Bálför David Bowies

Blaðamenn kunna ekki allir nærfærnislegt orðalag þegar kemur að andláti einstaklings og jarðarför.

Um hinstu för þess ágæta tónlistamann David Bowie segir til dæmis á mbl.is:

Að sögn Daily Mail voru lík­ams­leif­ar söngv­ar­ans brennd­ar í kyrrþey ...

Á visir.is er orðalagið um sama atburð:

Lík breska listamannsins David Bowie hefur verið brennt til ösku í New York.

Á pressan.is er orðalagið allt annað:

Breskir fjölmiðlar segja að bálför David Bowie hafi farið fram nokkrum klukkustundum eftir andlát hans á sunnudaginn

Líklega myndu flestir segja að bálför sé snyrtilegra og hóflegra orð en flest annað þó svo að annað sé ekki beinlínis rangt.

Vart þörf á að taka það fram að lík hafi verið brennt til ösku nema að hugsanlega séu aðrir kostir mögulegir við bálför. Svo mun þó ekki vera. 

Hins vegar eru líkamsleifar varla rétt orð í þessu tilviki og varla þörf á að skýra það orð nánar.

Þetta er hér nefnt vegna þess að taktleysi og ónærgætni gætir oft hjá sumum blaðamönnum. Þeir kunna ekki að segja frá og skilja ekki að blæbrigði frásagnarinnar eiga að vera ólík eftir því hvað um er fjallað hverju sinni. Ugglaust er það slæmt að blaðamenn skilji þetta ekki en verra er ef enginn segir þeim til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Már Elíson

Bálför er besta og sennilega réttasta orðið yfir verknaðinn. - Erlendir blaðamenn eru ekkert skárri en íslenskir, en held ég að þetta sé þýtt á réttan hátt og eftir þeim haft. - En annað, Sigurður...Mér finnst sem svo að það eigi ekki að beygja orðið Bowie, í "Bowies" og hef heyrt að það sé ekki reglan að íslenskusera þetta eins og þú hefur gert í fyrirsögninni. - Ég held að ég fari rétt með það.

Már Elíson, 14.1.2016 kl. 21:56

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held þetta geti verið rétt hjá þér Már. Minnir þó að ég hafi einhvern tímann lært að eignarfalls ess sé betra að setja á útlenskt ættarnafn frekar en eiginnafnið eða hvort tveggja.

Útför Davids Bowies, útför Davids Bowie, útför David Bowies ...

Ég er hreinlega ekki viss. Á Vísindavefnum kemur fram að engin ákveðin regla er um þetta.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.1.2016 kl. 10:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband