Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Nýtt þing mun afnema verðtrygginguna

Verðtryggingunni verður breytt á næsta þingi. Framsóknarflokkurinn er á þeirri skoðun og Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti tillögur í þá veru á síðasta landsfundi og mun hnykkja á þeim á næsta landsfundi.

Báðir þessir flokkar gera sér grein fyrir því að það gengur ekki að stór hluti landsmanna sé lokaður inni í höftum verðtryggingarinnar með öllum þeim fylgikvillum sem það hefur fyrir einstaklinga og þjóðfélag.

Þessir tveir flokkar munu fá meirihluta í næstu kosningum og þá munu þeir framkvæma það sem Samfylkingin og Vinstri grænir þorðu ekki og leiðrétta misgjörðir vinstra liðsins.

Ný ríkisstjórn mun taka við hreinu borði. Vinstri menn hafa kappkostað að færa bókhald og taka til á borðum sínum og hafa verið önnum kafnir við það. Hins vegar hafa þeir ekkert gert í að auka verðmætasköpunina í þjóðfélaginu sem er grunnatriði. Allt annað skilar sé framleiði samfélagið til útflutnings. Engin verðmætasköpun verður í lokuð samfélagi hafta og skattaáþjánar.


mbl.is Afnám verðtryggingar lykilatriði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Apaspilið með Vaðlaheiðagöngin

Vaðlaheiðagöng verða afskaplega mikilvæg en því verður þó ekki neitað að svo er um maragar aðrar framkvæmdir í samgönguáætlun. Það er líka rétt að Borgarfjarðarbrúin var á sínum tíma afskaplega þörf framkvæmd. Þar með lýkur samanburði á þessum tveimur mannvirkjum.

Borgarfjarðarbrúin styttir verulega vegalengdir, líklega um tæpa þrjátíu kílómetra fyrir þá sem fara vestur yfir Mýrar en skemur fyrir þá sem voru á leið norður Borgarfjörð. Styttingin vegna Vaðlaheiðaganga er aðeins um sextán kílómetrar.

Flestir eru munu vera sáttir við að göngu verði boruð í gegnum Vaðlaheiði. Munum þó hvernig staðið hefur verið að framkvæmdinni. Hún er sögð einkaframkvæmd en engu að síður er Vegagerð ríkisins eigandi að 51% hluta félagsins. Svo lánar ríkissjóður 8,7 milljarðar króna í framkvæmdina.

Nauðsynlegt er að greint sé á milli mannvirkisins og hvernig það kom til. Í því ljósi er óumdeilanlegt að Vaðlaheiðagöng munu skipta máli. Hitt er líka vitað að ekki munu allir vegfarendur greiða fyrir notkun gangnanna heldur aka Víkurskarð eftir sem áður enda er það óskaplega falleg ökuleið og henni verður viðhaldið um ókomin ár. Vegafarendur eiga því um tvo kosti að velja. Ekki er öruggt um að allir velji göngin.

Það sem allir setja út á er aðferðin. Ekki var hægt að troða Vaðlaheiðagöngum fremst á samgönguáætlun, önnur göng eru talin miklu mikilvægari. Þess vegna var sú leið farin að skrökva til um framkvæmdina, segja hana einkaframkvæmd, sem hún er ekki. Fullyrt hefur verið að göngin standi undir stofnkostnaði og rekstri. Fjölmargir hafa með rökum dregið það í efa.

Niðurstaðan verður eflaust svipuð og annars staðar. Þegar mannvirkið hefur verið klárað er ekki nokkur leið að koma því í burtu. Kostnaðurinn leggst þar af leiðandi á ríkissjóð. Þegar Borgarfjarðarbrúin var byggð greiddi ríkissjóður alfarið fyrir hana. Er það ekki hreinlegra en að leggja í einhvern „monkíbissnis“.


mbl.is Vaðlaheiðargöng eitt af lykilmannvirkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Illa skrifuð frétt

... er það var að aka áleiðis til Skjaldbreiðs.“ Þetta er alveg hræðilega illa skrifuð frétt. Þó stutt sé er ekkert samhengi í henni. 

Enginn ekur til Skjaldbreiðar, Keilis eða Esju, orðalagið er barnalegt. Líklega muni flestir orða það þannig að þeir hefði ekið að Skjaldbreið, Keili eða Esju. Hins vegar væri hægt að segja að einhver hefði ekið áleiðis til Jóns eða Gunnu eða Reykjavíkur.

Orðinu „áleiðis“ er einfaldlega ofaukið. Best hefði verið að segja að bíll fólksins hafi lent í krapa á vegarslóða að Skjaldbreið.

Svo fer ágætlega á því að reka söguna í tímaröð en hoppa ekki til og frá. Svo skil ég ekki þetta: „Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hversu margir eru ...“. Hvaða skilning á að leggja í þetta „með nákvæmum hætti“? Þetta er bar rugl.

Örnefnið Skjaldbreið hefur ekki ess í eignarfalli. Það beygist svona, Skjaldbreið, Skjaldbreið, Skjaldbreið, Skjaldbreiðar.


mbl.is Björgunarsveitir aðstoða jeppafólk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samfylkingin rústar Landspítalann

Heilbrigðisstéttir á Landspítalanum eiga í vanda vegna kjaramála. Þessar stéttir hafa þagað hingað til og látið ríkisstjórnina segja sér að enginn peningur sé til að bæta kjör þeirra. Og nú stendur Katrín Júlíusdóttir, fjármála- og efnahagsráðherra og Samfylkingarmaður, upp og segir að engir peningar séu til að bæta kjörin.

Skyldi hún eða forveri hennar hafa verið með í ráðum þegar Guðbjartur Hannesson, velferðaráðherra og Samfylkingarmaður, hafði nóg af peningum til að „bæta“ hin aumu kjör forstjóra Landspítalans síðasta sumar? Og það rúmlega mánaðarlaun hjúkrunarfræðings.

Svona er nú pólitíkin hjá Samfylkingunni. Móralskt eyðileggjandi. Ríkisstjórnin er rúin trausti í þessu máli sem öllum öðrum.


mbl.is Stjórnvöld geta ekki boðið meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin lyfti lánshæfismatinu - ekki ríkisstjórnin

Þjóðin tók völdin af ríkisstjórn og Alþingi og sagði að skuldir óreiðumanna kæmu sér ekki við. Afleiðingin varð ekki gjaldþrot ríkissjóðs, ekki að landið yrði Kúba norðursins, ekki að allt færi norður og niður í efnahagslífinu. Þvert á móti.

Nú hefur matsfyrirtækið Moody's sagt með léttri lund að lánshæfiseinkun ríkissjóðs sé stöðug en ekki lengur neikvæð.

Þetta gat ríkisstjórnin ekki gert upp á sitt einsdæmi. Og raunar barðist hún með oddi og egg gegn þjóðinni, rétt eins og hún berst enn fyrir því að koma landinu inn í Evrópusambandið þvert gegn vilja alls almennings.

Og hvað skyldu nú vera margir dagar til kosninga. Jú, það sést hérna hægra megin. Hvort tveggja er efni í veislu um helgina, lánshæfismatið og fyrirsjáanleg afsögn óhæfrar ríkisstjórnar. 


mbl.is Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs batnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðishallinn í Evrópusambandinu

Er það í anda lýðræðisins að sækja um aðild að Evrópusambandinu, án þess að ganga úr skugga um að þjóðin styðji þá umsókn? Er það ásættanlegt frá sjónarmiði lýðræðisins, ef annar þeirra stjórnmálaflokka, sem standa að umsókn Íslands, er yfirlýstur andstæðingur aðildar? 

Þessar spurningar leggur Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi þingmaður og sendiherra í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun um lýðræðishallann í Evrópusambandinu. Hann velti fyrir sér eðli sambandsins og skortinn á lýðræðinu í því. Hann segir:

Mesta athygli vekur þó þögn aðildarsinna um svokallaðan lýðræðishalla ESB. Um hann er ekki rætt þótt það sé yfirlýstur draumur þessara aðila, að Ísland verði aðili að þessum hallarekstri. Í Evrópusambandinu er hins vegar mikil umræða um þennan vanda sambandsins. Þar gera stjórnmálamenn, stjórnmálafræðingar og heimspekingar sér grein fyrir því, að einmitt þessi vandi Evrópusambandsins vegur að sjálfri undirstöðu hugmyndanna um samstarf og samruna Evrópuríkja í þeirri viðleitni þeirra að tryggja íbúum álfunnar frið, hagsæld og lýðréttindi.

Og Tómas er á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu en hann ræðir heiðarlega um sambandið enda þekkir hann vel til innviða þess. 

Rétt er að athuga það, að umræður um vaxandi veikleika lýðræðisins innan ESB eru langt frá því að vera höfuðverkur þeirra einna, sem eru almennt á móti aðild að bandalaginu. Ég á fjölmennan hóp vina og kunningja í Evrópulöndum, sem eru heiðarlegir og einarðir stuðningsmenn ESB, en hafa þungar áhyggjur af því sem ESB kallar sjálft „lýðræðishalla“ sambandsins. Stjórnmálamenn, stjórnmálafræðingar og háskólamenn, sem augljóslega eiga sér þann draum að stuðla að samstarfi Evrópuríkja innan ESB, skrifa fróðlegar greinar í dagblöð og tímarit og gefa út bækur um þessi efni. Er sú umfjöllun langt frá þeirri þögn eða afneitun á vandanum, sem kemur fram og er meginstef í málflutningi aðildarsinna á Íslandi. Þeir eru einhver einangraðasti og sjálfhverfasti flokkur pólitískra blindingja, sem ég hef nokkru sinni kynnst.

Þetta eru áhugaverð umfjöllin ekki síst um málflutning aðildarsinna hér á landi. Skyldu þeir nokkuð fylgjast með umræðunni úti í Evrópu eða þóknast það ekki hagsmunum þeirra að nefna hana?

 


 


Ríkisstjórn gegn hagsmunum þjóðar

Hrunadansinn margumræddi færðist úr bönkunum yfir í stjórnarráðið. Í stað óábyrgra, sjálfmiðaðra og hrokafullra bankamanna fékk þjóðin nákvæmlega eins innréttaða og jafn siðlausa ríksstjórn, sem reynir að hagnast á óförum þjóðarinnar.

Ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu hefur aldrei sinnt því sjálfsagða hlutverki að sameina þjóðina á ögurstundu, koma á þjóðarsátt um endurreisn og vera málsvari hennar og hagsmunavörður á alþjóðavettvangi. Þvert á móti skipaði ríkisstjórnin sér á bekk með meintum kröfuhöfum okkar. Hún klauf þjóðina í herðar niður í hverri aðförinni á fætur annarri: með aðför að fullveldinu, auðlindunum, stjórnarskránni, sjávarútvegi og grundvallar-stjórnskipunareinkennum á borð við lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríkiseinkenni, með leikritinu um Landsdóm.

Þetta segir Kjartan Gunnar Kjartansson, blaðamaður á Morgunblaðinu í pistli dagsins í blaðinu. Við þetta er eiginlega ekkert að bæta. Þetta er rétt lýsing á ríkisstjórninni og verkefnum hennar síðustu fjögur árin. Þau eru henni ekki til sóma og gerist nú nýr formaður annars stjórnarflokksins vígmóður og vill frið ... Um hvað?


Komið að afsögn forstjóra og ráðherra

Munum að kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við Landspítalann má rekja til hins óskiljalega ráðbruggs forstjóra spítalans og ráðherra velferðaráðherra um hækkun á launum þess fyrrnefnda.

Nú er staðan einfaldlega sú að Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands og velferðarráðherra í norrænni velferðarstjórn, hefur hent tæpum hálfum milljarði króna til forstjóra Landspítalans. Þau orð fylgdu að annað hvort samþykktu hjúkrunarfræðingar nýjan kjarasamning og hann gilti til framtíðar eða aurinn væri eingreiðsla sem dreift yrði á einhvern gáfulegan hátt milli þeirra.

Sem sagt, fólki er stillt upp við vegg. Auðvitað hafna hjúkrunarfræðingar slíkum afarkosti. Hækkun launa verða til dæmis ekki nema brot af því sem Guðbjartur, velferðaráðherra, lofaði Birni Zoega, forstjóra spítalans, og ætlaði sá síðarnefndi ekki að fjölga tímum í vinnudeginum heldur skipta sér áfram á milli læknis- og stjórnunarstarfa. Óskiljanleg ráðstöfun ...

Nú er svo komið að spítalinn er eiginlega gjaldþrota og það í fleirum en einum skilningi. Ennfremur er ljóst að ráðherrann hefur ekki reynst vandanum vaxinn og þaðan af síður forstjórinn. Þeir hafa espað starfsfólk spítalans til reiði, fjöldi hjúkrunarfræðinga hefur sagt upp störfum. Utan við dyr forstjórans bíða aðrar starfsstéttir við spítalans og krefjast launahækkana, að minnsta kosti til jafns við hjúkrunarfræðinga.

Eldar loga í Landspítalanum. Því ætti varla að þurfa að krefjast þess að ráðherra velferðarmála og forstjóri spítalans segi af sér og hleypi öðrum og skynsamari mönnum að. 


mbl.is Margt þarf að gerast og hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bull og rugl með ESB umsókna og nýjan gjaldmiðil

Umræðan um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er á miklum villigötum sem og allt tal um nýjan gjaldmiðil.

Staðreyndin er einfaldlega sú að verið er að aðlaga Ísland að lögum, reglum og stjórnsýslu ESB. Ekki er verið að semja um nokkurn skapaðan hlut. Í lokin verður allt fullkomlega aðlagað og þá er ekkert annað en að ganga inn í sambandið. Enginn samningur verður í boði, enginn pakki til að kíkja í.

Nýkjörin formaður Samfylkingarinnar vill taka upp evru. Lítill hluti Sjálfstæðisflokksins vill kasta krónunni og taka upp einhvern annan gjaldmiðil, helst kanadadollar. Þeir sem halda þessu fram átta sig ekki á því að staða þjóðar verður aldrei betri en sem nemur framleiðslu landsins.

Skuldastaða heimilanna batnar ekki þó upp sé tekinn annar gjaldmiðill. Atvinnuleysið minnkar ekkert. Verðbólgan hverfur ekki. Verðtryggingin gufar ekki upp.  

Verðmætasköpun innanlands skiptir öllu máli. Ástæðan fyrir því að gegni krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum hefur stöðugt breyst í tugi ára er einfaldlega einhæfir atvinnuvegir. Allt byggðist á sjávarútvegi og fiskvinnslu. Náttúrulegar sveiflur í aflabrögðum skiluðu sér í gengi krónunnar. Dettur nokkrum manni í hug að kanadadollar hefði getað jafnað út gengi krónunnar? Hann hefði aðeins verið til vandræða.

Núna byggir verðmætasköpunin á fleiri atvinnuvegum. Hvorki evra eða kanadadollar munu bæta neinum þann skaða sem verður vegna hækkunar á innflutningsvörum. Enginn gjaldmiðill mun bæta skaðann vegna lægra markaðsverðs á íslenskum vörum og þjónustu í erlendri mynt.

Það er líka mikill misskilningur að laun munu haldast óbreytt eða betri ef við tökum upp annan gjaldmiðill. Sú hagfræði getur aldrei gengið upp. Gjaldmiðillinn getur ekki verið annað en það sem endurspeglar verðmæltasköpun hverrar þjóðar. Evran endurspeglar ekki raunveruleika Grikkja, Spánverja eða annarra ríkja ESB.

Krónan endurspeglar efnhag Íslands svo fremi sem höft af ýmsu tagi spilla ekki. 

 

 


mbl.is Umræðan um ESB á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rústabjörgunar er þörf eftir fjögurra ára velferðarstjórn

Svona er þjóðfélagið í sag eftir fjögurra ára velferðarstjórn vinstri flokkanna sem ætluðu að draga okkur upp úr afleiðingum hrunsins. Þess í stað hafa þau geirneglt okkur á klafa skulda, atvinnuleysis, vaxtaokurs og ofan á allt er ætlunin að svipta þjóðina fullveldi sínu og senda á gróðursnauðar heiðar ESB aðildar. Hér er allt í rúst og ríkisstjórnin þreytist ekki á því að fullvissa okkur um það.

Fjöldi fólks er í sporum Lilju Mósesdóttur. Fjöldi fólks er atvinnulaust og upp á náð og miskunn opinberra styrkja komið. Þetta er ekki fullfrísku fólki bjóðandi.

Sem betur fer er aðeins áttatíu og einn dagur í kosningar. Þá er hugsanlegt að breyta þessum manngerðu náttúruhamförum. Það veltur hins vegar á því hvað Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir á landsfundi sínum hvort einhver framtíð er fyrir þjóðina. þessi stóri flokkur þarf að huga að því hvernig hægt er að rífa samfélagið upp úr kyrrstöðu, atvinnuleysi og skuldum. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki sambærilegt afl eða fylgi til að gera slíkt.


mbl.is Lilja Mósesdóttir íhugar gjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband