Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

Fórnarlamb eigin texta eða höfundur hans

Þeim sem fást við rannsóknir á íslensku máli er það jafnan nokkur ráðgáta hvernig stendur á því að tunga okkar er jafnheildstæð og raunin ber okkur vitni, allt frá elstu heimildum til vorra daga. Við þurfum ekki að fara lengra í samanburði en til frænda okkar í Noregi til að reka okkur á það sem er hið venjulega ástand, mállýskukraðaki, og þetta gengur jafnvel svo langt að á bæjum í sömu sveit talar hver sína mállýsku.

Hér á landi er þessu allt öðru vísi varið eða hefur verið það til þessa að minnsta kosti. Íslenskan er alveg ótrúlega heildstæð, bæði á langveginn og þverveginn ef svo má orða það. Hún er lítt breytileg á hinn landfræðilega þverveg og líka á hinn sögulega langveg.

Mál okkar er afspyrnuíhaldsamt og stundum er sagt að það sé elsta lifandi klassísk bókmenntatunga. Og þetta eru ekki orðin tóm því segja má að íslensk bókmenntasaga sé ein og óslitin frá Snorra Sturlusyni til Halldórs Laxness og Gyrðis Elíassonar. 

Þetta skrifar Kristján Árnason, prófessor í íslensku við Háskóla Íslands og flutti sem erindi þann 20. desember 2016 á fundi með dómurum og lögmönnum undir heitinu „Hugleiðingar um íslenskt lagamál“. Ritgerðin er svo vel skrifuð að ég velti fyrir mér frásagnarhæfileikum fólks. Svo virðist sem æ færri kunni að segja skilmerkilega frá. Það háir ekki bara lögfræðingum heldur líka fjölmiðlafólki og mörgum öðrum þeim sem vinna með texta.

Er þetta annars meðfæddur hæfileiki eða er hægt að tileinka sér hann?

Sagnamenn og konur hafa allt frá örófi alda verið þótt öfundsverðir. Áður en sagnaarfur Íslendinga var ritaður á skinn var til stétt fólks sem sagði sögur, gekk á milli bæja og héraða og sumir voru eftirsóttari en aðrir. Löngu síðar voru sögurnar ritaðar eftir það prentaðar. Bækur voru hins vegar fágætar og því héldu sagnaþulir velli langt frá á nítjándu öld.

Sagnamenn dagsins í dag er fjölbreyttur hópur. Þorri þeirra ritar í fjölmiðla eða kemur fram í útvarpi og sjónvarpi og segir frá.

Sumir segja að sagnagáfan sé meðfædd. Ég tel það rangt. Hún verður meðal annars til fyrir áhrif umhverfis, uppeldis, lestur bóka, félagsskapar og fjölmargs annars. Nokkur munur er á sagnamönnum sem skrifa og þeirra sem mæla sögur sína af munni fram. Sjaldgæft er að einn maður kunni hvort tveggja. Æfingu og tilsögn þarf til að ná tökum á listinni að segja frá. Hlustum bara á ræður þingmanna og um leið skilst að sumir eru betri en aðrir jafnvel þó þeir hafi lítil tök á rituðu máli. 

Þetta dettur mér stundum í hug við lestur dagblaða, tímarita, bóka og skýrslna. Í gær las ég nokkrar greinar á íslenskum vefmiðlum og ég var litlu nær um efni máls vegna þess að öllu er grautað saman án upphafs og endis. 

Svo er það þetta með skýrslurnar. Um þær má skrifa langt mál enda of margar langar og leiðinlegar. Fyrir kemur að höfundum skýrslna tekst ekki að móta efnið fyrir sér, það mótar hann og frásögnin verður leiðinleg og jafnvel illskiljanleg. Þetta þekki ég eftir að hafa skrifað nokkrar og sífellt lent í sama vandanum, að gera þær leshæfar og áhugverðar. Stundum tekst manni illa upp og þá veltir maður því fyrir sér hvort sagnagáfan sé meðfædd.

Fyrir kemur er ég fenginn til að lesa yfir skýrslur og frásagnir annarra vegna þess að margir halda að ég hafi eitthvað vit á framsögn, textagerð, málfræði og stafsetningu. Um það má deila.

Mér er það minnisstætt að fyrir nokkrum árum bað laganemi mig að lesa yfir ritgerðir sem hann samdi í námi sínu. Eftir stuttan tíma hætti hann að bera í mig ritgerðirnar. Honum fannst leiðréttingarnar ekki nógu lögfræðilegar. Skýringin blasti við mér.

Við upphaf laganáms virðist fólk breytast vegna þess að sá texti sem það les er oft ekki nógu góður. Í þeim mörgum eru málsgreinar óhóflega langar, ofvöxtur hefur hlaupið í aukasetningar  og flækjustigið eykst. Nafnorðastíllinn tekur yfir og málskrúðið flæðir eins og arfi yfir kartöflugarð. Er nema skiljanlegt að blessaðir laganemarnir haldi að þannig eigi að skrifa lögfræðilega? Hratt og vel aðlaga þeir sig að þessum ósköpum.

Þegar ég var að leita að heimildum fyrir þessi litlu skrif rakst ég á ofangreint erindi eftir Kristján Árnason, prófessor, og varð óskaplega hrifinn. Kristján segir á einum stað:

Oft er sagt að nafnorðastíllinn sé kominn úr ensku en svo er ekki. Ég hygg að hann sé enskri tungu alveg jafnframandi og íslenskunni. Ég er viss um að allir sannir vinir enskunnar myndu telja það illa meðferð á tungu sinni þegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna talaði eitt sinn um að það yrði það sem hann kallaði an increase in our presence in the Gulf sem útleggst aukning á nærveru okkar í Flóanum (þ.e.a.s. Persaflóanum) þegar rétt einu sinni hafði skapast hættuástand þar og átti hann þá væntanlega við að Bandaríkjamenn ætluðu að auka herstyrk sinn á svæðinu vegna hins svokallaða hættuástands.

En hvaðan kemur þá nafnorðastíllinn? Ég hygg að að hluta til megi rekja hann til eins konar misskilinnar trúar á skýrleik hans eða tilfinningar um að nafnorðastíllinn sé á einhvern hátt hlutlægari eða vísindalegri. [...] 

Hagfræðingar segja að aukning eða minnkun á kaupgetu fólks hafi áhrif til hækkunar eða lækkunar á íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að segja að verð á húsnæði fylgi kaupgetunni. Þarna er búið til það sem stærðfræðingar kalla fall eða fúnksjón milli kaupgetunnar og íbúðarverðsins og þeir sem tala um samband milli hækkunar og lækkunar á íbúðaverði og hækkunar og lækkunar á kaupgetu ímynda sér kannski að þetta sé eitthvað vísindalegra ef það er sett svona upp. Ég held að það sé misskilningur og það virðist vera alveg jafnskýrt að segja einfaldlega að íbúðarverð fylgi kaupgetunni.

Í lok ritgerðarinnar segir Kristján:

Ef ég ætti að reyna að koma með einhverjar ábendingar þá er það helst að reyna að forðast óþarflega formlegt orðalag og reyna, eftir því sem hægt er, að gera textann skiljanlegan sem flestum. Það er að mínu mati alveg jafnskýrt og gott að segja þess vegna eins og af þeim sökum. Oft má komast af með fornöfn í stað síðastgreindur, fyrrgreindur og ofangreindur o.s.frv.

Mér finnst einhvern veginn að fjölmiðlungar og aðrir sem hnoða texta þekki margir ekki til þessara einföldu reglna og séu þar af leiðandi orðin fórnalömb textans en ekki höfundar hans. Um leið ætti að vera ljóst að nokkur munur er á því að vera bakari eða bakaður.


Dauðaleit að manni ofan í svefnpoka ...

Svefnpoki

Í gær var mér starsýnt á fyrirsögn á mbl.is. „Fannst ofan í svefnpoka sínum“ sagði þar blákalt eins og maðurinn hafi ekki fundist fyrr en gerð var dauðaleit í öllum afkimum svefnpokans.

Systir mín sem var kennari hefur þá kenningu að málskilningur og góður orðaforði komi af lestri bóka.

Held að það sé heilmikið til í því vegna þess að málskilningur skiptir þann sem skrifar miklu máli ekki síður en orðaforðinn. Vandinn er hins vegar sá að sá sem byggir á rýrum orðaforða veit af skorti sínum.

Vissulega er stundum bráðskemmtilegt að lesa eftir þann sem ekki hefur skilning á málinu. Þá kemur eitthvað eins og „þruma úr heiðskírum læk“, einhver „skellir skallaaurum“ við einhverju og sumir eru hressir „eins og nýsleginn túnfiskur“ svo eitthvað sé nefnt.

Í fréttinni á mbl.is virðist sem að skilningur blaðamannsins sé sá að fólk sé ofan í svefnpoka og má það til sannsvegar færa. Venjan er þó sú að leggjast til hvílu í svefnpoka eða vera í svefnpoka. Sumir segja að munurinn skipti ekki máli enda hvort tveggja rétt, að eitthvað sé í pokanum og eitthvað sé ofan í pokanum. Á þessu er þó blæbrigðamunur.

Hér er gott ráð fyrir þann sem vill vera blaða- eða fréttamaður. Byrja að lesa bækur við fimm ára aldur og halda því áfram út ævina. Sá sem er orðinn tvítugur eða meira og er ekki enn farinn að stunda bóklestur ætti að leggja eitthvað annað fyrir sig, jafnvel þó hann sé blaðamaður. Lágmarkið eru sjötíu og fimm bækur á ári sem þó er ekki vísindalega sannað.

Þetta á við fjölmarga blaða- og fréttamenn á Ríkisútvarpinu, Stöð2/Bylgjunni, DV, allir á pressan.is og reitingur á fólki á Mogganum, mbl.is, Fréttablaðinu og visir.is.

Sá sem ekki trúir þessari fullyrðingu ætti að venja sig á að lesa pistlana hjá Eiði Guðnasyni. Þar má sjá hvernig málfarinu hjá fjölmiðlastéttinni hnignar. Sorglegast er að útgefendur gera hins vegar ekkert í málinu og fyrir vikið er þeir og blaða- og fréttamenn rasskelltir nokkrum sinnum í viku, ekki þó bókstaflega. Menn eins og Eiður eru hins vegar kallaðir kverúlantar meðal fjölmiðlafólks.

Og þú, helvítið þitt, þú ert ekkert betri sjálfur,“ hrekkur ábyggilega upp úr einhverjum sárum skrifara á ofangreindum miðlum. Má vera. Þessu er þó varla hægt að svara nema á svona:

Hið eina sem er verra en að lesa slæmt mál og lélegar frásagnir í íslenskum fjölmiðlum er að vera staðinn að slíku sjálfur.


Vorið kemur að venju sumardaginn fyrsta

GæsirNú er að byrja sá tími er nokkrir fjölmiðlaglaðir íbúar á suðvesturhorni landsins og jafnvel víðar halda því fram að vorið sé að koma. Vissulega er það rétt, vorið nálgast.

Hins vegar er enn langt í vor. Segja má með réttu að sumardagurinn fyrsti sé upphafsdagur vorsins enda er vor og sumar nátengd misseri. 

Þeir sem hafa hætt sér út fyrir hússins dyr á undanförnum vikum sjá greinileg merki þess að vorið er í nánd. Birtan er önnur og meir en hún var, sólin hækkar á lofti og þegar hún nær að skína má finna fyrir heitum geislum hennar.

Daglega geng ég í og úr vinnu og finn á ferð minni hvernig veðurlagið hefur breyst. Snjó hefur tekið af göngustígum þó víða sé enn hált og gæsirnar rífa stólpakjaft við hjólreiðamenn og göngumenn enda telja þær sig eiga fyrsta veðrétt og notkunarrétt á umhverfinu. 

Hitt eiga allir að vita að þó birti og hlýni má búast við snjókomu og frosti næstu vikurnar. Fastur liður er að þessir fjölmiðlaglöðu lýsi yfir vonbrigðum sínum yfir veðráttunni og krefjist jafnvel þess að veðrið batni. Þetta er gagnslaust tuð. Ef við erum heppin kemur vorið eitthvað fyrr en sumardaginn fyrsta. 

Enginn finnur þó fyrir veðráttunni nema reyna hana á eigin skinni. Þess vegna á fólk að fara út og hætta að væla fyrir innan stofugluggann.


Jón Baldvin fagnar því að Ísland gekk ekki í ESB

Hér talar maður [Jón Baldvin Hannibalsson um sjálfan sig] sem var harvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðisríkja, Evrópusambandið.

Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peningasamstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrum þingmaður, ráðherra og formaður Alþýðuflokksins, var einn af skelleggustu fylgismönnum aðildar Íslands að Evrópusambandinu og sparaði þá hvorki stór orð né smá. Sem betur fer var þjóðin ekki sammála honum og ríkisstjórnin sem ætlaði inn í ESB fékk maklega ráðningu í kosningunum 2013. Í viðtali við morgunútvarp Ríkisútvarpsins lét hann ofangreind orð falla.

Hugsum okkur nú að Jóhönnu, Steingrími, Össurri og Katrínu (meintur forsetaframbjóðandi 2016) og fylgismönnum þeirra hefðu tekist að koma Íslandi inn í ESB. Hvernig væri þá staðan núna fyrir þjóðina í sambandinu sem Jón Baldvin líkir við brennandi hús og markmiðin séu bókstaflega sjálfsmorðsleiðangur og forystan hafi brugðist? Í stað þess stendur þjóðin betur en nokkru sinni fyrr.

Sú stefna sem Evrópusambandið hefur rekið undir forystu Merkel gagnvart þeim þjóðum sem fóru verst út úr hruninu (þá er ég að tala um Grikkland, Kýpur, Íberíuskagann og Írland) er rugl! Tómt efnahagslegt rugl! Og ekki boðleg.

Frammistaða Evrópusambandsins gagnvart þeirri áraun sem fylgja flóttamannahræringum um allan heim sýnir algjört pólitískt forystuleysi, alltaf viðbrögð við atburðum eftir á, og skammarlega lítilmennsku

Honum Jóni Baldvin er greinilega stórlega létt að við skulum ekki vera í ESB.

Annars spái ég því að Jón Baldvin muni á næstunni sá sig tilknúinn að hitta formann Sjálfstæðisflokksins og þakka honum fyrir að hafa barist gegn aðildinni að ESB. Síðan ber honum að þakka Framsóknarflokknum, Jóni Bjarnasyni fyrrum þingmanni og ráðherra VG í ríkisstjórn Jóhönnu og fleira góðu fólki sem lögðu hönd á plógu og komu í veg fyrir að Íslandi hefði verið þröngvað inn í ESB, án þess að heimild væri fengin hjá þjóðinni.

Annað væri ekki kurteisi.

 


Reykjavíkurborg sópar gúmmíkurlinu undir teppið ...

Tökum eftir hvernig bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi taka á gúmmíkurli á íþróttasvæðum bæjarins. Jú, allt kurl á að fara í burtu og völlurinn endurnýjaður um leið.

Hvernig fer Reykjavíkurborg að. Jú, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, fer í viðtal í sjónvarpinu og hvetur til þess að ríkið stofni sjóð til að leysa fjárhagslega úr þessum vanda fyrir sveitarfélög.

Nei, nei, Reykjavíkurborg ætlar ekki að borga krónu í þennan sjóð enda er hún nær gjaldþrota eftir langan, langan stjórnartíma Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka.

