Hver nennir að lesa leiðinlega dagblaðsgrein?

Sara Lind

Mörgum er mikið niðri fyrir og skrifa blaðagrein og fá birta. Oft á tíðum eru þær eins og þessi hér hægra megin sem tekin er út Morgunblaðinu í dag.

Efnislega hef ég ekkert út á greinina að setja, hún er þokkalega skrifuð, að vísu óskaplega þurr og ópersónulega, raunar leiðinleg ... en hvað með það. Fólk er mismunandi. Víst að að fáir nenna að lesa leiðinlega grein og myndin af greininni ber það með sér að hún er síst af öllu áhugaverð.

Til hvers ritar fólk grein í dagblað? Jú, væntanlega til að hafa áhrif, koma af stað eða taka þátt í umræðu. Þá skipa sex atriði meginmáli:

  1. Skrifa stutta grein frekar en langa
  2. Vanda val á fyrirsögn
  3. Nota millifyrirsagnir
  4. Ekki spara greinaskil
  5. Vera umfram allt málefnalegur
  6. Upphaf greinar er mikilvægt

Höfundur greinarinnar sem er hérna hægra megin brýtur fjögur af þessum meginatriðum.

Alltof löng grein

Greinin er alltof löng 667 orð (4.454 áslættir), aðeins ein millifyrirsögn og það frekar innihaldslítil, greinaskil eru aðeins fjögur og upphafið lofar ekki góðu fyrir framhaldið. Tvennt er þó jákvætt við greinina, eftir því sem ég sé. Fyrirsögnin er góð og greinin virðist vera málefnaleg.

Að þessu sögðu má reyna að greina tilganginn með birtingunni. Er greinahöfundur starfsmaður Vinnumálastofnunar eða borgari sem vill fá umræðu um bótasvik?

Hver skrifar?

Auðvitað skiptir máli hver staða höfundarins er. Sé hann starfsmaður Vinnumálastofnunar breytist um leið viðhorf lesandans til greinarinnar. Ýmist ljær það greininni meira vægi eða dregur úr því. Veltur á því hvernig greinin er rituð, hvort hún sé hluti af kynningu stofnunarinnar eða til að vekja athyli á mikilvægu máli.

Ástæðan fyrir því að ég hef orð á þessu er fyrst og fremst sú að svona greinar eru alltof algengar í prentuðum fjölmiðlum, Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Fréttatímanum. Fyrst og fremst er um að ræða innsendar greinar en þó kemur fyrir að blaðamönnum verði hált á svellinu að þessu leyti.

Sjálfsgagnrýni eða aðfengin

Eitt skiptir miklu og það er að lesa grein vel yfir, aftur og aftur og vera óhræddur að leiðrétta og laga. Og eitt að lokum, gott er að geyma grein í nokkrar klukkustundir og lesa síðan aftur yfir. Ef það er ekki hægt þá skiptir miklu að fá einhvern til að lesa hana yfir og gagnrýna.

Reglur Jónasar 

Í lokin má benda á vefinn jonas.is en þar eru pistlar sem Jónas Kristjánsson fjölmiðlamaður hefur ritað um blaðamennsku og margt af þeim eiga þeir sem vilja skrifa góðar greinar að tileinka sér. Hann segir meðal annars:

  1. Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn.
  2. Settu sem víðast punkt og stóran staf.
  3. Strikaðu út óþörf orð, helmingaðu textann.
  4. Forðastu klisjur, þær voru sniðugar bara einu sinni.
  5. Keyrðu á sértæku sagnorði og notaðu sértækt frumlag.
  6. Notaðu stuttan, skýran og spennandi texta.
  7. Sparaðu lýsingarorð, atviksorð, þolmynd og viðtengingarhátt.
  8. Hafðu innganginn skýran og sértækan. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband