Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2016
Hér er ein báran stök í jarðskjálftum eða þannig ...
13.1.2016 | 17:23
Katla er í andslitrunum, Hekla á dánarbeði, Bárður er búinn í bili ...
Hvað á ég við?
Jú, jarðskjálfta á landinu. Það er einhvern veginn þannig, sýnist okkur í Landsambandi þekkingarsnauðra jarðfræðiáhugamanna, að fátt áhugavert sé að gerast.
Á meðfylgjandi korti, sem kemur best út ef smellt er á það, merkja deplarnir jarðskjálfta. Þeir raða sér eftir réttum línum gosbeltisins sem gengur í gegnum landið. Þegar nánar er að gáð er lítið líf í helstu brotabeltum landsins nema fyrir norðan, í Tjörnesbrotabeltinu. Þar iðar allt af fjöri undir niðri.
Jarðskjálftar hér á landi haga sér eins og sauðfé. Þeir koma í hópum en bara einn birtist í einu. Þegar allt leikur á reiðiskjálfi fyrir norðan er ekkert að gerast annars staðar. Á sama tíma eru aldrei hrinur á Reykjaneshrygg, í Mýrdalsjökli, Bárðarbungu og á Tjörnesbrotabeltinu. Þetta er svo skrýtið að aðeins ein báran sé stök í jarðskjálftum.
Annað sem vekur undrun er að stórlega dregur úr skjálftum yfir vetrartímann. Lítið bara á Mýrdalsjökul, Kötlu. Þar er allt með kyrrum kjörum enda harðfrosið ofan í dýpsta helv...
Gaman að geta sagt þetta allt saman. Svo koma jarðfræðingarnir og eyðileggja allt fyrir manni. Auðvitað er Hekla ekki dauð. Mælingar sýna að hún er að þrútna út. Sama er með Bárðarbungu. Málið er að jarðfræðingar stóla á fleiri tæki en jarðskjálftamæla.
Ég set vit mitt og þekkingu á draumspakan mann sem segir að brátt dragi til tíðinda. Ég næ ekki að draga neitt upp úr honum frekar en fyrri daginn. Hann er raunar bestur að greina það sem liðið er.
Landsamband þekkingarsnauðra jarðfræðiáhugamanna er ekki sammála þeim draumspaka. Það ályktaði með þremur atkvæðum gegn tveimur að hvorki stórir skjálftar eða eldgos verði fyrr en í fyrsta lagi í ágúst á þessu ári eða næsta.
Landvernd og Ferðafélagið ráðast gegn öflugustu landgræðslujurtinni
8.1.2016 | 16:43
Einu sinni var Landvernd í fararbroddi þeirra sem vildu græða upp landið. Félagið var stórhuga, útvegaði grasfræ og áburð og hvatt fólk til að grípa poka á bensínstöð á leið í sumarfríið og verða þannig að einhverju gagni.
Þessi tími er löngu liðinn. Nú hefur Landvernd fengið ótrúlegasta bandamann sem hugsast getur í svo óskiljanlegt verkefni að engu tali tekur. Eftirfarandi auglýsing birist í ferðaáætlun FÍ undir fyrirsögninni Lúpínuferð með Landvernd:
Fararstjóri: Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Ferðafélag Íslands og Landvernd hafa um árabil átt farsælt samstarf um ferðir á viðkvæm svæði sem ratað hafa í umræðuna. Í þessari ferð verður sjónum beint að lúpínunni og ekið inn á hálendið, þar sem þátttakendur fræðast um útbreiðslu plöntunnar og taka höndum saman við að eyða henni.
Verð: 6.000/9.000. Innifalið: Rúta og fararstjórn.
Mér er eiginlega öllum lokið. Þarna sameinast tvö þekkt og virt félög krafta sína í að eyða lúpínu, afkastamestu landgræslujurt sem þekkist. Hvernig getur svona gerst? Síðan hvenær urðu Landvernd Ferðafélag Íslands gróðureyðingafélög? Guðmundur sá sem nefndur er fararstjóri starfar sem framkvæmdastjóri Landverndar.
Tötrar Íslands
Sérfræðingar segja nú að við landnám Íslands hafi það bókstaflega verið skógi vaxið rétt eins og haldið er fram í Landnámu. Talið er að skógar hafi þakið um 15-40% landsins í stað um 1% nú og raunar sé það svo að gróður hafi þá þakið allt að þremur fjórum hlutum landsins.
Síðan hefur margt gerst. Til að þjóðin hafi getað lifað af í landinu þurfti hún eldivið og þar að auki voru skógar landsins ótæpilega beittir. Þekkingin var ekki meiri en sú að ágangur forfeðra okkar á gróðurríkið var slíkur það nær gjöreyddist.
Þeir eru til sem í dag dásama gróðurleysur Íslands rétt eins og það sé hið eina og rétta ástand landsins. Þeir eru einnig til sem hamast svo hatramlega gegn lúpínunni að þeir skipuleggja ferðir til að slíta hana upp. Landvernd og Ferðafélag Íslands ætla nú að bætast í hóp hryðjuverkamanna í íslenskri náttúru. Eins og ekki hafi nóg gerst á undanförnum öldum og í dag sé ekki við nógu ramman reip að draga í náttúruverndarmálum þó þetta komi nú ekki líka til.
Lúpínan græðir landið hraðar en annar gróður
Hvað er lúpína og hvers vegna telst hún landgræðslujurt. Jú, hún er þeim kostum búin að hún framleiðir köfnunarefni, nitur, úr andrúmsloftinu og bætir þannig jarðveginn. Fyrir vikið auðveldar hún öðrum jurtum lífið, gerir þeim kleift að vaxa á þeim stöðum sem enginn gróður hefur vaxið í hundruð ára. Ófrjóir melar blómstra með lúpínu og á eftir kemur annar gróður.
Takið til dæmis eftir áreyrum í Morsárdal þar sem lúpínan hefur auðveldað birkiskóginum að breiðast út.
Sjáið Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn fyrir ofan Hafnarfjörð sem fyrr á árum hafði orðið uppblæstri að bráð. Þar var lúpínu sáð fyrir nokkrum áratugum og nú er þarna gróskumikil og fallegur birkiskógur og margvíslegur annar lággróður í frjósömum moldarjarðvegi sem að mestu er til kominn vegna hennar.
Takið eftir ævintýrinu í Heiðmörk fyrir ofan Reykjavík. Þar hefur verið sýnt fram á að lúpínan hafi stuðlað að auknum vexti gróðurs og síðan hafi hún hörfað. Þetta má glöggt sjá þegar bornar eru saman loftmyndir frá mismunandi tímum.
Á blómatíma Landverndar átti að græða landið með grasi og tilbúnum áburði. Þetta var reynt með miklum tilkostnaði og erfiðleikum. Á vegum Landgræðslunnar var í áratugi flogið með grasfræ og og þjóðin fylgdist með stolt með. Sagt er að milljörðum hafi verið varið í landgræslu en árangurinn var allof lítill miðað við allt erfiðið. Um það veit þjóðin eflaust lítið.
Lúpínan breytir til hins betra
Lúpínan vex hratt, dreifir sér víða, haðar en allar aðrar jurtir og það leggja margir henni til lasts en aðrir lofa. Ágúst H. Bjarnason segir í afar fróðlegri vefsíðu sinni, Fróðleikur um flóru og gróður (feitletrun er mín):
Mörgum er í nöp við lúpínu. Ýmsar ástæður valda því. Sumum finnst hún ljót, en við því er ekkert að gera. Aðrir vilja halda í ósnortna mela og telja þá höfuðprýði landsins. Slík afstaða lýsir ótrúlegu skilningsleysi á mikilvægi gróðurs yfir höfuð og er erfitt við slíku að gera. Og svo eru þeir, sem vilja, að melarnir fái að vera í friði og gróa upp af sjálfsdáðum.
Mergurinn málsins er sá, að sumt fólk óttast, að lúpínan útrými öðrum tegundum. Það er náttúrlega fjarstæða, en hitt er sönnu nær, að hún breyti einu gróðurfélagi í annað. Með tíð og tíma gisna lúpínu-breiðurnar og aðrar tegundir sækja í sig veðrið. Þetta er breytilegt eftir landshlutum, en á Suðvesturlandi og Suðurlandi eru dæmi um, að hrútaberjaklungur og blágresi hafi lagt undir sig uppgræddar lúpínubreiður. Meira að segja hefur sjaldgæf, friðlýst plöntutegund, ferlaufungur (krosslaufi), haslað sér völl innan um lúpínu á einum stað.
Margir þeirra sem leggjast gegn lúpínu halda því fram að gróðurfar verði einsleitt fái hún að vaxa óáreitt. Þetta er auðvitað rangt vegna þess að lúpínan auðvelda öðrum tegundum jurta að ná fótfesti. Ágúst H. Bjarnason segir um þetta á vefsíðu sinni:
Vissulega má taka undir það að nokkru leyti, að lúpína er þegar orðin all áberandi í gróðurríki landsins. Meginorsökina má rekja til þess, hve landið er illa farið, gróður og jarðvegur víða horfinn út í hafsauga. Það eru slík svæði, sem lúpínan leggur undir sig, og getum við því fáum um kennt nema okkur sjálfum.
Skynsamlegast er að hefja nú þegar öfluga skógrækt á öllum láglendismelum og lúpínuökrum og planta á hverjum stað þeim tegundum, sem reynslan hefur kennt mönnum að þrífast þar bezt.
Á 20-40 árum munum við þá endurheimta frjósamt land, þar sem nú ríkir auðnin ein, og lúpínan mun hörfa í skugga trjánna. Þegar melarnir hafa klæðzt trjágróðri, er unnt að breyta ákveðnum hlutum þeirra í akurlendi eða nýta sem beitiland fyrir búsmala. Þetta ferli með hjálp lúpínu tekur ekki nema hálfa mannsævi.
Ræktun með lúpínu er töfrum líkust
Stórmerkilegar greinar og hugleiðingar um kosti lúpínu sem landgræðslujurtar er að finna í skrifum Gunnars Einarssonar, sauðfjárbónda að Daðasstöðum, sem eru skammt sunnan við Kópasker. Hann hefur á víðaáttumiklu landi sínu unnið að uppgræðslu og notar lúpínuna óspart með stórkostlegum árangri. Þessar greinar má finna á Facebook undir hópnum sem kallar sig Vinir Lúpínunnar.
Gunnar segir meðal annars í grein á landbúnaður.is:
Mér leist strax mjög vel á lúpínu sem landbótajurt, þegar ég kynntist henni sem unglingur fyrir ofan Hafnafjörð. Áður en ég varð bóndi fékk ég fjölskylduna með mér til að týna lúpínufræ, sem ég svo sáði með góðum árangi. Ég sá líka, að eftir að við fluttum hingað norður, að lúpínan gæti gert okkur mögulegt að rækta melana margfalt hraðar upp.
Þrátt fyrir góðan ásetning fórum við ekki að nota lúpínu til ræktunar fyrr en við gátum fengið fræ frá landgræðslunni. Ræktunin með lúpínunni hefur verið töfrum líkust. Það er geysilega gaman að sjá lúpínuna breyta öllu þessu landi, sem áður voru ófrjósamir melar, í gott beitiland.
Frá barnæsku hef ég fylgst með sigri hrósandi landgræðslumönnum með grasfræ og áburð sem telja okkur trú um velgengni í uppgræðslu lands - og hrifist með. Þó vissulega hafi tekist að græða upp á ákveðnum stöðum, oft með ærinni fyrirhöfn og kostnaði, hefur það þó ekki farið framhjá þeim sem ferðast um landið að tötrarnir hafa lítið breyst. Hugsanlega hefur hlýnandi veður á síðustu tveimur áratugum hjálpað til að styrkja og auka gróður. Dæmi um slíkt sér maður glöggt á samanburð á myndum. Að öðru leyti hefur ekki mikið gerst.
Á síðustu árum hefur orðið gjörbreyting í gróðurframvindu hér á landi og þá sérstaklega með tilkomu lúpínunnar. Víða um land sér maður breytingar, kominn er gróður þar sem áður voru gróðuleysur. Jafnvel hátt í fjallahlíður sér maður blómstrandi lúpínu.
Svo gerist það að á Facebokk sjást myndir af sigri hrósandi hryðjuverkamönnum með lúpínu í höndunum sem þeir hafa rifið upp úr gróðurlausum melum. Í þennan litla hóp virðist Landvernd og Ferðafélagið ætla að skipa sér í.
Er nema von að maður örvænti um framtíð þjóðar í gróðurlausu landi. Það er þó huggun harmi gegn að lúpínan er orðin svo útbreidd hér á landi að útilokað er að hafa hemil á henni. Verkefni Landverndar og Ferðafélagsins eru því fyrirfram gjörtöpuð - og það er vel.
Hitt er verra að félögin tvö skuli leggja í þessa vegferð í stað þess að efna til kynningar og verkefna í uppgræðslu á þeim stöðum sem lúpínan hefur náð fótfestu, nefna má skógrækt. Um slíka krafta myndi miklu muna.
Á annað hundrað orð yfir vind
7.1.2016 | 12:03
Stundum hvarflar að manni að orðaforði margra sem starfa í fjölmiðlum sé ansi rýr. Þetta datt mér í hug þegar ungi veðurfræðingurinn sagði að á landinu væri vindasamt. Þeir eldri hefðu líklega sagt að víða væri hvasst enda fjölmörg orð og orðasambönd til sem lýsa veðri, ekki síst vindasemi.
Raunar eru til á annað hundrað orð sem lýsa vindi. Nefna má þessi:
- aftakaveður
- andblær
- andi
- andvari
- áhlaup
- bál
- bál
- bálviðri
- belgingur
- blástur
- blær
- blæs
- brimleysa
- derringur
- drif
- dúnalogn
- dús
- fellibylur
- fjúk
- fok
- foráttuveður
- galdraveður
- gambur
- garri
- gerringur
- gjóla
- gjóna
- gjóstur
- gol
- gola
- gráð
- gustur
- hrakviðri
- hregg
- hríð
- hroði
- hrök
- hundaveður
- hvassviðri
- hviða
- hvirfilbylur
- hægviðri
- illviðri
- kaldi
- kali
- kári
- kul
- kuldastormur
- kuldastrekkingur
- kylja
- kyrrviðri
- kæla
- lágdeyða
- ljón
- logn
- lægi
- manndrápsveður
- mannskaðaveður
- músarbylur
- nepja
- næðingur
- næpingur
- ofsarok
- ofsaveður
- ofsi
- ofviðri
- ókjör
- óveður
- remba
- rembingur
- rok
- rokstormur
- rumba
- runta
- ræna
- skakviðri
- slagveður
- snarvindur
- snerra
- snerta
- sperra
- sperringur
- stilla
- stormur
- stólparok
- stólpi
- stórastormur
- stórveður
- stórviðri
- strekkingur
- strengur
- streyta
- streytingur
- stroka
- strykur
- súgur
- svak
- svali
- svalr
- sveljandi
- svipur
- tíkargjóla
- túða
- veðrahamur
- veðurofsi
- vindblær
- vindkul
- vindsvali
- vindur
- vonskuveður
- ördeyða
- öskurok
Í mörgum fræðigreinum tíðkast töluleg söfnun upplýsinga og í ljósi þeirra er hægt að draga nokkuð skýrar ályktanir af stöðu mála. Þetta á til dæmis við í mörgum raunvísindagreinum og einnig hagfræði.
Skyldu íslenskufræðingar rannsaka málfar með tilliti til orðaforða, fjölda orða til dæmis í bókum, greinum eða fréttum? Af ofangreindum orðum yfir andrúmslofti á hreyfingu, nota flestir orðið vindur. Þekkir fólk ekki fleiri orð? Spurningin er betur orðuð svona: Hvers vegna notar fólk ekki fleiri orð en þetta númer 109?
Fyrir um áratug var könnun gerð á orðafjölda í ritmálssafni Orðabókar Háskólans en í þeirri skrá voru öll orð sem þá hafði verið safnað úr prentuðu máli frá 1540 og fram á miðjan níunda áratuginn. Þessa könnun má hafa til viðmiðunar um orðafjölda í málinu með þeim fyrirvara að talsvert hefur bæst við síðar, til dæmis samsetningar af ýmsu tagi og nýyrði, ýmist búin til af orðanefndum eða sprottin upp í þjóðfélaginu þegar þörfin kallaði. Í ritmálssafninu voru þá rúmlega 610.000 orð. Af þeim voru rétt tæp 43.000 grunnorð, það er að segja orð sem hvorki voru forskeytt (til dæmis and-vari, til-brigði), viðskeytt (til dæmis góð-legur, breyt-ing) né samsett (snjó-bretti, hjóla-skauti). Samsett orð reyndust rétt tæplega 519.000 og um rúmlega helming þeirra átti Orðabókin aðeins eitt dæmi.
Þarna eru ekki talin með orð sem eru í talmálssafni Orðabókarinnar en í því safni eru orð sem ekki eru sótt í prentað mál heldur til heimildarmanna Orðabókarinnar. Í því safni eru rúmlega 50.000 orð og má áætla að dæmi um þriðjung þeirra sé ekki að finna í ritmálssafni.
Svo segir Guðrún Kvaran, íslenskufræðingur, á Vísindavefnum undir fyrirsögninni Hvað eru til mörg orð í íslensku?.
Guðrún skrifaði líka um fjölda orða yfir snjó:
Í íslensku eru til mörg orð um snjó og snjókomu. Mikilvægt var hér áður fyrr, þegar fólk fór landshluta á milli ýmist gangandi eða á hestum, að lýsing á færi í snjó væri sem gleggst. Mjöll er notað um nýfallinn snjó og ef snjórinn er mjög laus í sér er talað um lausamjöll. Nýfallinn snjór er líka nefndur nýsnævi. Harðfrosin snjóbreiða er nefnd hjarn. Skari er notað ef efsta lag snjóbreiðu er frosið, og fari menn eða skepnur í gegnum lagið er talað um áfreða, brota, ísskel eða fastalæsing. Djúpur snjór er kallaður kafsnjór, kafald og kafaldi og smágert kafald kallast líka kafaldshjastur. Mjög blautur, djúpur snjór er stundum nefndur bleytuslag og hálfbráðinn snjór kallast krap og blotasnjó.
Él er skammvinn snjókoma oft með vindi og dimmt él er sums staðar kallað moldél. Snjógangur er éljagangur eða snjókoma með hléum en snjóhraglandi er kalsanæðingur með slyddu eða hagli og þekkist líka um það orðið snjóbörlingur. Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk. Hríð er snjókoma í vindi og þykkt hríðarveður er fyrir norðan nefnt kaskahríð. Lenjuhríð þekkist einnig fyrir norðan um fremur litla hríð en blotahríð er slyddu- eða krapahríð. Ofankoma er notað um hvers kyns úrkomu en oftast um snjókomu, él og slyddu en ofanhríð er haft um mikla snjókomu án þess að það skafi. Smáúrkoma eða él er kallað fukt og þá er sagt að hann fukti.
Bylur er stormur með ákafri snjókomu, og einnig eru notuð um það kafaldsbylur og kafaldshríð en moldbylur er alveg svartabylur þannig að ekki sér út úr augum, í senn stormur, ofankoma og skafrenningur.
Skafrenningur er snjór, sem fýkur með jörðu, líka nefndur neðanbylur, skafald, skafkafald, snjófok, snjódrif og kóf. Fjúk, snjódríf, drift, fjúkburður og fýlingur eru orð notuð yfir skafrenning ef vindur er hægur. Skafbylur, skafhríð, skafmold og skafningur eru öll notuð um skafrenning í miklum vindi og fyrir vestan þekkist sviðringsbylur um hið sama.
Þegar ofan fellur mjög blautur snjór, sem oft er nær því að vera rigning, er talað um slyddu, bleytukafald, klessing eða slytting.
Íslenskan er afar fagurt mál eins og sjá til dæmis má af ofangreindu. Því er sorglegt ef ungt fólk les ekki bækur. Hvergi annars staðar fæst viðunandi orðaforði sem hverjum og einum er nauðsyn að hafa til taks í daglegu lífi.
Rýr orðaforði birtist meðal annars í því að ungt fólk bregður fyrir sér ensku til að hugsun þeirra komist nú örugglega til skila. You understand what I mean?
Ofspáð Kötlugos er löngu gleymt , en ...
6.1.2016 | 10:50
Oft er sagt að fólk gleymi fljótt. Raunar er það þannig að fjölmiðlar gleyma eða segja ekki frá og þar af leiðandi gleymist hverfur ýmislegt úr minni almennings.
Man einhver eftir eldgosunum á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli? Jú, auðvitað. Aðeins tæp sex ár eru frá þessum umbrotum sem voru bara nokkuð skemmtileg fyrir þorra almennings, en olli engu að síður miklum skaða undir Eyjafjöllum og þar fyrir austan.
Vorið 2010, eftir að gosinu í Eyjafjallajökli lauk spáðu margir að um haustið myndi Katla gjósa. Fjölmiðlar hér innanlands birtu ófáar fréttir um hugsanlegt gos í Kötlu og svo rammt kvað af þessum spádómum að jafnvel fjölmiðlar á Bretlandi misstu sig gjörsamlega í dómsdagsumfjöllunum sínum.
Jæja, og tíminn líður eins og honum ber skylda til. Núna, tæpum sex árum síðar, bólar ekkert á þessu margspáða eða ofspáða gosi í Kötlu. Þeir sem fylgst hafa með jarðskjálftamælum sjá eitthvað svipað og sést á myndinni af jarðskjálftavakt Veðurstofu Íslands. Svo til engar hræringar í Mýrdalsjökli og nágrenni. Raunar er það svo að skjálftum í jöklinum hefur síst fjölgað.
Hvers vegna ættu nú fjölmiðlar að fjalla eitthvað um það sem greinilega er ekki fréttaefni? Auðvitað er engin ástæða til þess. Hins vegar er ábyrgð fjölmiðla afar mikil og auðvelt fyrir einn þeirra að fara að missa rökhugsun út af hugsanlegu Kötlugosi og þá fylgja oft hinir með og fyrr en varir á að verða eldgos í jöklinum. Vandamálið er bara að Katla fylgist ekki með fjölmiðlum.
Velkist einhver í vafa er nokkur munur á forsetakosningum og Kötlugosi.
Hið fyrrnefnda er á dagskránni í vor og enginn veit hverjir bjóða sig fram enda rennur framboðsfresturinn út mánuði fyrir kjördag. Hið síðarnefnda er fyrr eða síðar á dagskránni.
Hvort tveggja veldur hins vegar af þarflausu miklum og vandræðalegum vangaveltum í fjölmiðlum og koma þar til fjölmargir spámenn, bæði meiriháttar og minniháttar. Allir þykjast hafa vit á málum en svo kann að vera að enginn sjái rétt í sínu föðurlandi.
Svo er það hitt að Katla og vangaveltur um forsetakosningar hjálpa til að fylla dálksentimetra dagblaða og mínútur í ljós- og hljóðvökum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bernhöftsbakarí er ódýrara en Sandholts
5.1.2016 | 13:46
Ég gekk Laugaveginn í dag sem líklega telst ekki til tíðinda, hvorki hjá mér né öðrum. Hins vegar mun ég eiga fleiri spor þar í framtíðinni en áður, því undanfarnar vikur höfum við feðgar verið að standsetja húsnæði á miðjum Laugaveginum þar sem við munum væntanlega hafa skrifstofur ásamt fleirum.
Í hádeginu rölti ég svo út og ætlaði mér að kaupa eitthvað til að seðja sultinn. Undir stillönsum nokkru ofar er Sandholt bakaríið og þar gekk ég inn. Óhætt er að orða það þannig að ég hrökklaðist út aftur. Verðið var slíkt að ég hefði ábyggilega getað farið inn á einhvern veitingastað og keypt mér þokkalega máltíð fyrir sama pening.
Langloka með sneið af kalkún og grænmeti kostaði tæpar 1.500 krónur. Þó girnileg væri fannst mér verðið of hátt. Sama fannst mér um tvær náskyldar brauðsneiðar sem þó voru aðskildar með girnilegu áleggi og kostuðu tæplega eitt þúsund krónur.
Sumir segja að verðalag á Laugaveginum miðist við að féfletta útlenda ferðamenn. Nærri má liggja að heilt brauð kosti í Sandholt 10.000 krónur og kalkúnninn hátt í 100.000 krónur ef hvort tveggja væri ekki hlutað niður. Dýr myndi Hafliði allur, var eihvern tímann sagt.
Á horninu á Bergstaðastræti og Spítalastígs hefur æði lengi verið starfandi bakarí sem nefnist Bernhöftsbakarí og raunar var það áður á horninu á móti. Nafnið kemur frá Tönnies Daniel Bernhöft sem kom hingað til lands 1834 og stofnaði bakarí. Og hvar skyldi það hafa verið? Jú, þar sem nú heitir Bernhöftstorfan ofan við Lækjargötu. Síðar flutti bakaríið að Bergstaðastræti 14 og enn síðar yfir götuna í húsið sem ber númerið þrettán.
Og það var einmitt í Bernhöftsbakaríi sem ég keypti tvö stór rúnstykki með skinku og osti sem afar kurteis og greiðvikin afgreiðslukona smurði fyrir mig. Þetta kostaði um 800 krónur.
Staðan er því þannig á fyrsta vinnudeginum á nýju skrifstofunni að verðlag í Sandholtsbakaríi á Laugaveginum vekur ekki áhuga minn. Hins vegar Bernhöftsbakarí sá staður sem ég mun hingað til leggja leið mína þegar garnirnar gaula á vinnudegi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Skjálftar í Bárðarbungu eru ekki fyrirboðar eldgoss
5.1.2016 | 11:13
Af leikmannsins hálfu virðast stórir jarðskjálftar vera frekar sjaldgæfir í Bárðarbungu. Stöku sinnum verða þar þó skjálftar upp að þremur stigum. Flestir eru miklu minni og mun sjaldgæfari og raunar hefur skjálftum fækkað frá því eldgosið í Holuhrauni hætti.
Gera má ráð fyrir að dragi til tíðinda í Bárðarbungu eða nágrenni muni jarðskjálftum stórfjölga og stórir skjálftar verða miklu fleiri og tíðari. Þetta er það sem gerðist við síðustu umbrot þegar Bárður dældi kvikunni til norðurs og hún fann sér leið upp úr gamla Holuhrauni, hugsanlega gamlan farveg.
Þó svo að nokkrir stórir skjálftar mælist á þessum slóðum er engin ástæða til að skelfast og búast við hinu versta. Hafi hraunið úr síðasta eldgosi komið úr kvikuhóli sem þarf að fyllast og mynda þrýsting til að atburðirnir endurtakist þá verður að athuga að aðeins hluti af kvikunni kom upp á yfirborðið í Holuhrauni. Mikið af henni dreifðist út og suður, norður og niður inni í jarðskorpunni ef taka má svona óhefðbundið til orða þegar um þessi mál er rætt. Af því má ráða að tómarúmið þarna niðri sé talsvert mikið.
Eflaust draga jarðfræðingar margvíslegar ályktanir af upplýsingum sem fást frá Bárðarbungu og svæðinu þar í kring. Ein af eim er ábyggilega sú að kvika streymir nú upp í hið meinta hólf sem á að vera þar undir.
Hins vegar er gegnir tíminn mældur í dögum, vikum, mánuðum og árum, afar afstæðu hlutverki í öllu þessu og hugsanlega ekki mikilsverðu.
Til skýringar þessu má nefna að Katla á að hafa gosið fyrir löngu miðað við meðalfjölda ára á milli gosa. Þó hún hafi látið á sér bæra í nokkur skipti frá því 1918 hefur ekkert gerst sem máli skiptir. Þannig kann það að verða með Bárðarbungu að ekkert gerist næstu hundrað árin.
Í þetta reyna jarðfræðingar að ráða og nokkuð öruggt má telja að dragi til tíðinda munu mælitæki í kringum Bárðarbungu nema umbrotin með nokkrum fyrirvara. Þá verður óhætt að segja að tíminn skipti máli og hann er að því leyti viðfangsefni jarðfræðinga.
Svo verður að taka það með í reikninginn að enginn völva, spámaður né draumspakt fólk hefur spáð fyrir um gos í Bárðarbungu eða nágrenni (og raunar spáði enginn fyrir um síðasta gos í Holuhrauni). Er þá ekki bara ástæða til að slappa af.
Munum þó að það þarf ekki ófreskan mann til að spá eldgosi á Íslandi. Meira að segja sá sem hér lemur á stafaborð telur að meiri líkur en minni séu á eldsumbrotum á þessu ár ... eða næsta ...
Skjálftarnir hafa ekki meiri þýðingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar eru Löngufjörur og Skógarnes?
4.1.2016 | 13:32
Mogginn skilur oft ekki lesendur sína. Sumir blaðamenn skila inn illa skrifuðum fréttum eða fréttum sem ekki fáir skilja og enginn á ritstjórninni lítur yfir og segir til um hvað betur megi fara.
Hvar eru Löngufjörur á Snæfellsnesi, hvar er Skógarnes? Er Skógarnes bær eða örnefni? Og hvað með landakort?
Til eru örnefnin Ytra- og Syðra-Skógarnes og bær sem ber nafnið Syðra-Skógarnes. Þarna eru engir skógar en syðra nesið, sem raunar er það austara samkvæmt korti, gengur út í leirurnar við ósa Haffjarðarár. Þar heita Löngufjörur og eru þær taldar ná allt að Stakkhamri sem er austan Straumfjarðarár.
Ef vesæll bloggari getur kastað upp korti á fimm mínútum þá hlýtur Mogginn að geta miklu betur.
Ég valdi gamla Atlaskort Landmæling Íslands af því að það er fyllra á þessum slóðum en yngri kort. Inn á kortið hef ég merkt helstu örnefni og bæjarnöfn sem máli skipta.
Svo minnist ég þess að í ævisögu Árna Þórarinssonar, prófasts, er getið um konu sem bjó á Skógarnes og hann hafði miklar mætur á. En hver veit um þann mann og hver hefur lesið hina stórbrotnu ævisögu hans sem Þórbergur Þórðarson skráði? Jú, hann er langalangaafi núverandi formanns Samfylkingarinnar.
Eftir að hafa pælt í kortum er ég sannast sagna engu nær um hvar bíll ferðamannsins fannst. Þó um sé að ræða hörmulegan atburð er ástæða til að hvetja blaðamenn Morgunblaðsins til að sinna lesendum sínum betur og flytja fyllri fréttir af staðreynum mála.
Landafræði er grunnfag fyrir þá sem starfa við blaðamennsku hér á landi. Nú er hins vegar svo komið að margir yngri blaða- og fréttamenn vita sáralítið um landið, sem er svo sem allt í lagi ef þeir kunna að leita heimilda.
Fyrst talið að tveggja væri saknað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Gaman að hlægja að öðrum en það er líka ljótt ...
2.1.2016 | 15:09
Ég tjái mig aldrei um svona nema með atkvæði í þingsal.
Sá sem þetta sagði hefur hingað til ekki verið fjölmiðlafælinn og löngum þekktur fyrir að segja skoðanir sínar umbúðalaust, jafnvel þegar engin eftirspurn er eftir þeim. Fyrir vikið er hann nefndur Skörungur ársins á hinu skemmtilega vefriti andriki.is. Þar segir um tilnefninguna:
Skörungur ársins: Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar var spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um ÁTVR-frumvarpið. Hann vildi ekki svara því og sagði: Ég tjái mig aldrei um svona nema með atkvæði í þinginu. Því miður var hann ekki spurður hvernig hann myndi greiða atkvæði um eitthvert annað mál, til dæmis afturköllun inngöngubeiðnarinnar í Evrópusambandið.
Svo var valin fundarástæða ársins hjá Andríki og þetta varð fyrir valinu:
Fundarástæða ársins: Ríkisútvarpið ræddi við Nönnu Hlín Halldórsdóttur, einn fundarmanna á samstöðufundinum og hún hafði þetta að segja: Við erum náttúrulega hingað komin til að sýna samstöðu, þú veist, það er, við erum náttúrlega, ég veit ekkert alveg hvernig ástandið er þar, en ég held að það sé ótrúlega mikilvægt til þess að sýna að það sé þú veist að það sé hægt að kjósa líka um manns eigin líf, og að eins og að fjármálaöflin að þau séu ekki þau sem ráði heldur fólkið í landinu.
Gaman að gera hlegið af seinheppnu fólki í upphafi árs en auðvitað er ljótt að hlægja að öðrum.
Sönn gleði vinstri manna vegna ákvörðunar Ólafs Ragnars
1.1.2016 | 15:49
Rétt á eftir nýársávarpi forseta Íslands opnaði ég svaladyrnar hjá mér og leit út í útsynninginn og élin. Þá var eins og ég heyrði margraddað feginsandvarp innmúraðra vinstri manna, þeirra sem vildu láta þjóðina samþykkja skuldir óreiðumanna,Icesave-samninginn. Loksins, loksins, Ólafur Ragnar ætlar að hætta, sagði kórinn.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir í viðtali við mbl.is í dag:
Ætli hans stærsta afrek á forsetaferlinum hafi ekki verið að færa þjóðinni réttinn til að útkljá Icesave-deiluna.
Og skyndilega standa aðrir stjórnmálaforingjar upp, jafnvel þeir sem áttu undir högg að sækja gagnvart þjóðinni og forseta Íslands og þeir mæra Ólaf Ragnar. Þeir eru svo innilega kátir og glaðir með ákvörðun hans að allar misgjörðir eru fyrirgefnar og gleymdar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, og grjótharður stuðningsmaður allra Icesave-samninga ræður sér ekki fyrir kæti er hann segir þetta á Facebook og þerrar gleðitárin um leið:
Bestu þakkir til Ólafs Ragnars Grímssonar fyrir farsælan embættisferil og bestu óskir um farsæla framtíð til hans og Dorritar.
Birgitta Jónssdóttir, formaður Pírata, sem veit oftast ekki hvort hún er að koma eða fara, en hvað varðar Ólaf Ragnar er hún óskaplega fegin að hann skuli hætta og þetta var það sem henni datt í hug á mbl.is:
Hún segir ákvörðun Ólafs vera góða enda eigi enginn lýðræðiskjörinn forseti að sitja eins lengi í embætti og hann hefur gert.
Er það ekki annars hafið yfir allan vafa að menn eiga að fá sitja í kjörnum embættum svo lengi sem þjóðin styður þá? Út á það gengur lýðræðið. Hafi Ólafur Ragnar Grímsson setið of lengi þá er það ekki honum að kenna heldur þjóðinni. Ekki hvað Birgittu finnst ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2016 kl. 01:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)