Stór munur er á viðhorfum og framkvæmdum Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar. Meirihlutinn í borgarstjórn hreinlega sópar gúmmíkurlinu undir teppið.


mbl.is Dekkjakurl fjarlægt á Seltjarnarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndnar fyrirsagnir í fjölmiðlum

Sunnudagsblað Morgunblaðsins er með nýju móti í dag. Það er skemmtilegt. Yfirleitt er leiðarinn og Reykjavíkurbréfið það áhugaverðasta í Mogganum en í þetta sinn slepptu blaðamenn fram af sér beislinu og skrifuðu greinaflokk sem nefnist „Skemmtilegar misritanir“. Sumt af því er alveg óskaplega fyndið.

Ég ætla að líka að reyna að vera fyndinn. Stundum hef ég klippt út fyrirsagnir í dagblöðum sem eru stórskemmtilegar ýmissa hluta vegna. Sumar eru hreinlega heimskulegar, aðrar tvíræðar, til eru þær sem lýsa slökum skilningi á mæltu máli og svo er þær sem eru eitthvað annað. Læt lesandanum eftir að meta um skemmtilegheitin.

  1. Látnir tína upp plastpoka, mbl.is
  2. Leoncie reið Landsbankanum, dv.is
  3. Sólarkísill þarf ekki að fara í mat, mbl.is
  4. Sigraði dómsmál vegna læknamistaka, visir.is (dómsmálið lét líklega í lægra haldi)
  5. Dr. Gunni um vændi: „Markhópur mellna er graðkarlar“
  6. Frumvarp ráðherra breyttist í þingnefnd, visir.is
  7. Ölvaður ökumaður ók út í grýtt hraun, visir.is
  8. Salmann fær alvarlegar líflátshótanir, dv.is 
  9. Eldfjöll af braut um jörðu, mbl.is
  10. Flestar íslenskar konur í háskólanámi á Norðurlöndunum, vísir.is
  11. Friðarhlaupið syndir yfir Hvalfjörðinn, mbl.is
  12. Óli Geir horfði á hnefaleika með dvergum, dv.is
  13. Grikkland glímir við mikinn vitsmunaflótta, mbl.is
  14. Látnir vinna á gólfinu, Viðskiptablaðið
  15. Gunni Helga hætt kominn í reisugilli á Mýrunum: Kjötbiti festist og fékk morfín, dv.is
  16. Glaður dreginn vélarvana í land, mbl.is
  17. Þunguð nektardansmær í endaþarmsleit, mbl.is
  18. Lögreglan stöðvaði par með þvottavél, visir.is
  19. Kim Kardashian reið sjónvarpsstjörnu, dv.is
  20. Dönsk skýrsla: „hyldir barnavagnar eru dauðagildrur“, dv.is
  21. Einhleypingar valda heilabrotum á Fljótsdalshéraði, mbl.is

Mér þyka þó blaðamennirnir sem ortu þessar fyrirsagnir eigi að fá blaðamennskuverðlaun:

  1. Snjóaði í fjöll í höfuðborginni, ruv.is
  2. Peningaþvætti gæti hafa farið fram hjá lögreglu, mbl.is
  3. Gunnar Bragi með duglegustu konum landsins, mbl.is

Dagur þorir ekki og sendir embættismenn í viðtöl

HelgiÞegar gagnrýni eykst á meirihlutann í borgarstjórn fer hann í felur. Í staðinn er embættismönnum att í viðtöl við fjölmiðla. En bíðum við, þegar meirihlutinn getur ekki lengur falið sig semur hann leikrit og heldur sig við fáránlegt handrit.

Munið þegar Jón Gnarr þurfti að svara fyrir niðurskurð í umhirðu grænna svæða. Hvað sagði hann? Jú, njólinn er fallegur og gaman að sjá gróðurinn vaxa á nattúrlegan hátt. Fyrir vikið var hrikalegt að sjá borgina en enginn sagði neitt. Jón Gnarr er svo skemmtilegur og fyndinn. Vinstri menn hefðu orgað af vandlætingu og heift hefði borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins látið þetta út úr sér.

Nú kvarta Reykvíkingar hástöfum yfir lélegum götum, holunum sem geta stórskemmt meðalbílinn. Og hvar er Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri? Hann lætur ekki ná í sig heldur sendir Ámunda Brynj­ólfs­son­ar, skrif­stofu­stjóra fram­kvæmda og viðhalds hjá Reykja­vík­ur­borg til fjölmiðla.

Ágætis maður hann, Ámundi, en hann virðist múlbundinn og þorir ekki að tjá sig eðlilega, starfið hans er í húfi. Í viðtali við Ríkissjónvarpið í vikunni viðurkenndi hann með semingi að þörf væri á miklu meira fjármagni í viðhald gatna, meira en þessar 700 milljónir sem áætlaðar eru á þessu ári. Samt eru til 200 milljónir sem leggja á í Grensásveg. Fyrir rúmu ári voru lagðar 80 milljónir í breytingar á Hofsvallagötu sem urðu bara til þess að gatan versnaði.

Hvað myndi svo Dagur segja þegar loksins næst í hann. Jú, eflaust myndi hann gnarrast eitthvað á þá leið að holur borgarinnar væru bara laglegar og sem listaverk. Þar að auki vissi hann um fjölda gatna með fáar eða engar holur.

Allur þessi feluleikur byggir á einfaldri staðreynd. Eftir langt valdaskeið vinstri flokka er Reykjavíkurborg nær gjaldþrota. Skuldastaðan hefur aldrei verið verri og ástæðan er einfaldlega sú og stór hluti framkvæmda hefur verið fjármagnaður með lánum. Peningar eru ekki til í borgarsjóði. Skuldastaðan óbærileg og samdráttur á öllum sviðum.

Gjaldþrota borgarstjórnarmeirihluti þorir auðvitað ekki að svara fyrir gjörðir sínar enda yrði málflutingur hans holóttur eins og götur borgarinnar.

Teikningin var tekin ófrjálsri hendi úr Morgunblaðinu í dag, höfundur er Helgi Sigurðsson.

 


mbl.is Telja ástand gatna viðunandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsunarlaus akstur á vinstri akrein

Umferð1Umferðin í Reykjavík er óskipulögð og erfið. Að mestu leyti er það vegna þess að ökumenn eru hugsunarlausir og jafnvel kærulausir. Dæmi um það er vinstri akreina akstur á tveggja akreina götum.

Líkur benda til að umferðin gæti verið miklu greiðari ef ökumenn héldu sig almennt á hægri akgrein en nýttu þá vinsti einungis til framúraksturs. Þess í stað virðast ökumenn nota báðar akreinar á sama hátt án tillits til annarra. 

Framnúrakstur er því vonlítill og umferðin silast á svipuðum hraða á báðum akreinum og langar raðir myndast. Eða þá að ökumenn taka að stunda stórsvig, þræða sig á milli akreina til að komast framhjá kjánum sem skilja fátt og ætla ef til vill að beygja til vinstri eftir fimm kílómetra, og aka samt yfir fjölda gatnamóta.

Raunar ætti reglurnar að vera þessar og eru það raunar að hluta:

  1. Ökumenn eiga að halda sig almennt á hægri akrein.
  2. Vinstri akrein er fyrst og fremst til framúraksturs eða þegar ætlunin er að beygja fljótlega af götunni og til vinstri.
  3. Sá sem er á vinstri akgrein og ekur jafnhratt eða hægar og bílar á þeirri hægri á að færa sig yfir á þá akrein.

Umferð2Einfaldara getur þetta ekki verið.

Hér eru tvær myndir. Þær eru teknar á brúnni þar sem Bústaðavegur liggur yfir Hringbraut. Þar geng ég oft yfir á leið í vinnu og sé alltaf það sama. Bílar eru á vinstri akgrein, jafnvel þegar sú hægri er auð, og hraðinn er nákvæmlega hinn sami á báðum akreinum.

Hvernig getur umferðin verið skilvirk þegar ökumenn vanda sig ekki í umferðinni.

Lögreglunni er mikið niðri fyrir vegna þess að ökumenn tala í síma á meðan þeir eiga að vera að stjórna bíl sínum, hún sektar fólk fyrir of hraðan akstur, fyrir að virða ekki umferðaljós eða álíka. Ekki einn einast lögreglumaður gefur „vinstri sinnum“ í umferðinni tiltal. Stundum sér maður jafnvel lögreglubíla silast áfram á vinstri akrein, enginn þorir framúr og langar biðraðir myndast fyrir aftan.

Verst er þó að engin umferðamerki eru til að benda ökumönnum á að nota hægri akrein og sú vinstri sé fyrir frammúrakstur.


Árni Páll Árnason hefur reynst almenningi dýr

Gott að Árni Páll geti borið gerðir núverandi ríkisstjórnar við eitthvað sem honum þykir ógurlegt úr sinni fortíð sem ráðherra. Mig langar hins vegar að benda á tvö mál úr einmitt hans fortíð sem ráðherra, sem hann og þjóðin ættu aldrei að gleyma.

Annað málið er lög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns og hitt eru lögin sem við hann eru kennd, þ.e. Árna Páls-lögin nr. 151/2010.

Þessi tvenn lög hafa kostað almenning og atvinnulífið (utan nokkurra fjármálafyrirtækja) stóran hluta þeirra 485 ma.kr. sem bankarnir þrír hafa hagnast frá hruni. Þar erum við ekki að tala um 170 ma.kr. á 10 árum heldur kannski nær því að vera 350 ma.kr. á 7 árum. Geri aðrir betur.

Já, mér finnst rétt að Árni Páll gagnrýni Sigurð Inga Jónsson og Bjarna Benediktsson fyrir skort á samráði, en hann var bara ekkert skárri sjálfur og þó menn hafi reynt að vara hann við bæði áður en lög nr. 107/2009 voru samþykkt og þegar frumvarp að lögum nr. 151/2010 var í meðförum þingsins.

Þá stakk hann hausnum inn um dyragættina hjá Samtökum fjármálafyrirtækja og bað þau um að koma í veg fyrir að þessir leiðinlegu lántakar næðu eyrum hans. Menn hafa viljað kenna Steingrími J um ofurhagnað bankanna, en reyndin er að Árni Páll á stærsta heiðurinn af honum.

Þessi orð er úr færslu Marinós G. Njálssonar, ráðgjafa, á Facbook í gær (greinaskil og feitletranir eru ritstjóra). Honum er mikið niðri fyrir og var greinilega ofboðið í gær þegar Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, rauk upp á Alþingi og bar saman nýgerða búvörusamninga við Icesave.

Fólk og fjölmiðlar gleyma alltof fljótt en menn eins og Marinó eru með fílsmynni, að minnsta kosti er varðar hrunið og afleiðingar þess fyrir skuldastöðu heimila.

Já, við ættum aldrei að gleyma þeirri árás sem Árni Páll Árnason, ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms gerði á almenning og fyrirtækinu á þeim tíma sem fólk þurfti aðstoð til að lifa af. Þess í stað hrundi allt og ótrúlegur fjöldi heimila missti eignir sínar í íbúðum að hluta eða öllu leyti og eftir fylgdu yfirleitt gríðarleg sorg og jafnvel harmleikir. Sama er með fjölda fyrirtækja sem var gert ómögulegt að ráða við skuldir sína rétt eins og „dauðalisti“ bankanna er gott vitni um.

Ávirðingar á Árna Pál Árnason eru gríðarlegar og hann þvær sig ekki af þeim með því að gera sig breiðan vegna búvörusamninganna. Skiptir engu þó gagnrýni hans kunni að einhverju leyti að vera réttmæt. 

Þegar loksins kom leiðrétting á skuldavanda heimilanna vegna hrunsins stóð Árni Páll Árnason fremstur í hópi gagnrýnenda. Vógu þó þessar leiðréttingar dálítið upp þann skaða sem fólk hafði orðið fyrir vegna ÁrnaPálslaganna.

Enn er hann formaður Samfylkingarinnar og enn er hann þingmaður. Hann nýtur hins vegar hvorki trausts almennings né eigin flokksmanna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband