Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Atli og Jón bjarga ríkisstjórninni

Með því að Atli Gíslason greiðir ekki atkvæði með vantrauststillögu Þórs Saari stenst ríkisstjórnin vantraustir. Þá er gert ráð fyrir að 31 þingmaður stjórnarsinna og Bjartrar framtíðar greiði atkvæði gegn vantraustinu.

Einnig má gera ráð fyrir að Jón Bjarnason sitji hjá. Hann mun ekki samþykkja vantraust á þá ríkisstjórn sem hann sat sjálfur í. 


mbl.is Lilja styður tillögu um vantraust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysisgangurinn í Þór Saari

Ég hlustaði á ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, vegna vantraustsins í morgun. Ég var nú dálítið sammála henni, sérstaklega þar sem hún talaði um vitleysisganginn í Þór Saari þegar hann leggur fram tillögu um vantraust á ríkisstjórninni.

Vantraustið er þvílík vitleysa á þessari stundu að ekki tekur nokkru tali. Hún er ekkert annað en hefnd Hreyfingarinnar sem fékk ekki það úr hrossakaupum við ríkisstjórnina sem hún vænti.

Að öðru leyti á ríkisstjórnin ekkert gott skilið, hún er löngu fallin, veit það ekki, en skapadægur hennar ráðast þann 27. apríl næstkomandi. 

Hins vegar myndi ég greiða atkvæði með vantraustinu sæti ég á Alþingi, en á allt öðrum forsendum en Þór. 


mbl.is „Heimskulegt feigðarflan“ Þórs Saari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ógætilegt orðaval séra Þóris Stephensen særa

Í Fréttablaðinu í gær skrifar Þórir um nýlegar ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandið undir yfirskriftinni „Andlegt ofbeldi í Sjálfstæðisflokknum“:

En það sem er nú komið á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, rímar einkum við þrennt sem ég man eftir: Kaþólsku kirkjuna á hinum svörtustu miðöldum, er hún samdi „Skrá yfir bannaðar bækur”. Í öðru sæti eru bókabrennur Hitlers. Í þriðja sæti kemur svo ritskoðun Sovétsins.

Þá er þetta vonandi frá hjá sjálfstæðum Evrópusambandssinnum. Viskubrunnurinn er væntanlega tæmdur í bili nú þegar séra Þórir er búinn að  „ríma“ fyrrum félaga sína í Sjálfstæðisflokknum við Hitler, Sovétríkin og voðaverk kaþólsku kirkjunnar á miðöldum.
 
Ofangreint er úr Vefþjóðviljanum í gær. Vitna í þetta núna vegna þess að enn líður mér hálfilla eftir að hafa lesið þessa grein eftir Þóri Stephensen. Vefþjóðviljinn bætti ekki úr skák. 
 
Ég hef þá einlægu skoðun að Ísland eigi ekki erindi í Evrópusambandið, fullveldi okkar byggist á sjálfstæði, fámennið verður okkur mikill fjötur um fót í þessu fjölmenna sambandi. Á landsfundinum greiddi ég hiklaust atkvæði með tillögu sem síra Geir Waage lagði fram og fjallaði um að hætta skuli aðlögunarviðræðunum og leggja málið undir dóm kjósenda.
 
Af hverju er skoðun mín þessi? Jú, vegna þess að aðlögunarviðræðurnar eru að breyta Íslandi. Þær eru ekki samningaviðræður, enginn samningur verður gerður. Viðræðurnar hafa allt annan tilgang og honum er ég á móti. 
 
Einfaldur meirihluti á Alþingi samþykkti að aðildarumsóknina. Mér er til efs að Þórir Stephensen eða aðrir aðildarsinnar hafi áttað sig á því að með samþykktinni var farið í að aðlaga lög og reglur þjóðarainnar við þar sem gildir í sambandinu. Til viðbótar hefur íslenskri stjórnsýslu verið breytt til samræmis. 
 
Ofangreind orð Þóris Stephensen eru leiðingleg og særandi. Hann gerir lítið úr skoðunum mínum og fjölmargra annarra félaga minna, fólks sem vill Íslandi vel, hefur skoðanir og stendur við þær.
 
Hann er kirkjunnar maður, engu að síður talar hann eins og kristin gildi og siðferði skipti hann engu.

Stjórnlaus ríkisstjórn og ráðherrarnir missa sig

Ósigur ríkisstjórnarflokkanna er algjör. Málefnalega hafa þeir lotið í lægra haldi fyrir rökum andstæðinga sinna á þingi sem og áliti sérfræðinga utan þings. Nefna má stjórnarskrármálið, frumvarp um fiskveiðistjórnun, frumvarp um náttúruvernd og fleiri.

Í hverju málinu á fætur öðru er ríkisstjórnin flengd en þeir og þingliðið lætur sem ekkert sé. Svart skal vera hvítt, hvað sem einhverjir sérfræðingar segja, þeir eru hvort eð er á vegum hagsmunasamtaka.

Ríkisstjórn sem er á síðustu metrunum keppist nú við klukkuna við að koma málum að sem hún hefur vanrækt að kynna og leggja tímanlega fram. Í því felst stærsti ósigurinn og ber vitni um einstakt skipulagsleysi ráðherra svo ekki sé talað um meðvirkni þingmanna þeirra. 

Svo virðist sem ríkisstjórnin hafi gjörsamlega misst sig og forsætisráðherra og atvinnuvegaráðherra hafi gefist upp og það nýti sér einstakir ráðherrar og driti fram frumvörpum um hugðarefni sín, jafnvel þó samþykkt þeirra kosti ríkissjóð gríðarlega mikið.

Til að komast hjá því að fá á sig gagnrýni hafa ráðherrar jafnvel reynt að sniðganga kostnaðaráætlanir heldur leggja fram strípuð frumvörp í þeirri von að fá klapp á kollinn frá kjósendum.

Flótti er brostinn í lið ríkisstjórnarinnar. Hin eina von sem framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið á er að forseti Alþingis standi á virðingu Alþingis og ljúki þinginu á tilsettum tíma. Nú eru aðeins 47 dagar til kosninga og þá á ekki að nota til þingstarfa.


mbl.is Fjöldi mála bíður en engin sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talað í kapphlaupi við tímann

Standi valið á milli stjórnunarstíls Davíðs Oddssonar, fyrrum forsætisráðherra, og hins harða og miskunnarlausa stjórnunarstíls Samfylkingar og Vinstri grænna sem lætur sverfa til stáls í hverju málinu á fætur öðru, má ég þá biðja um Davíð aftur.

Staðreyndin er einfaldlega sú að Valgerður Bjarnadóttir hefur ásamt félögum sínum staðið fyrir þeirri öfgafyllstu stefnu sem þekkst hefur í stjórnmálum frá lýðveldisstofnuninni. Hún hefur haft forræði fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og hefur nú síst vaxið af því embætti.

Henni finnst allt í lagi að taka gagnrýnislaust við niðurstöðum stjórnlagaráðs og hefur lagt ofuráherslu á að koma því í gegnum þingið. Skiptir engu þótt sérfræðingar hafi mælt með því að málið yrði skoðað mun betur. Naumur meirihluti á Alþingi er henni tæki til að gera allt að vildi, í því eru öfgarnar fólgnar.

Rök stjórnarandstöðu hafa ekki skipt Valgerði neinu máli. Hún hefur borið stjórnarandstöðunni á brýn ýmsar ávirðingar fyrir að fallast ekki á niðurstöður stjórnlagaráðs. Hún hafði forgöngu um að Feneyjarnefndin fengi málið til umfjöllunar en snarsnérist svo gegn henni vegna þess að nefndin hafði, líkt og innlendir sérfræðingar, gríðarlega margar athugasemdir við frumvarpið.

Gegn gerræði Valgerðar og ófaglegum vinnubrögðum er ástæða til að spyrna við fæti. Ég held að ef þjóðin fengi að velja á milli stefnuleysis Samfylkingar og Vinstri grænna og staðfestu Davíðs Oddssonar myndu þessir tveir öfga vinstriflokkar tapa stórt.

Jafnan er hlustað á þá sem sitja á Alþingi. Líkur benda til þess að Valgerður sitji þar ekki eftir næstu kosningar og þá hlusta færri.


mbl.is Valgerður: Mér er ómögulegt að þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómenningin í þingflokki VG

Þingflokksfundir eru notaðir til að sannfæra þingmenn um hver sé rétt afstaða og formaðurinn búinn að tryggja fyrirfram að sín skoðun verði í meirihluta. Ef þingflokksfundir duga ekki til, þá fer af stað ófrægingarherferð og óþægi þingmaðurinn fær yfir sig skammir og fúkyrði í tölvupóstum og á flokksþingum. Inni á þingi hefst útilokunarleikurinn. Viðkomandi þingmaður fær ekki taka til máls, er settur neðst á mælendaskrá og er jafn vel tekin úr nefnd sem fulltrúi flokksins. ... svona til að nefna eitthvað

Gera verður ráð fyrir að Lilja Mósesdóttir eigi með ofangreindum orðum við þingflokk Vinstri grænna, hún tilgreinir það ekki sérstaklega, en þar er reynsluheimur hennar. Þetta rímar hins vegar ágætlega við orð og skoðanir annarra flóttamanna úr þingflokki VG en kemur engu að síður á óvart.

Lilja ræðir á Facebook stuttlega um þingmennskuferil sinn og birtra reynslu sína. Hún segir: 

Merkilegt hvað mörgum finnst þeir eiga mikið erindi inn á þing. Skyldi þetta fólk vita að þingmennska er fyrir flesta þingmenn valdalaust tímabundið embætti nema þú látir undan gífurlegum þrýstingi og svíkir allt sem þú lofaðir kjósendum. Fyrir vikið hata kjósendur þig. Mannorð þeirra fáu sem hafa kjark til að halda fast í stefnumálin er svívirt – oft með aðstoð samherja viðkomandi sem eru blindir af eigin hégómagirnd. Ég óttast að flestir þeirra sem fara inn á þing í maí muni taka upp stefnu BF og vera með sem minnst vesen þegar á reynir. 

Hatrið og svívirðingarnar rista eflaust flesta inn að beini. Margir þingmenn segjast vera orðnir svo sjóaðir að þeir hafi orðið mjög harðan skráp. Þetta er auðvitað yfirvarp. Facebook, blogg, spjallsíður og athugasemdadálkar netmiðla eru uppfullar af ótrúlegum svívirðingum og ruddaskap að ekki tekur nokkru tali. Fólk á svo auðvelt með að fella dóma án þess að þekkja nokkurn skapaðan hlut til málavaxta og jafnvel þeir sem til þekkja missa sig og reynast sjaldnast málefnalegir heldur fá útrás fyrir ruddaskap. Eiginlega er það hin mesta raun að lesa til dæmis athugasemdadálkanna og skiptir oft litlu hvert umræðuefnið er.

Þessu öllu þarf að breyta en almenningur er sem betur fer ekki einsleitur. Útilokað er að fá suma til að vera málefnalega og það verður bara að vera svo. Hitt er svo annað mál hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í þingflokki VG. Þeirri menningu eða ómenningu geta þingmenn flokksins einir breytt. Og þeir þurfa að gera það. Eða hvers konar framtíðarsýn er það þar sem allir taka „upp stefnu BF og vera með sem minnst vesen þegar á reyni,“ eins og Lilja kemst svo hnyttilega að orði. 


mbl.is Valdalausir nema að svíkja loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

70% landsmanna eru á móti aðild að ESB

Kunna starfsmenn Samtaka iðnaðarins ekkert í almannatengslum? Óskiljanlegt er að birta svona frétt síðla dags á laugardegi. Afleiðing er sú að fréttin komast ekki inn í helgarblöð Morgunblaðsins eða Fréttablaðsins né heldur inn í fréttatíma Ríkisútvarpsins.

Samtök iðnaðarins hafa  lengi barist fyrir inngöngu landsins inn í ESB. Líklega kunna starfsmennirnir meira í almannatengslum heldur en virðist. Niðurstöður könnunarinnar eru neikvæðar og það er líklega ástæðan fyrir því að hún er birt á eins óáberandi hátt og mögulegt er.

Hefði könnunin sýnt meirihluta fylgjandi aðild hefðu Samtökin blásið í lúðra, haldið ráðstefnu (rukkað vel inn á hana), kallað til helstu forvígismenn iðnaðar í Evrópu og messað rækilega yfir fundargestum og blaðamönnum og gætt þess ekkert um könnunina færi framhjá landsmönnum og í þokkabót hefði verið gefinn út vandaður bæklingur um ósköpin og honum hefði verið dreift á öll heimili í landinu.

Engar upplýsingar eru gefnar um könnunina, aðeins stuttleg frétt á mbl.is og enn styttri á si.is. Hugsanlega er þetta könnunin frá því 19. febrúar en þá er hún nærri mánaðargömul og ekkert gagn af henni nema sögulegt.

Niðurstaðan er engu að síður sú að 70% eru á móti aðild að ESB. Það er gott. 


mbl.is Meirihluti áfram andsnúinn aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handarbaksvinnubrögð við breytingar á Laugardalslaug

Það hefði ekki verið mögulegt nema fyrir góðan skilning okkar gesta sem sýnt hafa biðlund og þolinmæði“, segir Logi Sigurfinnsson forstöðumaður Laugardalslaugar í tilkynningu. 

Þolinmæði okkar fastagesta í Laugardalslauginni hefur verið mikil undanfarin misseri. Ekki þar fyrir að margir eru hreinlega gáttaði á handarbaksvinnubrögðunum við breytingar á pottum, búningsklefum úti og inni.

Í fjóra mánuði hefur verið unnið í karlaklefanum og hann loksins tilbúinn núna. Mætti halda að einn maður hefði unnið við flísalagningu í hlutastarfi í klefanum og örfáir aðrir að auki við pípulagningar og annað smálegt. Á meðan hefur verið þrengt að gestum laugarinnar.

Kvennaklefanum var skipt upp í tvennt og þrengslin hafa verið óskapleg fyrir bæði kynin. Halda mætti að enginn hafi hugsað til þeirra sem nýta sér þjónustuna við bráðabirgðaskipulagið. Jafnvel eru áhöld um að þeir sem standa hér að málum hafi yfirleitt aldrei nýtt sér sundlaugar.

Það sem mestu skiptir hefði auðvitað átt að vera að klára bæði karla- og kvennaklefa á sem skemmstum tíma. Til þess hefði átt að nægja tveir mánuður. Á meðan hefði verið hægt að nota bráðabirgðaaðstöðu rétt eins og þá sem núna er verið að setja upp við útiklefa. Þarna hefði verið hægt að koma fyrir karla- og kvennaklefum strax í upphafi. Nóg er plássið.

Nei, þess í stað var fólki troðið inn í alltof lítinn klefa og til viðbótar áttu áttu þeir að duga fyrir þá sem stunda æfingasund í innilauginni og júdó og karate í kjallaranum. Fyrir vikið voru skápar alltof fáir.

Fyrir ári var einum pott breytt í nuddpott, annar var flísalagður og svo var byggður upp stór og góður sjópottur. Fyrir þetta ber að þakka ekki síst sjópottinn sem einhverra hluta vegna, og sem betur fer, er ekki grafinn ofan í jörðu eins og hinir pottarnir.

Hins vegar skil ég ekkert í því hvers vegna hringlaga pottarnir voru ekki stækkaðir fyrst það var á annað borð farið í endurnýjunina. Þetta hringlaga form þjónar engum tilgangi nema pottarnir séu þeim mun stærri. Svo mikil aðsókn er í þá að þeir fyllast ofurfljótt. 

Gáfulegra hefði verið að leggja af miðpottana. Í stað þeirra hefði átt að byggja stóra potta, alla á borð við sjópottinn.

Aðsókn í Laugardalslaugina er orðin svo mikil að starfsmenn eiga fullt í fangi með að leiðbeina gestum, sérstaklega útlendingunum. Útlendingar kunna fæstir að nota sundlaugar. Margir þvo sér ekki, láta nægja að stinga sér undir sturtuna eða þá að þeir skvetta á sig sápu og þvo sér í sundskýlunni. Við þessu þarf að bregðast með upplýsingamiðlun í afgreiðslu. Síðan verða gestir að eiga þess kost að geta dregið fyrir sturtuhengi meðan þeir athafna sig en það hefur hingað til vart verið hægt.

Það er rétt hjá forstöðumanni Laugardalslaugar að gestir hafa sýnt þolinmæði. Hins vegar fer ekkert fyrir skilningnum hjá mörgum okkar. 


mbl.is Laugardalslaugin lokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi Magnússon hamast gegn Sjálfstæðisflokknum

Sá þarf ekki að teljast einangrunarsinni sem leggst gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ekki frekar en sá sem vill aðildina sé á móti fullveldi Íslands eða landsölumaður. Uppnefni eru engin rök en það gerir Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri, sér ekki grein fyrir. Þess vegna er grein hans í Fréttablaðinu í dag eiginlega alveg marklaus.

Hann gagnrýnir Sjálfstæðiflokkinn fyrir hræðsluáróður og okkur sem erum á móti aðild Íslands að ESB kallar hann einangrunarsinna og hávær öfgaöfl. Ég var á landsfundinum og mér leið vel þar. Langflestir fundargesta voru á móti aðildinni og höfnuðu henni.

Hvað eiga þeir að gera sem hafa ákveðna skoðun í einstökum málum? Á að semja um þær? Stundum getur það verið ágætt, stundum ekki.

Aðildarumsóknin var knúin fram án þess að þjóðin væri spurð álits. Gengið var hreinlega framhjá henni þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn vildi að efnt væri til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en málið væri tekið fyrir á Alþingi. Þá hlógu stjórnarsinnar. Sögðu nóg að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu eftir samningaviðræðurnar þegar ljóst væri hvað væri í pakkanum.

Þegar aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi í júlí 2009 var logið að þjóðinni. Frá þeim tíma hafa staðið yfir aðlögunarviðræður við ESB, ekki samningaviðræður.

Í aðlögunarviðræðunum eiga Íslendingar að sýna fram á að þeir hafi tekið upp lög og reglur ESB og aðlagað stjórnsýsluna að kröfum sambandsins. Um þetta er ekkert samið, þetta er einhliða krafa ESB.

Engar samningaviðræður eiga sér stað. Hins vegar er hugsanlegt að í lokin leggi íslenska viðræðunefndin fram kröfur um undanþágur. Hugsanlegt er að ESB verði við þessum undanþágum en þær verða aðeins tímabundnar.

Helgi Magnússon minnist ekki á þessar staðreyndir í grein sinni. Hann skautar hins vegar um himinfestingar og sér hvergi til lands. Honum finnst sæma að vitna í Bjarna Benediktsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og hann sé einhver samherji ESB sinna.

Við erum aðeins 330.000 manns á þessari stóru eyju. Það þarf kjark, góða dómgreind og víðsýni til að hafna aðild að ESB og halda áfram að standa á eigin fótum. Í aðildinni felst ekkert annað en tap fyrir þjóðina, hún myndi hverfa í ESB þar sem þau ríki ráða sem hafa aldalanga reynslu sem nýlenduþjóðir og skeyta engu um réttlæti þegar eigin hagsmunir eiga í hlut. Það sýndi okkur afstaða Hollendinga og Breta í Icesave deilunni.

Helgi Magnússon ætti ekki að agnúast út í lýðræðislega forystu Sjálfstæðisflokksins og þá stefnu sem landsfundurinn mótaði á lýðræðislegan hátt. Við flokksmenn stöndum þétt að baki forystunnar og ef Helga er það um megn ætti hann að segja sig úr flokknum og ganga til liðs við þá sem nú fagna grein hans ákaft og taka sem dæmi um klofning.


Raunveruleikinn og dæmisaga Jóns Steinars

Jón SteinarJón Steinar Gunnlaugsson er einn af mínum bestu vinum, en sú vinátta er bara einhliða, því ég þekki hann ekki persónulega. Hef fylgst með honum í fjölmilum, lesið greinar eftir hann og hef hingað til virt hann eins og hann væri vinur. Hann veit ekkert hver ég er, en það skiptir engu máli. Ég hef enga sérastaka þörf á að kynnast Jón Steinar persónulega, meiru skiptir að ég met skoðanir hans.

Fátt er sárara en er vinir bregðast. Enginn ætti að þurfa að lenda í því. Í þessu tilviki finnst mér Jón Steinar hafa brugðist bogalistin allalvarlega í tveimur greinum sem hann hefur ritað í Morgunblaðið. Fyrri greinin birtist fyrir 5. mars og sú seinni í blaði dagsins. Mér finnst vanta dálítið upp á tengslin við raunveruleikann.

Jón ritar enn um verðtrygginguna og er við sama heygarðshornið og síðast. Nú kemur hann með dæmisögu um Olla og Steina, hinn varfærna mann og hinn ógætna. Sá fyrrnefndi stóðst hrunið en sá síðarnefndi lenti í vanda. Fín saga en hún tekur ekki mið af raunveruleikanum. Saga Kára Gunnarssonar gerir það hins vegar.

Og hver er Kári Gunnarsson? Jú, hann er kennarinn sem ritar greinina vinstra megin við þá eftir Jón Steinar, á blaðsíðu 24 í Mogganum í dag.

Kári keypti hús árið 2005 og tók lán upp á 9,5 milljónir króna. Hann er einfaldlega þessi Olli í sögu Jóns Steinars en lendir engu að síður í vanda. Mánaðarleg afborgun af láni hans tvöfaldaðist við hrunið og höfuðstóllinn hækkaði um rúman þriðjung. Engu að síður hefur Kári greitt átta milljónir króna af láni sínu frá því 2005 með vöxtum og verðbótum. Fyrir einhver undur er höfuðstóll lánsins 12.5 milljónir króna. 

Eiginlega þarf ekki að ræða grein Jóns Steinars neitt frekar. Grein Kára Gunnarssonar sér um að afgreiða hana. Kári stendur báðum fótum í íslenskum raunveruleika en Olli og Steini ekki. Þeir eru bara hugarfóstur sem eiga að sanna eitthvað sem ekki stenst.

Dæmisögur eru góðar en stundum hafa þær enga burði til að lýsa hinum bitra raunveruleika. Og sé Kári kennari eins og Olli, þá eru þeir Ollarnir enn fleiri áður en komið er að hinum ógætna Steina.

Engu að síður er saga Kára eiginlega saga hins „heppna“ manns. Sögur af öðrum eru hrikalegri og gerði fólk þó ekkert annað en að taka varfærnislega lán til að eignast þak yfir höfuðið. Fjármálastofnanirnar hafa tekið yfir húsnæði þessa fólks, vísaði því á götuna þar sem það þarf að greiða ótrúlegar fjárhæðir í húsaleigu.

Kári kennari greiðir 106 þúsund krónur á mánuði í afborganir af húsi sínu. Ég greiði hins vegar 140 þúsund krónur í húsaleigu. Raunveruleikinn er vissulega bitur, hann bítur þó ekki á þá Olla og Steina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband