Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Ástæða til að hafna formanni VR

Stefán Einar Stefánsson, formaður VR gerir það sem margir gera þegar enginn kemur þeim til aðstoðar, hælir sjálfum sér og verkum sínum og dregur inn starfsfólk VR til að gera ekki of mikið úr eigin ágæti.

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag nefnir hann átta atriði sem eiga að votta um ágæti mannsins og að við, félagar í VR, eigum að endurkjósa hann.

Silkihúfur á launum frá ríkinu 

Fjórði liður upptalningarinnar vakti athygli mína. Hann hljóðar svo:

Félagið hefur tekið við þjónustu við atvinnuleitandi félagsmenn sína og hefur því tækifæri umfram það sem áður var til að styðja við bakið á félagsmönnum sínum.

Það sem Stefán og félagar hans gerðu var að stofna einkahlutafélag í samvinnu við SA og ASÍ til að taka við þeim verkefnum sem Vinnumálastofnun hefur hingað til sinnt og ekkert hefur verið hægt að setja út. Fyrirtækið heitir Starf ehf. og rekur nú algjörlega sömu þjónustu og fær til þess peninga úr ríkissjóði.

Í stjórn Starfs ehf. situr Stefán Einar Stefánsson ásamt öðrum silkihúfum atvinnurekenda og launþegasamtaka. Fyrir stjórnarsetu sína þiggur Stefán Einar laun. Þess má geta að enginn þáði laun fyrir stjórnarsetu meðan þetta apparat var innan Vinnumálastofnunar.

Gerir allt nema útvega starf

Verkefni Starfs eru sögð þessi:

Þann 10. febrúar 2012 var undirritað samkomulag milli velferðarráðuneytisins, Vinnumálastofnunar (VMST), Samtaka atvinnulífsins (SA) og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) um að efna til þriggja ára tilraunaverkefnis sem hefur það markmið að efla vinnumiðlun og stuðla að virkari vinnumarkaðsaðgerðum, sem jafnframt auki líkur atvinnuleitenda á því að fá störf á vinnumarkaði að nýju.

Ekki hefur Starf ehf. haft neitt erindi sem erfiði í að útvega atvinnulausum vinnu. Fyrirtækið getur það ekki, kann það ekki og hefur ekki hugmynd um hvernig eigi að fara að því.

Þvingar einstaklinginn 

Þess í stað býður Starf ehf. upp á námskeið. Sum þeirra eru skyldunámskeið. Þar er fullorðnu fólki skipað að mæta að viðlagðri þeirri refsingu að atvinnuleysisbætur þeirra skerðist mæti það ekki. Í mörgum tilvikum er um að ræða námskeið sem margir þurfa ekki á að halda. Þó er ekki við það komandi að fá að sleppa við slíkt námskeið.

„Þú hefur bara gott af því að mæta,“ segja ráðgjafar Starfs ehf. með hrokablik í augum. Minnir á skátann sem átti að gera eitt góðverk á dag er hann dró gömlu konuna yfir götuna þvert á vilja hennar. Þetta fyrirtæki, silkihúfurnar í stjórninni og starfsmennirnir fyrirtækisins hafa greinilega eitthvað misskilið verkefni sitt.

Ég kýs ekki þennan Stefán 

Þetta lið þykist hafa meira vit á stöðu einstaklingsins en hann sjálfur en hefur þó engan bakgrunn né þekkingu til að vita það. 

Ofangreint er ástæðan fyrir því að ég ætla ekki að kjósa Stefán Einar Stefánsson aftur sem formann VR.


mbl.is VR stóð á tímamótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan af flóttanum undan óveðrinu

DSCN1318Flestum er hollt að fara út, takast á við óblíð veður, þola votviðrið, veðrabrigðin, vera kalt, vera votur í fætur.

Fæstir þola inniveruna. Hún er að vísu alveg ferlega góð og þægileg. Þegar á bjátar er hins vegar engin reynsla fyrir hendi, fólki fellist hendur, gefst upp.

Útiveran herðir fólk og hún er skemmtileg. Hvað er eiginlega betra en löng gönguferð, gönguferðin á móti storminum, móti illviðrinu? Á eftir er matarlystin aldrei betri, lundin sjaldan léttari og hugurinn svo ferskur að maður gæti ort þrítuga drápu (sem maður af náungakærleikanum einum saman.

Við erum nokkrir vinir sem höfum haft ákaflega gaman af ferðum á Fimmvörðuháls. Þeir eru nú orðnir afgamlir og treysta sér ekki lengur upp á Hálsinn og ég, enn ungur og frískur, hef þar af leiðandi aungva ferðafélaga og læt mér því duga að rifja upp gamlar minningar um hrakningar á Hálsinum, eins og þessa:

930108-1

Ég man eftir því þegar við flúðum eins og við gátum undan djúpu lægðinni sem nálgaðist landið með ógnarhraða. 

Við vorum uppi í Fimmvörðuskála í byrjun janúar 1993 og þetta var í eitt af þeim örfáu skiptum sem við höfðum þar félagsskap annarra. Það voru þeir Jón Sigurðsson, húsasmiður, sem stjórnað hafði endurbyggingu Fimmvörðuskála, auk hans Leifur Jónsson, læknir og Hrafn Antonsson, sem einnig höfðu komið mikið við þá sögu. Með þeim var Ragnheiður Hermannsdóttir, mikil útivistarkona, sem einnig hafði tekið hvað drýgstan þátt í endurbyggingunni. 

Þessi fjögur höfðu á þessum árum þann starfa að sjá um viðhald og endurnýjun á Fimmvörðuskála og höfðu fengið þá flugu í höfuðið að eyða þrettándanum uppi á Hálsi. Var það nú frekar vanhugsað hjá þeim enda ekki aðrir en vitleysingar sem halda til fjalla um þetta leyti árs. Þau lærðu þó af reynslunni því þetta var fyrsta og síðasta ferðin hjá þeim um miðjan vetur.

Einhver fjárans flensa gekk um landið þarna í desember og janúar eins og svo oft áður. Henni sló niður í mig uppi í Fimmvörðuskála og fyrir vikið var ég lá ég flatur í koju á laugardeginum og hafði mér það til dundurs að lesa, hlusta á fréttir og veður þennan dag, meðan félagar mínir skemmtu sér utan dyra og gengu á Eyjafjallajökul. Þeim miðaði seint upp, því lausasnjórinn var mikill og logndrífa. 

930108-26

Í hádeginu heyri ég að gefin hafði verið út aðvörun um stóra lægð fyrir sunnan land sem myndi valda óveðri á Suðurlandi og víðar. Mér krossbrá og rauk upp af sóttarsæng og rekst á Hrafn, sem komið hafði upp á vélsleða, og fæ hann til að skutlast með mér upp á Eyjafjallajökul. Í sjálfu sér var sú ferð ævintýri líkust, því birtan var orðin verulega erfið vegna snjóblindu. Hrafn ók tóma vitleysu og festi sleðann hvað eftir annað í lausum púðursnjónum en við náðum loks til skíðamannanna lengst uppi á jökli þar sem þeir tróðu púðursnjóinn í logninu. Þeir trúðu mér nú varlega, en þar sem ég skrökva sjaldnast tvisvar í röð, samþykktu að snúa við. Það tók þó sinn tíma að komast niður í skála aftur og þangað voru þeir ekki komnir fyrr en í rökkri, líklega um fimmleytið.

Hóparnir tveir réðu nú ráðum sínum, en ótrúleg fannst mörgum spáin, því enn var logn úti, stjörnubjartur himinn og tunglið sló silfruðum bjarma á snævi þakið landið. Líklega hafa þessir félagar mínir haldið að ég hafi verið að hrekkja þá, því allir nema ég vildu bíða eftir veðurspánni sem væntanleg var rétt fyrir klukkan sjö og á meðan var ákveðið að matreiða veisluföngin sem við höfðum flutt með okkur upp, nautakjöt og tilheyrandi sem Óli Þór Hilmarsson hafði útvegað og valið af mikilli fagmennsku.

930108-13

Veðurstofan stóð við spá sína frá því fyrr um daginn og hélt því fram að veðrið myndi skella á um miðnætti. Þá var mér loksins trúað og ekki þurfti að messa frekar yfir félögum mínum. Það lá í augum uppi að gengi veðurspáin eftir yrði ekkert ferðaveður daginn eftir, heldur norðan eða austan fárviðri, skafrenningur og líklega ofankoma til viðbótar. Við ákváðum því að fara niður um kvöldið. Mér létti því ég nennti alls ekki að hanga þarna lengur ónýtur í flensuskít.

Við vorum ekki tilbúnir til brottfarar fyrr en um níu leytið enda þurftum við að ganga vel frá skálanum. Enn var veðrið gott. Við renndum okkur á skíðunum niður af hryggnum sem skálinn stendur á og þaðan gengum við að Fúkka. Hrafn ók vélsleðanum um skarðið sem kallað Bílaskarð meðan um það var fært bílum og er nokkru austar á hryggnum. Með honum voru þau Leifur, sem sat aftan á sleðanum og Ragnheiður sem kom sér fyrir á farangrinum á dráttarsleðanum. Jón gekk með okkur á skíðum enda vart annað sæmandi, því hann er góður skíðagöngumaður, borinn og barnfæddur Siglfirðingur, eiginlega fæddur með gönguskíði á fótunum. 

Við Fúkka skildu svo leiðir, við örkuðum niður en Jón lét vélsleðann draga sig. Okkur fannst það svolítið fúlt að fjórmenningarnir skyldu fara á undan okkur, þeir buðust ekki einu sinn til að finna bestu leiðina fyrir okkur að bílnum sem var rétt fyrir neðan vað. Jæja, við því var ekkert að gera, við þurftum ekki á neinni aðstoð að halda. 

Enn var veðrið gott. Strákarnir göntuðust með það að þetta væri nú bara enn ein falsspáin frá Veðurstofunni og svo hlógu þeir að mér veltu fyrir sé hvað hin „veðurhrædda kelling“ kæmi með næst. Það fór ekki á milli mála að þeir áttu við mig.

940107-36

Svolítið þykknaði í mér við stríðnina en samt gat ég ekki betur séð en að líka væri farið að þykkna upp í suðri, að minnsta kosti sáust engar stjörnur í þeirri átt, en ekki vildi ég hafa orð á því. Það kemur kemur, hugsaði ég, og vildi forðast skens frá félögum mínum.

Við gengum rösklega þrátt fyrir myrkur og flensu enda gjörþekktum við leiðina eftir margar ferðir í dagsbirtu og myrkri. Nokkru fyrir neðan Fúkka, eru ofurlítil dalverpi sem við nefnum okkar á milli „Dalina þrjá“ og þar í myrkrinu sló ljósgeisla í augun á okkur. Hrafn og félagar voru komnir til baka á vélsleðanum því þeir rötuðu ekki niður, höfðu villst. Okkur þótti það mátulegt, gerðum svolítið grín að þeim, þóttumst sjálfir ekkert rata, en þau voru ekki svo vitlaus að leggja nokkur trúnað á það. Að sjálfsögðu gáfum við þeim áttavitastefnuna, en vöruðum þau við að fara um of í austur, þar væri stóra gilið. Svo hurfu þau og sáum við þau ekki aftur í þessari ferð.

Þegar við komum niður að bílnum var farið að hvessa svolítið og þá þótti félögum mínum tilhlýðilegt að leggja það af að uppnefna mig. Veðurspáin virtist vera að rætast.

Þorvaldur átti bíllinn, sem var nýleg Toyota Double Cab á 33 tommu dekkjum, sem voru svona heldur lítil fyrir þessa ferð en dugðu undir venjulegum kringumstæðum. 

Við ókum nú af stað niður, en nú hafði aðeins slaknað á frostinu. Þar sem við höfðum tveimur dögum áður ekið á hörðum snjó, pompaði bíllinn hér og þar niður og við þurftum að hlaupa út og moka frá. Smám saman mjökuðumst við niður á við í áttina að Skógum en um leið versnaði veðrið jafnt og þétt. Það byrjaði með hressilegum lágarenningi, svo tók við kafaldshríð og enn bætti í vindinn. 

Ekki þykir góð lenska að aka bifreið eftir minni, en í þetta sinn kom sér vel að við þekktum leiðina vel. Óli Þór og Reynir fóru út og gengu á undan, en Þorvaldur ökumaður, hékk hálfur út um gluggann, og ég, sjúklingurinn, fékk að sitja inni nema þegar bíllinn sat fastur þá var ég dreginn út til að moka.

930108-7

Hlutverk mitt var þó eins og miðils, ég pírði augun, teygði álkuna út að framrúðunni svo við lá að nefið næmi við hana, og þar skimaði ég og tuldraði hægri eða vinstri eftir því hvernig andinn eða flensan blésu mér í brjóst. Í sameiningu tókst okkur að halda bílnum á réttri leið á leiðinni niður þótt skyggnið væri svo til ekkert. Að vísu segja strákarnir núna að það hafi ekkert gagn verið af mér, ég hafi verið með óráði mest allan tímann og bullað eitthvað um vinstri og hægri í stjórnmálum sem er nú bara vitleysa.

Mestar áhyggjur höfðum við að brekkunni niður að Skógum. Þar sker vegurinn á kafla bratta brekku og í þessari austlægu átt voru líkur til þess að þar skæfi snjó í veginn og viðbúið að við myndum festa bílinn þar. Við drógum því upp farsímann og hringdum í félaga okkar á vélsleðanum og vildum fá fréttir af vegamálum. Við hringdum lengi, lengi, aftur og aftur, enginn ansaði. Loks kom einhver í símann og kom þá í ljós að þessir ágætu vinir okkar voru fyrir löngu komnir að Skógum og farnir að sofa þar hjá tengdaföður Hrafns er þar bjó. Af góðmennsku sinni ráðlögðu þeir okkur að lalla okkur bara niður ef festum bílinn og svo myndu þeir hjálpa okkur að sækja hann á daginn eftir. Svo var skellt á.

Við blótuðum þeim í sand og ösku og fannst tilvalið að einhver æðri máttur mætti nú refsa þeim fyrir letina.

Við komum nú í brekkuna hræðilegu og það var ástandið eins og við héldum, mikill snjór svo mótaði ekki fyrir veginum, en sem betur fer var snjórinn léttur, hafði ekki enn náð að pakkast, svo bíllinn komst nokkuð auðveldlega í gegn.

Um fimmleytið um nóttina stóðum við á hlaðinu á Skógaskóla og veltum fyrir okkur hvað við ættum að gera. Var ófært um Suðurland? Enn snjóaði mikið og skóf, þó ekki væri eins hvasst þarna og uppi á Skógaheiði. 

Við skiptum um föt enda orðnir blautir af svita eftir gönguna og moksturinn og svo fengum við okkur að borða og lögðum á ráðin. Fyrst datt okkur í hug að skera á dekkin á bíl okkar góðu „hjálpsömu“ vina, svona í þakklætisskyni fyrir alla „aðstoðina“. Við hurfum þó frá því ráði og ókum þess í stað rakleiðis til Reykjavíkur þangað sem við komum um átta leitið um morguninn. 

Eftirmálinn var þó lengri, því ég lá í flensu í viku. Vinir okkar sem gistu á Skógum fengu sína refsingu fyrir óliðlegheitin við okkur, því þeir komust ekki til Reykjavíkur fyrr en á þriðja eða fjórða degi vegna ófærðar. Veðrið færðist svo aldeilis í aukana að það var hreinlega snælduvitlaust í þrjá daga á Suðurlandi, allir vegir ófærir vegna snjóa. 

Þessi saga rifjast oft upp þegar rætt er um vond veður. Raunar eru sögurnar fleiri. Geymi þær til betri tíma.

Mynd nr. 1 er tekin í Móskarðshnúkum í hrakningaferð fyrir nokkrum árum.

Mynd nr. 2: Fimmvörðuskáli í þessari ferð sem ég er að reyna að dramatísera. 

Mynd nr. 3: Þarna náðum við til félaga minna sem voru hálfnaðir upp á Eyjafjallajökul og ég gat með naumindum fengið þá til að snúa við. 

Mynd nr. 4: Fjórir ríðandi á einum vélsleða. Þetta var fyndið. Myndin er tekin á leiðinni upp á Hálsinn.

Mynd nr. 5: Á leiðinni upp og niður af jökli festum við okkur nokkrum sinnum í lausamjöllinni. Þessi mynd er tekin við eitt slíkt óhapp. 

Mynd nr. 6: Á leiðinni upp á Hálsinn. 


mbl.is Fara ekki út fyrir minna en 10 m/s
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki margt þarfara en happdrættisstofnun

Er það í raun og veru svo að þjóðin hafi efni á að setja á stofn alls kyns stofnanir til að hafa eftirlit með hinu og þþessu án tillits til kostnaðar og fyrirhafnar? Mér finnst að svo ótrúlega súrrealístísískt að ætlunin sé að stofna „happdrættisstofu“ að maður verður bara kjaftstopp. Þetta hlýtur að vera atriði í Spaugstofunni.

Gerum okkur grein fyrir stærð þjóðarinnar. Við erum aðeins 330.000 manns og það hljóta að vera takmörk fyrir því hvað við getum aukið mikið við stjórnsýsluna. Ef vel á að vera segja spekingarnir að stofnsetja þurfi ofbeldismálaráð, yfirviktarráð, stofnun sem passar börn og unglinga, stofnun sem gætir að því að ríkisútvarpið standi sig (úbss, er'ða ekki útvarpsráð), ráð sem fylgist með vegagerðinni, nefnd sem hefur eftirlit með munnsöfnuði stjórnmálamanna, ráð gegn munntóbaksnotkun nefnd sem passar upp á að börn sé ekki skírð heimskulegum nöfnum (úbs, við erum með mannannanafnannanefnd sem ræður'essu), nefnd sem fylgist með fjölmiðlum (úbbs, það er líklega fjölmiðlanefnd), ráð sem passar upp á að fólk fari ekki út í vonda veðrið og svona má lengi upp telja og raunar gantast með þetta.

Enginn nefnd hugsar þó fyrir verðmætasköpuninni í þjóðfélaginu. Hvernig eigum við að hafa efni á þessu? Það mætti halda að við hér byggju þrjár eða þrjátíu milljónir manna.

Niðurstaðan er einföld. Ef þjóðin ber gæfu til þess að efla atvinnulífið í landinu verður til óskaplega mikið fjármagn til að leggja í gæluverkefni af ýmsu tagi. Vonandi berum við þó gæfu til þess að kunna að sníða stjórnsýsluna að stærð þjóðarinnar en ekki því sem okkur langar svo óskaplega mikið í.

Einu sinni var það bara nóg að setja lög um tiltekinn málaflokk. Væru áhöld um að þau væru brotin kom lögreglan að málum, síðan saksóknari. Hvað hefur eiginlega breyst?

Hér áður fyrr var nefnd sett í málið. Síðan varð æ vinsælla að setja starfshóp í umræðuna. Þá datt einhverjum í hug málþing. Það var toppað með ráðstefnu sem síðan var topptoppað með ráðstefnu þar sem aðeins var töluð útlenska og ræðumennirnir voru útlenskir. Nú dugar ekkert minna en ráð eða stofnun með nokkrum starfsmönnum og helst símadömu (verður að vera kona).

Já, mikil er forfrömunin.

Hello, you have reached the Lucky Draw Institution of Iceland. Press on for conventional lottery, press two for the Lotto, press three for OneExTwo, press fore for the Lengjan, press five for Card Games, press six for Illegal games, press seven for Olsen Olsen, press eight for Something Else, press nine for Icelandic translation, press ten for further service or have a nice day on your own.


mbl.is Lög um happdrætti úr nefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil er virðing Lilju Rafneyjar

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur hingað til sýnt mikla reisn og er umhugað um virðingu sína og Alþingis. Þetta er konan sem hefur beitt sér fyrir því að ríkisstjórnin sótti um aðild að ESB, þvert á stefnu flokks síns.

Hún er auk þess kona sátta og samvinnu. Það sýnir hún í atvinnuveganefnd þar sem hún hefur algjörlega hafnað samvinnu um fiskveiðilagafrumvarpið og ryðst áfram, treður minnihluta þingsins undir fæti og gerir lítið úr sérfræðingum sem hafa gagnrýnt það.

Já, það er mikil reisn yfir þingmanninum, þeim málefnum sem hún stendur fyrir og ríkisstjórninni í heild sinni. Og virðingin ... við skulum ekki nefna hana. Hún mælist enn í skoðanakönnunum hvað sem síðar verður.


mbl.is Líkti Framsóknarflokknum við flugeld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illt innræti og gengisfelling orða

Alþingi tekur ákvörðun, byggir hana á einhverjum rökum, sem sumir telja vitleysu en aðrir rétta. Er það valdarán er löggjafarþing þjóðarinnar sinnir sínum störfum? Nei, varla.

Fyrir nokkrum misserum kaus sama þing ráðgefandi nefnd sér til fulltingis og bað hana um að leggja fram tillögur um stjórnarskrá sem og hún gerði. Nokkrir fulltrúar í þessari nefnd kröfðust þess að lokinni vinnu hennar að engu yrði breytt í niðurstöðunum. Með öllum ráðum var reynt að koma í veg fyrir að þingið ræddi málefnalega um stjórnarskrárdrögin.

Auðvitað tók þingið sér tíma fyrir umræðuna. En setjum sem svo að hinni ráðgefandi nefnd hefði tekist að koma í veg fyrir umræðu, þingið hefði samþykkt stjórnarskránna. Væri það ekki meira í áttina að valdaráni en að þingið nýtti sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að hætta við stjórnarskráardrög nefndarinnar?

Köllum endilega hlutina sínum réttu nöfnum en gengisfellum ekki tungumálið og fyrir alla muni ekki skrökva til um staðreyndir. Það sæmir ekki upplýstu fólki jafnvel þó illa innrættur hagfræðiprófessor brúki þekkingu sína til að reyna að villa um fyrir öðrum.


mbl.is „Þetta heitir valdarán“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður málþóf í umræðum um vantraust Saaris?

Þór Saari, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar, Hreyfingarinnar, Arinnar, Innar, Ar og Dögunnar á miklar þakkir fyrir að hafa lagt fram vantraust á ríkisstjórnina þegar 52 dagar eru fram að síðasta söludegi hennar.

Þó Þór sé í hefndarhug eftir að hafa verið plataður upp úr skónum margoft á kjörtímabilinu, lofað þeim Steingrími og Jóhönnu stuðningi sem þau misnotuðu fyrir eitthvað allt annað en breytingar á stjórnarskránni eða jafnvel nýja stjórnarskrá.

Aumingja Þór áttaði sig ekki á slóttugheitum ríkisstjórnarinnar, skiljanlega ekki. Svo kemur það í ljós að ríkisstjórnin fattaði ekki að Þór kann að hefna sín og nú er beinlínis hætta á að ríkisstjórnin falli. Ekki út af norræni óvelferðarstefnu, skjaldborgarleysinu, ESB málinu, fiskveiðistjórnarmálinu, ofurskattamálunum, verðtryggingunni eða öðrum stórmálum heldur Þór, sem er raunar ekkert smámál.

Nú eru um átta dagar eftir af þinginu, nógur tími fyrir Álfheiði Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, til að ræða og samþykkja nýja stjórnarskrá. Þennan tíma ætlar Þór að nota til að ræða vantraust en ekki stjórnarskrá.

Vonandi misnotar ríkisstjórnarmeirihlutinn ekki traust Þórs Saari og fer í eitthvað málþóf til að eyða tímanum og koma þannig i veg fyrir að hægt sé að ganga til atkvæða. Verður ekki að ræða þetta hugsanlega málþóf eitthvað nánar áður en til málþófsins kemur?


mbl.is Vantrauststillagan lögð fram aftur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingsályktun um farsæld og stórnarskrá

Stjórnarskrármálið hefur forklúðrast í höndum ríkisstjórnarflokkanna. Til að reyna að bjarga því sem bjargað verður dettur ríkisstjórnarmeirihlutanum í hug að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að fimm manna nefnd eigi að „vinna að farsælli niðurstöðu stjórnarskrármálsins á næsta kjörtímabili.“

Þessi tillaga verður aldrei til neins. Gildishlaðið orðagjálfur er gagnslaust og í ofanálag hreint bull að orða það þannig að hin farsæla niðurstaða sé í því fólgin í eftirfarandi:

Vinna nefndarinnar grundvallist á tillögum stjórnlagaráðs og miði að því að útfæra nánar frumvarp það til nýrrar stjórnarskrár sem nú liggur fyrir þinginu.

Hingað til hefur engin farsæld verið falin í störfum stjórnlagaráðs. Þvert á móti hefur öfgafull afstaða fjölmargar ráðsliða valdið klofningi á þingi og meðal þjóðar. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þinginu beri skylda til að samþykkja tillögu ráðsins óbreytta, rétt eins og þing hafi um það fjallað.

Og nú ætlast þremenningarnir til þess að grundvöllur farsældarinnar sé í því fólgin að „útfæra nánar frumvarp“ stjórnarskrárnefndar. Þetta er algjörlega röng nálgun á viðkvæmt mál. Allt eins má segja að mestar líkur séu á því að farsælast sé að halda í núverandi stjórnarskrá, jafnvel óbreytta.

Svo má nú alveg íhuga hvort nýtt þing kunni ekki að hafa aðra skoðun á farsældinni en þessi þrjú sem að þingsályktuninni standa. Er þá ekki tilgangslaust að leggja fram svona tillögu, hvað þá að samþykkja hana? 


mbl.is Standa saman að tillögu um stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýkja fjölmiðlar frásagnir af veðrinu?

bustadabru_1threngsli_1Hvasst er víðast um landið, en er veðrið svo vont sem af er látið? Er kannski uppi sú stefna að koma fólki af vegunum jafnvel þó veðrið sé slæmt.

Hérna  í Fossvogi er ekkert svo ýkja slæmt veður. Frekar bjart eins og sjá má á meðfylgjandi mynd frá Vegagerðinni.

hellisheidi_1grundartangi_1

Raunar er það svo að hægt er að kanna á einfaldan hátt veður og skyggni með því að fara inn á ágætan vef Vegagerðarinnar.

Þar kemur ýmislegt merkilegt í ljós. Í Þrengslum virðist vegurinn ekki ófær og ekki heldur á Hellisheiði. Skyggni ágætt, eins og það heitir.

holtavorduheidi_1brandagil_1

Við Grundartanga á norðanverðri Hvalfjarðarströnd er flennifæri en líklega frekar hvasst.

Á Holtavörðuheiði er ábyggilega stormur en skyggni er ágætt eins og svo víða annars staðar.

Brandagil er í Hrútafirði og þar er veður svipað.

langidalur_3kambaskridur_1

Fullyrt er að slæmt veður sé við Blönduós, engu að síður er skyggni bara bærilegt inni í Langadal. Ekkert út á það að setja og alls ekki mikill snjór í dalnum.

Af vef Vegagerðarinnar má ráða að veðrið sé verra á Norðausturhluta landsins.

lomagnupur_1markarfljot_1

Ef við færum okkur á Suðausturhornið þá er ástandið bara bærilegt í Kambaskriðum. Fréttir berast af því að slæmt veður sé í Öræfum. Það kemur ekki á óvart í þessari átt.

Þarna er þó auð jörð eins og myndin frá Lómagnúpi sannar.

Og litill snjór er við Markarfljót. Engu líkar er en að þar sé farið að grænka.

Af þessari litlu samantekt má ráða að veðurhljóðið í fjölmiðlum sé dálítið orðum aukið. Það er einfaldlega ekki þannig að þó vont veður sé á höfuðborgarsvæðinu sé allt í hers höndum annars staðar á landinu. Í raun og veru er engin ástæða til að gera fólk veðurhrætt. Vissulega er hvasst á landinu og því mikilvægt að fólk undirbúi ferðir sínar. Það er hins vegar engin ástæða til að lýsa yfir neyðarástandi og halda fólki frá vinnu og skólum hér á höfuðborgarsvæðinu.

 

 

 

 


mbl.is Rúður brotna í óveðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó gvöð, hvað er eiginlega að svona fólki?

920430-214

Hvers konar aumingjar eru Íslendingar að verða. Í fréttinni segir: 

Ekki er gott að segja hvað manninum gengur til og, ef um erlendan ferðalang er að ræða, hvort hann veit af óveðrinu sem skellur á seint í kvöld og stendur fram á morgun.

Það oftast ekkert að því að gista í góðu tjaldi, jafnvel þó úti geysi vetrarstormur. Tjaldið ver mann fyrir hríð, bleytu og roki. Eina sem þarf til viðbótar er góður svefnpoki og helst góð bók eða iPod. Þá líður manni vel fyrir utan veðurglym og rjátl vindsins í tjaldinu.

920500-26

Landinn er orðinn svo góðu vanur, heitum húsum og öflugum bílum, að hann kann ekki lengur að ferðast að vetrarlagi í alls kyns veðrum. Þó eru undantekningar frá þessu, heilbrigt fólk á vegum fjölmargra ferðafélaga og klúbba sem hefur lært á náttúruna og nýtur þess að glíma við hana.

Útbúnaður til ferðalaga er allur orðinn miklu betri en fyrir tíu árum eða áður. Nú skiptir mestu máli að læra á útbúnaðinn, æfa sig og njóta tilverunnar.

Ég hjólaði talsvert um borgina. Í norðangarranum gær og í dag sá ég, er ég beið eftir grænu ljósi á gangbrautum, hvernig léttklætt fólkið í brynvörðum sjálfrennireiðum sínum horfði á mig, sumt með vanþóknun og aðrir með nettri meðaumkun. Ekkert amaði þó að mér. Ég var vel klæddur yst sem innst. Hefði eflaust átt að setja á mig skíðagleraugu, þau hefðu komið sér vel í mótvindinum. 

Thjodverji

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var sagt frá þýskum hjólreiðamanni sem lenti í slæmu veðri í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu. Þar svaf hann í tjaldi sínu og þótt ekkert amaði af manninum um nóttina á hafði snjóað að tjaldi hans. Fréttaþulurinn orðaði það einhvern veginn á þá leið að þetta hefði blasað við manninum er hann kom út um morguninn, leið birtist þessi mynd sem er hér vinstra megin og ég hnupaði af vef Ríkisútvarpsins

Þetta var eitthvað rugl í þulnum. Auðvitað vissi Þjóðverjinn af snjókomunni og ekkert kom honum á óvart morguninn eftir. Taldbúar fylgjast betur með veðri en þeir sem lokaðir eru af inni í einangruðu húsi.

Maðurinn var þó greinilega vel búinn og hafði áreiðanlega notið ferðarinnar óskaplega vel þangað til Blönduóslöggan „handtók“ hann og flutt í „betra“ skjól. Að öðrum kosti hefði hann áreiðanlega hvergi farið heldur gist aðra nótt í tjaldi sínu eða þangað til veðrinu myndi slota. Þá myndi hann halda áfram ferð sinni. Það gerum við á á fjöllum.

Hinir værukæru Íslendingar hrópa hins vegar upp yfir sig í vandlætingu sinni: Gvöð, hvað er eiginlega að manninum? 


mbl.is Tjaldaði við Stóra Dímon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisútvarpið með áróður um gjaldtöku á ferðamannastöðum

DSC_0025

Er eitthvert réttlæti í því að loka landsvæðu og heimta gjald af þeim sem þar vilja ferðast? Það finnst mér ekki og hef ágæt rök fyrir máli mínu. Staðreyndin er einfaldlega sú að ríki og sveitarfélög fá auknar tekjur af þeim sem ferðast um landið, af innlendum ferðamönnum og raunar miklu meira af þeim erlendu.

Í hvað brúkar ríkið tekjur af ferðamönnum? Nefna má virðisaukaskatt og ýmis konar gjald t.d. af bensíni, skatta af gistihúsnæði, gistináttagjald, tekjuskatt af ferðaþjónustufyrirtækjum og svo framvegis.

Auðvitað á að nota tekjur til í markaðsaðgerðir, byggja upp ferðamannastaði, styrkja einstaklinga og fyrirtæki til að gera slíkt í þeirri von að ferðaþjónustan aukist og dafni. 

Í kvöld hlustaði ég á þann undarlega þátt í Ríkisútvarpinu sem nefnist „Spegillinn“ en hann inniheldur bæði fréttir og síðan einhvers konar umræðu um ákveðin málefni. Sjónarmið á borð við þau sem ég hef hér lýst fengu ekki nokkurn málsvara í Spegli kvöldsins. Þess í stað fékk Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri Þingvallanefndar, að tjá sig um gjaldtöku á köfurum í Silfru í Þingvallavatni og lýsa yfir þeirri skoðun sinni að taka ætti gjald sem víðast um landið. Og hlustandinn fékk það á tilfinninguna að þáttarstjórnandinn væri fyllilega sammála Ólafi.

Ég er algjörlega ósammála þjóðgarðsmanninum en verð að sitja uppi með það að Ríkisútvarpið gætir ekki hlutleysis að þessu leyti heldur fær gjaldtökusjónarmiðið að vaða uppi. Það þykir mér slök fjölmiðlun og alls ekki í þeim anda sem maður hefði búist við að svokallað „þjóðarútvarp“ stundaði.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband