti er að í rótum hennar lifa bakteríur sem nýta nitur úr andrúmsloftinu og skila í jarðveginn. Hún þrífst vel vegna þess að rætur hennar ná dýpra en margra annarra plantna og komast þar í vatn þegar aðrar plöntur veslast upp í þurrki. Þetta gerir það að verkum að lúpínan breiðist hratt út á illa grónu landi eins og rýru mólendi. Segla hennar og rótarbúskapur veldur því að jarðvegurinn verður frjósamari og aðrar tegundir koma í kjölfarið.
Að ósekju er lúpínan mikið gagnrýnd og þá helst fyrir það að vera ekki íslensk planta, hún sé aðskotahlutur í íslensku vistkerfi og eyðileggi það jafnvel. Menn sjá til dæmis eftir krækiberjalyngi sem lúpínan virðist kaffæra en hugsa þó ekki það til enda. Fræðimenn segja að stærsti hluti mólendis hefur orðið til vegna ofbeitar. Væri þetta sama mólendi friðað og þar með krækiberjalyngið myndi fljótlega vaxa birki sem útrýmir berjasprettunni.
Ósannað er að lúpínan útrými öðrum tegundum, raunar hafa rannsóknir sýnt hið gagnstæða og má nefna lúpínuna í Heiðmörk sem dæmi um slíkt. Hins vegar er gróðulendi ekki nein kyrrstaða tengunda eins og samkvæmt friðarsamningum heldur síbreytilegt ástand.
Engin önnur jurt jafnast á við lúpínuna. Þeim sem er í nöp við hana er í lófa lagið að útrýma henni. Aðeins þarf að gróðursetja hávaxnari plöntur þar sem hún vex.
Lúpínan þrífst ekki í skugga og þess vegna er skógrækt ódýrasta og skynsamlegasta leiðin til að losna við hana. Og það sem meira er, tjágróðri líður hvergi betur en þar sem lúpínan er. Þökk sé niturbindingu jarðvegsins.
Myndir: Efsta myndin er tekin norðan Þingvallavatns, skammt frá Syðstusúlu. Gróðurinn liggur í lægðum og giljum annars staðar eru uppblásnir melar, næst er ræfilslegur gróður á holti. Myndin í miðjunni er frekar sauðsleg en hún er samt ekki af höfundi. Neðsta myndin er tekin á aurunum í Morsárdal við Skaftafell, en þar vex nú upp gróskulegur skógur í framhaldi af Bæjarstaðarskógi, þökk sé lúpínunni sem hverfur þarna undir birkið og síðan fyrir fullt og allt.
Heimildir: Facbooksíðurnar Vinir lúpínunnar og Áhugafólk um landgræðslu. Ágúst H. Bjarnason, heimasíða. Að lesa og lækna landið (pdf útgáfa); Ólafur Arnalds og Ása L. Aradóttir. Hörfar lúpínan, Skógræktarfélag Íslands, grein eftir Daða Björnsson, landfræðing.
Hér bæti ég við einni mynd til skýringar vegna athugasemdar Gunnar Heiðarssonar. Myndin er af Melasveitinni og er horft í suður austan við fjallið Blákoll. Frekar lágskýjað var þennan dag. Í fjarska er Akrafjall og Akrens Hægra megin eru lítil vötn og handan þeirra er bærinn Fiskilækur sem Gunnar nefnir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.6.2016 kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Lýsendur EM leikja tala margir mikið en segja lítið
12.6.2016 | 14:20
Ég þekki fá nöfn á lýsurum á fótboltaleikjum í sjónvarpi. Nú er Evrópumóti að fara af stað og allir spenntir. Þegar hafa sést góðir leikir eins og leikur Englendinga og Rússa, sem var góður af beggja hálfu. Englendingar komu þó á óvart, voru miklu betri en ég bjóst við og hefðu átt að vinna. Leikur Frakka og Rúmena var líka vel leikinn af beggja hálfu.
Þegar þetta er ritað er hálfleikur hjá Tyrkjum og Króötum. Leikurinn er ekki svo ýkja vel spilaður, meiri kraftur en leikni. Maður hefur það á tilfinningunni að leikmenn séu afar óánægðir þegar þeir andstæðingurinn kemst framhjá og því eru bolabrögðin notuð.
Sé fyrir mér Tyrkjann renna sér í tæklingu og þegar Króatinn liggur nær óvígur eftir dregur sá fyrrnefndi upp byssu og skýtur hinn, svona til öryggis. Og dómarinn er vís með að refsa þeim skotna með gulu spjaldi, það er fyrir leikaraskap.
Nei, þetta er hörkuleikur tveggja þjóða sem halda enn í heiðri hefndarskylduna. Sem betur fer eru þó ákveðnar reglur í fótboltanum og dómararnir án efa vanda sínum vaxnir.
Svo komið sé nú aftur að þeim sem lýsa leikjum. Sumir þeirra tala mikið en segja lítið og þeir eru margir hverjir alltof háværir. Hér eru dæmi.
Einhver sparar boltanum fyrir markið. Þá segir lýsandinn: Og hann sparkar fyrir markið.
Boltinn hrekkur útaf: Boltinn er farinn út af og það er innkast.
Boltanum er þrusað að marki: Stórglæsilegt skot, öskrar lýsandinn. Svo þegar endursýningin leiðir í ljós að boltinn var fjarri marki þegir hann loksins.
Varnarmaður sparkar boltanum út af: Hornspyrna sem hinir eiga.
Sko, það er allt í lagi fyrir lýsendur að þegja. Þeir eiga ekki að segja frá því sem allir sjá. Síðast en ekki síst eiga þeir að halda stillingu sinni.
Lýsendur geta margt lært af þeim ágæta yfirlýsanda Guðmundi Benediktssyni.
Bönnum enska landsliðinu þátttöku í alþjóðamótum
11.6.2016 | 18:44
Er ekki kominn tími til að banna enska fótboltalandsliði karla þátttöku í heimsmeistara-og evrópumótum? Stuðningsmenn liðsins halda að með ólátum, drykkjuskap og ofbeldi geti þeir bætt upp lélegan árangur liðsins. Þeir eru ekki að skemmta sér eins og annað fólk
Ég hef lengi verið stuðningsmaður enska landsliðsins en árangur þess hefur því miður verið hörmulegur í áratugi. Þetta er svona eins og að halda með Liverpool í enska boltanum, ekkert nema ávísun á vonbrigði og leiðindi. Stuðningsmenn liðsins eru þó skárri en enska landsliðsins.
Held ég láti af þessum stuðningi hér með. Enska þjóðin og aðrir verða bara að sætta sig við afstöðu mína.
Að lokum legg ég fram þá tillögu að enskum stuðningsmönnum fótboltaliða verði meinaður aðgangur að alþjóðlegum fótboltaleikjum nema að þeir hafi fengið viðeigandi meðferð hjá sálfræðingi og geti framvísað vottorði um andlega heilsu sína.
Einn í lífshættu eftir átökin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |