Var fréttin um sjúkrarúmin í bílageymslunni uppspuni?

MílageymslaEru öll meðöl leyfileg og þar með að segja ósatt í fjölmiðlum. Þetta dettur manni í hug eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi af uppsetningu sjúkrastofu í bílageymslu Borgarspítalans. 

Í umræðuþætti á vefmiðlinum Eyjunni sagði Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna Betri spítali að þetta með sjúkrarúmin í bílageymslunni hafi bara varið hluti af áróðri Landspítalans til að halda áfram uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Hann sagði í þættinum:

Ég veit ekki betur en að það sé búið að taka alla þessa aðstöðu niður, það voru engir sjúklingar þarna þessa nótt. Í mínum huga var þetta bara leikrit… og ómerkilegt leikrit.

Hafi forstjóri Landspítalans farið vísvitandi með rangt mál varðar það án efa lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70 frá 1996. Í 14. grein laganna segir meðal annars:

Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.

Sé það rétt að forstjóri Landspítalans hafi farið með rangt mál í viðtölum við fjölmiðla út af sjúkrarúmum í bílageymslunni er hann í alvarlegum vanda.

Auðvitað fyllast menn tortryggni þegar málið er skoðað nánar. Það getur hreinlega ekki verið sæmandi að bíll sé í sama rými og sjúklingar, jafnvel ekki örfá augnablik.

Undanfarnar vikur hefur hver fréttin rekið aðra frá Landspítalanum. Svo margir hafa veikst meðal annars af flensunni að öll rými fylltust og sjúklingar þurftu að liggja í rúmum á göngum spítalans. Mikið skelfing sem maður hafði samúð með starfsfólki og ekki síður fárveiku fólkinu.

Getur verið að þessar fréttir sé plantaðar í fjölmiðla vegna einhvers áróðursstríðs um byggingu nýs spítala og þá gegn hugmyndum um uppbyggingu Landspítalans við Vífilsstaði?

Svo kom forstjóri Landspítalans í sjónvarpið um helgina og lýsti húsnæðisvandanum þannig að nú væri búið að taka hluta af bílageymslum spítalans undir sjúkrastofur. Birtar voru myndir af uppbúnum sjúkrarúmum og læknum og hjúkrunarfólki á vappi á blautu gólfi undir plasthimni. Svo var sjúkrabíl ekið inn við hliðina á plasttjöldum og líklega var slasaður eða veikur sjúklingur í honum. Glöggt mátti sjá að plasttjöldin náðu niður í á að giska hnéhæð og fyrir innan fótaði fólk sig fimlega á milli rúma.

Já, við bláeygir og saklausir áhorfendur og fréttalesendur höfum mikla samúð með stöðu mála og aumingjans forstjórinn var hreinlega ráðþrota. Gvöð, hvað staðan er slæm. Við verðum að fara að byggja nýtt sjúkrahús við Hringbraut.

Eða er betra að taka framvegis öllum fréttum um Landspítalann með fyrirvara? Þær geta verið tómur uppspuni.

Viðbót kl. 17:50: Á visir.is kemur eftirfarandi fram:

Engir sjúklingar gistu sjúkrarými sem sett var upp í bílageymslu Landspítalans um helgina. Rúmum var komið fyrir í bílageymslunni, sem notuð hefur verið sem sjúkrarými í hópslysum og á að vera notað í eiturefnaslysum, vegna gríðarlegs álags sem var á spítalanum í síðustu viku.

Búnaðurinn sem komið var fyrir hefur verið tekinn niður og fluttur aftur inn á spítalann. Það er þó fljótgert að koma aftur upp rými í bílageymslunni ef þörf er á.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði þegar sjúkrarýmið var sett upp að um öryggisógn á spítalanum hefði verið að ræða.

„Við vorum með 28 sjúklinga hér á gangi á miðvikudagskvöldið og 35 í rúmum sem komust ekki inn á yfirfullan spítala,“ sagði Páll í kvöldfréttum Stöðvar 2 á föstudagskvöld. „Auðvitað er þetta ekki félegt, en þetta er tryggara en ef við værum að dreifa fólki á yfirfullar deildir um allan spítala.“

Þessi frétt bætir ekkert stöðu Landspítalans eða forstjórans. Allt bendir til að uppsetning sjúkrarýmisins í bílageymslunni hafi verið áróðursbragð, uppspuni stjórnenda spítalans.

Myndin eftur „Unu“ er tekin traustataki af visir.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Sæll.

Það liggur alveg fyrir að stofnun með lokaðar álmur/deildir getur opnað þær í stað þess að skreppa niður í bílskúr.

Þessi farsi er ekki til að bæta á ímyndarvanda opinberra stofnanna og yfirmanna þeirra heldur þvert í mót.

Ruglið í þessu öllu saman er að það virðast fáir innan starfsliðs spítalans hafa nokkurn áhuga á því verkefni að reisa sjúkrahús á þessum stað, enda fá mýrarljósin sem lýsa vitglórunni í kringum þetta verkefni.

Það verða áratugir þar til þessu verkefni líkur og milljarðarnir verða ekki taldir í tugum lengur, ef menn taka ekki höfuðið úr sandinum og taka sönsum þá reisa þeir dýrasta minnisvarða Íslandssögunnar um ákvarðanafælni og órökvísi.

Sindri Karl Sigurðsson, 14.3.2016 kl. 19:04

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef nú verið gestur á þessum spítala í alls 17 skipti vegna eftirlits og sjúkraþjálfunar í framhaldi af slæmu axlarbroti og orðið vitni að dæmalausu ástandi þar miðað við þau fyrri skipti sem ég hef dvalið þar.

Yfirfull bílastæði, lagt á gangstéttum og úti í sköflum, lunginn úr degi við að bíða eftir afgreiðslu vegna örtraðar og yfirfullrar bráðadeildar hafa ekki verið "sviðsett leikrit" heldur raunveruleiki.

Ómar Ragnarsson, 15.3.2016 kl. 00:23

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Ómar. Virði það mikið þegar þú setur hér inn athugasemd. Í þetta sinn er ég ekki sammála þér ef þú ert að ræða um bílageymsluna. Það sem þar gerðist ber öll merki um sviðsetningu og virðist þannig vera eitthvað áróðursbragð. Um annað er ég sammála þér, örtröð og yfirfullar bráðadeildir er raunveruleikinn, liggur í augum uppi.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.3.2016 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband