Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013
Innlend landbúnaðarframleiðsla tryggir öryggi
14.3.2013 | 11:53
Útúrsnúningar duga ekki í málefnalegum rökræðum, jafnvel þó þeir séu fyndnir og létti umræðuna. Þetta veit gamall vinur minn, Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, sem er á þeirri skoðun að leyfa eigi innflutning á hráu kjöti.
Ég er ósammála honum. Ekki vegna þess að ég sé á móti frjálsum viðskiptum heldur fyrst og fremst vegna þess að ég ber fyrir brjósti hag innlendrar matvælaframleiðslu.
Sérfræðingar halda því fram að innflutningur á hráu kjöti bjóði einfaldlega hættunni heim. Með því berist hingað margvíslegir sjúkdómar sem valdið geta skaða á innlendri framleiðslu. Dæmin úr sögunni er þekkt. Enn hafa til dæmis kamfýlóbakter og salmónellusýkingar og fjöldi annarra sjúkdóma ekki ná fótfestu hér.
Hins vegar hef ég ekki hugmynd um hvers vegna farfuglar beri ekki með sér smit. Á því hljóta að vera náttúrulegar skýringar.
Ég held að það hljóti að vera ansi léttvægt að halda því fram að innflutningur á hráu kjöti hafi engar afleiðingar. Það kann einnig að vera að fólki sé alveg sama um afleiðingarnar, þær skipti litlu, aðalatriðið sé að fá matvöru á lægra verði.
Með þessu forðast fólk að taka afstöðu til öryggismála. Þegar Eyjafjallagosið stóð sem hæst gerðist það sem enginn hafði áttað sig á, vart var við skort á ýmsum matvörum í Evrópu. Um var að ræða mat sem kom með flugi frá öðrum heimsálfum og Evrópubúar reiddu sig á að væri alltaf til staðar í verslunum.
Ekki þarf nú mikið ímyndunarafl til að skilja að svona aðstæður eru ekki óhugsandi í framtíðinni. Ljóst er að landbúnaðarafurðir eru að stórum hluta niðurgreiddar í Evrópu. Hverfi þær niðurgreiðslur fer íslensk buddupólitík fyrir lítið.
Sjúkdómar í landbúnaði í Evrópu eða annars staðar í heiminum geta skyndilega lagt matvælaframleiðsluna í rúst. Fjölmörg dæmi eru um hrikaleg atvik, til dæmis nautakjötsframleiðslu Breta í kjölfar creutzfeldt-jakob sjúkdóminn. Í Asíu eru afleiðingar fuglaflensuveirunnar vel þekktar og teljast mjög alvarlegar.
Með því að opna fyrir innflutning á hráu kjöti eigum við Íslendingar það á hættu að íslenskur landbúnaður dragist stórkostlega saman. Þegar hamfarir í landbúnaði steðja að heimsbyggðinni værum við berskjölduð og stæðum einnig uppi með litla framleiðslu. Þá fer bæði íslensk buddupólitík og stefnumörkun fyrir lítið.
Hvað með farfuglana? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Linkuleg stefna og skortur á eldmóði hjá ungu kynslóðinni
14.3.2013 | 10:54
Þeir sem fylgdust með eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í fyrradag hljóta að vera sammála orðum Styrmis Gunnarssonar á Evrópuvaktinni. Hann segir telur upp unga fólkið á þingi, konur og karla lofar flesta og getur um ræðuefni þeirra. Hann segir loks:
Það sem þessa nýju kynslóð vantar er hins vegar þetta:
Það er ekki að sjá að hún hafi neitt að segja sem máli skipti.
Og það er dálítið vandamál í ljósi þess að þetta er fólkið, sem er að taka við landstjórninni.
Það er að verða lenska að ungir stjórnmálamenn hagi sér eins og afgamlir embættismenn. Segi fátt annað en það sem almenn þekking blæs þeim í brjóst, fara stóra hringi í kringum umræðuefni, gæta þess að koma hvergi að kjarna máls nema þegar þeir eru að skamma andstæðinginn.
Það þykir mér léleg pólitík þegar kjarnyrta stefnu og eldmóð vantar. Skiptir engu hvar í flokkum menn standa.
Krummi krunkar úti á Hornafjarðarfljótsbrú
13.3.2013 | 14:47
Stórmerkileg brú liggur yfir Hornafjarðarfljót. Hún er einbreið, var byggð um 1961 og er um 255 m löng. Á fréttavefnum visir.is er verið að agnúast eitthvað út í þessa fallegu brú sem er svo lík þeirri gömlu sem liggur yfir Markarfljót.
Eina staðreynd vita fæstir um Hornafjarðarfljótsbrúnna. Hún hefur innbyggðan takt og er þar af leiðandi einstaklega tónvís.
Þetta skal ég skýra nánar: Sé ekið yfir hana á bíl frá vestri til austurs á um 25 km hraða á klst. má óðar finna að til verður taktur, tamm, tamm, tamm ... Þá er upplagt að syngja Krummi krunkar úti enda fellur rytminn í laginu algjörlega að bylgjunum í gólfi brúarinnar.
Að vísu er brúin ekki nógu löng til að hægt sé að klára lagið en þá má bara snúa við og aka aftur yfir brúna og fara aðeins hraðar.
Svo tónvís og söngelskur sem ég er þá hef ég lent í því að aka fram og aftur yfir brúna, einn eða með góðu fólki og við höfum sungið og sungið af hjartans lyst um hann krumma. Ekið aftur og aftur yfir. Einu sinni bakkaði ég yfir brúna og söng lagið afturábak. Það gekk ekki vel. Ók utan í tvisvar og mundi ekki línurnar.
Sé ekið frá austri til vestur tapast þessi taktur og krummalagið gengur ekki. Enn hef ég ekkert lag fundið sem þá hentar.
Svo verð ég að taka það fram að það er afar varhugavert að aka hratt yfir Hornarfjarðarfljótsbrú og skiptir engu hvort maður syngi, tali eða þegi. Hraðinn og taktfast gólfið getur orðið til þess að ökumaðurinn gleymi sér og endi á vegriðinu eða jafnvel kastist yfir það. Hvorugt ku vera gott.
Þetta hefur þó aldrei komið fyrir mig, - ég náði tímanlega stjórn á bílnum ... úff.
Myndina hérna fyrir ofan tók ég ofan af Viðborðsfjalli sem er vestan við fljótið.
Misferli Sivjar vegna Kárahnúkavirkjunar
13.3.2013 | 13:06
Samkvæmt úttektum Landsvirkjunar á áhrifum virkjunarinnar á fljótið er vatnsmagnið í því meira en öll reiknilíkön gerðu ráð fyrir.
Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifar ágætan leiðara í blað sitt í dag og er ofangreint úr honum. Hann fjallar um áhrif Kárahnúkavirkjunar á lífríki Lagarfljóts. Hann segir ennfremur:
Þá liggur einnig fyrir, samkvæmt óbirtri skýrslu Landsvirkjunar, að áhrifin á lífríkið í fljótinu sjálfu eru mikil og neikvæð.
Og Ólafur rekur að Skipulagsstofnun hafi ekki viljað leyfa virkjunina vegna áhrifa hennar á umhverfið en Umhverfisráðuneytið snéri þessum úrskurði við þó það tæki engu að síður undir viðvaranir stofnunarinnar. Svo skrifar Ólafur þessi athyglisverðu orð (feitletranir eru mínar):
Af þessu var hins vegar dregin þessi mátulega rökrétta niðurstaða: "Vegna eðlis Lagarfljóts og lífríkis þess er það mat ráðuneytisins að breytingar á svifaur muni ekki valda miklum áhrifum á lífríki vatnsins. Ráðuneytið telur að með lækkun klapparhaftsins ofan við Lagarfljótsstíflu [ ] til þess að draga úr áhrifum vatnsflutninganna í Lagarfljóti muni áhrif framkvæmdarinnar á líf í og við fljótið ekki verða mikil."
Það er rétt, sem ítrekað hefur verið bent á, síðast í gær eftir að frétt Fréttablaðsins birtist, að umhverfisráðuneytið og þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, skulda íbúum við Lagarfljót og raunar öllum almenningi skýringar á því hvernig hægt var að komast að þessari niðurstöðu, þvert á öll gögn sem fyrir lágu.
Þetta er hárétt niðurstaða. Siv Friðleifsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skuldar landsmönnum skýringar á niðurstöðu sinni sem er þvert á öll gögn sem fyrir lágu, eins og Ólafur segir.
Ljóst er að ekki þarf að bíða eftir því að Siv Friðleifsdóttir klóri í bakkann. Staðreyndir málsins liggja fyrir og tala sínu máli. Kárahnúkavirkjun var á teikniborðinu og ekkert átti að koma í veg fyrir hana. Þess vegna ákvað ráðherra að líta framhjá gögnum málsins og skálda þess í stað upp eitthvað til málamynda.
Svona pólitík er röng. Þetta var verulega ámælisvert hjá ráðherranum og raun afglöp í starfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ekki fleiri, ekki fleiri, kveina ferðaþjónustusamtökin
13.3.2013 | 11:07
Er einhver bissniss í ferðaþjónustunni? Auðvitað er það svo. Hins vegar er þar þétt setinn bekkurinn. Fjöldi aðila býður ferðamönnum margvíslega þjónustu, akstur, mat, leiðsögn, gistingu, sýningu og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Svo mikið er að gera í þessari atvinnugrein að fjöldi fólks hugsar sér til hreyfings, sér eiginlega ofsjónum yfir góðu gengi annarra.
Bændur afklæðast skítugum fjósagallanum, fara í spariskóna og bjóða geðugum Þjóðverjum að ganga í fjósið til sín og gista þar (auðvitað eftir breytingar).
Feiti-Gunni tók meirapróf og keypti sér jeppa á þrjátíu og átta tommu dekkjum og ekur nú með ferðamenn upp á Fimmvörðuháls, sleppir þeim þar lausum og hirðir aftur upp eftir þrjá tíma.
Fagrihreppur setur á stofn Veðurblíðu- og brekkusnigilssetur, fær til þess styrk úr Átaki til atvinnusköpunar og menningarráði. Hreppstjórinn situr svo úti í sumarblíðunni og bíður eftir að ferðamennirnir láti sjá sig.
Stína gerir upp herbergi í kjallaranum og breytir íbúðinni sinni í gistiheimili, pláss fyrir tíu manns, reiknar út að hver borgi tíu þúsund kall sem þýðir þrjár milljónir í vasann á mánuði, allt svart.
Svona gerast kaupin á ferðamannaeyrinni. Vandinn er bara sá að enn þéttist á bekknum og þess vegna lýsa Ferðamálasamtök Íslands yfir áhyggjum sínum. Áhyggjurnar spretta af sjálfselsku ekki af umhyggju fyrir þeim sem ætla að hasla sér völl í ferðaþjónustu. Með öðrum orðum, þeir græðum fullt af peningum en telja þá ekki vera til skiptanna.
Vara við gullgrafaraæði í ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Katla er kyrr, aungvir spádómar, allt í ró
13.3.2013 | 10:48
Fólk er steinhætt að tala um eldgosahættu í Mýrdalsjökli. Spámennirnir óðu um víðan fjölmiðlavöll eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010. Þá var því haldið fram að venjan væri sú að eftir að gosi lyki mætti innan tveggja ára búast við gosi í Mýrdalsjökli.
Ég fer stundum inn á vefsíðu Veðurstofuna og kíki á jarðskjálftavaktina. Í dag bregður svo við að engin hreyfing hefur mælst í þessum tveimur stóru jöklum. Hið eina sem greinist er einhver hristingur milli Vatnafjalla, suðvestan við Heklu, 0,7 að stærð.
Líklega eru meiri líkur á að Hekla gjósi en Mýrdalsjökull. Að minnsta kosti les maður sögur um að hún hafi frá síðasta gosi verið að tútna út og þeir sem gerst þekkja halda því fram að það kunni ekki vita á gott.
Að öðru leyti er allt í ró og spekt á landinu. Hið eina sem athygli vekur eru hreyfingar á Tjörnesbrotabeltinu fyrir norðan. Talsverðir skjálftar eru utan við Eyjafjörð, þar hafa þeir verið viðvarandi frá því um mitt síðasta ár. Einnig eru skjálftar austan og suðaustan við Grímsey.
Eiginlega hef ég minnstar áhyggjur af þessu, miklu frekar því að dómsdagspámennirnir eru hættir að hafa samband við mig. Þeir þegja þunnu hljóði, jafnvel sá draumspaki, sem ég hef mikið vitnað til hér á síðunni. Búast má við að draumfarir hans séu með besta móti, hann sofi næturnar af sér í einum dúr. Það er gott.
Eftir að hafa skrifað svona um Mýrdalsjökul væri eftir öllu að Katla færi í gang með hrikalegt gos. Gerist það, biðst ég afsökunar (Á hverju? Ekki hugmynd, bara til vonar og vara).
Svo er hér að lokum skemmtileg mynd sem tekin var fyrir tveimur árum á Morinsheiði, norðan við Fimmvörðuháls. Þarna er horft til Mýrdalsjökuls og skriðjökullinn bak við fólkið er Tungnakvíslajökul. Norðan við hann, eiginlega ofan við höfuðið á henni Ingu Jónu, sem er lengst til vinstri, hafa verið viðvarandi jarðskjálftar síðustu árinu. Jafnvel þegar ekki greinar skjálftar í Kötluöskjunni, eru stöðugir skjálftar þarna við upptök Tungnakvíslajökuls. Ekki kann ég að draga neinar ályktanir af þessari staðreynd. finnst hún bara merkileg.
Starfsmaður ríkisútvarpsins missir stjórn á sér
12.3.2013 | 16:04
Af einhverjum ótrúlegum ástæðum hefur Ríkisútvarpið eitt fengið leyfi Handknattleikssambandsins til að birta myndir af gólfi að loknum bikarúrslitaleikjum. Og til að framfylgja þessum furðulega úrskurði þá tók íþróttastjóri Ríkisútvarpsins til sinna ráða og reyndi að henda ljósmyndara út af vellinum.
Það er auðvitað út í hött að veita einum fjölmiðli einkaleyfi til að taka myndir á handboltaleikjum og ber að fordæma að ljósmyndarar fái ekki að sinna sinni vinnu. Yfirgangur starfsmanns Ríkisútvarpsins er einnig dæmalaus og ekki í hans verkahring að framfylgja reglum Handknattleikssambandsins.
Á meðfylgjandi mynd sem er tekin af visir.is sést er lágvaxinn íþróttastjórinn ætlar að henda tvöfalt stærri manni út af vellinum. Gaman hefði verið að fylgjast með þessum leik til enda. Þetta er auðvitað stórkostleg mynd og ber vitni um konu sem gerir sér engan grein fyrir því hvar mörk starfs síns liggja. Hér er um að ræða líkamsárás, ekkert annað.
Gagnrýna myndatökubann harðlega | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Samfylkingarráðherra gefur út vottorð um sölu Símans
12.3.2013 | 10:52
Í heita pottinum heyrir maður alltaf eitthvað nýtt. Eitt af því sem nota átti gegn Sjálfstæðisflokknum er að Síminn hafi hreinlega verið gefinn þarna um árið þegar hann var einkavæddur vegna þess að ekki hafi verið greitt fyrir hann.
Ákveðin öfl í þjóðfélaginu hafa undanfarin ár verið upptekin við að spinna upp sögur um meinta spillingu. Ein þeirra, sagan um Síman, hefur nú borist Alþingi.
Þess vegna er ágætt að fá vottorð frá núverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Katrínu Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, að fyllilega hafi verið staðið við greiðslur vegna kaupa á Símanum. Hvernig mátti annað vera? Dettur einhverjum í hug að ríkið selji eitthvað og gleymi að taka við greiðslu eða rukka?
Í raun og veru er engin munur á viðskiptum milli opinberra aðila og einkaaðila. Þau fara fram á nákvæmlega sama hátt og milli einkaaðila.
Næst kemur áreiðanleg fyrirspurn frá sama þingmanni Hreyfingarinnar, Margréti Tryggvadóttur, um sölu á bönkunum, Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Hún getur ábyggilega sparað sér fyrirhöfnina og lesið allt um það í skýrslu ríkisendurskoðunar og er að finna á vef stofnunarinnar. Ríkissjóður fékk greitt fyrir bankanna, svo einfalt er það.
Engar vanefndir vegna sölu Símans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Er skyldleiki íslensks föðurs við útlensk börn ónógur?
12.3.2013 | 09:52
Auðvitað er rétt að synja þessum nýsjálensku bræðrum sem sagt er frá í fréttinni um landvist. Þeir eru auðvitað útlenskir og íslenski faðirinn örugglega ekki nægilega skyldur þeim til að það sé eitthvað að marka.
Hvernig er það annars og grínlaust með útlendingastofnun? Ræður þar tölvan eða er einhver af holdi og blóði innan dyra?
Annars minnir mig að í lögum sé það þannig að börn taka ríkisborgararétt eftir móður, ekki föður. Það kann því að vera þannig að faðir á enga möguleika á að sinna börnum sínum eða gera það við þau sem rétt er. Auðvitað er þetta tómt rugl.
Tvíburum synjað um dvöl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bremsar ekki með ísöxinni
11.3.2013 | 23:50
Líklegast er maðurinn sem frá segir í fréttinni óvanur. Hann rennur niður eftir gilinu á bakinu en virðist ekki reyna að koma sér á magann og bregða undir sig ísexinni, bremsa Vanir fjallamenn gera þetta nær ósjálfrátt enda skiptir hver sekúnda gríðarlegu máli.
Í fréttinni segir að maðurinn hafi reynt að verja höfuð og háls sem auðvitað er gott og blessað svo langt sem það nær en bendir engu að síður til þess að maðurinn sé óvanur.
Aftur á móti sést illa hvernig aðstæður eru og því eflaust óþarfi að gera aumingjans manninum neitt upp. Aðalatriði er þó að koma sér á magann, þrýsta mjórri enda ísaxarinnar ofan í ísinn eða snjóinn og reyna þannig að hægja ferðina eða stoppa sig. Þetta lærir enginn nema að æfa sig reglulega við raunaðstæður.
Rann í fjallaklifri og tók það upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |