Fjallabak, Landmannalaugar og nærsveitir

DSC_0290_Undir_Hatti_til_V

Hvað veldur vinsældum nokkurra staða á hálendinu, til dæmis Landmannalauga? Um daginn auglýstu nokkur sveitarfélög sem eiga land að Fjallabaki rammaáætlun fyrir svæðið. Út af fyrir sig er hlýtur rammaáætlun að vera af hinu góða sé vel að henni staðið.

Ég þekki Fjallabak talsvert vel, hef víða gengið þar um mér til mikillar ánægju og fer þess nærri hvers vegna margir staðir njóta vinsælda. Þar skiptir eftirfarandi máli:

  • Náttúrufar
  • Þjónusta
  • Leiðarval
980409-22

Landmannalaugar og raunar allt Fjallabak hefur einstakt yfirbragð. Líparítið á þar hlut að máli, falleg og marglit fjöll, jarðhiti og margt fleira. Náttúrufar er þar einstaklega fallegt og svo er það laugin sem hefur ótrúlegt aðdráttarafl. Þar hefur verið byggð upp þjónusta fyrir ferðamenn, til dæmis góð salernisaðstaða sem er lykilatriði fyrir flesta. Þessu til viðbótar er staðurinn í alfaraleið að sumarlagi, gönguleiðir eru margar og þær nýtir ferðafólk sér.

Ofangreint er ástæðan fyrir því að erlendir ferðamenn fjölmenna í Landmannalaugar í gistingu. Líklega eru útlendingar 80% ferðamanna í Laugum. Íslendingar eru eiginlega hættir að koma þangað nema í upphafi og lok ferðatímabilsins eða þá að þeir koma þar við án þess að gista.

810821-7

Fyrir um þrjátíu árum var nokkur umræða um að loka Landmannalaugum fyrir tjaldfólki og færa tjaldsvæðið að vegamótunum, þar sem beygt er af Fjallabaksleið nyrðri og í Laugar og stundum er nefnt Sólvangur. Þessi hugmynd náði aldrei neinni athygli nema hjá þeim sem sáu fram á að örtröð yrði smám saman í Laugum og finna þyrfti annan stað fyrir tjöldin. Síðan þá hefur tjaldsvæðið í Laugum stækkað og fleiri koma þar til gistingar en nokkurn mann óraði fyrir. Tjaldsvæðið er langtímum saman yfirfullt og nú gistir fjöldi manns við Landmannahelli. 

Merktar gönguleiðir eru margar við Landmannalaugar en enn verður að fullyrða að Íslendingar nýta sér þær frekar lítið. Ég fullyrði að verði tjaldsvæðið flutt frá Landmannalaugum myndi gildi landsvæðisins í engu minnka fyrir göngufólk. Þvert á móti kynni það að aukast að miklum mun.

900400-79

Gönguleiðin milli Landmannalauga og Þórsmerkur en fyrir löngu ofsetin en engu að síður er haldið áfram að selja ferðir þangað og um leið vanrækt að byggja upp aðrar leiðir. Og í raun eru margar gönguleiðir skemmtilegri en Laugavegurinn. Hann er stórgallaður og ótrúlegt að í dag gengið skuli um veginn í Emstrum þar sem er orðin talsverð umferð ökutækja. Væri núna verið að velja svæði fyrir Laugaveginn myndi hann áreiðanlega vera settur vestan við Emstrur og þá gengið suður frá Álftavatni. Þar þyrfti að vísu að setja upp nokkrar göngubrýr. Ég er enn á þeirri skoðun að gönguleiðin um Jökultungur séu mistök og betra hefði verið að hafa hana um Svartahrygg.

890904-10

Útivist hefur byggt upp gönguleið vestan við Laugaveginn, raunar er þar orðin vinsæl gönguleið allt frá Sveinstindi, í Skælinga, Eldgjá, Hólaskjól, Strútslaug, Strútsskála og inn á Laugaveginn. Leiðin hefur stundum verið nefnd Skólavörðustígurinn, ástæðan liggur í augum uppi.

Útivist hefur einnig gefið út gott kort yfir gönguleiðir um Strútsland, svæðið sunnan Torfajökuls og í kringum fjallið Strút en þar á félagið vandaðan skála sem er til mikils hagræðis fyrir göngufólk. 

Staðreyndin er sú að á Fjallabaki eru ótrúlegur fjöldi skemmtilegra gönguleiða og margar hverjar hafa ekki enn komist á nein kort. Vandinn er sá að komast hjá því að fara í örtröðina í Landmannalaugum sem þó er eins og segull vegna þjónustunnar.

Væri ég beðinn um ráð vegna skipulags á Fjallabaki myndu þau vera þessi. Gera þarf greinarmun á þjónustu við göngufólk og hins vegar vaxandi umferð bílafólks. Þessir hópar skarast auðvitað, bílafólk fer í göngur og göngufólk kemur á bílum. Hins vegar er stór hópur sem ekur í gegn og þarf á þjónustu að halda:

DSC_0351

Byggja upp tvær þjónustumiðstöðvar; Á austursvæðinu, við Eldgjá og þá fyrir bæði bílafólk og göngufólk, sambærilegt við Landmannalaugar.

Á vestursvæðinu; við Dómadalsleið, t.d. við Dómadalsháls eða Klukkugilsfit. Þar ætti að byggja upp þjónustu fyrir göngufólk.

Sunnan fjalla, við Fjallabaksveg syðri, hefur Ferðafélag Íslands byggt upp góða þjónustu við göngufólk við Álftavatn.

Í Hvanngili er góð aðstaða fyrir bílafólk.

Útivist sinnir göngufólki með Strútsskála.

Dalakofinn er lítið þekktur en gæti nýst fyrir göngufólk. Hins vegar vantar allar aðstæður fyrir göngufólk sunnan Dalakofans, fyrir svæðið fallega sem nær allt suður í Tindfjallajökul.

Svo má ekki gleyma því að víðast hvar um landið eru stókostleg svæði fyrir þá sem unna útiveru, gönguferðum, bílferðum, skoðunarferðum ... Gæti nefnt 273 staði. 

Myndirnar sem fylgja þessum hugleiðingum eru þessar:

  1. Undir Hatti í Hattveri, skammt austan Landmannalauga. Myndin er tekin síðasta sumar.
  2. Á skíðum 1998 við Suðurnámur, skammt vestan við Landmannalaugar.
  3. Árið 1981 í Landmannalaugum.
  4. Gamli skálinn í Hrafntinnuskerið árið 1990.
  5. Myndin er tekin skammt frá Hólaskólið árið 1989.
  6. Í rigningu sunnan við Strútslaug árið 2010.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband