Hafa aldrei kostað krónu til en ætla nú að rukka ferðamenn

Landeigendur Geysissvæðisins eiga það sammerkt með ríkissjóði að græða óskaplega mikið á ferðamönnum. Munurinn er hins vegar sá að úr ríkissjóði lekur dálítill peningur til uppbyggingar ferðamannastaða og umhverfis- og náttúruverndar, lítið sem samt doldið ...

Landeigendur við Geysi lifa á ferðamönnum en ekkert látið til uppbyggingar staðarins eða umhverfismála. Ríkissjóður, sem er eigandi um þriðjungs Geysissvæðisins, hefur hins vegar kostað uppbygginguna og gert allt það sem þó hefur verið framkvæmt á svæðinu. 

Núna, fá landeigendur glampa í augun, og segjast vilja vernda landið fyrir öllum þessum ferðamönnum sem þeir hagnast á og draga inn á svæðið. Í stað þess að landeigendur sameinist um að leggja gjald á þau fyrirtæki sem starfandi eru á svæðinu þá ætla þeir að ráðast á ferðamennina sjálfa og rukka þá um svokallað „glápgjald“.

Þetta er aumt. Sýnir að landeigendur hafa hingað til verið tilbúnir til að ofnýta land til að græða en leggja ekkert sjálfir til uppbyggingar. Slíkt hefur þeim ekkert komið við. Núna hefur þeim hins vegar dottið í hug að hægt sé að græða á ferðamönnunum með aðgangseyri. Þeir leggja þó enga uppbyggingarstefnu til grundvallar, byrja ekki með eigið fé, heldur fara beint út í að rukka.

Þannig er liðið sem á Kerið í Grímsnesi, þannig er liðið sem þykist eiga hálendið fyrir norðan og austan Mývatn, svokallað Reykjahlíðarland. Þannig eru fjöldi annarra sem nú hugsa sér til hreyfings og sjá fram á auðtekna peninga, auðtekjur, sem ekkert þarf að hafa fyrir.

„Jú, við ætlum að vernda náttúruna, byggja upp, laga og breyta, það er að segja ef við fáum peninga inn,“ segir þetta lið. Og allir trúa þeim vegna þess að málefnið virðist vera svo göfugt. Enginn af þeim hefur hins vegar lagt neitt eigið fé í uppbyggingu hingað til.

Staðreyndin er bara sú að landeigendur virðast vera örlátastir á annarra manna fé. Hluti af aðgangseyri fer svo í virðisaukaskatt, hluti í innheimtugjald og kostnað við innheimtu og rest, það litla sem eftir situr fer í að vernda eitthvað, einhvern veginn, einhvern tímann ... kannski.

Á meðan er landi lokað. 


mbl.is Gjaldtaka að hefjast á Geysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Heitir þetta ekki að "Taka Gnarrinn á þetta" ?

Halldór Egill Guðnason, 15.1.2014 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband