Bloggfærslur mánaðarins, september 2013
Stílleysið og ljótleikinn æpir á mann
5.9.2013 | 09:21
Höfuðröksemd þeirra sem vilja flugvöllinn burt virðist vera að það þurfi að þétta byggð. Um þetta er það að segja að sennilega er æskilegt að þétta byggð á einhverjum stöðum en þegar maður sér þvílíkar hörmungar eru skapaðar á nýjum svæðum í höfuðborginni og víðar koma upp í hugann orð skáldsins: Ekki meir! Ekki meir! Stílleysið og ljótleikinn æpir á mann. Ekki virðist sérstök ástæða til að ætla að smekkvísi og áhugi fyrir samræmi yrðu skyndilega í forgrunni ef farið væri að þétta byggð í Vatnsmýrinni. Er það reyndar efni í annan pistil.
Aðalatriði málsins er að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er á afar heppilegum og þægilegum stað. Staðsetningin nýtur víðtæks stuðnings meðal landsmanna. Þeir kæra sig ekki um að flugvöllurinn sé fluttur. Það á að hlusta á raddir þessa fólks.
Mér finnst ástæða til að vekja athygli á orðum Kolbrúnar Bergþórsdóttur, blaðamanns á Morgunblaðinu, sem skrifar um vinstri meirihlutann í borgarstjórn undir fyrirsögninni Ekki meir! Ekki meir. Ekki aðeins er Kolbrún listagóður skríbent heldur hefur hún góðan smekk og virðist hugsa á sama máta og við, almenningur.
Já, stílleysið og ljótleikinn æpir á mann, segir Kolbrún. Hvernig skyldi nú framtíðinni ganga að þurrka út þessa ásýnd sem er á hluta Reykjavíkur? Eitt er víst að það verður ekki hlutverk núverandi meirihluta.
Ömurleg sviðsmynd fyrir 17 milljón kall
5.9.2013 | 08:04
Ég var að lesa Moggann minn og rakst þar á vel skrifaða grein um breytingarnar á Hofsvallagötu og mig rak í rogastans. Gerð var einhvers konar absúrd sviðsmynd sem síst af öllu fegrar götuna sem hingað til hefur ekki þótt neitt augnayndi. Látum það nú vera en að þessi uppálöppun skuli hafa kostað 17 milljónir króna þykir mér nokkuð vel í látið.
Svo vill nú til að ég kannast dálítið við rekstur afar lítils sveitarfélags eftir nokkurra ára vinnu. Margir með svipaða reynslu myndu álita sem svo að sautján milljónir séu mikill peningur, raunar fjáraustur án nokkurrar ábyrgðar. Sama hljóta íbúar í vesturbænum að álíta þar sem þarna er aðeins um hálfan kílómetra af Hofsvallagötu, sviðsmynd til bráðabirgða. Var í raun og veru ekki hægt að gera betur? Ég er viss um að nemendur i Melaskóla hefðu komið með betri og ódýrari tillögur hefði til þeirra verið leitað.
Vandinn er sá að meirihluti borgarstjórnar er ekki í nokkru sambandi við almenning í borginni. Hann veður áfram og eyðir peningum en gætir ekki að fólki, starfi þeirra eða jafnvel áhugamálum. Og þeir sem voga sér að hafa skoðun á því sem gerist í borginni eru hunsaðir.
Breytingar á Hofsvallagötu dýrar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Jarðskjálftar á gönguleiðinni í Hattver ...
4.9.2013 | 14:07
Jarðskjálftar finnast mér einstaklega áhugaverð fyrirbrigði þó ég kunni sáralítil skil á þeim. Í gær skalf jörðin innan öskjunnar sem stundum er kennd við Torfajökul. Á korti Veðurstofunnar virtist sem skjálftarnir röðuðu sér eftir gönguleiðinni frá Landmannalaugum og í Hattver og þaðan áfram upp í Kaldaklofsfjöll. Verð að taka það fram að þetta er afar heillandi gönguleið og yndislega fáfarin.
Þetta má glögglega sjá á kortinu sem hér fylgir. Allt eru þetta nú smáir skjálftar, þó var einn sem var 1,1 og annar sem var 2,6 að stærð. Samkvæmt jarðskjálftatöflu Veðurstofunnar voru skjálftarnir yfirleitt frekar grunnir eða frá 0,1 km og niður í 5,6 km.
Þetta gerist allt á virku eldgosasvæði og er líklega ekki merki um annað en hreyfingar í jarðskorpunni sem verða vegna kviku sem bifast einhvers stapar langt fyrir neðan yfirborð. Mér finnst þetta eiginlega sennilegri skýring en sú að Grýla gamla sé tekin að hreyfa sig og undirbúa að senda jólasveinanna sína til byggða. Ég tek þó fram að hvorug vísindin, jarðfræðin eða jólasveinafræðin, eru mér vel kunn.
Nú hefur Mýrdalsjökull líf færst í Mýrdalsjökul en hvað hann gerir á næstunni er ómögulegt að segja, svo gripið sé til orðfæris jarðfræðinga. Hann gæti gosið á næstu vikum og jafnvel ekki fyrr en eftir tuttugu ár. En hann mun gjósa áður en yfir lýkur, segja þeir fræðingarnir. Undir það má svo sem taka en þó skil ég ekki hvað þeir eiga við með orðfærinu áðr en yfir lýkur. Hverju skyldi nú ljúka eftir að gýs í Mýrdalsjökli? Byggð í landinu eða að Grýla efi upp andann? Spyr sá sem ekkert veit.
Og svo varð lítill skjálfti skammt vestnorðvestan við Heklutind en aðeins 0,4 að stærð. Munum þó að á Heklu er það ekki stærðin sem skiptir máli, hún lætur auðveldlega töfrast og þá kann eitthvað að gerast. Fylgjumst með framvindunni næstu daga. Draumspakur maður sagði mér nebbnilega að Hekla væri til alls vís.
Myndin sem fylgir hér með er tekin í hlíðum Skalla og horft er til Vesturbarms en um hann liggur gönguleiðin í Hattver.
Er þetta lögfræði eða pólitík?
4.9.2013 | 10:00
Hvaða tilgangi þjóna málaferli á hendur Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra gamla Landsbankans? Ef til vill er tilgangurinn sá að fá til baka það sextíu og fimm milljarða sem sérstakur saksóknari heldur fram að maðurinn skuldi bankanum vegna skaða og einhvers annars.
Ég held það sé borðliggjandi að maðurinn á ekki þessar fjárhæðir, hvorki í lausafé né eignum.
Því má halda áfram að spyrja. Er verið að senda boðskap út í þjóðfélagið? Sé svo, er ekki skynsamlegra að krefjast einfaldlega fangelsisrefsingar frekar en endurgreiðslna á meintum skaða? Varla er það tilgangur saksóknara að gera kröfur um bætur sem ómögulegt er að verða við, hvernig sem á málin er litið. Erum við þá ekki komnir út í hreina pólitík frekar en klára lögfræði?
Mál Sigurjóns fyrir héraðsdóm | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fréttir í sjónvarpi eins og hálfsíða í dagblaði
2.9.2013 | 09:49
Þeir sem eru uppteknir af mikilvægi sk. fréttaflutnings ríkisins ættu reyndar að hafa hugfast að lesefni eins fréttatíma í sjónvarpi kemst fyrir á hálfsíðu í dagblaði.
Þessi sláandi tilvitnun er úr niðurlagi greinar í Morgunblaðinu í morgun og er eftir Arnar Sigurðsson. Þar fjallar hann um Ríkisútvarpið og hrekur margt það sem áður hefur verið haldið um stofnunina. Tilvitnunin sýnir að gríðarlegur munur er á prentuðum fjölmiðli og ljósvakafjölmiðli. Þeirri spurningu má alveg varpa upp hvort þörf sé á ríkisfjölmiðli sem útvarpar stuttum fréttapunktum eða sjónvarpi ríkisins sem sendir út myndir með stuttum myndatextum. Arnar færir rök fyrir því að þetta sé kostnaður sem hægt er að vera án í rekstri ríkisins.
Önnur og ekki síður áhugaverð rök Arnars eru þessi:
Fréttaþyrstir ættu því að hafa það hugfast að lestur er eina leiðin að kjarna málsins. Með tilkomu netsins er tilvistargrundvelli hefðbundinna sjónvarpsstöðva varpað um koll og sama á við um útvarp. Ríkisútvarpið hefur að mörgu leyti staðið sig vel við gerð menningarefnis og þannig hlúð að þjóðararfinum í gegnum tíðina og á það sama við um einkaaðila í greininni. Ríkisútvarpið hefur hins vegar staðið sig afleitlega í ráðstöfun almannafjár og sóun á ekki að líðast. Með tilkomu óendanlegs magns frá efnisveitum á netinu er núverandi hlutverk RÚV á sviði dreifingar ámóta tímaskekkja og Viðtækjaverslun eða Ferðaskrifstofa ríkisins á sínum tíma.
Þrengt að bíleigendum
2.9.2013 | 08:37
Sofandaháttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er hávær ... Í leiðara Morgunblaðsins í morgun er fjallað um bílastæðismál á nýjum byggingareit vestan við Slippinn. Þar er ætlað að bílastæði séu 0,8 á hverja íbúð. Í leiðaranum segir:
Nú er það vitaskuld svo að íbúar þessara íbúða verða margir á bílum líkt og íbúar í nágrenninu og annars staðar í borginni. Í mörgum íbúðanna verða jafnvel tveir íbúar á bílum, ef að líkum lætur. Og hvar skyldu þeir leggja bílum sínum fyrst þeir fá ekki stæði í því hverfi sem verið er að reisa? Þeir munu leggja í næstu götum, þar sem bílastæði eru þegar mjög ásetin, og þar með næst markmið borgarinnar um að þrengja að íbúunum.
Hvernig stendur á því að innan borgarstjórnar lætur enginn í sér heyra vegna skipulags af þessu tagi eða þrengingarstefnunnar almennt?
Öll spjót beinast að borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sem eiga að berjast fyrir sjálfræði fólks en á móti alræðishyggju meirihluta borgarstjórnar. Ætli það verði ekki það næsta sem við heyrum að íbúar verði skyldaðir til að undirrita yfirlýsingu um að eiga ekki bíl.