Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Grafskrift ríkisstjórnar

Betra að taka það fram að Kári Stefánsson á við að lyfin lyfin sjálf eru ekki gömul heldur tæknin eða þekkingin sem þau byggjast ár.

Hann sagði líka að síðasta ríkisstjón hefði haft það eitt markmið að koma landinu í ESB og það hefði, eins og svo margt annað, ekki tekist. 

Fín grafskrift fyrir slaka ríkisstjórn. 


mbl.is Kári: Erum ekki að nota bestu lyfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rök að handan gegn húsbyggingu

Oft er talað í neikvæðri merkingu um þá sem eru eiga hagsmuni að gæta, þeir kallaðir orðskrípinu hagsmunaaðilar. Víst er að allt mannkyn er bundið margskonar hagsmunafjötrum, þó ekki væri annað en því að vilja vinna, nærast og sofa.

Ég las um daginn grein í Mogganum eftir Guðrúnu Norðdal þar sem hún bendir á mikilvægi þess að halda áfram byggingu húss íslenskra fræða úti á Melum í Reykjavík.

Kári Stefánsson, læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ritar nú grein í Morgunblað dagsins og heldur því fram að tungumálið okkar byggi ekki tilvist sína á þessu húsi og gerir þannig grein Guðrúnar að umtalsefni. Kári gerir eiginlega gott betur og fær Stefán Jónsson, föður sinn, til að styðja við málflutning sinn, en hann virðist vera búinn að lesa grein Guðrúnar, jafnvel þó rúm tuttugu og þrjú ár séu nú frá dauða hans. Kári segir:

Þess vegna las ég með athygli greinina sem Guðrún Nordal birti í Morgunblaðinu á þriðjudaginn þar sem hún benti á að íslenskan sé enginn lúxus heldur málið okkar allra. Ég er hjartanlega sammála henni um það en ég gat ómögulega stokkið með henni þaðan og yfir í mikilvægi þess að reisa nýtt hús yfir stofnun norrænna fræða akkúrat núna í stað þess að nýta það fé sem í það færi til þess að endurreisa íslenskt heilbrigðiskerfi. 

Stefán Jónsson var afskaplega góður penni og frásagnargáfa hans einstök eins og þeir vita sem hlustuðu á hann í lifanda lífi eða hafa lesið bækur hans. Hann vitjaði sonar síns í draumi og sagði í honum meðal annars þetta:

Ég er ekki að leggja til að Stofnun norrænna fræða verði lokað, vegna þess að norræn fræði eru mikilvæg íslenskri menningu og þau eru líka ævintýrilega skemmtileg. Ég er eingöngu að benda á að nú sé varla rétti tíminn til þess að reisa hús yfir þau meðan heilbrigðiskerfið er fjársvelt. Það er nefnilega þannig að þótt tungumálið komi líklega á undan hugsuninni þá er hvorki tungumál né hugsun til án manneskjunnar svo okkur ber fyrst og fremst að hlúa að lífi hennar og líðan. Góð íslenska er töluð af lifandi fólki sem líður vel.

Þeir eru vissulega á einu máli um óbyggða húsið sem setja á ofan í holuna á Melum og ég er sammála þeim feðgum. Forgangsmálin eiga að vera önnur en þau sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á sérstaklega þegar hart er í ári.

Ég er líka viss um að móðir mín væri sammála þessar skoðun feðganna. Hún var mikil íslenskukona og kunni ókjör af ljóðum og vísum og hélt þannig við arfleiðinni, kynnti hana fyrir þeim börnum sínum sem vildu hlusta. Gallinn er bara sá að hún mamma dó fyrir sextán árum og hefur hvorki tjáð sig né veitt viðtöl síðan - hefur þó oft verið brýn nauðsyn að fá álit hennar.

Þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll hagsmunaðilar, ekki aðeins læknirinn Kári, heldur einnig ég og þú. Skoðun okkar á heilbrigðiskerfinu og tungumálinu mótast af því að við notum hvort tveggja, höfum af því mikla hagsmuni. Skiptir engu hvort einhver sé læknir og annar sjúklingur, einn sé ræðumaður og hinn hlusti. Þannig er það nú bara. 

 


Veraldleg öfl gegn hinum dauðu

Veraldleg

Veraldleg öfl láta í minni pokann fyrir herskáum íslamistum í Sýrlandi

Þannig segir í undirfyrirsögn fréttar á dv.is í dag. Mér þótti þetta kostuleg fyrirsögn en ég hef enga trú á að hún sé rétt.

Sé fyrir mér að herskarar hinna myrku afla sem koma handan landamæra lífs og dauða séu núna að ganga milli bols og höfuðs á lifandi fólki, rétt eins og sést stundum í bíómyndum.

Líklega á hinn reynslulitli blaðamaður við að heittrúaðir íslamistar hafi yfirhöndina gegn öðrum uppreisnarmönnum sem líklega eru trúlausir eða með aðrar forsendur í huga fyrir uppsreisn sinni.

40 zetulaus ár ...

Það er nokkuð algengur misskilningur (og hefur ratað inn í fræðibækur) að bókstafurinn zeta hafi verið afnuminn úr íslensku ritmáli árið 1974. Það skiptir kannski ekki miklu máli en það var einu ári áður, eða þann 4. september 1973, sem Magnús Torfi Ólafsson, þáverandi menntamálaráðherra, undirritaði auglýsingu nr. 272/1973 um afnám zetunnar úr íslensku ritmáli og var hún birt daginn eftir í Stjórnartíðindum og tók þar með gildi. Það eru því um þessar mundir liðin 40 ár frá afnámi zetunnar.

Þannig skrifar Einar Örn Thorlacius, lögfræðingur í lítilli grein í Morgunblaðinu í morgun. Og í niðurlagi greinarinnar segir hann:

Það var því ákvörðun eins manns, Magnúsar Torfa Ólafssonar menntamálaráðherra, sem afnam zetuna úr ritmáli Íslendinga. Bráðlæti ráðherrans var svo mikið að hann gat ekki beðið eftir að hans eigin nefnd lyki störfum. Í auglýsingunni var ekki vísað til nokkurra laga enda engar lagareglur til um stafsetningu. Tekið var þó fram að hið zetulausa ritmál gilti einungis um bækur sem ríkið gæfi út og eins um þá stafsetningu sem kennd væri í skólum. Öllum öðrum var því heimilt að skrifa zetu áfram og gera margir ágætir menn það enn í dag, svo sem ritstjóri Fréttablaðsins. 

Alla mína skólagöngu þurfti maður að kunna skil á zetunni og þeim reglum sem lágu að baki ritunar hennar. Þetta fannst mann á sínum tíma bölvað torf. Svo skyndilega þegar maður var í Menntaskólanum í Reykjavík gufaði setan upp, flestum til mikillar ánægju.

Það er nú hins vegar svo að flest lærir maður með skilningi og tileinkar sér. Oft gerist þó það að skilningurinn er ekki fyrir hendi og kemur ekki fram fyrr en síðar. Þannig er það með zetuna og skilning fólks á henni. Hún segir svo mikið til um uppruna og skilning orða að við liggur að maður sakni hennar. Að minnsta kosti veitti ungu kynslóðunum ekki af því að þekkja eitthvað til hennar. 

Mér þykir þessi grein eftir gamlan félaga úr Vöku í Háskólanum hin fróðlegasta lesning og vil hér vekja athygli á henni. 


Er á meðan er ...

SkjalftarSú kenning er uppi að því verra veður sé á landinu þeim mun rólegra sé í rótum þess. Þetta mun vera ósannaður en heilagur sannleikur sem enginn fótur er fyrir en dugar þegar lítið er á jarðskjálftakort Veðurstofunnar núna í morgun.

Fyrir utan örlitla hreyfingu í Mýrdalsjökli er allt með kyrrum kjörum á landinu og ekkert sem boðar hamfarir framtíðarinnar. Ef'ann myndi nú lægja og iðulaust lognið skella á yrðum við flest sæmilega sátt við tilveruna. Undanskil þó mannlegar náttúruhamfarir í Gálgahrauni. Þar á bæjarstjórn þessa ágæta bæjarfélags þá sök að vilja ekki vinna með fólki.

Þegar ég rita þessi orð hefur minn draumspaki pennavinur samband og segir að kyrr kjör séu alls ekki sönnun um að ekkert sé að gerast. Ég fullyrði á móti að hvorki hann né ég hafi um slíkt fullgildar sannanir og því sé best að una við það sem er.

Hann brosir, það er sendir mér broskall. Bíddu bara, skrifar hann. Þetta fer allt að byrja og þá er betra að vera undirbúinn. Ekki nenni ég að skattyrðast við þann draumspaka, hann hefur spáð illu undanfarin ár en ekkert af því hefur ræst, eins og lesendur mínir vita.

Hitt er betra, að njóta þess sem er og óttast ekki eitthvað sem hugsanlega getur gerst. Þetta er nú orðin langur pistill um lítið en merkilegt kort Veðurstofunnar. 


Fær Jón Gnarr ekki að vígja brýrnar eða hvað?

Auðvitað ber að fagna því að taka eigi nýjar brýr yfir Elliðaárósa í notkun. Hins vegar vil ég vita hvar Jón Kristinsson, borgarstjóri, er. Hvers vegna fær hann ekki að vígja brýrnar?

Hann sem alltaf er viðstaddur gleðilega atburði af hvaða tagi sem er.

Hann sem er manna kátastur og hnyttnastur í vígsluræðum.

Þar sem hann er finnast ekki leiðinleg verkefni.

Hann hefur vonandi ekki verið settur í að stjórna borginni. Það væru herfilega slæm býtti.


mbl.is Nýjar brýr opnaðar á laugardag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mbl.is þarf að taka sig á

Morgunblaðið þarf að taka sig á í fréttaflutningi. Það þarf að styrkja tengslanet sitt svo um munar. Á mbl.is hafa til dæmin engar myndir verið birtar af tjóni sem orðið hefur í óveðrinu í morgun og nótt. Einnig var fréttaflutningurinn frekar takmarkaður. Á meðan hefur fjöldi mynda birst á visir.is, núna síðast frá Laugarvatni en í morgun mynd af bíl sem skemmdist á Skeiðarársandi.

Þetta er ekki nógu góð frammistaða hjá svona öflugum fjölmiðli. Í sannleika sagt hefðu átt að dekka allt landið stax í morgun með fréttum og myndum. Mogginn þarf að gera bragarbót hér á.


mbl.is Margir bílar skemmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er verndun Gálgahrauns hættuleg fyrir Garðabæ?

Ég fæ ómögulega skilið hvers vegna ekki er hægt að koma til móts við okkur sem viljum vernda Gálgahraun. Rökin fyrir vernduninni eru óumdeilanlega mikilvæg og alls ekki að krafist sé einhvers sem ómögulegt er að verða við. Þetta er bara spurning um eitt; hvort stjórnvöld ætli að starf með fólkinu í landinu eða vinna gegn því?

Bæjarstjórn Garðabæjar hefði verið í lófa lagið að gera breytingar á skipulagi sínu og komast þannig hjá tvennu. Í fyrsta lagi að valda óafturkræfum skaða á Gálgahrauni og í öðru lagi að láta skerast í odda með þeim sem vilja vernda hrauni.

Nei, í stað þess er ruðst áfram með jarðýtum og stórvirkum vinnuvélum og látið sem að sjónarmið verndunarsinna séu vond og hreinlega hættuleg fyrir Garðabæ og Álftanes. Þetta er svo vitlaust sem mest má vera. Þessi sjónarmið gera þessi bæjarfélög einungis betri og fallegri. Er hægt að bjóða betur?

Ég er aðeins einfaldur og áhrifalaus Sjálfstæðismaður en mér gremst verulega framkoma bæjarstjórnarinnar og skil hana alls ekki. Það er síst af öllu stefna Sjálfstæðisflokksins að berjast gegn almenningi heldur vinna með sem flestum sjónarmiðum og reyna að leiða mál þannig til lykta að allir geti vel við unað. En að stefna málum í óefni er einfaldlega rugl, stappar nærri því að vera skepnuskapur. 

Getur verið að fallegt landslag sé óþarfi í skipulagi sveitarfélags? Hvað þarf til að bæjarstjórnin skipti um skoðun? 


mbl.is Hraunvinir við gröfur ÍAV í Gálgahrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn sem þjóðin hafnaði hefur ekkert lært

Þingmaður Pírata segir þingheim ekki hafa áunnið sér þá virðingu að geta talist hæstvirtur.  Hann hefur því ákveðið að ganga þvert á hefðir alþingis og ávarpar þingheim með eigin forskeytum.  Þessu hefur verið illa tekið hjá sumum enda áminning um raunstöðu þingsins meðal þjóðarinnar.   Stór hluti hennar spyr:  Verðskuldar fólk sem stundar hagsmunagæslu og spillingarstjórnmál að teljast háttvirt?  Eru auðmannasleikjur hæstvirtar?  Eða hugsjónadruslur? Þurfi að þvinga slík ávörp fram með lögum mætti allt eins lögfesta hræsni.  Vissulega er tíma alþingis ekki vel varið með umræðum um titlatog.  Samt hvet ég þingmanninn til að láta ekki bugast.  Ástæðan einfaldlega sú að sannfæring er hefðinni æðri.   Hlutur sem margir eiga ólært.  LÁ

Hann heitir Lýður Árnason sem þetta ritar á dv.is. og gerir að umtalsefni að einn þingmaður Pírata vilji ekki fara eftir hefðum á þingi.

Orðalag Lýðs Árnasonar er skrýtið, hann talar um „raunstöðu þingsins meðal þjóðarinnar“. Ef til vill á hann við að þingið njóti ekki þeirrar virðingar sem þarf á meðal hennar. Vel má vera að það sé rétt hjá honum. Hins vegar hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því hvers vegna þjóðin hafnaði Leifi í síðustu þingkosningum.

Hann var í örflokki sem nefnist Dögun en hrökklaðist þaðan og stofnaði annan örflokk sem nefndur var Lýðræðisvaktin. Þar var hann í skipsrúmi með Þorvaldi Gylfasyni, hagfræðingi, en hann hefur lengi talið sig vita allt um vilja þjóðarinnar, rétt eins og Leifur.

Samtals fékk Lýðræðisvaktin 4.658 atkvæði í kosningunum og kom engum manni að. Dögun fékk hins vgar 5.855 atkvæði eða nærri 1200 atkvæðum meira. Píratar fengu nærri helmingi fleiri atvæði.

Ég er ekki í þeirri stöðu að geta talað fyrir munn þjóðarinnar, ekki frekar en Lýður, sem þó leyfir sér það. Hins vegar veltir maður því fyrir sér hvort munnsöfnuður Lýðs sé ástæðan fyrir því að þjóðin hafnaði honum og félögum hans. Hefði til dæmis svona munnsöfnuður þingmanns orðið til þess að auka álit almennings á þinginu?

Já, margir eiga ýmislegt ólært. Maður hefði þó haldið að sá sem farið hefur illa út úr kosningum til þingsins myndi halda sér til hlés og reyna að læra eitthvað af mistökum sínum.


Fjallið fór og stígurinn er orðinn stór

Vífilsfell 2013Vífilsfell 2001Hérna eru tvær myndir af sama staðnum, sama útsýninu. Sú til vinstri var tekin í gær, laugardaginn 14. september 2013. Hin var tekin 16. júní 2001, fyrir aðeins rúmum tólf árum. 

Margt hefur breyst á þessum tíma. Get nefnt þrjú atriði þar af tvö sem flestir lesendur ættu að koma auga á. 

Litla fellið sem þarna stóð er auðvitað horfið, tekið í burtu og kemur aldrei til baka. Eftir stendur djúp hola sem engum verður til gagns nema hugsanlega þeim sem þurfa að losna við jarðveg annars staðar frá.

Annað sem breyst hefur er gönguleiðin. Fyrir tólf árum var hún mjó og þá sem nú liggur hún yfir ræfilslega mosabreiðu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum ... hefur gönguleiðin breikkað mikið, raunar sigið niður, sem alls ekki er til bóta fyrir göngufólk. Þrátt fyrir þetta hefur ekki orðið mikil aðsókn í Vífilsfell. Ég skrepp þangað talsvert oft og sjaldan sé ég fólk í fjallinu. Í gær sá ég þó sjö manns og fjóra hunda. En gönguleiðir eiga það til að fara út um víðan völl, sérstaklega séu þær ekki merktar og gerðar þægilegar yfirferðar.

Þriðja atriðið sem þó er ekki auðgreinanlegt á myndunum eru slóðir eftir mótorhjól og fjórhjól. Þau eru út um allt þarna enda leyfi fyrir því. Hitt er verra að slóðirnar ná langt útfyrir svæðið, vestan undir Bláfjöll og vestur yfir Bláfjallaveg með hraunjaðri og allt niður í Lækjarbotna. Það er miður. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband