Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Er nokkur furða þó vinstri flokkarnir séu komnir í 8% fylgi

Ólína Þor­varðardótt­ir, þingmaður Sam­fylk­ing­arin­ar, tók und­ir með Lilju Raf­ney. Ólína sagði um­mæli Gunn­ars Braga ámæl­is­verð og óþverra­leg. Sagði hún öm­ur­legt þegar reynt væri að sverta heiðarlegt fólk með þess­um hætti. Svandís Svavars­dótt­ir, þing­flokks­formaður VG, sagðist eng­ar vænt­ing­ar hafa til þess að Gunn­ar Bragi bæðist af­sök­un­ar á um­mæl­um sín­um enda hefði hann farið fram með þess­um hætti áður án þess að gera það. Sagði hún um­mæl­in lág­kúru­leg.

Svo segir á mbl.is í dag af umræðum á Alþingi um meinta kvótaeign Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna.

Hvorki Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, né Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tóku til varna fyrir forsætisráðherra í gær þegar Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, flutti skrökræðuna um arf eiginkonu forsætisráðherrans.

Þetta er í hnotskurn ástæðan fyrir litlum árangri Samfylkingar og Vinstri grænna í skoðanakönnunum, en báðir flokkarnir mælast með um 8% fylgi.

Hvenær skyldu verða teknar upp málefnalegar og kurteisar umræður á þingi í stað hávaða og bumbusláttar?

Voru það ekki Svandís og Ólína sem vildu taka upp nýja umræðupólitík eftir hrunið? Þær eru nú sjálfar á bólakafi í gamaldags pólitík sem er að ganga af flokkum þeirra dauðum.


mbl.is „Mig dreymdi slor í nótt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikurinn í augum Björns Vals er ekki alltaf sagna bestur

Nú er komið í ljós að Lilja Rafney og eiginmaður hennar eiga kvótaeign upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar var Lilja Rafney og eiginmaður hennar að höndla með fjölskylduauðinn í fiskveiðikvótanum.

Þetta sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna og hálfþingmaður á þingi í gær þegar hann uppgötvaði að flokkssystir hans og samþingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir og eiginmaður hennar væru kvótagreifar. 

Nei, auðvitað sagði hann þetta ekki. Þó sannleikur og staðreyndir mála flækist ekki beinlínis fyrir manninum þá eru nú takmörk fyrir því á hverja hann ræðst. Hann hefði samt auðveldlega getað sagt þetta, en Lilja Rafney er í samherji og engin ástæða til að skrökva neinu upp á hana. 

Hins vegar sagði postulinn Björn Valur þetta á þingi í gær samkvæmt visir.is:

Nú er komið í ljós að forsætisráðherrahjónin eru í gegnum peningafélag sitt skráð á Tortóla meðal kröfuhafa í alla íslensku bankana upp á mörg hundruð milljónir króna. Á meðan íslenskur almenningur, fjölskyldur og heimili, þurftu í gegnum hrunið og í kjölfar þess að berjast frá degi til dags til að halda heimili sínu gangandi innan gjaldeyrishafta og fallinnar krónu og reyna að standa í skilum með skuldbindingar sínar voru forsætisráðherrahjónin að höndla með fjölskylduauðinn í erlendum skattaskjólum. 

Var þó eiginkona forsætisráðherra búin að leggja fram allar upplýsingar um peningaeignir sínar erlendis og að hún hefði alla tíð talið þær fram á íslenskri skattskýrslu og greitt hér á landi af þeim skatta sem lagðir voru á samkvæmt þeim. 

Ef eitthvað samræmi væri í herferðum Björns Vals Gíslasonar, varaformanns Vinstri grænna, myndi hann ráðast af sömu heift gegn Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmanni Vinstri grænna. Ástæðan fyrir því að hann gerir það ekki er einfaldlega sú að hann telur að sannleikurinn sé ekki alltaf sagna bestur. Þegar á þarf að halda flækist hann bara fyrir í pólitískum árásum.

Sá sem þetta ritar hefur kenningu sem skýrt getur arfaslakt fylgi Vinstri grænna í skoðanakönnum. Það er nú komið ofan í 8% og nálgast fylgi Alþýðuflokksins með ljóshraða. Kenningin er í tveimur hlutum og er svona í stuttu máli:

  1. Björn Valur Gíslason
  2. Hinir þingmenn Vinstri grænna

Þarf að skýra þetta nánar?

 


mbl.is Hefur aldrei átt né selt kvóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Anonymous hakkarar eru stórhættulegir lýðræðinu

Þeir sem beita ofbeldi eru hættulegir. Ofbeldislið eins og „hakkarahópurinn Anonymous“ eru eins og Mafían, lætur enga staðanda í vegi fyrir sér.

Persónulega er ég ekkert hrifinn af Donald Trump. Held að hann sé málefnasnauður skúrkur. Það breytir því ekki að fordæma verður aðgerðir hakkarahópsins nafnlausa. Þeir eru huglausir af því að þeir koma ekki fram undir nafni og þeir eru hættulegir málfrelsi vegna þess að þeir ráðast á þann sem nauðsynlega þarf að koma skoðun sinni á framfæri.

Þar af leiðandi er svona hópur stórhættulegur lýðræðinu. Þeir þykjast vera með réttar skoðanir og allir sem eru á öndverðu meiði fá að kenna á því.

Þessi lýður ætlaði að berja á Íslendingum vegna hvalveiða vegna þess að þeir eru á því að ekki megi stunda slíkar veiðar.

Þeir ætluðu að ráðast gegn ISIS eða kalífadæminu sem stjórnar nú stórum hluta Sýrlands og Íraks.

Innræting þeirra kemur glögg í ljós þegar fórnarlömbin eru borin saman, Ísis, Ísland og Trump. Hvað eiga eiginlega þessi þrjú sameiginlegt. Fátt eða ekkert.

Svo er það allt annað mál að Anonymous hefur ekkert tekist. Þetta eru kjaftaskar sem náðu engum árangri gegn hvalveiðum Íslendinga, Ísis hefur aldrei verið sterkara í hermdarverkum sínum og enn er Trump með öll tromp á hendi.


mbl.is Í allsherjarstríð gegn Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veggjakrot er lýti á Reykjavík

VeggjakrotBÍ gær skrifaði ég lítillega um veggjakrot sem er eitt af mestu umhverfisvandamálum Reykjavíkur. Ég birti litla mynd af horni Laugavegs og Frakkastígs þar sem verktakar hafa byggt myndarlegan trévegg í kringum húsbyggingu.

Tréveggurinn var auður í gærmorgun en er nú hafa sóðarnir komist að honum eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Ég reyndist ekki sannspár, hélt því fram í gær að veggurinn fengi að vera auður fram í næstu viku.

Veggjakrot eru lýti á borginni fyrir utan að vera skemmdir á eignum. Því þarf að útrýma og það verður aðeins gert með því að gera húseigendur og verktaka ábyrga fyrir því. Þeir geta svo gripið til ákveðinna ráðstafana og reynt að hafa hendur í hári þessara aumingja.

VeggjakrotAVerstur vandinn er sá að veggjakrotarar hafa ekki snefil af listrænni getu. Allt er ljótt sem þeir gera, engin mynd, engin hugsun ekkert vit. Þetta lið er einfaldlega illa innrætt fyrir utan algjöran skort á hæfileikum. 

Húseigendur og húsbyggjendur eiga að vera ábyrgir fyrir að halda eignum sínum hreinum fyrir kroti. Bregði út af því á að leggja háar dagsektir á þá. Einungis þannig taka munu þeir taka til sinna ráða og finna dólganna.

Þeir munu ábyggilega setja upp betri lýsingu og eftilitsmyndavélar. Þá munu þessir andskotast finnast ansi fljótt. Eftileikurinn er að kæra þá og ná inn fyrir útlögðum kostnaði vegna skemmdarverka. Um leið og einn eða fleiri nást og verða dæmdir til hárra sektargreiðslna verður til fælingarmáttur. Hinir munu hugsa sig tvisvar um áður en gripið er til spreybrúsans.

Önnur leið er ekki til.

Hin myndin er af trévegg á horni Hverfisgötu og Frakkastíg. Hæfileikaskorturinn er þarna yfirþyrmandi rétt eins og annars staðar.


Sekta á húseigendur fyrir veggjakrot

Veggjakrot1Veggjakrot í miðbænum eru afleiðing agaleysis foreldra, húseigenda, byggingaverktaka og ekki síst borgaryfirvalda. Þegar svo er komið að hver auður húsveggur er útspreyjaður í ljótu kroti þarf að taka til hendinni.

Borgin liður fyrir þetta, ekki aðeins miðborgin heldur öll hverfi. Aðeins ein lausn er til á þessum vanda.

Borgaryfirvöld eiga að leggja sektir á húseigendur og verktaka sem hreinsa ekki veggjakrot af eignum sínum.

Afleiðingarnar verða einfaldlega þær að þeir munu taka til sinna ráða og vakta eignirnar mun betur en hingað til. Þeir munu vísast sækja um leyfi fyrir myndavélum sem settar verða upp við húsin og taka upp allar mannaferðir. Þar með erum miklu meiri líkur á að hægt að bera kennsl á liðið og kæra það.

Vöktunarmyndavélar eru orðnar svo ódýrar og einfaldar að peningalega er það enginn vandi að kaupa slíkar og láta setja upp. Fleiri ráð eru raunar til, til dæmis góð lýsing.

Veggjakrot2Efri myndin er tekin í í morgun á horni Laugavegs og Frakkastígs. Þar hefur húsalengja verið jöfnuð við jörðu og byrjað að byggja. Umhverfis lóðina hefur verið byggður vandaður tréveggur. Enn er hann óspjallaður að undanteknu horninu lengst til hægri. Spá mín er sú að í næstu viku munu sóðarnir vera búnir að útkrota hann. Öllum til leiðinda.

Hin myndin er af veggjakroti á bakhlið Laugvegs 25. Sóðarnir sækja í skuggsæla og fáfarna staði og þar spreyja þeir eins og mögulegt er og hlaupa svo í burtu eins og glæpamenn, sem þeir auðvitað eru.

Mikilvægast er að bera kennsl á sóða sem skemma eignir fólks, gera fordæmi úr málum þeirra öðrum til viðvörunar. Eina leiðin er að gera húseigendur ábyrga fyrir sóðaskapnum og láta þá um að finna sannanir gegn sóðunum.


Á norski fjöldamorðinginn að þjást í fangelsinu?

Margir halda því fram og það með réttu að enginn megi vera undanþeginn reglum réttarríkisins, hversu auvirðilega glæpi sem sakfellt er fyrir.

Hvað varðar Anders Behring Breivik má mín vegna gera undanþágu frá ofangreindu og taka af honum öll réttindi sem refsifangar hafa yfirleitt. Hann er sekur um hræðileg morð og á að líða fyrir það.

Réttarríkið mun ekkert skaðast sé þetta gert. Enginn mun þjást nema þessi maður og hann á það skilið. Hann iðrast einskis.

Ekki þarf að ræða neitt frekar um þetta að mínu mati. Punktur.


mbl.is Heilsaði að hætti nasista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var fréttin um sjúkrarúmin í bílageymslunni uppspuni?

MílageymslaEru öll meðöl leyfileg og þar með að segja ósatt í fjölmiðlum. Þetta dettur manni í hug eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi af uppsetningu sjúkrastofu í bílageymslu Borgarspítalans. 

Í umræðuþætti á vefmiðlinum Eyjunni sagði Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna Betri spítali að þetta með sjúkrarúmin í bílageymslunni hafi bara varið hluti af áróðri Landspítalans til að halda áfram uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Hann sagði í þættinum:

Ég veit ekki betur en að það sé búið að taka alla þessa aðstöðu niður, það voru engir sjúklingar þarna þessa nótt. Í mínum huga var þetta bara leikrit… og ómerkilegt leikrit.

Hafi forstjóri Landspítalans farið vísvitandi með rangt mál varðar það án efa lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70 frá 1996. Í 14. grein laganna segir meðal annars:

Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

Sé það rétt að forstjóri Landspítalans hafi farið með rangt mál í viðtölum við fjölmiðla út af sjúkrarúmum í bílageymslunni er hann í alvarlegum vanda.

Auðvitað fyllast menn tortryggni þegar málið er skoðað nánar. Það getur hreinlega ekki verið sæmandi að bíll sé í sama rými og sjúklingar, jafnvel ekki örfá augnablik.

Undanfarnar vikur hefur hver fréttin rekið aðra frá Landspítalanum. Svo margir hafa veikst meðal annars af flensunni að öll rými fylltust og sjúklingar þurftu að liggja í rúmum á göngum spítalans. Mikið skelfing sem maður hafði samúð með starfsfólki og ekki síður fárveiku fólkinu.

Getur verið að þessar fréttir sé plantaðar í fjölmiðla vegna einhvers áróðursstríðs um byggingu nýs spítala og þá gegn hugmyndum um uppbyggingu Landspítalans við Vífilsstaði?

Svo kom forstjóri Landspítalans í sjónvarpið um helgina og lýsti húsnæðisvandanum þannig að nú væri búið að taka hluta af bílageymslum spítalans undir sjúkrastofur. Birtar voru myndir af uppbúnum sjúkrarúmum og læknum og hjúkrunarfólki á vappi á blautu gólfi undir plasthimni. Svo var sjúkrabíl ekið inn við hliðina á plasttjöldum og líklega var slasaður eða veikur sjúklingur í honum. Glöggt mátti sjá að plasttjöldin náðu niður í á að giska hnéhæð og fyrir innan fótaði fólk sig fimlega á milli rúma.

Já, við bláeygir og saklausir áhorfendur og fréttalesendur höfum mikla samúð með stöðu mála og aumingjans forstjórinn var hreinlega ráðþrota. Gvöð, hvað staðan er slæm. Við verðum að fara að byggja nýtt sjúkrahús við Hringbraut.

Eða er betra að taka framvegis öllum fréttum um Landspítalann með fyrirvara? Þær geta verið tómur uppspuni.

Viðbót kl. 17:50: Á visir.is kemur eftirfarandi fram:

Engir sjúklingar gistu sjúkrarými sem sett var upp í bílageymslu Landspítalans um helgina. Rúmum var komið fyrir í bílageymslunni, sem notuð hefur verið sem sjúkrarými í hópslysum og á að vera notað í eiturefnaslysum, vegna gríðarlegs álags sem var á spítalanum í síðustu viku.

Búnaðurinn sem komið var fyrir hefur verið tekinn niður og fluttur aftur inn á spítalann. Það er þó fljótgert að koma aftur upp rými í bílageymslunni ef þörf er á.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði þegar sjúkrarýmið var sett upp að um öryggisógn á spítalanum hefði verið að ræða.

„Við vorum með 28 sjúklinga hér á gangi á miðvikudagskvöldið og 35 í rúmum sem komust ekki inn á yfirfullan spítala,“ sagði Páll í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudagskvöld. „Auðvitað er þetta ekki félegt, en þetta er tryggara en ef við værum að dreifa fólki á yfirfullar deildir um allan spítala.“

Þessi frétt bætir ekkert stöðu Landspítalans eða forstjórans. Allt bendir til að uppsetning sjúkrarýmisins í bílageymslunni hafi verið áróðursbragð, uppspuni stjórnenda spítalans.

Myndin eftur „Unu“ er tekin traustataki af visir.is.


Íbúðir við Miklubraut - hávaði, svifryk og svo allt hitt rykið

Þeir vita sem reynt hafa hversu slæmt er að búa við miklar umferðagötur. Umferðin um Miklubraut er gríðarlega mikill, nær allan sólarhringinn. Engum er greiði gerður með því að byggja hús því sem næst á á henni, skiptir engu máli þó hið formlega heimilisfang sé Sogavegur 73-75. Byggingin sem þarna á að rísa er jafn mikið við Miklubraut eða á áhrifasvæði Miklubrautar.

Íbúðarhúsnæði við mikla umferðagötu eins og Miklubraut verður hriklalega slæmt. Ég þekki það, bý alltof stutt frá Kringlumýrarbraut. Gallarnir verið miklar umferðargötur eru þessir:

  1. Þungur umferðarniður, oft mikill hávaði í lögreglu- og sjúkrabílum, púströrslausum bílum og svo framvegis. Svefnfriður verður sáralítill.
  2. Svifryk verður til mikils vanda. Fyrr eða síðar mun hluti af Miklubraut enda uppi í nösunum á íbúunum.
  3. Ryk frá Miklubrautinni mun leita inn í íbúðir. Ekki verður hægt að hafa opna glugga.

Getur einhver nefnt kostina við að búa því sem næst á Miklubraut? Þeir eru að minnsta kosti afar fáir.

Næst má auðvitað búast við að borgarstjórnarmeirihlutinn, sem einhverra hluta vegna vill þrengja byggð í Reykjavík, líklega vegna plássleysis á landinu, muni skipuleggja íbúðabyggð á rúmgóðum umferðareyjum, já þær verða þá bókstaflega „rúmgóðar“.

Svo má alltaf þétta byggðina með því að fækka akreinum, til dæmis á Miklubrautinn. Rúmast þá fleiri íbúðir á umferðareyjum og svifrykið verður minna.


mbl.is Vilja tvö fjölbýlishús við Sogaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ... hinn merkingasnauði leiðindaleppur

  • Það er ekki glæpur að verða gjaldþrota. Það kann að vera að glæpsamlegt athæfi [...]
  • Það að taka út vörur í reikning hjá birgja og selja [...]
  • Það að lána félagi sem er lítt gjaldfært [...], það er að bregðast þeim er veitir lánið.
  • Það að gera ekki skil á vörslusköttum [...]

Þannig skrifar alþingismaðurinn Vilhjálmur Bjarnason í grein í Morgunblaði dagsins, ágæt grein efnislega en um það fjallar ekki pistillinn. Greinin er hins vegar frekar kauðsleg af ástæðum sem hér verða rakin.

Vilhjálmur notar fornafnið það í tíma og ótíma, engu er líkar en að hann sé á launum við iðjuna. Þetta segi ég vegna þess að mér hefur lengi verið illa við misnotkun á fornafninu það.  Hef þá skoðun að hófstillt notkun þess í upphafi setningar bæti flest skrif ... og oft talmál.

Orðið er mikið til óþurftar. Varla er hægt að segja annað vegna þess að oft hefur það einstaklega óskýra meiningu, er næstum því merkingarsnautt. Með því að setja það fyrst í setningu eða málsgrein tapar höfundur yfirsýn, gerir mál sitt lakara, verður næstum barnalegur og nær ekki neinu flugi í skrifum sínum. Um leið og höfundur reynir að skrifa framhjá orðinu batnar textinn og meiri tilfinning kemur fram.

Íslenskufræðingar hafa skrifað mikið um það sem í máli þeirra nefnist aukafrumlag. Mér sýnist að flestum sé ekkert sérstaklega vel við orðið þannig notað enda hefur það fengið uppnefnið leppur

Rannsóknir hafa sýnt að sem aukafrumlag hefur notkun þess aukist gríðarlega á síðustu áratugum. Þó þekkist það líka í fornu máli en er þar ekki mjög áberandi. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði rekur í grein sem nefnist „ÞAРí fornu máli - og síðar“ fjölda dæma um það setningar:

Ég held því fram að þau dæmi, þ.e. setningar eins og í (22), verði að túlka svo að merkingarsnautt það komi fyrir í fornu máli þrátt fyrir allt, ansætt því sem venjulega hefur verið haldið fram. Hitt er vissulega rétt að notkun þess er mjög takmörkuð, og sem áður segir virðast eingin formálsdæmi finnast um aðrar setningagerðir með það sem algengar eru í nútímamáli (náttúrufarssetningar, þolmyndarsetningar, tilvistarsetningar [...])

Þetta er nokkuð merkilegt og bendir til að leppurinn hafi síðar smám saman tekið yfir sem „viðurkenndur“ ritháttur að einhverju leyti. En í niðurlagi greinar sinnar segir Eiríkur:

Notkun það er nefnilega mjög stílbundin, og margfalt meiri í talmál og óformlegu ritmáli, s.s. einkabréfum, en í formlegri textum. Oft hefur líka verið amast við notkun þess. Þannig segir Jakob Jóh. Smáir (1920:19): „Fallegast er að nota þetta aukafrumlag sem minst“; og Björn Guðfinnsson (1943:8) tekur í sama streng: „Bezt fer á að nota þetta aukafrumlag sem minnst“. Margir kannast líka við það að svipuðum sjónarmiðum hafi verið haldið að þeim í skóla.

Ekki minnist ég þess að íslenskukennarar í MR hafi amast við þessu, samt hef ég bitið í mig að notkun á það sé frekar aumleg málnotkun. Ástæðan er líklega sú sem Eiríkur Rögnvaldsson nefnir í ofangreindri grein og kallar merkingarsnauðan lepp. Látum vera þó einhver segi: Það er nú meiri blíðan eða álíka. Verra er að hnoðast á orðinu eins og Vilhjálmur Bjarnason gerir í grein sinni í morgun. Við liggur að lesandinn drepist hreinlega við lesturinn vegna nástöðunnar. Þar á ég hvort tveggja við nálægð sömu orða og einnig náfýluna sem leggur misnotkuninni. Tek það fram að ég er að fjalla um orðfæri og orðalag, ekki efnislega um grein Vilhjálms.

Hér eru merkingalausu lepparnir í grein Vilhjálms:

  1. Það hefur verið kallað kennitöluflakk að stofna til viðskipta ...
  2. Það er mjög til efs hvort efni frumvarpsins breyti nokkru ...
  3. Það er ekki nóg að gert að stofna hlutafélag ...
  4. ..., það er að afla gagna um traust á viðkomandi ...
  5. Það er ekki glæpur að taka lán ef blekkingum er ekki beitt.
  6. Það er glæpur að veita lán ef upplýsinga er ekki aflað.
  7. Það er ekki hnýsni og glæpur að afla upplýsinga um gagnaðila ...
  8. Það að koma verðmætum undan gjaldþroti ...
  9. Það er glæpur að birta upplýsingar með ...
  10. Það er verkefni efnahags- og viðskiptanefndar ...
  11. Það kann að vera nokkuð vel í lagt að ...
  12. Það er lýðskrum á Alþingi að bera fram frumvörp ...
  13. Það kann að vera að til séu úrræði til að taka ...
  14. Það er mun fremur viðfangsefni að athuga hví ...

Átján tilvik með þeim sem tilgreind eru í upphafi pistilsins. Vilhjálmur byrjar stundum eina málsgrein með hinum merkingalausa lepp og skrifar svo punkt og byrja þá næstu á honum líka. Hver eða hvað er þetta það sem Vilhjálmur heldur svo mikið í hávegum? Þetta er nærri því glæpsamlegst. Lesandi minn gæti kannski leikið sér að því að setja eitthvað annað orð í staðinn fyrir það og hlegið og hlegið svo af öllu saman til að halda geðheilsunni; hesthús, helgarfrí, föstudagur, guð, mamma, hásin ...

Ég hef í mörg ár reynt að skrifa mig framhjá hinum merkingarsnauða lepp og finnst ég hafa eitthvað þroskast í skrifum við þær tilraunir. Aftur á mót verð ég að viðurkenna að stundum þarf að nota hann, sérstaklega núna. Það rignir nefnilega í Reykjavík.


Stjórn vís eins og lúbarinn hundur

Góðan daginn, ég er að hringja frá Vís og langar til að bjóða þér viðtal við tryggingafulltrúa okkar um tryggingar þínar og hvaða verð við getum boðið þér.

Eitthvað á þessa leið mæltist ungum sölumanni frá Vís þegar hann hringdi í mig í fyrradag. Hann hefði ekki getað hringt á verri tíma. Vís og önnur tryggingafélög með allt á hælunum vegna arðgreiðslna og breyttra bókhaldsreglna.

Ég rökræddi dálítið við manninn og spurði hann svo hvort fleiri en ég væru að þenja sig. Treglega viðurkenndi hann að svo væri. Ég vissi það svo sem, þurfti varla að spyrja.

Eftir að stjórn Vís hafnaði einu sinni að lækka arðgreiðslurnar var hún gerð afturreka með þá ákvörðun. Núna lækkar stjórnin tillöguna um arðgreiðsluna um rúman helming en gætir sín á því að láta ekkert ganga til viðskiptavina sinna. Þurftu bíleigendur þó að þola hækkun á iðgjaldi seint á síðasta ári vegna rekstrarerfiðleika.

Stjórn Vís er sem lúbarinn hundur. Fyrirtækið er rúið trausti og framundan gætu verið fjöldauppsagnir á tryggingum. Fólk flykkist vafalaust til Varðar eða jafnvel Sjóvár en stjórn síðarnefnda fyrirtækisins áttaði sig fljótt á stöðu mála og sá að almenningur var reiður og bakkaði snarlega með hækkanir á arðgreiðslum. 

Þessir atburðir hafa sannfært fólk um að eitthvað verulega gruggugt á sér stað í rekstri tryggingafélaganna.

Hér áður fyrr virtust tryggingafélög rekin á annan hátt. Stjórnendur þeirra gerðu sér grein fyrir því að þau voru ekki bara traustur vinnustaður fólks heldur haldreipi viðskiptavina þegar þeir urðu fyrir skaða. Nú virðist allt annað vera uppi á teningnum. Þeir vilja arðinn háann og greiddan hratt út án þess að neinn mögli. Til þess að svo megi vera er bókhaldsreglum breytt.

Kúnninn skiptir engu máli. Með lögum er hann þau nauðbeygður til að tryggja bíl og fasteignir.


mbl.is VÍS lækkar arðgreiðsluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband