Frjálsborinn maður er orðinn þræll hrunsins

Grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í morgun er ótrúlegur misskilningur á aðstæðum fólks sem á undir högg að sækja vegna efnahagshrunsins og afleiðingum þess.

Mér finnst það grundvallarskoðun að samningar milli manna endurspegli jafna stöðu og utanaðkomandi aðstæður geti ekki raskað þeim. Þetta viðhorf hafa allir stjórnmálaflokkar stutt. Nefna má viðhorf þeirra til tjóns af völdum náttúruhamfara. Þar bætir hið opinbera skaða af völdum jarðskjálfta og ber þó enga ábyrgð á þeim, leggur aðeins fram fé sem ekki er hægt að sækja til annarra.

Eftirfarandi ætti ekki að þurfa að valda miklum ágreiningi eða hvað?

  1. Forsendur endurgreiðslna á peningalánum byggja á að forsendur samnings breytist ekki. Hvorugur aðila gerir ráð fyrir kollsteypum í efnahagslífi.
  2. Lántaki reiknar með að geta greitt til baka lán sitt, jafnvel miðað við verðlagsþróun. Afleiðing hrunsins gerði forsendur margra að engu, forsendur brustu.
  3. Almennt tekur fólk ekki hærra lán en það ræður við.
  4. Hrunið má telja sem náttúruhamfarir af mannavöldum. Óreiðumenn voru nærri því að eyðileggja efnahaga þjóðarinnar. Stór hluti íbúðalána var í gjaldþrota bönkum og færður yfir í nýja banka með afslætti. Hver fjármagnaði þann afslátt? Af hverju var hann ekki nýttur skuldurum til hagsbóta?
  5. Stjórnmálaflokkur sem vill koma veltu þjóðfélagsins aftur í gang byrjar á því að útrýma atvinnuleysi með því að auka við fjárfestingu í atvinnulífinu og um leið styrkir eignarhald einstaklinga á íbúðum sínum. Vestmannaeyjar væru óbyggðar ef ekki væri fyrir bætur úr ríkissjóði, tjón af völdum jarðskjálfta á Suðurlandi voru bættir af ríkissjóði. Bæturnar voru ekki út í hött, þær komu samfélaginu öllu til góða, stuðluðu að styrkingu atvinnulífsins.
  6. Erfið og vonlaus skuldastaða á íbúðalánum þúsunda landsmanna veldur efnahagslegum samdrætti. Öll orka fer í að afla fjár til afborgana, viðhald, endurnýjun og kaup á nýju húsnæði bíður. Það getur ekki verið stefna stjórnmálaflokka að bíða eftir því að þetta fólk nái aftur tökum á efnahagslegri tilveru sinni eftir að forsendurbrestur hefur stórskaða það og efnahagslífið.
  7. Stjórnmálabarátta á að snúast um velferð einstaklingsins. Að öðrum kosti er ekkert efnahagslíf.

Víðtæk samstaða hefur náðist í samfélaginu um viðbrögð við náttúruhamförum. Samskonar samstaða hefur ekki náðst um afleiðingar hrunsins. Ábyrgð stjórnmálaflokka er mikil. Frelsi einstaklingsins byggist á að honum sé byggt það umhverfi sem hann fær þrifist í. Að öðrum kosti mun samfélagið aldrei ná sér upp úr kreppunni sem varð afleiðing hrunsins, skiptir engu hvaða stjórnmálaflokkur er við völd.

Stjórnmálaflokkar eiga að leggja áherslu á að leysa úr þeim vanda sem hrunið olli. Það hefur ekki verið gert á síðustu fjórum árum þrátt fyrir loforð um norræna velferð og skjaldborg um heimilin.

Menn geta endalaust kvartað og vælt yfir stöðu efnahagsmála, verðbólgu, ofurskattheimtu og mögrum ríkissjóð. Ekkert af þessu skiptir þó máli ef möguleikar einstaklingsins til sjálfsbjargar eru gerðir að engu vegna forsendurbrests. Einstaklingur sem hefur misst allt sitt kann að vera frjálsborinn en hann verður við þetta þræll hrunsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingólfsson

Næstum því hverju orði sannara nafni. Þetta voru þó ekki hamfarir náttúrunnar heldur voru þær af mannavöldum. Bankar lánuðu ótæpilega en eins og þú segir,fólk tekur ekki lán nema það reikni með að geta greitt þau til baka á eðlilegan hátt. Það sem gerðist var að í kjölfar gengisfalls,óðaverðbólgu og bankahruns hættu öll neysluviðmið að vera raunveruleg og neysluvísitalan steig "trylltan dans". Lánveitendur rökuðu saman fé á kostnað þeirra lántakenda sem gátu staðið í skilum. Þeir lánveitendur ættu skilyrðislaust að skila megninu af þessu illa fengna fé til baka en ríkið ætti ekki að vera skaðabótaskilt nema á lánum Íbúðalánasjóðs.

Sigurður Ingólfsson, 5.3.2013 kl. 14:31

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Takk fyrir innlitið, nafni. Það getur einfaldleg ekki verið tilgangurinn að íbúðaeigendur beri einir halla af hruninu en eigendur lána ekkert. Ég trúi því ekki heldur fyrr en ég tek raunverulega á því að það sé skoðun Jóns Steinars Guðlaugssonar, sem ég met þó afar mikils.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 5.3.2013 kl. 16:38

3 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þetta er skoðun sem er útbreidd innan ákveðins hóps og þú getur verið viss um að greinarhöfundur mun halda henni fram hér eftir sem hingað til. Hann er líka hreint ekki einn um það, ungir sjallar eru náttúrlega líka á þessari skoðun skv. fuglahvísli AMX http://www.amx.is/fuglahvisl/18351/

Það sem mér finnst eftirtektarvert er hve fáir tjá sig um þessa grein og hve fá "like" hún fær. Það á raunar líka einnig við um susarann...

Haraldur Rafn Ingvason, 5.3.2013 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband