Þórhallur Vilmundarson og náttúrunafnakenningin

Á árunum laust fyrir og um 1970 setti Þórhallur fram hina umtöluðu náttúrunafnakenningu sína og flutti um hana röð opinberra fyrirlestra í Reykjavík, við einstaklega góða aðsókn, enda fyllti hann þá Háskólabíó í nokkur skipti. Um þessi efni talaði hann einnig víðar um land, t.d. var hann í febrúar 1982 fenginn til að halda örnefnafyrirlestra í fæðingarbæ sínum Ísafirði. Við undirbúning fyrirlestranna hafði Þórhallur ferðast fram og aftur um allt land á jeppa sínum og tekið ógrynni af góðum ljósmyndum sem hann sýndi síðan máli sínu til stuðnings. Kenning hans var tvímælalaust sú djarflegasta og frumlegasta sem forystumaður í íslenskum fræðum kom fram með um langt árabil. Með tilkomu kenningarinnar vaknaði upp nýstárleg og gagnleg umræða um uppruna fjölda örnefna. Jafnvel var nú tekið að draga tilvist einstakra landnámsmanna í efa, og þótti sumum það reyndar mikil goðgá.

Þetta segir Björn Teitsson, fyrrum skólameistari á Ísafirði, í minningargrein í Morgunblaðinu í dag um Þórhall Vilmundarson, prófessor og fyrrum forstöðumann Örnefnastofnunar.

Grimnir_forsida

Grímnir 

Svo vill til að í margar vikur hef ég verið að blaða í nokkrum bókum og þær hafa jafnan legið á borðinu hjá mér. Meðal þetta eru þrjá bækur sem bera nafnið „Grímnir, rit um nafnfræði“. Útgefandi var Örnefnastofnun Íslands og höfundur hins fjölbreytta efnis þeirra er áðurnefndur Þórhallur.  Fyrsta bókin kom út 1980, önnur bókin 1983 og sú síðasta 1996.

Þórhall þekkti ég ekkert. Hafði þó einu sinni eða tvisvar hitt hann að máli meðan ég gaf út tímaritið Áfangar. Ástæðan var einfaldlega sú að ég hafði keypt Grímni einhvern tímann 1982 og við það vaknaði áhugi minn á svokallaðri „náttúrunafnakenningu“ Þórhalls sem Björn Teitsson nefnir hér fyrir ofan.

Skortur á örnefnum 

Við lestur bókarinnar og raunar hinna tveggja sem á eftir komu vaknaði og treystist áhugi minn fyrir örnefnum. Snemma komst ég að þeirri staðreynd að örnefni á Íslandi eru fá og mörg hver eru hin sömu víða um landi. Þetta er einstaklega bagalegt fyrir ferðamenn enda ótækt að fjall beri einungis tölur sem er hæsti tindur þess. Þetta er engu að síður staðreynd. Niðurstaðan varð einfaldlega sú að örnefni eru ekki endanlegur sannleikur og ekki megi bæta við eins og svo margir halda.

Godahraun

„Landslag væri lítils virði ef það héti ekki neitt,“ sagði Tómas skáld Guðmundsson í ljóði sínu Fjallgangan. Honum rataðist satt á munn. Þess vegna var ákveðið að gefa eldstöðvunum og hrauninu á Fimmvörðuhálsi nafn. Stóri gígurinn var nefndur Magni, sá minni Móði og hraunið Goðahraun enda heitir landið fyrir neðan Goðaland.

Skarpskyggni 

Í bókunum þremur fjallar Þórhallur Vilmundarson um fjölda örnefna. Rekur uppruna orða, ber þau saman við hliðstæð í öðrum tungumálum, skoðar staðhætti, ber þá saman við sambærilega staðhætti á Norðurlöndum og kemst svo að niðurstöðu. Þarna fór saman mikil menntun, þekking, skarpskyggni og fjölhæfni í einum og sama huga.   

Góðaland 

Af því að ég nefndi Goðaland hér á undan er ekki úr vegi að greina frá því sem Þórhallur segir um örnefnið:

Godaland

Líklega hét G. upphaflega *Góðaland vegna góðra beitarskilyrða. til samanburðar er Góðaland, suðurendi Vífilsstaðahlíðar, Gull., Godlendet í Stangehéraði á Heiðmörk (NGIII 167), Goathland (Godelandia um 1110) í Jórvíkurskíri (DEPN4, 199) o.s.frv. >Goðdalur, -ir

Emstrur 

Emstrur er skrýtið örnefni en það á í dag einkum við um landsvæði norðvestan við Mýrdalsjökul en gæti áður hafa náð talsvert sunnar, jafnvel allt að Ljósá sem telst nú til Almenninga. Þórhallur ræðir nokkuð ítarlega um örnefnið og þar er margur fróðleikurinn. Hér er hluti af umfjöllunin, lítilsháttar lagað til á mína ábyrgð (einnig vantar nokkur tákn sem finnast ekki á lyklaborðinu mínu):

950803-84

Nokkrar umfræður hafa orðið um örnefnið Emstrur meðal fræðimanna. Á víkingaráðstefnu í Leirvík á Hjaltlandi 1950 fjallaði A.B. Taylor meðal annars um örnefnið Unst, sen svo heitir nú hin nyrsta Hjaltlandseyja, sem nefnd er Aumstr, Aurmtr, Qrmst í fornum heimildum.

Í umræðum á ráðstefnunni benti Jón Helgason á, að om- kynni að vera u- hljóðvarpsmynd rótarinnar am-, en hún kæmi fyrir í norrænum örnefnum og merkti 'erfiðleikar', t.d. Amager, Qmð í N-NOregi (nú Andöya). [...]

S. Bugge taldi eyjarheitið Qmð dregið af so. ama „gnide, skubbe“ og merkti þá 'eyja, sem núin er af hafi og vindum', en G. Knudsen hugði Amager hafa heitið í öndverðu *Amhakæ, þ.e. 'haki (oddi, sem veldur ama'.  

J. Kousgaard Sorensen telur, að fyrri liður Amager sé Ame, heiti sundsins milli Sjálands og Amakurs, af *am- ðnudda', nafnið þá leitt af því, að bátarhafi kennt gruns , er þeir sigldu um sundið, og kunni sama vatnsrásarnafn (vanddragsnavn) að vera í hinum þekktu örnefnum Amsterdam, Emden og Ems. [...]

950803-86

Í grein um viðskeytið -str- í germönskum örnefnum segir Th. Andersson hins vegarm að Emstrur á Íslandi sé eflaust ekki örnefni sem myndað sé sem slíkt með -str- viðskeyti, enda séu slík -str- örnefni ekki til á Íslandi.

Nafnið Emstrur mun dregið af so amstra 'þrælka; kveinka sér', no. amstur 'ómak; erfiði' sjá (Blöndal).

Sveinn Pálsson segir 1793, að Emstrur séu „formedelst Jökelelve nu om Stunder næsten ubefarlig ...“ 

Í sóknarlýsingu 1839 segir um Emstrur: „Verða þær lítt notaðar vegna ófærra vatna.“

Líklegt er því, að nafnið sé dregið af þessum erfiðleikum.

Fyrir leikmann er fengur að fá að lesa svona rökstuddan fróðleik. Það er nú alltaf einu sinni þannig að þegar maður hefur náð að kynna sér fræði sem falla vel að huga manns og ekki síður áhugamálum þykist maður hafa himinn höndum tekið, svo upplýsandi er þetta allt saman.

Ég trúi því að bæði leikmenn og fræðimenn framtíðarinnar eiga eftir að minnst Þórhalls Vilmundarsonar með virðingu og hlýju.

Myndirnar eru þessar:

  1. Goðahraun og eldgígurinn Móði.
  2. Frá Goðalandi, myndin er tekin á Krossáraurum, sunnan megin.
  3. Innri Emstruá, illfært skaðræðisfljót sem fór ekki mildilega með bílinn sem þarna sést.
  4. Sunnarlega á Emstrum, Stórkonufell.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk Sigurður fyrir enn einn fróðlegan pistil um landið okkar og örnefni þess.

Skil þessa pistla betur þegar þú upplýstir að þú hefðir verið ritstjóri Áfanga.

Það er alltaf gaman þegar menn deila fróðleik sínum, og bæði vekja  upp spurningar, og svara spurningum.

Ef þú vissir svo síðan merkingu örnefnisins Skúmhöttur, þá væri mér mikill fengur að fá að vita, því ég hef oft spáð í merkingu þess.

Allavega þá eru þetta skemmtilegar pælingar, það er að spá í uppruna orða sem við fengum í arf, notum en samt vitum ekki alveg merkingu þeirra.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.12.2013 kl. 18:48

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll Ómar og þakka þér fyrir innlitið. Ég hef aldrei verið neinn sérfræðingur í örnefnum en þykir afskaplega gaman að pæla í þeim.

Veit að Skúmhöttur er hátt og fallegt fjall í Skriðdal, 1.220 m hátt. Annað er norðan við Vaðlavík, ca. 880 m hátt. Hið þriðja er í fjöllunum sunnar Borgarfjarðar fyrir austan, vestan Húsavíkur og norðan Loðmundarfjarðar, 778 m hátt.

Ég gúgglaði nafni enda hafði ég ekki hugmynd um merkingu þess. Á Vikipetdiu hefur einhver skrifað þetta:

„Skúmhöttur er úr líparíti, eða ljósgrýti, og er því bjartur yfirlitum. Fyrri liður nafnsins, „skúm“, getur þýtt ryk, dimma (húm) eða hula (skán), og vísar kannski til þess að á tindinum er dökkt líparítlag. En líklegra er þó að nafnið sé til komið vegna þess að stundum leika þokuhnoðrar um tindinn, og hylja hann sjónum, og er þá eins og fjallið sé með „myrkrahatt“.“

Næst er auðvitað að fletta í Árbókum Ferðafélagsins en ég er næstum því viss um að þar hefur Hjörleifur Guttormsson einhverja góða skýringu á örnefninu.

Og nú er forvitni mín vakin. Þarf endilega að komast og skoða þessi þrjú fallegu fjöll - og lesa mér meira til um þau.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.12.2013 kl. 18:59

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk fyrir þetta Sigurður.

Fjallið mitt er í Vaðlavík, ákaflega tignarlegur tindur í rök nokkurra tinda sem er í víkinni minni á norðanverður.  

Það er blágrýtisfjall get ég fullyrt, en eitt sem einkennir það er að ef einhversstaðar sést skýhnoðri á himni, þá leikur hann um Skúmhöttinn.  

Tindurinn sést héðan frá Neskaupstað, og séð frá okkur er hann oft hulinn þoku.  Sem er samt engin vísbending um hvort það er þoka í Vaðlavíkinni, hún leitar oft inn Gerpirinn en stöðvar oft í hlíðum Skúmhötts.

Svo það er spurning hvort nafnið sé ekki tengt  þessu "skúmi".

Og já Hjörleifur er fróður, hann talaði við gömlu mennina og bar saman fróðleik þeirra.

Hann fór einu sinni með allaballana í göngu frá Vaðlavík, yfir Sandvíkina og kom niður þar sem kallað er Suður í bæi, og er suðurströnd Norðfjarðarfólans.  En allavega, þá kom hann helgina áður og rifjaði upp aðstæður.  Hann fékk sér kaffi hjá okkur á Ímastöðum, og þá var margt spjallað. 

Og hann var algjör fróðleiksbrunnur.  Ótrúlegt hvað maðurinn vissi.

En takk fyrir spjallið.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.12.2013 kl. 14:50

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Aðeins eitt til viðbótar. Mundu eftir Heklu. Ýmist er sagt að nafnið komi af snjóheklunni sem hylur fjallið eða skýjum sem á því hanga. Dálítil líkindi með þessum tveimur nöfnum. Hins vegar er ég ekki nándanærri sannfærður um Heklu, held að nafnið sé flóknara.

Ég þarf að hugsa eitthvað meira um Skúmhött ...

Mikið óskaplega er þetta annars fallegt nafn. Hef aldrei komið í Vaðlavík, hef samband við þig næsta sumar þegar ég legg leið mína þangað.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 15.12.2013 kl. 16:20

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurður.

Það hefur enginn séð Ísland, ef hann hefur ekki séð víkina mína, hvort sem það er á fallegum sumardegi, í litbrigðum haustsins, sindrandi á kyrri vetrarnóttu þegar tunglið nærir skugga, í þoku og súld, tindarnir rísa uppúr þokunni eins og virkisturnar, eða í kyrrð morgunsins þegar raddir dagsins hafa ekki vaknað af dvala næturinnar.

Eiginlega alltaf nema í mosagráma maí júní daga, þá er hún dálítið eins og nývöknuð kona sem hefur ekki náð að heilsa uppá spegil sinn.

Falleg en ekki tekið lit.

Þér er velkomið að hafa samband Sigurður, ef ég er ekki að fótboltast með strákunum mínum, þá er auðvelt fyrir mig að  finna tíma og stund.

Örnefnið Emstrur kveikti á þessum hugrenningartengslum, það er að ég fór að spá í fallegasta örnefnið í víkinni minni, á fallegasta tindinum.

Nafnið hæfir honum svo einhvern veginn að mikið betur verður ekki gert þegar örnefni er gefið.  

Hekla er líka fallegt örnefni, og hver sem skýringin er á því nafni, þá hefur það ekki verið gefið fjallinu af ástæðulausu.  

Og þeir sem skýringuna þekkja, ekki séð ástæðuna til að breyta nafninu.

Menn kalla ekki dulúðugt fjall eins og Heklu, Heklu bara vegna þess að þeim þótti nafnið fallegt.

Ef þú finnur eitthvað meir um Skúmhött, þá myndi ég glaður vilja lesa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 15.12.2013 kl. 22:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband