Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Stórgölluð lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar gagnrýnd

Frumvarpinu var dreift á Alþingi 14. mars sl., einum degi áður en þingi átti að ljúka eftir því sem sagði í starfsáætlun þingsins.
 
Teljast það vera góð vinnubrögð að leggja framfrumvarp degi áður en þingi á að ljúka og ætlast til að það sé afgreitt? Þannig vinnur ríkisstjórnin og um leið ásakar hún stjórnarandstöðuna um að tefja mál.
 
Mörg góð mál sem verið er að tefja, segja stjórnarþingmenn. Þeir skrökva. Vinnubrögðin eru með þvílíkum endemum að lagafrumvörpin eru ótæk til meðferðar. Fjöldi stofnana gerir athugasemdir við þau. Frumvarpið um lánsveð er unnið með handarbakinu á þann hátt að stofnun Ríkisskattstjóra gerir athugasemdir við það.
 
Hvernig verður staðan ef ónýt lög verða samþykkt frá Alþingi? Ég býð ekki í það. Vonandi stendur stjórnarandstaðan í lappirnar og notar allar aðferðir til að koma í veg fyrir samþykkt þessara frumvarpa. Mín vegna má hún nota málþóf, lengri ræðutíma, athugasemdir við athugasemdir og hvað sem er.
 
Virðing Alþingis byggist ekki einungis á framkomu þingmanna í fjölmiðlum eða á þingfundum, meiru skiptir að „framleiðslan“ sé holl, þau lög og ályktanir sem samþykkt eru séu gallalaus. Svo má endalaust gagnrýna pólitískt innihald. 

mbl.is Aðferðin er „óvenjuleg og fáheyrð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB stelur af steliþjófunum

Krísan á Evrusvæðinu tekur á sig margvíslegar myndir. Nú hafa fjármálaráðherrar Evrulanda tekið ákvörðun um að stela peningum af innistæðueigendum á Kýpur.

Þetta er alveg stórfurðuleg ráðstöfum. Allt bendir til að menn viti ekkert hvað þeir ætli að gera með þetta smáríki. Fyrst átti að setja skatt á allar innistæður af því að sagt er að rússneskir glæpamenn eigi meirihluta innistæðnanna. Þá gerði það ekkert til þótt almenningin væri gerður óleikur í leiðinni. tilgangurinn er að stela klípu af ránsfeng ræningja og misyndismanna. Það telja margir án efa vera göfugt.

Síðan sjá kommisararnir að þetta gangi ekki og breyta fyrri ákvörðun.

Hvað hefðu þeir gert ef Ísland hefði verið aðili að ESB þann 1. október 2008. Þá hefði skuldum óreiðumanna áreiðanlega verið bjargað og íslensku bankarnir fengið að starfa áfram á kostnað sameiginlegra sjóða Evrópubandalagsins. Nema auðvitað að landið sé svo lítið að ekki tæki því að hjálpa neitt upp á sakirnar. Það hefði í raun verið hin mesta blessun.  


mbl.is Mörkin verða 100.000 evrur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúv sagði ekki frá rafmagnsbilun í heilar 40 mínútur

Rafmagnið fór af hverfinu mínu. Hvers vegna veit ég ekki, sá hins vegar að ljós voru í Kópavogi og Breiðholti. Sá ekki víðar. Því opnaði ég ferðaútvarpið mitt og hlustaði á Rúv ef ske kynni að ég fengi einhverjar upplýsingar. Ég hlustaði á Rás2.
 
Og ég hlustaði, hlustaði, hlustaði, hlustaði og hlustaði. 
 
Ekkert var þar að frétta nema að mér fannst dagskrárgerðarmaðurinn með mjúku og þægilegu röddina hefði mátt vera betur máli farinn. Hann sagði frá einhverjum sem væri „að gera tónlist“. Frá öðrum sagði hann sem bjó til lag með nafninu: „Get out of your lazy bed“ og þýddi það snöfurmannlega með „Drullaðu þér fram úr rúminu“ og svo komu auglýsingar.
 
Og ég hlustaði, hlustaði, hlustaði, hlustaði og hlustaði.
 
Hálftími leið. Dagskrárgerðarmaðurinn sagði frá dagskrá kvöldsins. Sagðist ætla að gefa þeim páskaegg frá Nóa-Síríus sem hringdi fyrstur. Hvað heitir þetta lag, gæti verið mikils virði að vita það, sagði hann.
Og ég hlustaði, hlustaði, hlustaði, hlustaði og hlustaði.
 
Hálftími leið. Engar upplýsingar var að fá úr þjóðarútvarpinu. Bölvað rugl þetta með almannahagsmunir . Tóm vitleysa að þetta Rúv væri þátttakandi í almannavörnum. Heilt hverfi tíu þúsund manna var rafmagnslaust og orkuveita Reykjavíkur svaf á verði sínum, rétt eins og Ríkisútvarpið.
 
Og ég hlustaði, hlustaði, hlustaði, hlustaði og hlustaði. Og þá kom loksins  tilkynningin frá dagskrárgerðarmanninum mjúkmála. „Bilun kom upp sem veldur því að rafmagnslaust er ...“ (þvílík rökleysa). Þá voru fjörtíu mínútur liðnar frá því að rafmagnið fór af .
 
Ég lokaði PowerBookPro tölvunni minni og lauk við að lesa síðasta kaflann í bókinn „Síðasta góðmennið“ eftir A.J. Kazinski. Bara ansi áhugaverð bók, ágætlega þýddþrátt fyrir smáhnökra hér og þar. Svo tók ég fram bókina „Hugsaðu þér tölu“ eftir John Verdon. Byrjunin lofar góðu ...
 
Hafði engan áhuga á því að vita hver fékk páskaeggið frá Nóa-Síríus eða hvað lagið heitir.

mbl.is Bilun í dreifikerfi Orkuveitunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rangt orðuð spurning í skoðanakönnun um ESB

Þegar sótt er um ökuleyfi þarf umsækjandi að standast próf. Til þess þarf hann að læra umferðareglur. Þetta er einhliða könnun, umsækjandinn hefur ekki nokkra möguleika á því að semja um niðurstöðuna. Annað hvort stenst hann prófið eða ekki.

Þannig er það með aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Henni fylgja engar samningaviðræður. Þess í stað er um að ræða einhliða yfirheyrslu ESB nefndar yfir nefnd frá íslenskum stjórnvöldum. Mjög nákvæmlega er farið yfir stjórnsýslu Íslands, lög og reglur og íslenska nefndin þarf að sannfæra þá frá ESB um að allt sé eins og þeir krefjast. Þær viðræður sem eru í gangi um þetta heita aðlögunarviðræður. Annað hvort stenst Ísland prófið eða ekki. Sem umsækjandi hefur landið ekki nokkra möguleika á að semja um niðurstöðuna.

Þetta kemur glögglega fram í reglum ESB. Af hverju er þá verið að villa um fyrir fólki og halda því fram að verið sé að semja um inngönguna í ESB. Hversu oft þar að segja það svo skiljist? Ísland stendur ekki í neinum „samningaviðræðum“ við ESB. Búið er að sækja um aðild og nú er verið að fullvissa ESB um að landið geti verið inni í ESB.

Engar „samningaviðræður“ standa yfir, aðeins aðlögunin ein.

Engu að síður finnst ESB sinnum það sæma málflutningi sínum að halda því fram að verið sé að semja og þeir gera meira að segja skoðanakönnun þar sem spurt er hvort fólk vilji frekar ljúka „aðildarviðræðum“ eða hætta þeim.

Frétt á vef stuðningsmanna ESB aðildar segir frá þessari skoðanakönnun. Hún er marklaus vegna þess að spurningin er röng, beinlínis er logið um hvað sé verið að gera.

 

Stuðningsmönnum þess að ljúka aðildarviðræðum við ESB fjölgar verulega.

 

 

61% þeirra sem tóku afstöðu vilja klára en 39% slíta.

 

 

Þetta er umtalsverð breyting frá því að samskonar könnun var gerð í janúar.

 

 

Þá vildu 52% klára viðræður en 48% slíta þeim.

 

 

Spurt var: Hvort vilt þú klára aðildarviðræður við ESB eða slíta þeim?

 

 

54% sögðust vilja klára, 34,6 vildu slíta og hlutlausir voru 11,5%.

 

 

Nú er ekki úr vegi að spyrja aðildarsinna einfaldrar spurningar: Um hvað hefur hingað til verið samið?

Ég veit nægilega mikið um málið til að gera fullyrt að um ekkert hefur verið samið, enda engar samningaviðræður í gangi. 

 


Hreyfingin terroriserar ríkisstjórnina og stjórnarandstaðan kætist

Hryðjuverkastarfsemi Hreyfingarinnar gegn ríkisstjórninni tekur á sig skemmtilegar myndir og er víst að sú síðarnefnda dauðsér nú eftir að hafa ekki storkið þeirri fyrrnefndu blíðlegar.

Staðan er einfaldlega sú að Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur lagt fram breytingatillögu við frumvarp formanna Samfylkinga, VG og Bjarts um breytinga á stjórnarskránni. Breytingin er einfaldlega sú að heilt stjórnarskrárfrumvarp komi í stað samkomulags ríkisstjórnarflokkanna.

Breytingartillagan er hrein snilld og setur ríkisstjórnina og meirihluta hennar í svo erfiða klemmu að vandséð er hvort nokkur ríkisstjórn hafi lent í öðru eins.

Auðvitað geta ríkisstjórnarflokkarnir ekki greitt atkvæði á móti breytingunni. Þá væru þeir að greiða atkvæði gegn nýrri stjórnarskrá sem þeir hafa svo fjálglega um rætt. Þeir geta ekki heldur greitt atkvæði með tillögunni því þá væru þeir að setja allt í uppnám í þinginu sem ætti í raun að vera lokið.

Staðan er því sú að tillaga formannanna er ónýt. Í stað þess að greiða atkvæði um eitthvert framtíðarmoð er stjórnarskráin komin aftur á dagskrá og framhald þingsins í algjörri óvissu. Uppnámið er því nú í boði Hreyfingarinnar.

Meint málþóf stjórnarandstöðunnar vegna frumvarps um nýja stjórnarskrár bliknar við hliðina á þessum vanda þingmanna ríkisstjórnarinnar. Þeir geta í hvorugan fót stigið og vita ekki hvort þeir eigi að fordæma vini sína í Hreyfingunni eða helv... stjórnarandstöðuna. Sú síðarnefnda stendur þó aðeins á hliðarlínunni, aðhefst ekkert en hláturinn kumrar í þeim. Skiljanlega. Og hefnd Hreyfingarinnar er sæt.


mbl.is Stjórnarskrármálið tekið til umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Schengen er gagnslaust gegn glæpalýð

Ný gögn frá lögreglunni í Hollandi hafa leitt í ljós að flökkumenn og glæpamenn misnota sér frelsið til
að ferðast án vegabréfa milli ríkjanna í Schengen-samstarfinu.
 
Lítil frétt í Morgunblaðinu í morgun vakti athygli mína. Enginn er hissa á því í sjöhundruð milljón manna samfélagi ríkja gangi glæðalýður um rétt eins og hinir, ferðist á milli landa á flótta með feng sinn eða í einhverjum öðrum erindum.
 
Schengen samstarfið auðveldar öllum ferðalög. Eftirlit takmarkar aðeins ferðir glæpalýðs sem þá þarf að hafa meira fyrir starfi sínu.
 
121 maður var handtekinn fyrir að ferðast milli landa með fjármuni í þeim tilgangi að stunda fjárþvætti, 325 voru handteknir með fíkniefni og 259 hugðust smygla ólöglegum vopnum í landið. Þá hafði lögreglan einnig hendur í hári 419 manna með fölsuð vegabréf, 141 sem var að smygla fólki og 110 manns sem stunduðu mansal á austurevrópskum konum. 
 
Jafnvel við Íslendingar, sem þó höfum náttúruleg landamæri en erum því miður aðilar að Schengen, höfum orðið vitni að því að glæpalýður gengur óhindrað inn og út úr landinu á skítugum skónum.
 
Ég held að flestir myndu með glöðu geði taka á sig óþægindi vegna vegabréfaskoðunar við komu til annarra Evrópulanda en um leið treysta því að hér á landi væru þeir vaktaðir sem koma til landsins og tékkað á þeim og erindi þeirra.
 
Þeir sem koma til Bandaríkjanna þurfa að sæta því að vera spurðir nákvæmdra spurninga um erindi sitt og dvalarstað. Það er ekki gert hér á landi. Hingað geta glæpamenn athafnað sig að vild, hvílt sig eftir vertíð, dvalið í Hveragerði eða gert hvern fjandann sem þeir vilja. 
 
Er þetta það sem við viljum? Ég held að Schengen sé gagnslaust apparat nema fyrir vonda liðið.
 

Margir staðir kyrrlátari en Landmannalaugar

980409-14

Vissulega er fagurt í Landmannalaugum og þar er mikil náttúruparadís. Þær eru þó víðar á landinu en vandinn er sá að fjöldi staða hafa allt umfram Langamannalaugar nema einna helst húsaskjólið. Það skiptir öllu.

Auðvitað er hægt að tjalda en það er öðru vísi og slíkt gerir maður ekki lengi á sama stað.

Í Landmannalaugum er örtröð, eiginlega jafnt sumar og vetur. Þegar margt fólk dvelur þar á sama tíma fer oft lítið fyrir kyrrðinni. Einna helst er það þegar útlendingar dvelja þarna. Íslendingunum fylgir oft fylleríi og hávaði. Veturinn er auðvitað stórkostlegur til ferðalaga.

910328-42

Ég mæli hins vegar með fáfarnari slóðum en Landmannalaugum ef sóst er eftir kyrrðinni.

Efri myndin er tekin við Námskvísl og er horft inn að Laugahraun og upp í Brennisteinsöldu.

Neðri myndin er tekin á Laugaveginum að vetrarlagi norðarlega í Almenningum. 


mbl.is Kyrrðin heillar erlenda ferðamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að fá nýjan formann fyrir VR

Ánægjulegt er að nýr formaður hafi verið kjörinn í stéttarfélaginu mínu, VR. Ég kaus hana. Ástæðan var fyrst og fremst sú að ég tel hana geta komið á ró og frið innan félagsins og stuðlað að því að það nái betri árangri fyrir félagsmenn sína.

Stéttarfélag er ekki eign eins eða neins. Hroki og virðingarleysi fyrir félögum gengur ekki. Sannast sagna hefur maður verið dauðþreyttu á væringum innan félagsins síðustu árin. 

Ég vona að nýr formaður endurskoði starfsemi Starfs ehf. sem félagið stofnaði á síðasta ári til að þykjast gera eitthvað fyrir atvinnulausa. Fyrirtækið er gerir sáralítið gagn, raunar ekkert umfram það sem Vinnumálastofnun gerði fyrir stofnun þess. Ótækt er að eyða skattfé í magnlausa starfsemi sem lítið gerir annað en að veita nokkrum forvígismönnum stéttarfélaga og atvinnurekenda laun fyrir stjórnarsetu og nokkrum ráðgjöfum greiðslur fyrir verkefni sem útilokað er að þeir geti sinnt með neinum árangri.


mbl.is Ólafía nýr formaður VR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi er afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins

Fjörbrot ríkisstjórnarmeirihlutans taka á sig enn undarlegri myndir. Hann ætlar ekki að leggja sig niður mótþróalaust þó svo að samkvæmt skoðanakönnunum njóti hann aðeins um fjórðungs stuðnings kjósenda.

Í örvæntingu dælir ríkisstjórnin út lagafrumvörpum á síðustu andartökum þingsins, heldur því svo fram að stjórnarandstaðan standi í vegi fyrir afgreiðslu þeirra. Þingið á sem sagt að afgreiða lagafrumvörp og ályktanir á færibandi, helst án umræðu enda eru allar umræður líklega bara málþóf.

Þetta vekur spurningar um gáfur og dugnaði og hvernig dyggðum er skipt á milli meirihluta og minnihluta. Óhjákvæmilega má álykta sem svo að meirihlutinn þurfi engar umræður. Honum nægja nokkurra klukkustunda umræður í nefnd og svo kortér í þingsal til að geta fallist á frumvarp ríkisstjórnarinnar. Raunar nægir honum nafn frumvarpsins. Þetta ber víst vott um andlega yfirburði þeirra sem styðja ríkisstjórnina.

Fyrir hrun héldu þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna því fram að löggjafarþingið ætti ekki að vera afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið. Ekki er ofmælt að halda því fram að þingmenn ríkisstjórnarinnar gangi alfarið erinda ríkisstjórnarinnar. Þeir virðast ekki hafa nokkra sjálfstæða hugsun. Og nú, vegna þess hversu lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar eru seint fram komin verður bara að seinka þingslitum á kostnað lýðræðisins, undirbúningsins fyrir kosningar.

Ber þetta vott um virðingu fyrir lýðræðinu? Eiga fylgisrúnir stjórnmálaflokkar að fá að ryðjast fram með illa samin lagafrumvörp á síðustu andartökum þingsins og fá þau samþykkt? Á þingið að sitja fram að kjördegi?


mbl.is Óvissa um lok þingsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör

Styrmir

Bók Styrmis Gunnarsson, „Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör“ er afar fróðleg bók. Var að ljúka við að lesa hana og hafði óskaplega mikið gagn af. Meðan hún er enn fersk í minni mér ætla ég að hripa niður nokkrar hugleiðingar vegna hennar. 

Bókin fjallar að stærstum hluta um formennskutíð Geirs Hallgrímssonar og raunar rúmlega það en Styrmir var einn af helstu ráðgjöfum hans og trúnaðarmaður.

Mér þykja þessi ummæli Styrmis afskaplega eftirminnileg:

Hann var stefnufastur maður á tímum þegar stefnufesta var ekki endilega í hávegum höfð. Hann hafði hugsað afstöðu sína til þjóðmála djúpt og í þaula á tímum sem hömpuðu fremur yfirborðsmönnum.

Undirferli og neðanjarðarhernaður var honum [Geir Hallgrímssyni] svo fjarlægt að hann var í raun ófær um að stunda slík vinnubrögð, þótt þeim væri óspart beitt gegn honum.

Kynni mín af góðu fólki 

Ég hóf þátttöku í starfi Sjálfstæðisflokksins er ég var sextán ára, tók þátt í starfi Heimdallar og kynntist þar mörgu góðu fólk, bæði á mínu aldursskeiði og eldra fólki. Þessi ár mótuðu mig afar mikið enda varla annað hægt. Maður fékk að ræða við fólk eins og Geir Hallgrímsson, Jóhann Hafstein, Gunnar Thoroddsen, Ragnhildi Helgadóttur, Matthíasi Á. Matthiesen, Matthíasi Bjarnasyni, Sverri Hermannssyni og fleiri goðumlíka menn sem voru nær daglega í fjölmiðlum.

Meðal ungra sjálfstæðismanna kynntist maður leiftrandi hugsjónamönnum eins og Friðriki Sophussyni, Davíð Oddsyni, Þorsteini Pálssyni Kjartani Gunnarssyni, Jóni Magnússyni, Hannesi H. Gissurarsyni, Ingu Jónu Þórðardóttur, Óskari Magnússyni, Jónínu Michaelsdóttur, Helenu Albertsdóttur og mörgum öðrum. Með mér í stjórn Heimdallar voru hörkunaglar eins og Skafti Harðarson, Hreinn Loftsson, Júlíus Hafstein, Gústaf Níelsson, Anders Hansen, Tryggvi Gunnarsson, Árni Sigfússon, Björn Hermannsson og fleiri og fleiri. Allt þetta fólk átti þátt í að móta mann að nokkru leyti.

Flokkadrættir 

Á þessum tíma voru miklar óeirðir í Sjálfstæðisflokknum, svo miklar að manni fannst stundum að það væri ekki einleikið. Menn skiptust í hópa. Þarna voru Geirsmenn, Gunnarsmenn (Thoroddsen) og Albertsmenn („hulduherinn“).

Ég studdi Geir Hallgrímsson. Kom þar tvennt til. Geir kom mér fyrir sjónir sem vitur maður og kurteis. Hann gaf sér tíma til að tala við okkur yngri mennina og ekki síður að hlusta.

Svo var það að bræður mínir, Sigfinnur og Skúli, höfðu verið stuðningsmenn Gunnars Thoroddsen í forsetakosningunum 1968. Sá síðarnefndi hafði síðar verið aðstoðarmaður Gunnars í félagsmálaráðuneytinu. Þeir létu báðir af stuðningi við Gunnar af málefnalegum ástæðum. Sögðu hann ekki framkvæmdamann, átti það til að skipta ótt um skoðun, gæti jafnvel verið tvöfaldur í roðinu og því frekar eigingjarn. Sigfinnur bróðir starfaði lengi sem hagfræðingur hjá Reykjavíkurborg og kynntist þar Geir Hallgrímssyni borgarstjóra afar vel og gerðist harður stuðningsmaður hans þegar Geir fór í landsmálin.

Styrmir lýsir Geir Hallgrímssyni einstaklega vel og margt kemur manni á óvart. Hann lýsir prúðmennsku og drengskap Geirs en bætir því þó við að hann hafi ekki verið skaplaus heldur hafði hann sterkt taumhald á sér.

Þessa nótt var hann stjórnlaus af reiði og sakaði okkur um að bera ábyrgð á óförum sínum í prófkjörinu, þar sem við hefðum lyft Albert upp með því að hampa honum of mikið í blaðinu.

Svo virðist af frásögn Styrmis að svona uppákoma hafi heyrt til algjörra undantekninga. Engu að síður hlýtur þessi frásögn úr bókinni að hafa komið öllum sem þekktu til Geirs mikið á óvart.

Áhrifavaldurinn 

Gunnar Thoroddsen var mikill áhrifavaldur í lífi Geirs er hann hóf þátttöku í landsmálum. Styrmir rekur á mjög sannfærandi hátt hvernig stóð á þeirri óvild sem var á milli þessara tveggja stjórnmálamanna. hann segir:

Forystumönnum Sjálfstæðisflokksins fannst nóg um hvað Gunnar Thoroddsen var frekur til fjörsins. Þegar hann vildi hætta í pólitík þótti honum sjálfsagt að hann fengi það endiherraembætti sem hentaði. Þegar hann vildi komast heim fannst honum sjálfsagt að hann fengið það sem hugur hans stóð til. Þessi atburðaráðs er ein af ástæðunum fyrir því, að Geir Hallgrímssyni þótti ekki sjálfsagt að Gunnar Thoroddsen yrði varaformaður Sjálfstæðisflokksins á nýjan leik.

Endurkoma Gunnars Thoroddsen var honum erfið. Stjórnmálin voru önnur, Sjálfstæðisflokkurinn hafði breyst meðan Gunnar var sendiherra og í Hæstarétti. Nýtt fólk hafði komið inn og það þurfti olnbogarými. Einn af þessum var óvart Geir Hallgrímsson og hann reyndist vera fyrir Gunnari. Það dugði til að Geir varð óvinurinn og allt sem óvinurinn gerir er slæmt. Þetta var óholl pólitík.

Styrmi hefur skoðun á andstöðu innan stjórnmálaflokks og segir þessi orð og ég dáist að þeim:

Í þessu sambandi er hollt að hafa í huga að í svo stórum flokki getur verið beinlínis gagnlegt að til sé slíkur annar póll, forystumaður, sem safnar utan um sig hinni óánægðu hjörð sem allaf er til staðar í stjórnmálaflokkum og breikkar þannig stuðningsmannalið flokksins.

Þetta er svo satt og þetta þekkja allir sem starfa innan stjórnmálaflokka. Gallinn var bara sá að Gunnar (59 ára gamall) leit á Geir (44 ára) „sem hálfgerðan strákling sem gæti vel beðið“, eins og Styrmir segir. Sem sagt Geir var bara fyrir og það skapaði leiðindi sem varð að djúpstæðri óvild af Gunnars hálfu.

Arfleið Geirs 

Frásögn Styrmis af þessum árum frá 1970 til 1990 varpar einstöku ljósi á stjórnmálin vegna þess að hann er ráðgjafinn, maðurinn í innsta hring. Hann er blaðamaður, skrifar hjá sér minnispunkta, og á grundvelli þeirra getur hann tjáð sig betur en flestir aðrir og er afar sannfærandi.

Þegar upp er staðið er arfleið Geirs sterk og mikil. Styrmir rekur það skilmerkilega og af mikilli dýpt, ef svo má að orði komast:

En hvað er réttur mælikvarði? Skiptir það ekki meira máli frá sjónarhóli almannahagsmuna hvaða árangri þeir menn, sem valdir eru til hinna æðstu metorða, ná í hagsmunamálum fólksins sem þeir eru að vinna fyrir?

Ef við notum þann mælikvarða, er Geir Hallgrímsson einn af merkari stjórnmálaleiðtogum íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni. Hann skilaði árangri, sem hafði raunveruleg og langvarandi áhrif á líf fólksins í landinu. Verk hans á vettvangi Reykjavíkurborgar eru óumdeild. 

Gallinn við bókina er sú að mér finnst hún stundum laus í reipunum. Ætti jafnvel að vera í tímaröð en höfundur bregður víða frá því, oft af skiljanlegum ástæðum. Hins vegar fékk ég oftar en ekki á tilfinninguna að margir kaflar í bókinni væru inngangar að einhverju meira og bitastæðara sem þó aldrei kom. Kann að vera að ritstíll Styrmis er hvorki sagnfræðilegur sé sá sem sögumenn tileinka sér. Hann er blaðamaður, maður hinna knöppu frásagnar sem á að upplýsa frá degi til dags. Ef til vill má lýsa þessum stíl sem nokkurs konar fyrirsagnastíl og er með því síst af öllu verið að gera lítið úr höfundinum. Hins vegar er ég þess fullviss að bókin verður sagnfræðingum mikill brunnur og mun koma til með að auka skilning fólks á stjórnmálum þessa tíma.

Persónulegt 

Hér að ofan hef ég reynt að segja dálítið frá bók Styrmis, „Sjálfstæðisflokkurinn, átök og uppgjör“ og þær hugleiðingar sem skutu upp kollinum við lestur hennar. Margt er ósagt. Ég fagna bókinni og hún fær veglegan stað í bókasafni mínu.

Geir

Ég vil samt geta þess að í gamla daga var ég blaðamaður á Vísi og blaðið var stundum notað til að koma höggi á Geir. Það skildi ég ekki. Eftir fáu sé ég eins mikið og að ég hafi látið misnota mig við þá iðju. Ég átti að vita betur, segja honum Herði Einarssyni, ritstjóranum mínum, að fara norður og niður með ráðabrugg sitt. En rúmlega tvítugur maður er oft linur.

Geir þekkti mig þegar ég hringdi í hans. Ég hafði að fyrirskipun Harðar ritstjóra látið mig hafa það að spyrja hvort hann ætlaði nokkuð að bjóða sig fram til formanns á landsfundinum 1979 og formálinn var svona frekar leiðinlegur.

Þögn var í símanum og svo sagði Geir: Ert þú ekki Sigurður í Heimdalli?

Jú, svaraði ég.

Þá sagði Geir: Þú átt ekki að láta hafa þig út í svona vitleysu, Sigurður minn.

Og þá skammaðist ég mín meira en nokkru sinni og bað hann afsökunar. Fréttin í Vísi varð síðan óttalega ómerkileg.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband