Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Ekki kjafta, við þurfum að líta betur út

Ekki segja frá, þá lítum við betur út. Þetta er viðhorf Evrópusambandsins. Vel má vera að einhver kraftur leynist í forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Hermanni van Rompuy. sé svo beinist hann í rangar áttir.

Marta Andreasen, þingmaður Íhaldsflokksins í Bretalandi og fyrrum endurskoðandi hjá Evrópusambandinu, flutti erindi um daginn og fjallaði um reynslu sína. Hún hélt því fram að stjórnendum þar væri meira umhugað um laun sín og hlunnindi en að þeir væru að véla með skattfé almennings. Endurskoðendurnir hafa þó ekki getað skrifað upp á ársreikninga ESB í nær tuttugu ár vegna þess að ekki er hægt að gera útgjaldaliðunum nægilega skýr skil.

Í viðtali við Morgunblaðið sagði Marta Andreason meðan annars:

En þegar ég var búin að vera þar í fjórar til fimm vikur var mér ljóst að lágmarksstjórnun á útgjöldum sambandsins var ekki til staðar,“ segir Marta og nefnir að útgjöld Evrópusambandsins séu í dag um 140 milljónir evra. „Það sem ég hafði þó meiri áhyggjur af var að peningar voru látnir renna í verkefni án þess að fylgst væri með því að þeir færu í það sem þeir áttu að gera,“ segir hún og bætir við að hún hafi viljað koma fram ýmsum breytingum, sem hefði verið auðvelt að hrinda í framkvæmd. „En hugmyndum mínum var stöðugt hafnað.“

Á sama tíma segir hún að hún hafi verið beitt þrýstingi til þess að skrifa upp á reikninga sem hún gat ekki með góðri trú sagt vera rétta. Á endanum var henni tilkynnt um ári síðar að framkvæmdastjórnin hygðist færa hana til í starfi, þangað sem hún myndi ekki bera neina ábyrgð.

„Ég vildi ekki láta færa mig til, þannig að þeir ákváðu að láta mig fara, að grunni til vegna þess að ég var ekki nógu hliðholl framkvæmdastjórninni,“ segir Marta. „Ég leit hins vegar svo á að hollusta mín ætti heima hjá skattgreiðendunum sem borguðu launin mín. Ég varð því að tryggja það að peningum þeirra væri vel varið.

Líklega er það þetta sem Hermann van Rompoy á við með sinni leiftrandi mælsku er hann segir að endurskoðendur sambandsins þurfi að draga úr gagnrýni sinni til að ESB líti nú betur út í augum skattgreiðenda í Evrópu. Verkefni hans er síst af öllu að tryggja það að peningum skattborgaranna sé vel varið, heldur hitt, verja stöðu sína og leiðtogaráðsins og láta sem að brauðfætur ESB séu hvorki linir né stökkir heldir traustir og varanlegir. Undarleg almannatengsl að krefjast þess að fólk ljúgi með þögninni.

 


mbl.is Gefi betri mynd af Evrópusambandinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær myndir sem reyndust ekkert líkar

1264763_10202130951703055_269241662_o

Ég er dálítill skýjaglópur ...hef gaman af því að taka myndir af sérkennilegum skýjamyndunum. Þegar ég bjó úti á landi var ég yfirleitt með myndavél í bílnum og því hæg heimatökin, ef svo má segja, að ná augnablikinu. Nú er maður sjaldnast með myndavélina meðferðist og því fara mörg augnablikin forgörðum.

Ómar Ragnarsson birti á bloggi sínu skemmtilega mynd af skýjamyndun við norðanverðan Vatnajökul. Hann segir þetta vera „... „rotor“ský (snúðský?) með gríðarlegum hringsnúningi lofts og uppstreymi ...“ Þessi mynd er hérna til vinstri. 

Hún minnti mig sterkt á mynd sem ég tók í Hornvík fyrir tuttugu og þremur árum. Sú var tekin á filmu og því get ég ekki flett upp á hvenær sólarhringsins hún hafi verið tekin. Ég var fararstjóri í gönguferð um Hornstrandir og við byrjuðum 4. júlí í Aðalvík og vorum líklega komin fjórum eða fimm dögum síðar í Hornvík. Mig minnir að myndin hafi verið tekin um kvöld, rétt eftir miðnætti.

Hornvík

Svo kemur í ljós að myndirnar eru ekkert líkar því engan sé ég „rótor“ snúninginn á Hornvíkurmyndinni. Svona svíkur minnið mann. Ég gat þó ekki látið vera að sleppa því að birta þessar tvær myndir.

Hins vegar ... finnst mér skýin á myndinni minni alveg einstaklega falleg, gætu verið lógó fyrir heimsmeistarakeppnina í handbolta eða frjálsar íþróttir. En hvernig ský af þessu tagi myndast hef ég ekki hugmynd um. Hitt man ég þó glöggt að veður var gott þessa daga.


Flugvöllurinn verður kjurr og flugvélar fljúga

Undanfarnar vikur hefur verið afar skrýtið að lesa margvíslegar blaðagreinar eftir þá sem eru á móti flugvelli í Reykjavík. Hafa fjölmargir ruðst þar fram á ritvöllinn og beitt margvíslegum ritbrögðum til að hafa áhrif á almenningsálitið eins og eðlilegt er. Þeir hafa hins vegar ekki haft erindi sem erfiði. Samkvæmt skoðanakönnun er yfirgnæfandi meirihluti landsmanna hlynntur flugvellinum sem og meirihluti Reykvíkinga.

Þó þetta skipti vissulega miklu máli finnst mér rök andstæðinga flugvallarins oft mjög sennileg og jafnvel jákvæð. Í hvert sinn sem mér er þannig innanbrjóst þá rekst ég jafnan á grein eftir Leif Magnússon, verkfræðing og reynslubolta í flugmálum. Á kurteislegan og hnitmiðaðan hátt gerir hann greinarmun á réttu og röngu hvað flugvöllinn varðar.

Hann segir í grein í Morgunblaðinu í dag:

Það vekur því vægast sagt furðu að lesa innlegg Egils Helgasonar á vefsíðunni eyjan.is, dags. 10. september, þar sem hann telur að »lausn« í ágreiningi um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýri eigi að felast í styttingu flugbrauta hans, eða hugsanlegri gerð slíks minni flugvallar á Álftanesi. Eitthvað hefur skolast til í heimildum höfundar, þar sem engar marktækar vísbendingar eru um að þær flugvélar, sem nú eru í framleiðslu, eða væntanlegar á næstu árum, muni komast af með styttri flugbrautir. 

Þar með er Egill bloggari Helgason afgreiddur á afar málefnalegan hátt. Svo tekur hann fyrir Álfheiði Ingadóttur, fyrrverandi þingmann Vinstri grænna sem ritað grein í Fréttablaðið fyrir stuttu og taldi sig vera með sáttaleið. Leifur segir:

Höfundurinn [Álfheiður] telur að »lausnin« eigi að felast í því að Reykjavíkurflugvöllur verði með eina flugbraut, sem liggi frá austri til vesturs. Þau tölugildi um áætlað nýtingarhlutfall slíks flugvallar, sem birt eru í greininni, hljóta að byggjast á einhverjum misskilningi.

Talsmenn Flugmálastjórnar Íslands, Isavia ohf. og Flugfélags Íslands hafa ítrekað staðfest opinberlega, að Reykjavíkurflugvöllur með eina flugbraut væri með öllu óbrúklegur sem miðstöð innanlandsflugs Íslands, og þaðan af síður sem áfangastaður sjúkraflugsins. Hvernig getur Álfheiður sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sem ætti að hafa efst í huga þarfir og öryggi sjúkraflugs fyrir alla landsmenn, boðið upp á »lausn«, sem felur í sér að áfangastaður sjúkraflugsins sé lokaður í 64 daga á ári?

Þar með er Álfheiður fyrrverandi Ingadóttir afgreidd.

Ljóst má vera að flugvöllurinn verður ekki fluttur nema á Keflavíkurflugvöll. Til annars eru engir peningar handbærir hjá ríkissjóði. Um leið leggst stór hluti innanlandsflugs af, borgarsjóður verður af tekjum af blómlegri atvinnugrein. 


mbl.is 72% vilja flugvöll í Vatnsmýrinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grjóthrúgur í algjöru tilgangsleysi

VordurVörðurnar hjá áningarstaðnum við Þingvallaveg eru bara dálítið flottar eins og sjá má (smellið nokkrum sinnum á myndina og stækkið). Held þó að þessi siður hafi orðið til þegar ferðamenn sáu Laufskálavörður og halda að það sé einhver siður að hlaða þær og helst setja einhver orð á blað og koma fyrir í þeim.

Beinakerling

Gamall og góður siður er að setja stein í vörðu og sagt var að það væri til fararheilla. Engum datt í hug að tugþúsundir ferðamanna, og í ofanálag útlendir rútuferðamenn, myndu rífa upp allt lauslegt grjót í kringum Beinakerlingu á Bláfellshálsi og henda í hrúgu. Grjóthrúga getur aldrei verið varða en varða getur orðið að grjóthrúgu. Raunar er umhverfi kerlingarinnar grátbroslegt

Öllu má nú ofgera og þegar ferðamenn eru komnir nærri einni milljón á ári og stór hluti þeirra druslast á einhvern hátt út um þjóðvegi getur verið að einhverjir þeirri haldi að grjót sé öllum frjálst til afnota og helst til mislukkaðrar mannvirkjagerðar sér til fararheilla. Þvílíkur misskilningur hjá þeim.

DSC_0052

Ég held að öllum sé hollt að minnast þess að vörður eru vegvísar, margar þeirra eru afar gamlar og í raun ekkert annað en fornminjar og margar skráðar sem slíkar. Höfuð þetta hugfast og hvetjum ekki til slíkrar steinaldar sem útlendir ferðamenn hafa gerst sekir um. Ekki búa til gangslausar hefðir.

Jú, litlu vörðurnar virðast flottar við fyrstu sýn, en eru algjörlega úr takti við íslenskar hefðir. Þar að auki er bölvað landrask af þeim. Er ekki betra að afhenda ferðamönnum poka með nokkrum lúpínufræjum og biðja þá um að koma fyrir á þar sem ekki finnst stingandi strá. Jæja ... eða að fá þeim í hendur tré og biðja þá um að gróðursetja t.d. við áningarstaði. Þar með væri eitthvað gagn gert.

 


mbl.is Vörður við veginn varða engan veg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jarma skal me ess bé í réttunum

Þeir eru enn til sem kunna að rita snjallan texa, jafnvel í ljóðaformi. Helgi Kristjánsson frá Ólafsvík ritar grein um réttir og mörk í Mogganum í morgun. Hann veltir því fyrir sér hvort fjármörk hafi sál ... og nefnir draumamörk, huldumörk.

Moggabloggið er svo stirt að það gefur eiginlega enga möguleika á að birta ljóð en ekki er annað í boði og hér er það sem Helgi segir í lok greinar sinnar:

Menn voru að forðast óveður. Vonandi gerist það ekki oftar, né heldur að réttað verði með öðrum þvinguðum hætti eins og fram kemur í lýsingu á hugsanlegri komu í réttina í sveitinni: 

Sæludalsrétt
er troðfyllt
af fénaði
og mannskap
í trássi
við reglugerðirnar
Bjössi á Hól
og nafni hans
á mjólkurbílnum
spangóla hástöfum
nú er hlátur
nývakinn
réttarstjórinn
er á nálum
hann sér bíl
frá eftirlitinu
Gamlasvört
kallar á lömbin
me me
glætan
jarma skal

me ess bé

í réttunum. 

 


Sprengjur í nafni siðferðis ... eða réttlætis

Nicholas Kristof setur fram þau rök í The New York Times að snögg refsing gæti knúið Bashar Al-Assad Sýrlandsforseta til þess að hætta að nota efnavopn og beita „hefðbundnari vopnum til aðslátra þjóð sinni“. Þetta er mér óskiljanlegt. Vandin hlýtur að vera slátrunin, ekki aðferðin sem notuð er.

Hann heitir Ian Buruma sem er höfundur greinar í Morgunblaðinu í morgun og hann vekur upp forvitnilegar og siðferðilegar vangaveltur um fyrirhugaða árás á Sýrland. Ég held að flest almennilegt fólk geti tekið undir með höfundinum enda er þessi grein hans örugglega ekki sú fyrsta né heldur að hann sé í fyrsta sinn að velta svona siðferðilegum málum fyrir sér.

Buruma heldur því fram að morð á fólki sé röng, hver sem aðferðin er og hversu margir séu líflátnir. Hvernig á að bregðast við óréttlætinu. Þá kemur upp önnur hlið í rökræðunni:

 

Spyrja má áður en skorist er í leikinn með hervaldi í öðru landi hvort það er líklegt til að bæta úr skák, bjarga mannslífum og gera heiminn öruggari. Já, ofbeldi gegn óbreyttum borgurum er siðferðisleg viðurstyggð, hvort sem beitt er saríngasi eða þungvopnuðum þyrlum. Málið er hvernig bregðast eigi við, hvað muni virka?

 

Vandinn er auðvitað sá að fæstir hugsa fram í tímann þegar brugðist er við með vopnum. Stjórnarherrarnir í Sýrlandi hafa lengi barið á fólki sínu enda ekki að ástæðulausu að fólk reis upp. Hins vegar má skoða hverjir það eru sem berjast á móti stjórninni. Það er ekki einslitur hópur heldur fjöldi smárra hópa sem einungis hafa sameiginlegt markmið. Hvað gerist þar á eftir veit enginn. Líkur benda þó til að aðstæður verði eins og eru nú í Líbýu eftir fall Gaddafís. Þar er hver höndin upp á móti annarri og langt frá því að friður hafi komist á. Enn er fólk þar myrt fyrir alls kyns sakir eða sakleysi.

Þess vegna má vissulega spyrja, hvort allt bendi til að fólk þurfi að sætta sig við harðstjórnina vegna þess að byltingin virðist ekki vera nein lausn? Harðneskjuleg stjórnun getur hins vegar varla verið lausn. Er hún þá fólgin í hernaðarlegum afskiptum erlendra ríkja?

Svarið við þeirri spurningu er líklega eitt orð, eitt land: Afganistan. Þar var ástandið ómögulegt fyrir innrás bandamanna og er eiginlega ekkert skárra núna.

Hér er umræðan komin í rökfræðileg þrot. Siðfræði og réttlæti stefna í sitt hvora áttina. 

 

 


Fjármunir tryggja ekki fagmennsku

Og núverandi ríkisstjórn getur ekki falið sig á bakvið moðreykinn frá hruninu eða að hún viti ekki hvernig ástandið sé. Ég vil hér með deila með núverandi ráðherrum, persónulega og prívat, þeirri trú minni að ef þeir skipti ekki um skoðun í þessu máli í grænum hvelli verði seta þeirra í ríkisstjórn ekki til fjögurra ára. Það er nefnilega þannig að þegar aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar leiðir til þess að fólk lætur lífið á Íslandi er líklegt að þjóðin láti sér ekki nægja að berja saman pottahlemmum.

Auðvelt er að vera sammála Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. Hann er í senn einstaklega vel skrifandi og rökfastur. Í grein í Morgunblaðinu í morgun hæðir hann síðustu ríkisstjórn og hvetur núverandi til dáða. Ég velti samt ýmsu þokukenndu fyrir mér.

Hann heldur því fram að gerðir sem ekki styrkja heilbrigðiskerfið geta hreinlega valdið dauða fólks og því spyr hann í fyrirsögninni, rétt eins og Jón Hreggviðsson í Íslandsklukku Halldórs Laxness: „Hvenær drepur maður (ríkisstjórn) mann“ en sleppir niðurlaginu „... og hvenær drepur maður ekki mann.“.

Þetta má alveg til sannsvegar færa. Hins vegar hefur lengi verið reynt að draga úr kostnaði við heilbrigðiskerfið, jafnven með litlum árangri. Er það vegna þess að það sé of dýrt eða er verið að hvetja til skilvirkni þess? Það þarf alls ekki að vera neitt samhengi á milli „nægra“ fjárveitinga til kerfisins og þess að það gera það sem til er ætlast. Fjármunir tryggja ekki fagmennsku. 

Svo er það hitt að kerfi reyna að viðhalda sjálfu sér með öllum þeim aðferðum sem hugsast geta. Til dæmi eru ein þau rök fyrir nýbyggingu sjúkrahúss í Reykjavík þau að dregið sé algjörlega úr allri þjónustu á landsbyggðinni. Með því móti var hægt að reikna grunn undir sjúkrahúsið.

Þetta var nú það sem flögraði í gegnum hausinn meðan ég las grein Kára. Hún er engu að síður vel skrifuð og ég hallast að því þrátt fyrir það sem ég segi hér fyrir ofan að hann hafi rétt fyrir sér. 


Ekkert plást fyrir tilfinningasemi í Excelskjali

Þá bendir Anna Sif aðspurð á að þótt álykta megi að ýmsar aðgerðir, svo sem frysting lána, endurútreikningur gengisbundinna lána, afskriftir lána, 110% leiðin o.þ.h. hafi haft áhrif komi á móti aukin verðbólga eigna og skulda. Fasteignamat hafi t.d. hækkað um 7,4% 2012 á milli ára.

Þetta segir sérfræðingur hjá Hagstofu Íslands sem hefur unnið að öflun upplýsinga um eiginfjárstöðu heimila og greint er frá í frétt á bls. 17 í Morgunblaðinu í morgun. Þar skín á milli línanna fögnuður yfir því að neikvætt eigin fé heimila sé að minnka og eftir nokkur ár verði það aftur jákvætt.

Í fögnuðinum láðist sérfræðingnum að greina frá öðrum ástæðum fyrir minnkun á neikvæðu eigin fé. Þetta er auðvitað allt meðaltal en excelskjalið greinir ekki frá gjaldþrotum fólks, uppboðum á heimilum, skilnuðum, yfirtöku banka á íbúðum almennings og hreinlega flóttafólks úr landi. Öllu þessu hefur fylgt gríðarlegur sársauki og kvalir, ekki aðeins skráðra eigenda íbúða heldur fjölskyldna. 

Hvað heldur þú, lesandi góðu að gerist þegar fólk verður gjaldþrota, yfirgefur íbúð, fer í leiguhúsnæði og svo framvegis? Jú, alveg rétt. Neikvætt eigið fé heimila minnkað. Fjöldi heimila með neikvætt eigið fé fækkar.

Húrra, húrra ... þetta miðar allt í rétta átt. Þá er betra að spyrja grundvallarspurningarinnar. Hver er kostnaðurinn? 

Fátt verður um svör enda kostnaðurinn ekki í krónum eða öðrum gjaldmiðlum. Og svo er ekki pláss fyrir neina andskotans tilfinningasemi í Excelskjölum.

Gleymum þessu ekki enda er þetta ástæðan fyrir því að síðasta ríkisstjórn hrökklaðist frá og verður banabiti þessarar uppfylli hún ekki loforðin í stjórnarsáttmála sínum. 


Flugleiðsögnin á N-Atlantshafi í uppnámi

Dálítið er það broslegt að á meðan flestir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru að máta sig í leiðtogastól flokksins í borgarstjórninni er það varaborgarfulltrúi sem jafnan kemur fram með þau mál sem skipta borgarbúa einhverju.

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi greinir frá því í grein í Morgunblaðinu í dag gjaldeyristekjur af flugleiðsögn á Norður-Atlantshafi séu rúmir þrír milljarðar króna og eitthundrað manns hafi atvinnu af þessari starfsemi. Þetta er sosum afar skemmtilegt en hitt er að ISAVIA sem sér um þessi mál þarf að bæta við starfsemina og það gerist ekki nema með stækkun húsnæðisins og þar stendur hnífurinn í kúnni. Eða ætti að segja þar standi Sambesti flokkurinn í veginum. Meirihluti borgarstjórnar hefur í langan tíma hundsað beiðni um byggingarleyfi og það getur skapað vanda.

Marta segir í grein sinni í Mogganum: 

Ef byggingarleyfið fæst ekki nú innan örfárra vikna er fyrirsjáanlegt að Alþjóðaflugmálastofnunin flytji starfsemina úr landi. Þetta hefur borgaryfirvöldum verið fullkunnugt um.

Þegar arkitektinn að stækkuninni og forráðamenn ISAVIA gerðu skipulagsyfirvöldum það ljóst að frestur ISAVIA til að stækka við sig og auka tækjabúnaðinn væri að renna út ákvað skipulagsráð borgarinnar loksins að setja stækkunina í auglýsingu, nú í sumar. Af því tilefni sáu fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í skipulagsráði ástæðu til að bóka, að slík auglýsing af hálfu ráðsins yrði háð því skilyrði að ríki og flugmálayfirvöld staðfestu, að NA-SV-braut Reykjavíkurflugvallar yrði lögð af innan þriggja ára.

Með þessari bókun er haft í eftirfarandi hótunum: Ef þið ekki samþykkið að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður niður mun samfélagið verða af hundrað vel launuðum störfum og þriggja milljarða gjaldeyristekjum á ári. 

Og svona eru nú vinnubrögð hinna háu í borgarstjórnarmeirihlutanum. Eintóm tilraunastarfsemi og farið illa með atvinnu og fyrirtæki í höfuðborginni. Er ekki nóg komið af Besta flokknum og Samfylkingunni?

Og hvar eru nú borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á meðan á þessu stendur. Svo virðist sem allir nema Kjartan Magnússon séu í sandkassaleik með Sambesta? Hann og Marta veigra sig ekki hjá því að gagnrýna meirihlutann.


Ég mun svara ykkur með brosi

Bréf

Í gær varð sá gleðilegi atburður að ég sá í fyrsta skipti dótturdóttur mína sem er núna þriggja mánaða gömul. Heiðrún Sjöfn, dóttir mín, og sambýlismaður hennar Sigmar Ó. Kárason, hafa undanfarin tíu ár verið búsett í Noregi. Þau komu heim í vikunni í þeim stóra tilgangi að skíra dótturina.

Auðvitað verður maður á svona merkisfundi tilfinninganæmur og jafnvel meyr. Hvað um það, maður jafnar sig fljótt, ber höfuðið hátt, strýkur laumulega um augnkróka, en segir aðspurður að eitthvað hafi bara hrokkið í augað.

Svo las ég í Morgunblaðinu í morgun „grein“ eftir Miako Þórðarson, prest, en hún birtir einstaklega fallegt ljóð frá Brasílíu í þýðingu sinni.

Það nefnist „Bréf til minna kæru barna“ og hefst svona:

Ég bið ykkur að skilja mig eins og ég verð, 
þegar ég eldist og
haga mér öðru vísi en ég var vanur.

Ég bið ykkur að gæta mín
eins og ég hef kennt ykkur,
þótt ég missi matarbita á fötin mín og
gleymi að reima skóna mína. 

Ég bið ykkur að kinka kolli og

leyfa mér að ljúka við söguna,
þótt ég segi hana aftur og aftur.

Höfundurinn er að eldast og hann biður börnin sín að verða ekki sorgbitin: „Það er ekki sorglegt, þótt ég eldist.“ 

En þá bið ég ykkur að líta uppörvandi til mín. 

Hann endar yndisfagurt og stórkostlegt ljóð með fallegu og hamingjuríku orðum:

Ég mun svara ykkur með brosi,
fyrir þá ómældu gleði að eiga ykkur og
hinn eilífa kærleika til ykkar sem mun aldrei bregðast.

Til barna minna.
Til minna kæru barna. 

IMG_0050_bSvona veltir maður fyrir sér endanleikanum í lífinu. Það er mikill auður að eiga þrjú börn og fjögur barnabörnin og vita þann dag er afinn er löngu horfinn af yfirborði jarða ríkir minningin. Rétt eins og ég man eftir foreldrum mínum og foreldrum þeirra. Þannig endurtekur lífið sig aftur og aftur og það fer ekki hjá því að afinn velti því fyrir sér að allt sé gott, framtíðin sé fögur og björt fyrir afkomendurna. Hvað skiptir meira máli er framtíðin? Í raun og sann eigum við alltaf að vera búa í haginn fyrir henni.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband