Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Vinstri grænir að þurrkast úr í NV kjördæmi

Er þetta einhver brandari hjá Vinstri hreyfingunni grænu framboði? Stjórnmálaflokkur sem nær ekki meira en 139 manns til að kjósa í prófkjöri er illa staddur. Hann á greinilega ekki neitt erindi með framboð sitt og er við það að þurrkast út í Norðvesturkjördæmi.

Sá sem varð efstur í prófkjörinu fékk 65 atkvæði. Þetta er eiginlega hámark fáránleikans. Flokkurinn og frambjóðendur ná ekki einu sinni vinum og ættingjum á kjörstað. Allir eru farnir og nú eru aðeins þeir eftir sem ekkert hafa að fara, liðið sem hefur stutt svikin í ESB málinu, lagt á ráðin með árásum á landsbyggðina með fiskveiðistjórnarfrumvarpinu.

Svona fer fyrir flokkum sem svíkja stefnu sína. 


mbl.is Lilja Rafney fékk 65 atkvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég er friðarins maður, segir Björn Valur og mundar sverðið

Björn Valur Gíslason er uppáhaldsstjórnmálamaðurinn minn. Hann er einfaldlega svo sjálfhverfur, ófyrirsjáanlegur og ófyrirleitinn að hrein unun er að fylgjast með honum. Í pistli í dag segir hann svo spaklega:  

Æ fleiri stjórnmálamenn tala nú opinberlega um nauðsyn þess að leggja til hliðar pólitísk átök og stríðsrekstur og taka þess í stað upp nýja siði í samskiptum stjórnmálamanna. Fátt vildi ég meira. Gallinn við þessa umræðu er að hún kemur ekki frá stríðsrekstraraðilunum sjálfum heldur frá okkur hinum sem höfum reynt að fara fram með friði.

Til að skilja Björn Val og marga félaga hans úr Vinstri grænum þarf dálitla kremlarlógíu. Þeir geta sjaldnast talað beint út um hlutina eða eins og sagt var um Tító og kommónistafélaga hans í gömlu Júgóslavíu. Þegar þeir réðust með offorsi á Albaníu voru þeir í raun og veru að segja kommonum í Sovétríkjunum til syndanna.

Í tilvitnuninni ræðast Björn Valur á svo áberandi hátt á Árna Pál Árnason, nýkjörinn formann Samfylkingar og samherja sinn í ríkisstjórninni að sá sem er ókunnur kremlarlógíunni gæti haldið að Árni Páll gæti verið Sjálfstæðismaður. Sá misskilningur er þá hér með leiðréttur.

Svo setur Björn Valur Árna Páli lífsreglurnar. Friðarhjal þess síðarnefnda á aðeins við um suma flokka en ekki aðra. Það eru Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem fara með ófriði á hendur hinum smurðu, VG og Samfylkingunni. Ekki gleyma því, Árni Páll ..., þú veist, við förum með friði, ha ...

Það er hinsvegar ekki lengur hljómgrunnur fyrir átakastjórnmál af því tagi sem gömlu valdaflokkarnir, framsóknar- og sjálfstæðisflokkurinn, hafa boðið þjóðinni upp á í svo til hverju einasta máli allt kjörtímabilið. Og gera enn. Tími hinna pólitísku stríðherra og flokka þeirra er liðinn.

Það er svo skemmtilegt að fylgjast með Birni Val, rétt eins og friðarkonunni úr VG sem vill víst friða Reykjavík fyrir kjarnorkuvopnatilraunum. Nú er víst runninn upp tíma friðsamlegra stríðsherra sem boða ekki annað en frið nema á Alþingi þar sem barist er við íhald og framsóknarmenn og það gegn vilja þeirra ef ekki vill betur.

Ég er friðarins maður segir Björn Valur og reynir að stinga andstæðinga sína á hol ... 


Sendu mér tölvupóst, svarar Ögmundur

Lítil frétt um hingaðkomu lögreglumanna frá Bandaríkjunum varpar ljósi á vinnubrögð „bestuvina“ innan ríkisstjórnarmeirihlutans. innanríkisráðherrann, Ögmundur Jónason, þingmaður Vinstri grænna, sparkaði þessum mönnum aftur út úr landinu með vel völdum orðum að eigin sögn.

Enginn frétti af atburðinum fyrr en málsvari Wikileaks sagði frá því í Kastljósi Ríkisútvarpsins.  Varla hefur hann varið svo lágt að enginn hafi af honum vitað utan Ögmundar, ríkislögreglustjóra og saksóknara. Gæti verið að ekki hafi verið um merkilegan atburð að ræða?

Sé svo, hvers vegna sendir Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar, Ögmundi bréf um málið? Ég ræði ekki málið við þig, segir líklega sá síðarnefndi. Sendu mér bara bréf.

Þetta minnir á hjónin sem sátu við morgunverðarborðið í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar. Þú talar aldrei neitt við mig, fullyrti eiginkona. Það er ekki rétt, svaraði eiginmaðurinn. Fékkstu ekki faxið frá mér í gær?

Við þurfum að tala saman, segir Árni Þór.

Sendu mér ímeil, svarar Ögmundur.

Enginn þarf að vera hissa á fylgistapi Vinstri hreyfingarinnar og líka græna framboðsins. Menn eru svo undrafljótir að verða að stofnunum.


mbl.is Óskar eftir greinargerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerðist í Esjunni og hvernig eru aðstæður?

130203

Þegar um alvarlegt slys er að ræða í fjalllendi er ekki úr vegi fyrir virðulegan fjölmiðil að birta ítarlegri fréttir af málinu. Hér er kort sem sýnir Esju og Hátindur er austast á fjallinu, það er lengst til hægri.

Hátindur er stórkostlegur staður. Margt veldur. Hann er hár, 909 m, rétt eins og nafnið ber með sér og þaðan er einstaklega víðsýnt og bratt er á allar hliðar nema inn á Esjuna. Þarna er frábært að vera. Margir ganga á Hátind inn af Esjunni, t.d. af Kistufelli eða Þverfellshorni, jafnvel frá Móskarðshnúkum, eða þá beint upp frá Þverárkotshálsi.  

DSCN1648

 Hér er svo mynd sem tekin er fyrir nokkrum árum af Kistufelli og er horft yfir að Hátindi sem er hæsti hluti fjallsins sem sést þarna í fjarska. 

Á milli er djúpur dalur sem heitir Grafardalur, rúmlega 800 metra dýpi, hrikalega bratt en þó ekki alls staðar ófært.

Svo kemur hérna ein mynd til viðbótar en hún er tekin af Móskarðshnúkum, það er fyrir austan Hátind. Inn á myndina hef ég teiknað lauslega leiðina af Hnúkunum og inn á Hátind á Esju. Það er einhver magnaðasta gönguleið hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vara þó við henni, hún er ekki fyrir lofthrædda og enginn ætti að fara þessa leið nema að sumarlagi.

DSCN5568b

Nú, þarna sjáum við Hátind, hann ber hæst. Síðan liggur leiðin af honum til suðurs, niður bratta hamrana og út á Þverárkotsháls og þaðan niður á láglendi.

Í fljóti bragði má ætla að lesandinn hafi nú fyrir sér aðstæður á þessu svæði. Þarna er mikill bratti eins og sjá má á myndum og korti. Ég hef farið þrjár leiðir niður af Hátindi, allar eru mjög brattar og erfiðar.

Í sjálfu sér er ekkert að því að ferðast um Esjuna að vetrarlagi. Þau mistök gera þó flestir að fara á hana án þess að vera með nauðsynlegan útbúnað. Fjallamenn vitað að snjórinn á fjöllin getur verið afskaplega harður, jafnvel svo að útilokað er að marka almennileg spor í hann. Þar með er leiðin ófær nema ferðamaðurinn sé með ísexi, ísbrodda, vað og annað sem auðveldar ferðina. En þetta er ekki nóg. Hann verður að kunna á þessi tæki sín og hafa notað þau, ekki bara einu sinni heldur oft.

Hvað gerir maður sem fellur í vatn? Hann grípur ósjálfrátt til sundtakanna, þau eru flestum eðlislæg. Annað mál er með ísöxi og brodda. Fæstir kunna að beita ísexi og kunna ekki handtökin á henni og geta þar af leiðandi ekki brugðist rétt við þegar maður dettur. Vanir fjallamenn kunna þetta og æfa reglulega vegna þess að þegar í krappann er komið er enginn tími til að velt því fyrir sér hvernig eigi að beita öxinni. Rétt viðbrögð eiga að vera sem næst því ósjálfráð.

Ég hef margoft séð óvant fólk á ísbroddum og með ísöxi í hendi falla. Í öllum tilvikum hendir það frá sér öxinni og reynir að krafla í harðan snjóinn með höndunum. Og ísbroddar geta verið stórhættulegir þegar þeir eru komnir á skóna hjá óvönu fólki. Ekki þannig að broddarnir sjálfir skaði heldur sú staðreynd að fólk dettur af því að það kann ekki beita þeim, rennur af stað og fyrir tilviljun geta broddarnir rekist í snjóinn og þá er viðbúið að ökklinn láti undan eða fótur brotni.

Hvað gerðist í Esjunni? Veðrið hefur ábyggilega ekki skipt neinu máli, fólkið var örugglega vel útbúið. Hins vegar er ég viss um að þarna hefur verið á ferðinni stór hópur sem hefur einsett sér að æfa sig í fjallaferðum og ætlar á Hvannadalshnúk í vor. Annað hvort hefur sá sem datt verið óvanur og ekki verið viðbúinn aðstæðum eða þetta hefur verið slæmt óhapp sem jafnvel hinir reyndustu fjallamenn geta lent í.

Svo oft hef ég farið á fjöll, verið stundum fljótfær og lent í vandræðum, að ég veit það núna að í bakpokanum í dagsferðum að vetrarlagi eiga að vera broddar, öxi, vaður og ekki síst nóg nesti. Sá sem fer af stað án þessa er að bjóða hættunni heim. 

Hins vegar er það bjargföst skoðun mín að það sé ekkert að því að ferðast að vetrarlagi, jafnvel í slæmu veðri. Látum ekki nokkurn mann segja okkur annað, síst af öllu ef hann hefur ekki mikla reynslu af fjallaferðum. 


mbl.is Göngukonan er komin í sjúkrabíl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er 88% Samfylkingar jafnt og 12% Sjálfstæðisflokks?

Vefþjóðviljinn, andriki.is, segir frá því að í haust hafi komið í ljós í skoðanakönnun að um 12% stuðningsmanna Samfylkingarinnar væru á móti aðildinni að ESB og sama hlutfall innan Sjálfstæðisflokksins er fylgjandi aðild.

Rétt eins og Vefþjóðvilinn segir er eilíflega verið að gera að því skóna að Sjálfstæðisflokkurinn geti verið að klofna vegna þess að þar eru ekki allir sammála um aðild að ESB. Enginn ræðir hins vegar um sömu hættu hjá Samfylkingunni.

En þegar kemur að Samfylkingunni þá hefur enginn áhyggjur af jafn stórum hópi flokksmanna. Enginn sem veltir fyrir sér hvort það sé ekki óbilgirni af meirihlutanum að samþykkja eindregna stefnu í Evrópumálum. Enginn sem telur ástæðu til að ræða við fullveldissinnaða Samfylkingarmenn. Í huga fjölmiðlamanna og álitsgjafa eru Samfylkingarmenn einfaldlega Evrópusambandssinnaðir og enginn ágreiningur um það.

Hvernig stendur á því að fjölmiðlamenn eigi sér helst þá ósk heitasta að snýta Sjálfstæðisflokknum upp úr því að innan hans er fólk sem vill aðild að ESB? Af hverju vekur það enga athygli þeirra að hlutfallslega jafnstór hópur innan Samfylkingarinnar er á móti aðild?

Svo er það allt annað mál og raunar miklu forvitnilegra að skoða hlutfallstölurnar. Svo mikið hefur fylgið hrunið af Samfylkingunni að það getur hreinlega verið að 88% hennar sé jafn stór hópur og 12% Sjálfstæðisflokksins.


Sá einhver niðurstöðu Icesave málsins fyrir?

Einhverjir voru svo miklir spekingar að fullyrða að þeir hafi séð þetta allt fyrir, aldrei hefði átt að semja um neitt heldur fara með málið beint í dóm. Hinir sögðu að ekkert annað hafi verið í stöðunni á sínum tíma nema semja, annars væri staðan enn verri en hún er.

Þetta er úr leiðara blaðsins Reykjavík sem barst í hús í morgun. Í honum örlar á þeirri örmu skoðun sem margir blaða- og fréttamenn hafa að Icesave sé leiðinlegt mál og gott að því sé lokið.

Sem betur fer er því lokið með dómi. Hins vegar verður ekki hjá því komist að gera örlitla athugasemd við leiðindaskot á Nei-hreyfinguna í Icesave málinu. Ég held að enginn hafi fullyrt að niðurstaðan hafi verið fyrirsjáanleg. Engu að síður er mikilvægt að líta á Icesave með hliðsjón af öðrum málum sem um er deilt.

Hvað gerir sá sem stendur frammi fyrir afarkostum? Venjulegast neitar hann og það kann að leiða til þess að andstæðingur hans stefni honum fyrir dóm til að standa skil á meintri kröfu. Verði niðurstaðan sú að dómurinn telji hinn fyrrnefnda sýkn saka er ástæða til að fagna. Ekki endilega vegna þess að hann þóttist hafa séð niðurstöðuna fyrir heldur fyrst og fremst af þeirri ástæðu að hann stóð fastur á því sem hann taldi vera sinn rétt. Þetta gera flestir, reyna að standa fastir á rétti sínum.

Þannig var það með Icesave. Þetta var ekki bara pólitískt mál. Ekki aðeins mál á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Fjöldi fólks tók þátt og hreyfinganar Advice, Indefence. Leikir og lærðir lögspekingar höfðu ákveðna fullvissu um eðli málsins, að hér væri ástæða til að standa fast á rétti þjóðarinnar.

Segja má að þeir sem lögðust gegn því að íslensk þjóð væri gerð ábyrg fyrir Icesave hafi haft að einkunnarorðum sínum að Íslendingar eigi ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Þetta er það sem kallað er prinsipp á erlendri tungu og enginn, ekki nokkur maður með sjálfsvirðingu, semur um slíkt. Ekki frekar en að maður sem telur sig saklausan af ákæru um einhverja óhæfu vilji semja um að hann sé að einhverju hlutfalli sekur, að hann vilji greiða bætur fyrir skaða sem hann átti engan þátt í.

Fjölmargir í Já-hreyfingu Icesave litu framhjá prinsippinu og margir voru einfaldlega svo leiðir að þeir vildu semja um að skattfé Íslendinga væri notað til að bæta fyrir gjaldþrot Landsbankans. Þetta gat ég aldrei samþykkt og það sama fannst meirihluta þjóðarinnar.

Hins vegar hef ég enga samúð með þeim sem finnst nóg komið af Icesave málinu, leiða þeirra eða þunglyndi. Við þá vil ég aðeins segja þetta eitt: Reynið að lifa við þessar þrautir ykkar.


Átakastjórnmál Jóhönnu Sigurðardóttur

Heimilisvandamál Samfylkingarinnar hverfa ekki við það eitt að Jóhanna Sigurðardóttir, fráfarandi formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, noti Sjálfstæðisflokkinn sem blóraböggul. Þau hverfa ekki heldur þó hún skrökvi til um árangur ríkisstjórnarinnar.

Óvinsældir hennar eru afleiðing af markvissu starfi ríkisstjórnar Samfylgingar og Vinstri grænna við að gera ranga hluti á röngum tíma. Ég hef áður sagt það að ég er langt frá því að verai sáttur við ástandið í þjóðfélaginu, mér eins og mörgum er eiginlega ofboðið. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hefuer ekkert gert sem skiptir máli.

  1. Atvinnuleysi er 10%, þúsundir komast ekki á atvinnuleysisskrá og fólk flýr land.
  2. Skuldastaða heimilanna: Eignarhluti fólks í íbúðum tapaðist, en skuldirnar björguðust einhverra hluta vegna (!) og þær eru rukkaðar af fullu afli.
  3. Fátækt: Kannanir benda til þess að um 16 þúsund manns eigi stundum eða oft ekki fyrir nægum mat.
  4. Verðtrygging lána: Við verðum að vinna að afnámi verðtryggingarinnar

Fyrir nokkrum árum boðaði Samfylkingin eitthvað sem hér „samræðustjórnmál“ og kaffærði stjórnmálin í innihaldslausu tali. Nú hefur hún stundað með Vinstri grænum átakastjórnmál. Það er í raun ástæðan fyrir arfalélegri útkomu þessara flokk í skoðanakönnunum. Í ríkisstjórninn hefur Jóhanna Sigurðardóttir tileinkað sér þann stíl að ráðast á alla, almenning jafnt sem fyrirtækin í landinu. Það kann ekki góðri lukku að stýra. 

 


mbl.is „Samningaleiðin var ábyrga leiðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband