Nýkjörinn forseti sat á gólfi með leikfangabíl og sagði brrrr og bíb

Kynslóðaskipti hafa orðið. Ungur maður hefur verið kjörinn forseti og hans bíða skemmtileg og áhugaverð verkefni sem hann leysir ábyggilega með sóma.

Ég man ekki eftir að hafa hitt Guðna Th. Jóhannesson nema einu sinni.

Þegar ég var í Menntaskólanum í Reykjavík 1973 til 1977 kenndi faðir hans, Jóhannes Sæmundsson, íþróttir. Tvisvar eða þrisvar í viku fóru nemendur í litla herbergi sem kallað var íþróttasalur eða glímdu við tækin í kjallaranum, stundum var jafnvel hlaupið í kringum Tjörnina. Þetta voru skemmtilegir tímar, Jóhannes kátur og hvetjandi og vildi að við tækjum námið alvarlega og flestir gerðu það, oftar en ekki vegna þess að enginn vildi bregðast þessum ágæta manni

Ég sótti valfag í íþróttafræði hjá Jóhannesi. Það kom mikið á óvart að Jóhannes bauð okkur nemendum sínum heim til sín í kaffi, kakó og kökur og var tilefnið að afhenda okkur skjal til sönnunar um að við hefðum staðist prófið. Á móti okkur tók glæsileg eiginkona hans, Margrét G. Thorlacius, og á gólfinu léku sér tveir strákar með leikfangabíla og sögðu brrr, brrrrr og bíb, bíb. Annar þeirra hét Guðni og hinn Patrekur. Man ekki eftir að hafa séð Jóhannes, þriðja bróðurinn.

Þetta var í eina skiptið að kennari í MR bauð nemendum sínum heim til sín. Jóhannes var svo ljúfur og góður að ekki var hægt annað en að kunna vel við manninn. Hann fylgdist vel með nemendum sínum og þess albúinn að aðstoða langt umfram kennsluskyldu sína.

Jóhannes fæddist 1940 og lést 1983. Fjölmargir nemendur Jóhannesar minnast hans nú og samgleðjast fjölskyldunni á þessum degi er Guðni sonur hans hefur nú verið kjörinn forseti Íslands.

Í minningargrein um Jóhannes í Morgunblaðinu segir Guðni Jónsson, rektor MR:

Hann breyttir leikfimikennslu í íþróttakennslu og lagði mikla áherslu á að efla þrek nemenda og kenna þeim undirstöðuatriðin í mörgum greinum íþrótta, sem þeir mættu síðar nota til að viðhalda heilsu sinni og hreysti. [...)

Ekki síður ástæða til að geta glaðværðar hans og kátínu á kennarastofunni. hann var skemmtilega stríðinn, án þess að broddurinn færi of djúpt eða sæti eftir, og þó að stríðnir menn þoli oft mann verst stríðni, þá var því ekki svo farið um Jóhannes, hann gat tekið stríðni eins og vel og hann útdeildi henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband