Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Frjálsborinn maður er orðinn þræll hrunsins

Grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í morgun er ótrúlegur misskilningur á aðstæðum fólks sem á undir högg að sækja vegna efnahagshrunsins og afleiðingum þess.

Mér finnst það grundvallarskoðun að samningar milli manna endurspegli jafna stöðu og utanaðkomandi aðstæður geti ekki raskað þeim. Þetta viðhorf hafa allir stjórnmálaflokkar stutt. Nefna má viðhorf þeirra til tjóns af völdum náttúruhamfara. Þar bætir hið opinbera skaða af völdum jarðskjálfta og ber þó enga ábyrgð á þeim, leggur aðeins fram fé sem ekki er hægt að sækja til annarra.

Eftirfarandi ætti ekki að þurfa að valda miklum ágreiningi eða hvað?

  1. Forsendur endurgreiðslna á peningalánum byggja á að forsendur samnings breytist ekki. Hvorugur aðila gerir ráð fyrir kollsteypum í efnahagslífi.
  2. Lántaki reiknar með að geta greitt til baka lán sitt, jafnvel miðað við verðlagsþróun. Afleiðing hrunsins gerði forsendur margra að engu, forsendur brustu.
  3. Almennt tekur fólk ekki hærra lán en það ræður við.
  4. Hrunið má telja sem náttúruhamfarir af mannavöldum. Óreiðumenn voru nærri því að eyðileggja efnahaga þjóðarinnar. Stór hluti íbúðalána var í gjaldþrota bönkum og færður yfir í nýja banka með afslætti. Hver fjármagnaði þann afslátt? Af hverju var hann ekki nýttur skuldurum til hagsbóta?
  5. Stjórnmálaflokkur sem vill koma veltu þjóðfélagsins aftur í gang byrjar á því að útrýma atvinnuleysi með því að auka við fjárfestingu í atvinnulífinu og um leið styrkir eignarhald einstaklinga á íbúðum sínum. Vestmannaeyjar væru óbyggðar ef ekki væri fyrir bætur úr ríkissjóði, tjón af völdum jarðskjálfta á Suðurlandi voru bættir af ríkissjóði. Bæturnar voru ekki út í hött, þær komu samfélaginu öllu til góða, stuðluðu að styrkingu atvinnulífsins.
  6. Erfið og vonlaus skuldastaða á íbúðalánum þúsunda landsmanna veldur efnahagslegum samdrætti. Öll orka fer í að afla fjár til afborgana, viðhald, endurnýjun og kaup á nýju húsnæði bíður. Það getur ekki verið stefna stjórnmálaflokka að bíða eftir því að þetta fólk nái aftur tökum á efnahagslegri tilveru sinni eftir að forsendurbrestur hefur stórskaða það og efnahagslífið.
  7. Stjórnmálabarátta á að snúast um velferð einstaklingsins. Að öðrum kosti er ekkert efnahagslíf.

Víðtæk samstaða hefur náðist í samfélaginu um viðbrögð við náttúruhamförum. Samskonar samstaða hefur ekki náðst um afleiðingar hrunsins. Ábyrgð stjórnmálaflokka er mikil. Frelsi einstaklingsins byggist á að honum sé byggt það umhverfi sem hann fær þrifist í. Að öðrum kosti mun samfélagið aldrei ná sér upp úr kreppunni sem varð afleiðing hrunsins, skiptir engu hvaða stjórnmálaflokkur er við völd.

Stjórnmálaflokkar eiga að leggja áherslu á að leysa úr þeim vanda sem hrunið olli. Það hefur ekki verið gert á síðustu fjórum árum þrátt fyrir loforð um norræna velferð og skjaldborg um heimilin.

Menn geta endalaust kvartað og vælt yfir stöðu efnahagsmála, verðbólgu, ofurskattheimtu og mögrum ríkissjóð. Ekkert af þessu skiptir þó máli ef möguleikar einstaklingsins til sjálfsbjargar eru gerðir að engu vegna forsendurbrests. Einstaklingur sem hefur misst allt sitt kann að vera frjálsborinn en hann verður við þetta þræll hrunsins. 


Megum ekki vera að því að sakna Halldórs

Fréttin um að Halldór Gunnarsson hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum er ótrúleg. Ég sat á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins og fylgdist með Halldóri, studdi hann í sumum málum.

Í efnahags- og viðskiptanefnd fundarins kom hann með nýja ályktun sem hann lagði fram gegn þeirri sem undirbúin hafði verið. Hann fékk mjög góðar undirtektir en ályktunin var engu að síður felld og munaði ekki miklu á atkvæðum.

Eftir þann mikla stuðning sem Halldór hafði fengið í þessari stóru nefnd fannst mér hann ekki koma vel fram við okkur, þá sem studdu hann í nefndinni. Hann hvarf á braut og reyndi ekki einu sinni að koma sínum áherslum fram í umræðum um ályktunina.

Halldór bauð sig fram til formanns. Hann vissi að það var vonlaust framboð og raunar heimskulegt að halda því til streitu. Fyrir vikið fengu margir þeirra sem ekki þekkja til hans þá hugmynd að maðurinn væri að grínast með framboðið, væri einfaldlega í hlutverki trúðsins. 

Persónulega þekki ég ekki Halldór Gunnarsson en eftir að hafa fylgst með honum á tveimur landsfundum veit ég að hann er heiðarlegur og góður maður, síst af öllu er hann trúður. Við náðum árangri í ályktun um skuldavanda heimilanna og verðtrygginguna á fundinum 2011, ekki síst vegna málflutnings Halldórs. Ég hefði gjarnan viljað ná betri árangri í þessum málum á síðasta landsfundi en það gekk ekki upp.

Mér finnst hins vegar heimskulegt af Halldóri að rjúka núna til og segja sig úr Sjálfstæðisflokknum. Hann skilur eftir fjölda samherja, fólk sem hefur svipaðar skoðanir í fjölda mála. Mér er það til efs að Halldór finni fjölmennari stuðning í öðrum stjórnmálaflokki. Til að mynda sátu á þriðja hundrað manns í efnahags- og viðskiptanefnd á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er lein nefnd sem líklega er fjölmennari en sem nam öllum þeim er sóttu landsfund Vinstri grænna um sömu helgi.

Þetta sýnir einfaldlega styrk Sjálfstæðisflokksins sem Halldór kveður nú. Við sendum bara kveðju á Halldór, megum ekkert vera að því að sakna hans því nú líður að kosningum, baráttan fyrir breyttum stjórnarháttum á Alþingi og ríkisstjórn.


mbl.is Segir sig úr Sjálfstæðisflokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skyndilegur samstarfsvilji rétt fyrir kosningar

Þetta gengur einhvern veginn ekki upp, þessi skyndilegi samstarfsvilji Samfylkingarinnar. Í fjögur ár hefur stjórnarskrármálið verið keyrt áfram eins og engin sé stjórnarandstaðan, rétt eins og allir séu sammála og vilji svo til að einhverjir hafi aðrar skoðanir, þá skuli þeir hundsaðir.

Þetta er ekki aðferðin sem meirihluti má nota í jafn mikilvægu máli. Raunar er það þannig að meirihluti sem setur ósanngjörn lög á það á hættu að nýr meirihluti afnemi þau lög að hluta eða öllu leyti. Til hvers er þá allur bardaginn, hávaðinn og allt þetta erfiði?

Ég skil fyllilega þá þörf sem margir finna í hjarta sínu fyrir því að breyta stjórnarskránni, að hluta eða að öllu leyti. Vandinn er bara sá að ég og fjöldi annarra er á móti. Raunar erum við fjölmörg sem sjáum ekki tilganginn í því gjörbreyta stjórnarskránni. Sé hins vegar ætlunin að breyta verður að gera það á þann hátt að breytingarnar haldi. Það má ekki fara að stjórnarskránni með offorsi. Illa útfærð breyting á umferðalögum getur stórskaðað vegfarendur. Til þess eru lög að þau valdi ekki skaða. Af öllum lögum er mikilvægast að stjórnarskráin haldi. Hún hefur óneitanlega gert það hingað til.

Við breytum síst af öllu stjórnarskrá til að friðþægja stjórnlagaráð eða einhverja einstaklinga sem þar sátu. Breytingarnar þurfa að vera betri og skilmerkilegri en ákvæði núverandi stjórnarskrá. Það er talsvert verkefni í sjálfu sér og krefst samstarfs margra að vinna slíkt.


mbl.is Sátt um áfangaskiptingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin marktæk greining á fasteignamarkaðinum

Fj samningaVissulega hefur fasteignasala frá hruni farið vaxandi á höfuðborgarsvæðinu og það er rétt að 128 þinglýstir samningar eru með því mesta frá 2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti sem ég henti upp mér til upplýsingar.

Undanfarin ár hefur sífellt verið klifað á því að fasteignamarkaður íbúða sé að taka við sér. Hvað þýðir það og hvaða tilgangi þjóna slíkar upplýsingar ef ekki fylgja með tölfræðilegar greiningar á markaðnum?

Varla telst það fræðileg greining þó birt Þjóðskrá birti hráar tölur um seldar eignir, fjölda þeirra, meðalverð og svo framvegis. Meiru skiptir er að fasteignamarkaðurinn sé til dæmis skoðaður í hlutfalli við heildarmarkaðinn, þeirra eigna sem eru á markaði, verðmæti þeirra, staðsetningu og annars sem hér skiptir máli.

Seljendur eru fjölmargir en þeir eru ekki allir einstaklingar eða fjölskyldur. Fjölmargar íbúðir eru í eigu fjármálastofnana og það skiptir máli hvernig þær eru seldar og við hvaða verði.

Um leið að skoða hvert sé hlutfall þeirra sem kaupa íbúð án þess að eiga íbúð fyrir, en það á við þá sem kaupa íbúð í fyrsta sinn sem og þeirra sem kaupa aftur eftir að hafa misst íbúð.

Það sem hér skiptir mestu máli er að skoða markaðinn og greina hann. Vandinn er sá að bankar og fasteignasalar hafa af því mikla hagsmuni að verð íbúða hækki sem mest og þessir aðilar hafa alla möguleika til að tala verðið upp og svo virðist sem að þeir reyni það. Fyrir flesta aðra skiptir máli að markaðsverð íbúða sé sem jafnast, taki ekki gríðarleg stökk upp á við rétt eins og gerðist á síðasta áratug.


mbl.is Mikil fasteignasala á höfuðborgarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennsla er kvennastarf vegna lágra launa

Fækki karlmönnum sem leggja fyrir sig kennslu er aðeins ein ástæða fyrir því. Launin eru of lág. Að öllum líkindum er viðhorf karla og kvenna til starfa ólíkt. Karlar velja störf eftir þeim launum sem bjóðast en konur líta til fleiri hluta eins og starfsaðstæðna, öryggis í starfi og álíka. Þar af leiðandi verða til fjölmennar kvennastéttir hjá ríki og sveitarfélögum.

Vilji svo til, sem vonandi gerist, að á næstu árum hækki laun kennara, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og slíkra dæmigerðra kvennastétta, má telja fullvíst að karlar sæki meira í þessi störf.

Til að laun kennara hækki þarf hins vegar að taka til í samningum þeirra, greiða þeim fyrir unnar stundir, hætta með ótrúlega flókna útreikninga sem fæstir átta sig á nema sérfræðingar. 


mbl.is Karlmönnum við kennslu fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laugardagsferð á Vífilsfell með tíkinni Mollí

DSC_0031

Við gengum upp í Vífilsfell í dag, tveir saman og einn hundur, Guðbergur og Mollí. Þegar við hringdum okkur saman í morgun sagði Bubbi það vissara að vera fyrr á ferðinni en síðar, spáð væri hvössum vindi eftir því sem á daginn liði.

Við álpuðumst þó ekki af stað fyrr en um klukkan eitt. Við félagarnir erum búnir að krossganga Vífilsfell á allan mögulegan hátt á síðustu tveimur árum. Við völdum suðausturhornið upp á sléttuna. Langt síðan maður hafði gengið þá leið.

Um fimm gráðu hiti var í Reykjavík og eiginlega úrkomulaust. Þegar við komum upp á Sandskeið tók að rigna og í Jósefsdal var hvasst og byrjað var að snjóa. Hetjur láta slíkt ekki á sig fá og við bröltum upp á sléttuna sem oft er svo kölluð en stendur ekki undir nafni nema fyrir það að hún er láréttari en aðrir hlutar fjallsins.

DSC_0053

Þarna uppi hittum við þremenninga sem höfðu komið upp norðausturhornið og að móbergshryggnum á sama tíma og við. Við höfðum það á orði, fimmmenningarnir og hundstíkin, að margir fundir væru fámennari. Þeir lögðu svo í móbergið en snéru við skömmu síðar. Sögðu snjófannirnar vera of harðar og móbergið sleipt, vantaði brodda til að komast upp.

Raunar orðuðu þeir það þannig að „ávinningurinn af lóðréttu brölti samsvaraði ekki erfiðinu sem í það væri lagt“.

Fannst okkur, tvímenningunum og tíkinni, þetta vel ígrunduð hagfræði og ekki síður að geta brugðið henni fyrir sig í fjallgöngu og rökstutt þannig vel heppnað fráhvarf.

DSC_0076

Skildu nú leiðir með okkur og við Bubbi og Mollí röltum vestur eftir sléttunni, sem þó er engin slétta, eins og áður var getið og ég tók myndir af svarthvítu landslaginu.

Svo skröltum við niður norðausturhornið og héldum inn í Jósefsdal þar sem við höfðum skilið bílinn eftir og var hann þar á sama stað, trúr og dyggur.

Svona fór um ferð þessa. Myndirnar skýra sig sjálfar en sagan þykir líkleg til næsta bæjar. 


Gæfa að Steingrímur fékk engu ráðið um bjórinn

Framleiðsla og neysla bjórs er bönnuð í Írak, segir í fréttinni. Samband ungra Sjálfstæðismanna tók saman nokkrar umsagnir þingmanna þegar framvarp til laga um bjórinn var til meðferðar á Alþingi fyrir tuttugu og fjórum árum. Um forspá Steingríms J. Sigfússonar, alþingismanns, geta menn dæmt af eftirfarandi (feitletranir eru mínar):

Ég held að það sé mikill misskilningur, herra forseti, kannski einhver alvarlegasti misskilningurinn, að með áfengu öli flytjist inn í landið einhver bjórmenning. Slíkt gerist ekki á þann hátt. Ég held hins vegar að ókostirnir, sem felast í sjálfu ölinu og brestum mannlegs eðlis í samskiptum við það, komi inn með neyslunni samstundis. Ég hlýt því að vara mjög við því í öllu falli, hver sem örlög þessa frv. verða, að menn haldi að hér sé hægt að setja upp tugi jafnvel hundruð af ölstofum og að það skapi ekki upplausn í samfélagi eins og Íslandi sem ekkert hefur haft af slíku um áratuga skeið." Steingrímur J. Sigfússon.

Ég hefði talið skynsamlegt að reyna að velja einhvern tiltekinn þröngan styrkleikaflokk og hafa ölið á honum. Það hefði haft áhrif að mínu mati ef við hefðum t.d. ákveðið að áfengt öl skyldi vera af styrkleikanum 3,25--3,75, hvorki meira né minna, búið. Frekar létt öl, en samt klárlega áfengi og eingöngu meðhöndlað sem slíkt og selt sem slíkt. Steingrímur J. Sigfússon, 2. mars 1988.

Ég óttast að áfengt öl, sérstaklega léttara ölið, geti orðið fyrsta sporið inn á braut vímuefnanna. Steingrímur J. Sigfússon, 2. mars 1988.

Í Íran ku vera margir á ofangreindri skoðun.

Skál í bjór, léttum og sterku, dökkum og ljósum, í flöskum eða dósum, af stút eða glasi. Þjóðinni hefur bara gengið nokkuð vel að fóta sig með bjórinn frá því 1988.

Hér hefur myndast bjórmenning, hundruð ölstofa hafa verið stofnaðar og upplausnin hefur engin verið.

Hugsið ykkur, ágætu lesendur, hvað hefði gerst hefði Steingrímur ráðið ferðinni. Við værum ábyggilega með afar þróað bjórlíki, blöndu af pilsner og vodka. 

 

 


mbl.is Afmæli bjórsins á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjallabak, Landmannalaugar og nærsveitir

DSC_0290_Undir_Hatti_til_V

Hvað veldur vinsældum nokkurra staða á hálendinu, til dæmis Landmannalauga? Um daginn auglýstu nokkur sveitarfélög sem eiga land að Fjallabaki rammaáætlun fyrir svæðið. Út af fyrir sig er hlýtur rammaáætlun að vera af hinu góða sé vel að henni staðið.

Ég þekki Fjallabak talsvert vel, hef víða gengið þar um mér til mikillar ánægju og fer þess nærri hvers vegna margir staðir njóta vinsælda. Þar skiptir eftirfarandi máli:

  • Náttúrufar
  • Þjónusta
  • Leiðarval
980409-22

Landmannalaugar og raunar allt Fjallabak hefur einstakt yfirbragð. Líparítið á þar hlut að máli, falleg og marglit fjöll, jarðhiti og margt fleira. Náttúrufar er þar einstaklega fallegt og svo er það laugin sem hefur ótrúlegt aðdráttarafl. Þar hefur verið byggð upp þjónusta fyrir ferðamenn, til dæmis góð salernisaðstaða sem er lykilatriði fyrir flesta. Þessu til viðbótar er staðurinn í alfaraleið að sumarlagi, gönguleiðir eru margar og þær nýtir ferðafólk sér.

Ofangreint er ástæðan fyrir því að erlendir ferðamenn fjölmenna í Landmannalaugar í gistingu. Líklega eru útlendingar 80% ferðamanna í Laugum. Íslendingar eru eiginlega hættir að koma þangað nema í upphafi og lok ferðatímabilsins eða þá að þeir koma þar við án þess að gista.

810821-7

Fyrir um þrjátíu árum var nokkur umræða um að loka Landmannalaugum fyrir tjaldfólki og færa tjaldsvæðið að vegamótunum, þar sem beygt er af Fjallabaksleið nyrðri og í Laugar og stundum er nefnt Sólvangur. Þessi hugmynd náði aldrei neinni athygli nema hjá þeim sem sáu fram á að örtröð yrði smám saman í Laugum og finna þyrfti annan stað fyrir tjöldin. Síðan þá hefur tjaldsvæðið í Laugum stækkað og fleiri koma þar til gistingar en nokkurn mann óraði fyrir. Tjaldsvæðið er langtímum saman yfirfullt og nú gistir fjöldi manns við Landmannahelli. 

Merktar gönguleiðir eru margar við Landmannalaugar en enn verður að fullyrða að Íslendingar nýta sér þær frekar lítið. Ég fullyrði að verði tjaldsvæðið flutt frá Landmannalaugum myndi gildi landsvæðisins í engu minnka fyrir göngufólk. Þvert á móti kynni það að aukast að miklum mun.

900400-79

Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur en fyrir löngu ofsetin en engu að síður er haldið áfram að selja ferðir þangað og um leið vanrækt að byggja upp aðrar leiðir. Og í raun eru margar gönguleiðir skemmtilegri en Laugavegurinn. Hann er stórgallaður og ótrúlegt að í dag gengið skuli um veginn í Emstrum þar sem er orðin talsverð umferð ökutækja. Væri núna verið að velja svæði fyrir Laugaveginn myndi hann áreiðanlega vera settur vestan við Emstrur og þá gengið suður frá Álftavatni. Þar þyrfti að vísu að setja upp nokkrar göngubrýr. Ég er enn á þeirri skoðun að gönguleiðin um Jökultungur séu mistök og betra hefði verið að hafa hana um Svartahrygg.

890904-10

Útivist hefur byggt upp gönguleið vestan við Laugaveginn, raunar er þar orðin vinsæl gönguleið allt frá Sveinstindi, í Skælinga, Eldgjá, Hólaskjól, Strútslaug, Strútsskála og inn á Laugaveginn. Leiðin hefur stundum verið nefnd Skólavörðustígurinn, ástæðan liggur í augum uppi.

Útivist hefur einnig gefið út gott kort yfir gönguleiðir um Strútsland, svæðið sunnan Torfajökuls og í kringum fjallið Strút en þar á félagið vandaðan skála sem er til mikils hagræðis fyrir göngufólk. 

Staðreyndin er sú að á Fjallabaki eru ótrúlegur fjöldi skemmtilegra gönguleiða og margar hverjar hafa ekki enn komist á nein kort. Vandinn er sá að komast hjá því að fara í örtröðina í Landmannalaugum sem þó er eins og segull vegna þjónustunnar.

Væri ég beðinn um ráð vegna skipulags á Fjallabaki myndu þau vera þessi. Gera þarf greinarmun á þjónustu við göngufólk og hins vegar vaxandi umferð bílafólks. Þessir hópar skarast auðvitað, bílafólk fer í göngur og göngufólk kemur á bílum. Hins vegar er stór hópur sem ekur í gegn og þarf á þjónustu að halda:

DSC_0351

Byggja upp tvær þjónustumiðstöðvar; Á austursvæðinu, við Eldgjá og þá fyrir bæði bílafólk og göngufólk, sambærilegt við Landmannalaugar.

Á vestursvæðinu; við Dómadalsleið, t.d. við Dómadalsháls eða Klukkugilsfit. Þar ætti að byggja upp þjónustu fyrir göngufólk.

Sunnan fjalla, við Fjallabaksveg syðri, hefur Ferðafélag Íslands byggt upp góða þjónustu við göngufólk við Álftavatn.

Í Hvanngili er góð aðstaða fyrir bílafólk.

Útivist sinnir göngufólki með Strútsskála.

Dalakofinn er lítið þekktur en gæti nýst fyrir göngufólk. Hins vegar vantar allar aðstæður fyrir göngufólk sunnan Dalakofans, fyrir svæðið fallega sem nær allt suður í Tindfjallajökul.

Svo má ekki gleyma því að víðast hvar um landið eru stókostleg svæði fyrir þá sem unna útiveru, gönguferðum, bílferðum, skoðunarferðum ... Gæti nefnt 273 staði. 

Myndirnar sem fylgja þessum hugleiðingum eru þessar:

  1. Undir Hatti í Hattveri, skammt austan Landmannalauga. Myndin er tekin síðasta sumar.
  2. Á skíðum 1998 við Suðurnámur, skammt vestan við Landmannalaugar.
  3. Árið 1981 í Landmannalaugum.
  4. Gamli skálinn í Hrafntinnuskerið árið 1990.
  5. Myndin er tekin skammt frá Hólaskólið árið 1989.
  6. Í rigningu sunnan við Strútslaug árið 2010.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband