Hvað á að gera við bækur sem maður vill ekki eiga?

Undanfarna viku hef ég staðið í flutningum á heimili mínu á milli hverfa. Því fylgir óskaplega mikil vinna. Ég væri nú ekki að kvarta svona opinberlega nema vegna bókanna minna. Þetta voru eitthvað um eitthundrað kassar af bókum ... og sá veit ekki fyrr en reynt hefur hvílíkt bakbrot fylgir burði upp og niður stiga. Allt annað er léttflutt miðað við bókakassanna.

Auðvitað bitnaði flutningurinn ekki bara á mér, heldur sonum mínum og vinum og kunningjum. Fleiri en einn gerði athugasemdir við eigur mínar. Þarftu nú virkilega að eiga svona mörg skíði? var spurt. Ekki lestu allar þessar bækur? spurði annar.

Já, ég þarf að eiga mörg pör af skíðum, gönguskó, tjöld og annað lífsnauðsynlegt ... En það er þetta með bækurnar. Jú, ég hef lesið allar mínar bækur, að minnsta kosti 90% þeirra. Ég á reyndar nokkrar sem ég hef ekki áhuga á, reynt að byrja að lesa en þær hafa ekki vakið áhuga minn. Örfáar aðrar hlýt ég að hafa keypt í andartaks hugsunarleysi enda ferlega óáhugaverðar. Allar hinar þekki ég vel og fletti upp í þeim af og til. Staðreyndin er hins vegar sú að sá sem á þrjú þúsund bækur endist ekki ævin til að „fletta upp í þeim af og til“, tölfræðilega gengur það ekki upp nema maður geri ekkert annað. Það ætla ég mér ekki.

Niðurstaðan er því þessi að ég ætla að losa mig við helminginn af bókunum og rúmlega það. Halda eftir þeim sem eru verulega áhugaverðar, henda öllum „einnota“ skáldsögum sem skipta engu máli, grisja pólitíska safnið og svo framvegis.

Vandinn er hins vegar innrætingin, uppeldi mitt. Ég var alinn upp við það að bók væri nærri því heilög, öngri mætti henda, það væri synd. Erfitt er að hrista þetta af sér enda er ljóst að sumar bækur geta verið tómt rugl og meiri synd að halda slíkum en henda.

En hvað gerir maður við bækurnar? Á að henda þeim á hauganna eða skila í Sorpu?

Þó svo að ég hafi tekið tímamótaákvörðun strandar hún núna á framkvæmdinni. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fornbókasalar munu eflaust taka við bókunum þínum Sigurður. Nú eða hvað heitir það nú aftur græni hirðirinn, það eru örugglega til fólk sem vill lesa bækur en lætur bókakaup sitja á hakanum vegna þess að þá á ekkert umfram matarkaup.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.2.2014 kl. 11:40

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakkir, vinkona.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.2.2014 kl. 11:49

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mín er ánægjan.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.2.2014 kl. 12:43

4 Smámynd: Jóhann Elíasson

Svo eru kannski einhverjar stofnanir eins og sjúkrahús, BUGL, Geðrækt og fleira.  Ég veit líka til þess að bókasöfnin hafa tekið við bókum.

Jóhann Elíasson, 6.2.2014 kl. 15:20

5 Smámynd: Ingibjörg Kristrún Einarsdóttir

Ég kannast vel við vandamálið varðandi flutning og bækur. Síðastliðið haust var íbúð ættingja minna seld en hjónin voru búin að búa á Hjúkrunarheimili í nokkra mánuði.

Þetta var nú nokkuð yfirstíganlegt með hörku nema bækurnar. Við tókum mestan part bókanna til okkar sem nóta bene eru enn þá í kössum. Fornbókasali tók rest, það átti nú að borga smá verð fyrir kassana þar sem dýrar bækur voru innanum. En hann er greinilega peningalítill maðurinn.

Svo er nú líka hvað bækur eru níðþungar í flutningum. Ennfremur seldist íbúðin eftir 2 daga og við þurftum að skila henni innan 4 vikna. En þetta tókst nú allt saman, segi ég svona innan um alla kassana. Bestu flutningskveðjur frá Ingu.

Ingibjörg Kristrún Einarsdóttir, 6.2.2014 kl. 15:44

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Jahá, það eru þá fleiri en ég sem lenda í þessum ósköpum, Ingibjörg ...

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.2.2014 kl. 16:03

7 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bækur eins og allt annað öðlast framhaldslíf í Góða Hirðinum Sigurður (ekki Græna hirðinum Ásthildur).  Ég treysti því að þú hendir engu!  Að henda bókum er glæpur þótt órefsivert sé. En að geyma bækur í kössum útí bílskúrum er líka slæmur kostur. En sem sagt, Góði Hirðirinn tekur alltaf við og þar koma menn að gramsa og grúska, sem kunna að meta bækur.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.2.2014 kl. 16:05

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Fyrirgefðu Jóhannes, ég þekki ekki vel til þarna í Reykjavíkinni, en auðvitað heitir þetta góði hirðirinn, og er eflaust mjög grænn líka.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.2.2014 kl. 16:50

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir ábendingarnar, bæði tvö. Geri ráð fyrir að ég fari með bækurnar í hirðinn góða. Ætla að sleppa því að grúska eitthvað þar. Gæti endað með ósköpum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.2.2014 kl. 17:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband