Á köldum klaka í boði borgarstjórans

717897

Jón Gnarr, borgarstjóri, veit víst ekki um hálkuna á gangstígum borgarinnar annars hefði hann ábyggilega saltað þá eða sandað. Þá hefði þessi ágæta kona sem myndin er af á mbl.is ekki dottið og fjöldi annarra ekki þurft að leita á bráðamóttöku sjúkrahússins með langa nafninu sem einu sinni hét bara Borgarspítalinn og síðar Landspítalinn. En borgarstjórinn er löglega afsakaður, hann er að vinna að því að gera Reykjavík að herskipalausri borg sem er miklu mikilvægara og göfugra en að salt og sanda göngustíga.

Nei, nei, ég er ekkert bitur eða sár. Ég er heill heilsu eftir margar bylturnar undanfarna daga. Þannig er að ég hjóla stundum um borgina, sérstaklega í sundlaugarnar í Laugardal. Þá liggur oft leiðin um klakabunka á gangstéttum og göngustígum. Ég komst að því um daginn að það er ekkert vont að detta, það er lendingin sem er oft vond.

Þaer sem ég hjóla í hægðum mínum (ekki þó bókstaflega) vildi einhvern veginn til að reiðhjólið skrapp undan mér. Nákvæmlega þá var ég frekar annars hugar, horfði á umferðaljósið sem var framundan og velti því fyrir mér hvort græni kallinn myndi nú fljótlega birtast svo ég þyrfti ekki að bíða lengi. Þá fattaði ég að ekkert var undir mér hjólið. Við það brá mér doldið og kannski þess vegna skall ég um leið niður á magann og fleytti svo kerlingar (ef svo má segja) nokkra metra.

Sem betur fer var myrkur úti og vonandi ekki margir sem horfðu á fall mitt enda er ég spéhræddur með afbrigðum. Um áhorfendur vissi ég auðvitað ekkert og spratt þess vegna til vonar og vara samstundis á fætur og rennslinu lauk. Það hefði ég auðvitað ekki átt að gera. Betra hefði verið að reyna að ná áttum, sjá hvar ég var niður kominn og hvað væri undir mér (ef svo má segja). Og þar sem ég var að koma fótunum undir mig hélt spaugið áfram vegna þess að fótunum var ómögulegt að ná stöðu á klakabunkanum hála. Því var ég nauðbeygður að dansa einhvers konar kósakkadans í nokkrar mínútur (gæti þó hafa vefrið sekúndur eða sekúndubrot) í vonlausri von um góða stöðutöku (eins og þeir segja í viðskiptalífinu). Það gekk ekki eftir og því fátt annarra úrræða en að undirbúa hið snarasta lendingu á óæðri endanum. Með öðrum orðum, ég datt á rassinn.

Þannig sat ég nú móður og másandi eftir leiðindi sem langt í frá voru samboðin virðulegum manni sem ég leyfi mér stundum að halda að ég sé. Fyrir kemur að ég læri af mistökum mínum og þetta var reyndar ágætur tími til þess. Ég stóð því afar hægt upp, slétti úr fötunum og gekk virðulega að hjólinu, leiddi það út fyrir klakabunkana og gekk að umferðaljósunum og beið þar í fjórtán sekúndur. Á meðan fór fjöldi bíla framhjá og allir ökumenn og farþegar vinkuðu til mín brosandi eða hlægjandi.

Jæja ... Gott er að geta glatt fólk. En Jón Gnarr, þvílíkur fantur ertu að láta ekki salta eða sanda klakann á göngustígum almennilega!

 


mbl.is Klakinn bráðnar ekki í bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir að bjarga deginum fyrir mér. hahaha.....

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.1.2014 kl. 07:59

2 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Ég nota nagladekk á mitt hjól.

Hjól og slyddujeppar og aðrir léttir bílar eiga að ver á nöglum.

Það er ekki gaman að heyra um slysin sem verða þegar reynslulittlir ökumenn missa stjórn á ökutækjunum.

Þá hugsar maður, voru þeir ekki á nöglum?

Næst kemur upp í hugan, þessi opinbera nefnd sem auglýsir þá heimsku, að "mínu mati" að það sé í lagi að aka án nagla.

http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/

Egilsstaðir, 14.01.2014 Jónas Gunnlaugsson 

Jónas Gunnlaugsson, 14.1.2014 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband