Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Far- og komsýslan

Hverjum skyldi hafa dottið í hug nafnið „Farsýsla“ Hann ætti skilið að vera útnefndur embættismaður ársins. Farsýsla er stutt og laggott, hefur beina skírskotun í stjórnsýsla, bendir til stofnanaræðis, ægivaldsins sem sýslumaður hefur löngum verið hér á landi.

Forskeytið „far“ er skýrt, vísar á bug, segir einfaldlega farðu í rass. Snöggtum skárra væri að nefna stofnunina Komsýslan, jafnvel Kom- og farsýslan eða öfugt.

Þeir sem mótmæla eru ekki skárri og koma sterklega til greina í annað sætið sem embættismaður ársins. Varla er boðlegt að bjóða upp á Samgöngustofu, kotlegt nafn með engri reisn. Samgöngustofnun er í ætt við Farsýsla, stofnanalegt og þunglegt.

Best er að finna nýtt og ferskt nafn sem feli tilganginn og bjóði upp á eitthvað enn betra og meira heldur en stofnunin getur nokkru sinni staðið undir. Legg hér fram nokkrar tillögur, geri þó ekki ráð fyrir að fá nein verðlaun fyrir hugmyndaauðgina.

  • Himnasæng
  • Sólskinsferð
  • Uppáferð
  • Ferðalög og reglur
  • Far- og komsýslan
  • Fjórstofnunin
  • Ögmundur
  • Farmundur
  • Kommundur
  • Ööösýslan
  • Stofnanasýslan
  • Yfirogalltumkringsýslan
  • Stýrisýslan
Annars er það alveg einkennandi fyrir embættiskerfið, aldrei dettur neinum í hug að leita til almennings um nafn.

 


mbl.is Biðja ráðherra að endurskoða nafnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Börn og unglingar ráfa um borgina í sykurrúsi

Blessuð börnin eru alls staðar eins. Sæt og góð, syngja eins og englar ... þangað til þau koma auga á sætindin. Þá breytast þau, augun standa stilkum og með hraða góla þau eitthvað og hlaupa svo út með fullar hendur af sælgæti þó ekki fyrr en þau hafa fullvissað sig um að ekkert meira er að finna þarna.

Um götur og torg ráfa börn og unglingar í sykurrúsi. Þau fara yfir eins og engisprettufaraldur, eira engu og sumir láta eins og vitleysingar.

Ég kíkti inn í Bónusverslun fyrr í dag. Þar hlupu um tveir unglingsslánar á hæð við mig, og er ég síst smávaxinn. Það er ekkert varið í neitt hérna, sagði annar, og fýlan lak af honum. Ókei, prófum þá Hagkaup, sagði hinn, og þeir ruddust út án þess að skeyta neitt um aðra.

Við innganginn stóð þreytulegur afgreiðslumaður (sá það á hollningunni á honum) með dollu í höndunum og bauð krökkum. Þeir þurftu þó að syngja áður, og aumingjans maðurinn andvarpaði þegar enn og aftur hljómaði lagið um gamla Nóa sem kann ekki að poppa.

Ég man þegar þessi siður að ganga í búðir og betla nammi var að mestu bundinn við Akureyri. Sjaldnast hafa önnur sveitarfélög fengið jafnslæma sendingu eins og þegar þessi hræðilegi siður breiddist þaðan út um landið.

Auðvitað eru ekki allir eins og hér hefur verið lýst og vissulega eru þau börn til sem eru sæt og góð og syngja eins og englar, jafnvel unglingarnir geta þetta. En óboy, óboy, þvílík leiðindi eru af hinum. Ég hef séð börn og unglinga á sprengidaginn í litlum og stórum sveitarfélögum. Í alltof mörgum tilfellum er ekkert gaman af þessu rugli. Sykurþráin geri krakkana gjörsamlega ruglaða.


mbl.is Gaman á Akureyri á öskudaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ögmundur skoðar heiminn

Ekki er seinna vænna fyrir Ögmund innanríkis að leggjast í ferðalög þar sem ráðningartímanum er að ljúka. Karlinn hefur verið í Kína og nú fer hann til Indlands. Vonandi sér hann sér fært að koma við í Vatíkaninu á heimleiðinni og spjalla þar við fráfarandi páfa um lífsgátuna.

Vonandi fer enginn að velta því fyrir sér hvað ferðir Ögmundar innanríkis kosti eða hverjir fari með honum. Hann á í nógum vandræðum með að muna einföldustu atriði í skýrslugerð svo þetta bætist nú ekki við. Maður gerir bara ráð fyrir því að hann hafi haft með sér doldið af fiski til að selja upp í ferðakostnað. Ef til vill er markaður þarna fyrir austan.


mbl.is Ögmundur til Indlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjúkraunarfræðingar tryggja sér samning, aðrir hætta

Ríkisstjórnin sór og sárt við lagði að ekki verði meira fé lagt í laun hjúkrunarfræðinga en þessar 475 milljónir sem velferðaráðherra greind frá á dögunum.

Afleiðingin var þá sú að til þess að ná þessum aurum hafa forystumenn hjúkrunarfræðinga ákveðið að semja við ríkið. Sá samningur verður auðvitað samþykktur í almennri atkvæðagreiðslu.

Hitt er svo algjörlega annað mál að uppsagnirnar munu að mestu leyti standa.

Með þessu hafa þeir sem ekki hafa sagt upp störfum tryggt sér lítið eitt hærri laun. Hefði ekki samist hefði áðurnefnd fjárhæð aðeins verið eingreiðsla. Peningarnir tryggja þó ekki afturköllun uppsagna.

Stjórn Landspítalans og ríkisstjórnin sitja síðan eftir með sárt ennið og með 475 milljónum minna í buddunni og ekkert hefur breyst.


mbl.is Ýmislegt sem hangir á spýtunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er eitthvað að marka Seðlabankann?

Velti því fyrir mér hvað Seðlabanki Íslands hafi gert síðustu árin frá hruni annað en að spila varnarleik. Finnst eins og ekkert hafi gerst. Viðbáran er alltaf hrunið, háir raunvextir, ekkert gert í snjóhengjunni, verðbólgumarkmiðin hafa yfirskyggt alla starfsemina og annað smálegt. Aðstæðum er um kennt og boltanum sparkað útaf.

Seðlabankinn réðst með offorsi á Samherja en ekkert hefur komi út úr þeirri rannsókn. Bankinn vaknaði við vondan draum þegar samfélagið varaði við uppgjöri skilanefnda gjaldþrota bankanna og fálmaði eitthvað út í loftið í svefnrofanum. Hann gekk erinda ríkisstjórnarinnar vegna Árnalaganna sem urðu til vegna gengislánadóms Hæstaréttar.

Er það rangt skilið hjá mér, en á ekki Seðlabankinn ekki að draga vagninn í efnahagsmálum, að minnsta kosti að hluta til. Mikið óskaplega vildi ég að eitthvað umtalsvert myndi koma frá honum.

Eiginlega líst mér ekkert á Seðlabankann og segi bara eins og vingjarnlega kona sagði í athugasemdadálki dv.is: Skil ekkert í því að nokkur maður geti skipt við Seðlabankann lengur ... 


mbl.is Fersk skilaboð frá seðlabankastjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nefskattur lausnin fyrir Hörpu?

Harpa er glæsilegt hús að utan og að innan er það einkar fagurt og notalegt. Það breytir þó ekki þeirri nöturlegu staðreynd að það er monthús. Engin þörf var fyrir það enda hefði það þá verið byggt af fólki sem fjárfest hefði í því fyrir eigið fé, ekki skattfé almennings. Þrátt fyrir það var húsið byggt og allir fagna því að hafa ekki þurft að taka upp budduna og leggja út fyrir andvirðinu.

Nú er hins vegar svo komið að draumahús fárra er orðið að martröð allra. Svo illa var að verki staðið að rekstararáætlanir reyndust rangar. Fjöldi fólks hefur haft ómældar tekjur af því að starfa í fjölda stjórna sem tengjast Hörpu, fólk sem fjárfesti ekki í því. Þetta fólk stefnir Hörpu í gjaldþrot vegna þess að það gerði rangar rekstaráætlanir og kennir svo öðrum um.

Eflaust eru allir Íslendingar stoltir af Hörpu, það munu allar skoðanakannanir endurspegla. Væri hins vegar spurt að því hvort landsmenn væru samþykkir því að sérstakur nefskattur væri tekinn upp til að reka Hörpu er ég ekki vissu um að meirihlutinn myndi fagna. 

Nú greiðir hver fjárráða Íslendingur um 17.000 krónur á ári í skylduáskrift að Ríkisútvarpinu og raunar til viðbótar allir lögaðilar. Værum við tilbúin til að greiða 10.000 krónur á ári til að halda Hörpu á floti? Og það án þess að fá sæti á einni einustu sýningu?

Áreiðanlega myndu flestir leggjast gegn því. Fagnaðarhrópin munu breytast í fúkyrðaflaum, bölv og ragn.

Hvað er þá til bragðs að taka? Eftir hrunið misstum við af gullnu tækifæri til að hætta við bygginguna og hreinlega rífa hræið. Núna er ekki annað til bragðs að taka en að fara í spor ríkisstjórnarinnar sem hún á svo víða. Lokum öllum tónlistarsölum á suðvesturhorni landsins, öllum bíóhúsum, öllum matsölustöðum og öllum sýningarhúsum nema í Hörpu. Gerum þá kröfu til að allt fari fram þarog kannski þá, bara kannski, mun Harpa bera sig.

Eða leigjum hana bara út upp á hluta af hagnaði en ríkið situr svo uppi með stofnkostnaðinn um aldir alda, amen.


mbl.is Draumur fárra að martröð margra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu stórkostleg fjöll á SV landi

980700-11

Frá barnæsku hef ég haft ánægju af ferðalögum og þá helst gönguferðum og fjallaferðum. Um daginn las ég pistil eftir Reyni Traustason, ritstjóra DV sem hefur í baráttu sinni við umframkílóin tekið upp á þeim ósköpum að ganga á fjöll og verið ansi duglegur við hvort tveggja.

Reynir á sé uppáhaldsfjöll og mér þótti gaman að lesa um þau enda fyllilega sammála í umsögnum hans um hvert og eitt. Fjöllin hans Reynis eru þessi:

  1. Úlfarsfell
  2. Vífilsfell
  3. EsjaDSCN0099
  4. Kaldbakur
  5. Botnsúlur
  6. Heiðarhorn
  7. Skessuhorn
  8. Hekla

Ég hef oft verið spurður um uppáhaldsfjöllin mín, uppáhaldstaðina, uppáhaldsgönguleiðirnar og þetta og hitt. Vissulega eru mörg fjöll og staðir ofar í huga mínum en önnur. Vandinn er bara sá að listinnn eða listarnir breytast svo ört. Þess vegna get ég ekki raðað þeim í röð eftir væntumþykju. Allt er breytingum undirorpið og þá er hugarástandið, félagsskapurinn og jafnvel veðrið sem ræður stemmingu og hrifningu í hverri ferð.

DSCN1416

Jæja, ég ætla samt að gera tilraun til að búa til lista yfir fjöll sem ég ann. Ég ætla aðeins að nefna fjöll á SV horni landsins. Síðar mun ég nefna fjöll annars staðar.

  1. Vífilsfell er stórkostlegt fjall og hefur svo margar ólíkar hliðar, móbergsmyndanirnar í kringum efsta hlutann eru hrífandi og svo er útsýnið frábært.
  2. Esja er margbreytilegt fjallabákn. Ég hef ekki tölu á ferðum mínum á Þverfellshorn en þangað er ég nú að mestu hættur að fara. Þar er alltof margt fólk, álag á gönguleiðunum er of mikið og hræðilegt að sjá hvernig hlíðin fyrir neðan hamranna er orðin. Þess í stað fer ég á Kerhólakamb og Kistufell (austurhornið). Hvort tveggja eru stórkoslegir staðir og mun áhugaverðari en Þverfellshorn.DSCN1791
  3. Móskarðshnúkar eru tengdir Esju órjúfanlegum böndum. Gaman er að ganga upp á Móskarðshnúk, þann austasta. Ekki er síður er áhugaverð leiðin vestur af honum, yfir hina tindana, og síðan út á Esju og þá á Hátind og þar niður.
  4. Hengill er stórt fjall og leynir á sér. Ástæðan fyrir því að ég nefni það hér er hversu margbreytilegt það er. Sérstaklega þykir mér varið í gönguleiðina frá Sleggjubeinaskarði, eftir vesturhlíðunum og á Skeggja. Innstadal tel ég hluta af Hengli. Þar fór maður oft hér áður fyrr, jafnt sumar og vetur, í bað í hveragilinu, eða gekk hringinn í kringum Skarðsmýrarfjall. En það var nú áður en Orkuveitna hóf hryðjuverkastarfsemi  sína.
  5. DSCN5126Keilir er eins og keila, þó ekki fiskurinn. Hann er einstakur í orðsins fyllstu merkingu. Stendur stakur á miðri hraunsléttu, brattur en samt vinsamlegur. Nokkur gangur er að honum en það lengir bara góðan dag og skemmtilega útiveru.
  6. Syðstasúla er hluti af Botnsúlum. Mikið svakalega getur hún stundum verið erfið en þess á milli ótrúlega gefandi. Mér er minnistæð er ég fór einu sinni einn á hana og gekk til baka þá niður hina breiðu suðurhlið hennar. Þetta var stuttu eftir miklar rigningar og mér fannst hlíðin renna með mér niður. Þá varð mér um og ó og hafði það á tilfinningunni að ég hefði skemmt eitthvað. Stórkostlegast við Syðstusúlu er gangan upp eftir mjóum klettavegg alla leiðina á toppinn.
  7. DSCN5173Hvalfell er eitt af þeim fjöllum sem alltof fáir ganga á. Margt veldur, það sýnist ekki hátt þarna við hliðina á Botnsúlum en það er engu að síður 852 m eða svipað eins og að fara á Kerhólakamb í Esju sem telst einum metra lægri þar sem heitir Kambshorn. Órjúfanlegur þáttur í göngu á Hvalfell er að skoða Glym og gljúfrið hans.
  8. Stóri-Meitill er við Þrengslin og stutt að fara á hann frá Þrengslavegi. Aðeins lengri ganga er frá Skíðaskálanum í Hverdölum. Ég hef þá trú að afar fáir gangi á Stóra-Meitil, fólk viti bara ekkert um hann. Hann er samt alveg göngunnar virði, þó ekki sé nema til að skoða hinn risastóra gíg sem er í honum og stórfenglegt útsýnið.
  9. Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð er DSCN5399vinalegt fjall og gaman að rölta á í rólegheitum með góðu fólki, spjalla á leiðinni og njóta útiverunnar. Ekki spillir fyrir hið fagra útsýni.
  10. Búrfell, Húsfell, Stóra-Kóngsfell, Bláfjallahryggur, Skálafell á Hellisheiði, Sandfell, Selfjall, Úlfarsfell, Mosfell, Geitafell, Lambafell ... Þetta er svona safnliður. 

Eiginlega gæti ég nefnt tuttugu fjöll, jafnvel fleiri. Einhver kann að segja að þá séu þau uppurin sem eitthvert „slátur“ er í á SV horninu. Nei, því fer nú fjarri, af nógu er að taka. Og ... ég hef aðeins nefnt hér fjallgöngur, ekki göngu á mill staða. Er til dæmis gangan um Búrfellsgjá og á Búrfell fjallganga? Eða ganga í Grindaskörð ...?

Best að hætta hér áður en kappið ber letina ofurliði. 

DSCN6716

Hér eru nokkrar myndir og myndatextinn er hér í réttri röð.

  1. Kistufelli í Esju og er horft til Móskarðshnúka og Skálafells.
  2. Á Vífilsfelli og horft er í norður yfir Mosfellsheiði og til Esju.
  3. Í hömrum Þverfellshorns í Esju, Kistufell í baksýn
  4. Gengið á Móskarðshnúka, athugið að myndin er tekin með talsverðum aðdrætti.
  5. Búfellsgjá.
  6. Keilir
  7. Frá hlíðum Stóra-Meitils, horft til Reykjafells og Hengils.
  8. Í Hengli, horft í vestur. Fyrir neðan er Engidalur.

Eftirmáli: Ritvinnslan hér á Moggablogginu hefur aðeins skánað en er hörmulega leiðinlegt fyrir þá sem vilja birta myndir. Hér gildir ekki WYSIWYG (what you see is wat you get, sem útleggst að sú uppsetning sem þú velur er endanleg) og það er leitt.

 


Krefjast ber afsagnar ráðherra og forstjóra Landspítalans

Hvernig stendur á því að ráðherra velferðamála getur komist upp með að gera slík dómsdags mistök að gera samning um hálfra milljón króna launahækkun forstjóra Landspítalans án þess að þurfa að gjalda fyrir með embætti sínu?

Landspítalinn er á barmi hruns. Eftir nokkra daga getur hann hvorki sinnt lágmarksþjónustu eða boðið upp á lífsnauðsynlegar aðgerðir. Senda verður fólk til útlanda eða krefjast þess að það þreyi þorrann - í bókstaflegri merkinu.

Í þokkabót er forstjóri Landspítalans læknir sem á þá ósk heitasta að gegna hvort tveggja, læknisstörfum og starfi stjórnanda rekstrar. Maður skyldi nú halda að annað hvort væri nóg fyrir einn mann. Engu að síður krafðist hann launahækkunar og ráðherrann lét undan.

Yfirgnæfandi líkur benda til þess að hafi þeir tveir ekki staðið í þessu baktjaldamakki væri staðan allt önnur á Landspítalanum þó vissulega væru erfiðleikar.

Algjör trúnaðarbrestur hefur orðið á milli starfsfólks og stjórnanda spítalans og ekki síður velferðaráðherrans.

Í þeirri viðleitni að leysa málið verður að krefjast þess að ráðherrann og forstjórinn segi af sér og eftirláti öðrum að koma að launadeilunni án þess að vandmálið með baktjaldamakkið tefji.

Sumir kunna að segja að þetta skipti engu máli. Það er einfaldlega rangt. Nýir menn koma með nýja sýn á málin og þeim fylgir ósjálfrátt traust og velvild.  


mbl.is Ráðherrar héldu fund um Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ungliðar VG rugla um aðildarumsóknina að ESB

Landsfundur Vinstrihreyfingarinnar  - græns framboðs telur nauðsynlegt að endurskoða afstöðu ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að Evrópusambandinu. Sú valdbeiting sem varð til þess að ríkisstjórnarþingmenn samþykktu aðildarumsókn á sínum tíma má ekki verða til stefnumótunar fyrir áframhaldandi samstarf félagshyggjuflokkanna. Ef möguleiki á að vera á slíku samstarfi þurfa meðlimir stjórnarflokkanna að leggja til hliðar ofstækisfulla orðræðu og taka ákvörðun um hvort halda eigi ferlinu áfram.

Ósamstaða vegna þessa máls hefur klofið hreyfinguna og bera þar óbilgirni umsóknarandstæðinga og meðfærileiki flokksforystunnar gagnvart kröfum samstarfsflokksins hvort tveggja sök. Sú málamiðlun sem var gerð á stefnu hreyfingarinnar við ríkisstjórnarmyndun hefur ekki breytt afstöðu hennar til aðildarumsóknar. Það er yfirlýst afstaða hreyfingarinnar að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins en að aðild verði aðeins ákvörðuð með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Landsfundur telur nauðsynlegt að ákvörðun um  áframhaldandi aðildarviðræður verði lögð í dóm þjóðarinnar.
 
Þetta er tillaga ungliða í VG sem lögð verður fyrir landsfund flokksins síðar í mánuðinum. Líklegast er að leikskóladeild ungliðanna hafi samið ályktunina. Bullið í henni virðist óendanlegt og óskiljanlegt að hún skuli lögð fram nema til þess eins að gera veg flokkseigendafélagsins innan VG sem sennilegastan.
 
Í upphafi er fullyrt að valdbeiting hafi verið grundvöllur samþykkt aðildarumsóknar að ESB á þingi en í lokin er talað um aðgerð hafi verið málamiðlun. Þetta tvennt fer nú ekki saman og líklegast að hið fyrrnefnda sé réttara enda bendir ekkert til þess að samningaviðræður hafi farið fram. VG keypti ráðherrasæti og greiddi fyrir þau með því að samþykkja aðildarumsókn að ESB.
 
Rétt er að umsóknin klauf VG, raunar í herðar niður og mun kosta flokkinn meira en helming fylgis síns. Rangt er að um sé að kenna óbilgirni andstæðinga aðildarinnar.
 
Annað hvort er fólk með eða á mót aðildinni. Útilokað er að flokka aðra hvora afstöðuna sem „óbilgirni“. Í hverju ætti eiginlega málamiðlun á milli þessara skoðana að vera? Hálfkák? Raunar er stefna VG innan ríkisstjórnarinnar ekkert annað en hálfkák og til viðbótar það sem ungliðarnir kalla „meðfærileiki“ í ályktuninni.
 
VG segist í orði vera á móti aðild en engu að síður hefur flokkurinn samþykkt aðildarumsóknina.
 
Sá sem samþykkir aðildarumsókn að ESB er fylgjandi henni vegna þess að með henni fór landið í aðlögunarferli og hefur síðan í júlí 2010 verkefnið verið að aðlaga íslenska stjórnsýslu, lög og reglur að ESB. Ekki er um að ræða neinar samningaviðræður.
 
Þessa staðreynd vill meirihluti þingflokks VG ekki ræða og skrökvar því að samflokksmönnum sínum og þjóðinni allri að um samningaviðræður sé að ræða þar sem keppikeflið er að ná sem bestum samningum við ESB. Jafnvel forráðamenn Evrópusambandsins vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við svona vitleysu.
 
Líklegast er best að ungliðar VG fari nú að vinna heimavinnuna sína, leiti heimilda og hugsi sitt mál áður en þeir tjá sig. 
 
Ástæðan fyrir því að ég skrifa um innanflokksmál VG er að manni blöskrar framsetningin sem ekki er ætlað að gera annað en að rugla almenning í þessu mikilvæga kosningamáli.

Eldgos við Kleifarvatn?

DSCN5191

Jarðfræðingar eru ólíkindatól. Held að í jarðfræðinni hljóti að vera skyldukúrs um takmarkaða upplýsingagjöf. Ástæðan er sú að þeir eru hræddir um að hræða fólk og svo hitt að hafa rangt fyrir sér. Ari Trausti er skárri en margir. Hann tjáir sig um stöðuna og hirðir minna um álit almennings.

Einhverju sinni sagðist hann ekki vilja búa í Vestmannaeyjum vegna eldgosahættu. Ekki hlaut hann nein ámæli fyrir þá skoðun sína enda vandséð hvernig hægt væri að réttlæta það. 

Varnagli Ara Trausta er eðlilega sá að náttúran er um margt óútreiknanleg, ólíkindatól, eins og hann orðar það.

Á milli línanna í viðtalinu má lesa að jarðfræðingar hafa verulegar áhyggjur af stöðunni við Krísuvík og á Sveifluhálsi. Fyrir um tveimur árum byrjaði órói þarna sem enn sér ekki fyrir endann á. Eflaust þarf lítið til að kvikan brjótist upp á yfirborðið og eiginlega eru jarðfræðingarnir hræddastir við að þannig verði gangurinn, ekki að þetta allt hjaðni. Þeir vilja bara ekki segja það.

Þegar staðið er uppi á Keili, Helgafelli, Lönguhlíðum, Trölladyngju eða Grindaskörðum og litið yfir ægifagrar hraunbreiðurnar ætti það ekki að koma leikmanni neitt á óvart að aftur byrjaði að gjósa. Þannig er landið og þannig verður það.

Meðfylgjandi mynd er tekin á Keili og horft til Höskuldarvalla og Trölladyngju.


mbl.is „Eldstöðvarnar eru ólíkindatól“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband