Ný Þjóðmál komin út með fjölbreyttu efni

Þjóðmál cGuðirnir Frjáls Verslun og Frjálsir Fjármagnsflutningar byggja heimsveldi sitt á því að hægt sé að flytja allt um heim allan á tiltölulega auðveldan og ódýran hátt. Það er enn hægt. Í leiðinni er dreift sjúkdómum og meinsemdum, en þó einsleitni á öllum sviðum. Störf eru flutt þangað sem vinnuaflið er ódýrast. Stjórnendurnir eru ósnertanlegir og njóta annarra kjara en verkalýðurinn. Gróðinn á lögheimili í skattaskjólum. Þetta er hin nýja nýlendustefna fjármagnsins.

Þannig ritar Tómas Ingi Olrich, fyrrum þingmaður, menntamálaráðherra og sendiherra, í stórmerkilegri og vel skrifaðri grein undir fyrirsögninni „Fullveldi smáríkja á öld mandarínanna“ (feitletrun er undirritaðs). Hún er í nýjasta hefti Þjóðmála sem kom út í síðustu viku. Fullyrða má að það er óvenjulegt að einn af fyrrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sé svo gagnrýninn á alþjóðavæðinguna.

Nú ber til tíðinda að útgefandi og ritstjóri Þjóðmála er Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Jakob F. Ásgeirsson er hættur sem útgefandi ritsins en hann stofnaði það fyrir um ellefu árum varð það á hans vegum afar fjölbreytilegt og áhugavert rit um stjórnmál hér á landi og erlendis.

Nýja ritið er fullt af fróðlegum greinum eftir skarpa og vel skrifandi áhugamenn um íslensk stjórnmál og samfélag; Björn Bjarnason, Gísla Hauksson, Friðrik Friðriksson, Skafta Harðarson, Jóhann J. Ólafsson, Tómas Inga Olrich, Hannes H. Gissurarson og Sigurð Má Jónsson.

Höfundur þessara lína fékk að auki að birta grein eftir sig í ritinu. Greinin ber nafnið „Þversögnin“ og fjallar um umhverfismál og náttúruvernd hér á landi. Í henni er fjallað á nokkuð gagnrýnan hátt um málin og vakin athygli á þeirri staðreynd að þrátt fyrir nokkuð skýr lög og reglur um umhverfismál er illa gengið um náttúruna.

Um leið hefur orðið grundvallarbreyting á viðhorfum almennings til útiveru og ferðalaga. Eðlilegt er að í ljósi þess sé spurt hvort hnignandi fylgi Sjálfstæðisflokksins í skoðanakönnunum geti tengst því að ekki aðeins vinstri menn vilji vernda náttúru landsins. Getur verið að flokkurinn hlusti ekki á fólkið sem ann náttúru Íslands?

Ekki er ráðlegt að rekja efni greinarinnar frekar en þess engu að síður ber að geta þess að nú er þörf á því að Sjálfstæðisflokkurinn taki sig á í náttúruvernd og umhverfismálum. Honum dugar ekki lengur að benda til fortíðar og vitna til löngu látinna forystumanna flokksins sem létu sér náttúruvernd og umhverfismál skipta. Nú er knýjandi nauðsyn á að flokkurinn líti til framtíðar. Stuðningur við hann byggir ekki síst á stefnu hans í þessum málum, ekki stefnuleysi.

Þjóðmál kostar aðeins 1.500 krónur í lausasölu. Áskrift kostar 5.000 krónur, askrift@thjodmal.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband